Uppgjör og skil

Virðisaukaskattsskyldum aðilum er gert skylt að gera upp virðisaukaskatt eftir hvert uppgjörstímabil með greiðslu virðisaukaskatts ásamt rafrænni virðisaukaskattsskýrslu þar sem fram kemur m.a. skattskyld velta á uppgjörstímabilinu ásamt samsvarandi útskatti. Meginreglan er sú að uppgjörstímabil taki til tveggja mánaða en frá þeirri reglu eru veigamiklar undantekningar eins og gerð er grein fyrir hér á eftir.

Skila ber virðisaukaskattsskýrslu með rafrænum skilum á þjónustuvef ríkisskattstjóra í síðasta lagi á gjalddaga, en upplýsingar um gjalddaga má finna með upplýsingum um hvern og einn skilamáta hér að neðan. Gera þarf skil á virðisaukaskattsskýrslu fyrir hvert uppgjörstímabil óháð því hvort rekstur hafi verið í gangi eða legið niðri og þar með engin skattskyld velta. Að öðrum kosti má gera ráð fyrir því að velta verði áætluð og gjöld samkvæmt því. Enginn sérstakur eindagi er í virðisaukaskatti, gjalddagi og eindagi er einn og sami dagurinn.

Þjónustuvefur ríkisskattstjóra

Ríkisskattstjóri getur veitt heimild til eins árs í senn til þess að skila virðisaukaskattsskýrslu á pappír ef gildar ástæður eru fyrir hendi.

Almenn uppgjörstímabil

Almenna reglan um uppgjörstímabil virðisaukaskatts er að hvert tímabil eru tveir mánuðir, janúar og febrúar, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október, nóvember og desember. Þeim sem ekki ber að gera upp virðisaukaskatt sinn skv. reglum um lengri eða skemmri uppgjörstímabil skulu gera hann upp skv. almennu reglunni.

Gjalddagi virðisaukaskatts er einum mánuði og fimm dögum eftir lok hvers almenns uppgjörstímabils. Til dæmis er gjalddagi vegna janúar og febrúar 5. apríl. Ef gjalddaga virðisaukaskatts ber upp á helgidag eða almennan frídag færist hann á næsta virka dag þar á eftir. Dæmi: Gjalddagi vegna maí-júní 2012 var 6. ágúst þar sem 5. ágúst bar upp á sunnudag.

Ársskil

Við skráningu á virðisaukaskattsskrá er aðilum gert að skila virðisaukaskatti á almennum uppgjörstímabilum virðisaukaskatts.

Aðili, sem selur virðisaukaskattsskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 4.000.000 kr. á heilu almanaksári, getur óskað eftir því við ríkisskattstjóra að nota almanaksár sem uppgjörstímabil á næsta almanaksári. Sækja skal um breytt uppgjörstímabil til ríkisskattstjóra fyrir 15. febrúar vegna yfirstandandi almanaksárs, sem ársskilum er ætlað að ná til.

Skilyrði fyrir ársskilum virðisaukaskatts er að aðili hafi verið skráður á virðisaukaskattsskrá vegna undanfarandi almanaksárs og að virðisaukaskattsskyld velta hans hafi verið minni en 4.000.000 kr. á því ári. Aðilar sem skráðir eru á landbúnaðarskrá, umboðsmenn erlendra aðila og þeir sem skráðir eru sérstakri eða frjálsri skráningu á virðisaukaskattsskrá eiga ekki rétt á að notast við almanaksár sem uppgjörstímabil virðisaukaskatts.

Ef sala í virðisaukaskattsskyldri starfsemi hjá aðila í ársskilum nær 4.000.000 kr. innan almanaksárs ber honum að gera skil á gjalddaga þess almenna tveggja mánaða uppgjörstímabils sem veltumörkunum var náð á. Er það gert með því að skila skýrslu með rafrænum hætti á þjónustuvef Skattsins. Þaðan í frá skal aðilinn gera upp og skila virðisaukaskattsskýrslum á tveggja mánaða fresti.

Þjónustuvefur Skattsins

Gjalddagi vegna ársuppgjörs er 5. febrúar ár hvert vegna viðskipta á næstliðnu ári.

Skemmri uppgjörstímabil

Aðili getur fengið heimild ríkisskattstjóra til þess að nota hvern almanaksmánuð sem uppgjörstímabil ef útskattur er að jafnaði lægri en innskattur vegna þess að verulegur hluti sölu fyrirtækisins er undanþeginn skattskyldri veltu. Þetta á t.d. við um útflutningsfyrirtæki. Sama gildir um þá aðila sem selja vöru og þjónustu sem ber 11% virðisaukaskatt ef meiri hluti aðfanga þeirra vegna framleiðslu eða aðvinnslu ber 24% virðisaukaskatt.

Beiðni um skemmra uppgjörstímabil verður að hafa borist ríkisskattstjóra a.m.k. einum mánuði fyrir gildistöku væntanlegrar breytingar. Fái aðili heimild til að breyta uppgjörstímabili gildir breytingin í a.m.k. tvö ár.

Gjalddagi virðisaukaskatts er einum mánuði og fimm dögum eftir lok hvers uppgjörstímabils. Til dæmis er gjalddagi vegna janúar og febrúar 5. apríl. Ef gjalddaga virðisaukaskatts ber upp á helgidag eða almennan frídag færist hann á næsta virka dag þar á eftir. Dæmi: Gjalddagi vegna maí-júní 2012 var 6. ágúst þar sem 5. ágúst bar upp á sunnudag.

Sérstök mánaðarskil

Aðilar sem felldir hafa verið út af virðisaukaskattsskrá vegna áætlana samfellt í tvö uppgjörstímabil eða lengur og koma aftur inn á skrá, skulu nota hvern almanaksmánuð sem uppgjörstímabil í að minnsta kosti tvö ár frá og með því tímabili sem skráning á sér stað að nýju. Þegar aðili hefur gert fullnægjandi skil á þessu tímabili skal hann að því tímabili loknu standa skil á virðisaukaskatti samkvæmt almennu uppgjörstímabili.

Gjalddagi virðisaukaskatts er 15 dögum eftir lok hvers uppgjörstímabils. Til dæmis er gjalddagi vegna janúar 15. febrúar. Ef gjalddaga virðisaukaskatts ber upp á helgidag eða almennan frídag færist hann á næsta virka dag þar á eftir.

Tímabundið uppgjörstímabil

Sá sem hefur tímabundið með höndum virðisaukaskattsskylda starfsemi getur fengið heimild ríkisskattstjóra til að nota sérstakt uppgjörstímabil sem tekur til þess tímabils sem starfsemi varir. Þetta getur t.d. átt við um stjórnmálasamtök eða íþróttafélög sem hafa með höndum einstaka tímabundna skattskylda vörusölu í fjáröflunarskyni, s.s. með sölu úr sölutjöldum á þjóðhátíðardegi eða með sölu jólatrjáa eða flugelda. Tímabundið uppgjörstímabil getur hið skemmsta verið einn almanaksmánaðar og lengst tveir almanaksmánuðir.

Skil til bráðabirgða

Fiskvinnslufyrirtæki geta fengið heimild ríkisskattstjóra til að skila sérstakri bráðabirgðaskýrslu sem tekur til innskatts af hráefni til fiskvinnslu. Uppgjörstímabil bráðabirgðaskýrslu er ein vika (mánudagur til sunnudags).

Sláturleyfishafar geta einnig fengið heimild til að skila á ári hverju fimm sérstökum bráðabirgðaskýrslum vegna innskatts af innlögðum sauðfjárafurðum. Uppgjörstímabil þessara skýrslna skal vera eftirfarandi:

  • 1. september til og með 15. september.
  • 16. september til og með 30. september.
  • 1. október til og með 15. október.
  • 16. október til og með 31. október.
  • 1. nóvember til og með 15. nóvember.

Við reglulegt uppgjör (tveggja mánaða skil) skulu aðilar færa á virðisaukaskattsskýrslu útskatt sinn og eingöngu þann innskatt sem bráðabirgðaskýrslur taka ekki til.

Sérreglur um landbúnað

Sérstök ákvæði gilda um uppgjör bænda og annarra skattaðila sem stunda landbúnað, þ.m.t. nytjaskógrækt. Uppgjörstímabil þeirra er sex mánuðir, janúar til júní og júlí til desember.

Ríkisskattstjóri getur heimilað þeim sem stunda landbúnað auka uppgjör á virðisaukaskatti ef í ljós kemur að þeir eiga kröfu á verulegri endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna kaupa á fjárfestingar- og rekstrarvörum. Aðilar sem stunda landbúnað geta einnig fengið heimild ríkisskattstjóra til að nota almenn uppgjörstímabil.

Gjalddagi vegna landbúnaðar er tvisvar á ári, þ.e. 1. september vegna fyrri hluta árs og 1. mars vegna síðari hluta árs.

Hvað eru fullnægjandi skil?

Skil á virðisaukaskatti til ríkissjóðs eru fullnægjandi ef virðisaukaskattsskýrslu er skilað í síðasta lagi á gjalddaga og ef greitt er hjá innheimtumönnum ríkissjóðs í síðasta lagi á sama tíma.

Póstlögð greiðsla þarf einnig að hafa borist innheimtumanni í síðasta lagi á gjalddaga til að ekki reiknist álag á hana. Það er ekki nægilegt að póstleggja greiðslu á gjalddaga. Ef skýrsla er útbúin á pappír og virðisaukaskattur er greiddur í vefbanka þarf að senda skýrsluna í pósti til ríkisskattstjóra og skal hún hafa borist þangað í síðasta lagi á gjalddaga. Einungis þeir sem fengið hafa til þess heimild hjá ríkisskattstjóra geta skilað virðisaukaskattsskýrslum á pappírsformi. Skil eru ekki fullnægjandi nema allar tilskildar upplýsingar komi fram á skýrslu og hún sé undirrituð af skattaðila, ábyrgum starfsmanni hans, bókara eða endurskoðanda.

Ársuppgjör

Þeir sem stunda virðisaukaskattsskylda starfsemi á árinu skulu fylla út samanburðarskýrslu virðisaukaskatts (RSK 10.25) og senda ríkisskattstjóra með skattframtali viðkomandi árs. Ekki þarf að skila samanburðarskýrslu ef notast er við skattframtal rekstraraðila (RSK 1.04) við tekjuskattsuppgjör. Þessi undanþága er þó háð því að rekstraraðili sé aðeins með eitt virðisaukaskattsnúmer. Ef fram kemur á samanburðarskýrslu mismunur á innsendum virðisaukaskattsskýrslum annars vegar og bókhaldi og ársreikningi hins vegar, þá ber gjaldanda að fylla út leiðréttingarskýrslu (RSK 10.26) og greiða þann skatt sem kann að vera ógreiddur.

Blönduð starfsemi – sérstakt afstemmingarblað

Sérstakt eyðublað (RSK 10.27) er til nota fyrir þá sem hafa með höndum blandaða starfsemi og skipta virðisaukaskatti af innkaupum í hlutfalli við veltu. Eyðublaðið er notað til afstemmingar á innskattsfrádrætti ársins. Niðurstöðutölu eyðublaðsins (innskattur fyrir nóv.-des.) skal færa á virðisaukaskattsskýrslu og skila henni á venjulegan hátt. Afstemmingarblaðinu skal skilað til ríkisskattstjóra í síðasta lagi með skattframtali viðkomandi árs.

Álag og dráttarvextir

Ef virðisaukaskattur er ekki greiddur í síðasta lagi á gjalddaga reiknast álag og dráttarvextir á vangreiddan skatt. Álag er 1% af vangreiddri fjárhæð fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga en verður þó eigi hærra en 10%. Álag reiknast einnig ef virðisaukaskattsskýrslu hefur ekki verið skilað eða verið ábótavant og virðisaukaskattur því áætlaður. Hafi endurgreiðsla verið of há reiknast jafnframt álag á þá fjárhæð sem ofgreidd var.

Fella má niður álag ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta. Skattyfirvöld meta í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður.

Sé virðisaukaskattur ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af því sem gjaldfallið er. Sama gildir um ofgreiðslu hafi inneign verið talin of há.

Sérstakt gjald vegna síðbúinna skila á virðisaukaskattsskýrslu

Berist virðisaukaskattsskýrsla eftir að skattaðili hefur sætt áætlun skal ríkisskattstjóri leggja á hann gjald að fjárhæð 5.000 kr. fyrir hverja virðisaukaskattsskýrslu sem hefur ekki verið skilað fyrir á réttum tíma.

Fella má niður gjaldið ef skattaðili færir gildar ástæður sér til málsbótar að mati ríkisskattstjóra. Beiðni um niðurfellingu gjaldsins þarf að hafa borist ríkisskattstjóra innan 90 daga frá dagsetningu úrskurðar um niðurfellingu áætlunar.

Rafræn skil

Upplýsingar um rafræn skil 

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Almennt uppgjörstímabil – 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Almennt uppgjörstímabil – 8. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti

Álag – 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt  

Ársskil – 3. og 8. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti

Ársuppgjör – 90. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Bráðabirgðaskil, fiskvinnslufyrirtæki – reglugerð nr. 563/1989, um uppgjör, uppgjörstímabil og skil fiskvinnslufyrirtækja

Bráðabirgðaskil, sláturleyfishafar – 12. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti

Dráttarvextir – 28. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Fullnægjandi skil – 9. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti

Landbúnaður – 2., 8. og 11. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti

Sérstakt gjald vegna síðbúinna skila – 27. gr. B laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Sérstök mánaðarskil – 27. gr. A laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Skemmri uppgjörstímabil – 4. og 8. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti

Tímabundið uppgjörstímabil – 5. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti

Eyðublöð

Ársuppgjör, samanburðarskýrsla – RSK 10.25

Ársuppgjör, leiðréttingarskýrsla – RSK 10.26

Blönduð starfsemi – afstemmingarblað – RSK 10.27

Skattframtal rekstraraðila - RSK 1.04


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum