Ýmsar tölulegar upplýsingar um forsendur við skattlagningu lögaðila 2023, vegna rekstrarársins 2022. Fyrir neðan töfluna er nánar fjallað um hverjir bera skattinn og af hvaða stofni hann er reiknaður.
.Álagningarseðillinn
Álögð gjöld (þinggjöld) eru tekjuskattur, sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki, jöfnunargjald alþjónustu, útvarpsgjald, tryggingagjald og gjöld því tengd og fjársýsluskattur. Skattur á fjármagnstekjur er eingöngu lagður á lögaðila sem undanþegnir eru almennri skattlagningu, sbr. það sem nefnt er í 3. mgr. 1. kafla hér að framan um arðgreiðslur.
Til frádráttar koma:
- Fyrirframgreiðsla upp í álögð gjöld.
- Staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.
- Inneignarvextir að frádreginni staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.
- Staðgreiðsla tryggingagjalds og tengdra gjalda.
- Staðgreiðsla fjársýsluskatts.
- Rannsóknar- og þróunarkostnaður vegna nýsköpunarverkefna sem hlotið hafa staðfestingu Rannís.
Séu þessir liðir hærri en álögð gjöld kemur mismunurinn til skuldajöfnunar og/eða endurgreiðslu. Ofgreiðslu er fyrst ráðstafað upp í eldri eftirstöðvar þinggjalda, tryggingagjalds og fjársýsluskatts, síðan á móti gjöldum ársins sem gjaldfalla 1. nóvember eða fyrr og að lokum upp í aðrar gjaldfallnar skuldir.
Gjalddagar
Gjalddagar opinberra gjalda lögaðila eru 1. dagur hvers mánaðar, nema mánuðina janúar og október.
Þar til álagning liggur fyrir skal greiða á hverjum gjalddaga ákveðinn hundraðshluta skatta er greiða bar næstliðið ár (8,5%). Gjalddagar fyrirframgreiðslu á árinu 2023 eru átta. Eftirstöðvum gjalda er jafnað á tvo gjalddaga, 1. nóvember og 1. desember. Gjalddagaskipting miðast þó við að ekki sé til innheimtu lægri fjárhæð en 5.000 kr. á hverjum gjalddaga.
Staðgreiðsluskylt tryggingagjald og fjársýsluskattur er gjaldfallið fyrir 1. nóvember. Tryggingagjald og fjársýsluskattur utan staðgreiðslu, sem og útvarpsgjald, gjaldfellur 1. nóvember.
Vangreiðsla á hluta gjalda veldur því að öll gjöld á gjaldárinu falla í eindaga mánuði eftir gjalddagann, þó ekki fyrr en mánuði eftir að álagningu er lokið.
Dráttarvextir og inneignarvextir
Dráttarvextir eru reiknaðir í samræmi við ákvæði 114. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og 13. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald, sbr. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Vextir á ofgreitt tryggingagjald eða fjársýsluskatt eru reiknaðir í samræmi við 2. mgr. 114. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.
Greiðsluseðlar
Greiðsluseðlar verða sendir út vegna gjalddaga 1. nóvember og 1. desember ef fjárhæð á gjalddaga er 5.000 kr. eða hærri.
Nánari upplýsingar
Skatturinn og sýslumenn utan Reykjavíkur veita nánari upplýsingar um greiðslustöðu, útborgun inneigna og innheimtu skulda. Greiðslustöðu hjá innheimtumanni má einnig sjá á þjónustusíðu framteljanda á www.skattur.is. Skatturinn veitir nánari upplýsingar um álagningu þinggjalda og tryggingagjalds.
Leiðbeiningar þessar skapa hvorki rétt né skyldur umfram ákvæði laga.
.
Fjársýsluskattur – lög nr. 165/2011, um fjársýsluskatt
Gjald í Ábyrgðasjóð launa - 23. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa
Gjaldstofn búnaðargjalds - 11. og 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt
Jöfnunargjald alþjónustu - 22. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti
Markaðsgjald - 5. gr. laga nr. 38/2010, um Íslandsstofu
Sérstakur fjársýsluskattur – 3. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki - lög nr. 155/2010, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki
Skattskylda lögaðila - 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur - lög nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur
Tryggingagjald - lög nr. 113/1990, um tryggingagjald
Útvarpsgjald - 14. gr. laga nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu
Viðbót við sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki – ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 155/2010, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki
Búnaðargjald - lög nr. 84/1997, um búnaðargjald