Ákvarðanir ríkisskattstjóra

Ákvörðun 2/2024 um sátt

30.4.2024

Þann 30. apríl 2024 gerðu ríkisskattstjóri og PricewaterhouseCoopers ehf., kt. 690681-0139 (hér eftir félagið), með sér samkomulag um að ljúka máli félagsins með sátt vegna brota á ákvæðum laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka (hér eftir oftast pþl.) og laga nr. 68/2023 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna (hér eftir oftast þfl.).

Sáttin er gerð á grundvelli 1. mgr. 47. gr. pþl., 1. mgr. 31. gr. þfl. og reglna ríkisskattstjóra nr. 1132/2020, um sáttagerðir samkvæmt lögum nr. 140/2018.

Samkvæmt l-lið 1. mgr. 2. gr. pþl. falla endurskoðunarfyrirtæki, endurskoðendur, skattaráðgjafar og aðilar sem færa bókhald eða sinna bókhaldsþjónustu fyrir þriðja aðila gegn endurgjaldi undir gildissvið laganna. Sem endurskoðunarfyrirtæki fellur starfsemi félagsins því öll undir gildissvið laganna. Samkvæmt 11. tölul. 1. mgr. 3. gr. þfl. er tilkynningarskyldur aðili samkvæmt lögunum skilgreindur sem aðili sem fellur undir 2. gr. pþl.

Ríkisskattstjóri hefur eftirlit með því að tilkynningarskyldir aðilar sem falla undir l–u-liði 1. mgr. 2. gr. pþl. fari að ákvæðum laganna og reglum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra, sbr. 2. mgr. 38. gr. pþl. Þá hefur ríkisskattstjóri eftirlit með því að sömu tilkynningarskyldir aðilar fari að ákvæðum 10. og 13. gr. þfl., sbr. 2. mgr. 26. gr. laganna.

Meginatriði samkomulagsins eru sem hér segir:

1. Félagið viðurkennir að hafa brotið gegn eftirfarandi ákvæðum laga nr. 140/2018 og laga nr. 68/2023:

a. Áreiðanleikakannanir á viðskiptamönnum voru ekki að öllu leyti framkvæmdar í samræmi við 10. gr. pþl., sem telst brot gegn 4. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.

b. Ekki var í öllum tilvikum gerð krafa um að viðskiptamaður sannaði á sér deili í samræmi við 1. mgr. 10. gr. pþl., sem telst brot gegn 4. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.

c. Aukin áreiðanleikakönnun var ekki framkvæmd á viðskiptamanni í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla í samræmi við 13. og 17. gr. pþl., sem telst brot gegn 7. og 11. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.

d. Afrit af gögnum og upplýsingum vegna áreiðanleikakannana voru ekki í öllum tilvikum varðveitt í samræmi við a-lið 1. mgr. 28. gr. pþl., sem telst brot gegn 16. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.

e. Ekki var staðfest í öllum tilvikum að framkvæmd hafi verið skimun á því hvort viðskiptamenn sæti alþjóðlegum þvingunaraðgerðum, sbr. 2. og 3. mgr. 13. gr. þfl., sem telst brot gegn 2. tölul. 1. mgr. 30. gr. þfl., sbr. áður 2. og 3. mgr. 7. gr. laga nr. 64/2019, sem taldist brot gegn 2. tölul. 1. mgr. 20. gr. sömu laga.

2. Með samkomulaginu fellst félagið á að greiða sekt að fjárhæð 3.000.000 kr.

3. Þá skal félagið framkvæma fullnægjandi úrbætur innan tilgreindra tímamarka í samræmi við úrbótakröfu ríkisskattstjóra í viðauka við sáttargerðina.

Málavextir, málsástæður og lagarök

Með bréfi óskaði ríkisskattstjóri eftir upplýsingum og gögnum frá félaginu á grundvelli 2. mgr. 38. gr. pþl. og 2. mgr. og 3. mgr. 26. gr. laga nr. 68/2023. Félagið varð við beiðni ríkisskattstjóra og afhenti umbeðin gögn. Í framhaldinu boðaði ríkisskattstjóri til vettvangsathugunar á starfsstöð félagsins.

Í samskiptum við félagið og við framkvæmd vettvangsathugunar kom í ljós að félagið hafði ekki í öllum tilvikum framkvæmt áreiðanleikakannanir á viðskiptamönnum með fullnægjandi hætti. Dæmi voru um að ekki hafi verið gerð krafa um að viðskiptamaður sannaði á sér deili með framvísun viðurkenndra persónuskilríkja, aukin áreiðanleikakönnun hafi ekki verið framkvæmd í tilviki þar sem viðskiptamaður er í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla og varðveisla gagna var að hluta til ábótavant og ekki í samræmi við fyrirmæli 28. gr. pþl. Þá var ekki staðfest í öllum tilvikum að framkvæmd hafi verið skimun á því hvort viðskiptamenn sæti alþjóðlegum þvingunaraðgerðum. Félagið hefur því ekki starfað að öllu leyti samkvæmt skilyrðum laga nr. 140/2018 og laga nr. 68/2023 og teljast framangreind brot varða stjórnvaldssekt samkvæmt 4., 7., 11. og 16. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl. og 2. tölul. 1. mgr. 30. gr. þfl., sbr. áður 2. tölul. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 64/2019.

Sektarfjárhæð

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. a pþl. skal, við ákvörðun um tegund og umfang viðurlaga, tekið tillit til allra atvika sem máli skipta, þ.m.t. eftir því sem við á; alvarleika brots, hvað brotið hefur staðið yfir lengi, ábyrgðar hins brotlega hjá lögaðilanum, fjárhagsstöðu hins brotlega, ávinnings af broti eða taps sem forðað er með broti, hvort brot hafi leitt til taps þriðja aðila, hvers konar mögulegra kerfislegra áhrifa brotsins, samstarfsvilja hins brotlega, fyrri brota og hvort um ítrekað brot er að ræða. Líta skal til sömu atriða við ákvörðun stjórnvaldssektar samkvæmt lögum nr. 68/2023, sbr. 2. mgr. 30. gr. þfl. og áður 2. mgr. 20. gr. laga nr. 64/2019.

Sektarfjárhæð er ákvörðuð í samræmi við reglur ríkisskattstjóra nr. 1132/2020, um sáttagerðir samkvæmt lögum nr. 140/2018. Samkvæmt reglunum er miðað við að sektarfjárhæð sé hlutfallslega lægri en sem ætla má að fjárhæð stjórnvaldssektar gæti numið að teknu tilliti til mögulegra þyngingar- og mildunarsjónarmiða auk þess sem litið er til þess á hvaða stigi meðferð máls er þegar því er lokið með sátt.

Að mati ríkisskattstjóra mátti ætla að sektarfjárhæð myndi nema u.þ.b. 6.000.000 kr. Við mat á fjárhæð sektar leit ríkisskattstjóri til fyrri framkvæmdar í viðurlagamálum embættisins, m.a. hjá aðilum á sama markaði, vegna aðgerða tilkynningarskyldra aðila gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, en við framkvæmd vettvangsathugunar varð ekki annað séð en að almenn framkvæmd áreiðanleikakannana af hálfu félagsins væri að mestu leyti í góðu horfi, þó vankantar hafi verið til staðar. Einnig var litið til samstarfsvilja sem félagið sýndi. Að lokum var litið til sterkrar fjárhagsstöðu félagsins og þess að það væri á meðal stærstu endurskoðunarfyrirtækja landsins.

Í svari félagsins óskaði félagið eftir að ljúka málinu með sátt. Með vísan til 2. mgr. 3. gr. reglna ríkisskattstjóra nr. 1132/2020 nemur fjárhæð sáttar 50% af ætlaðri sektarfjárhæð þar sem málinu telst lokið á fyrri stigum, eða alls að fjárhæð 3.000.000 kr.

Réttaráhrif og opinber birting viðurlaga

Samkomulag ríkisskattstjóra og félagsins er gert á grundvelli 47. gr. laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, 31. gr. laga nr. 68/2023 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna og reglna ríkisskattstjóra nr. 1132/2020, um sáttagerðir samkvæmt lögum nr. 140/2018.

Félagið telst uppfylla sáttina við greiðslu sektarfjárhæðar og staðfestingu á að úrbótum sé lokið.

Félagið brýtur gegn samkomulaginu ef það greiðir ekki umsamda sektarfjárhæð, lýkur ekki úrbótum í samræmi við viðauka við samkomulagið, gaf rangar upplýsingar um málsatvik eða leyndi upplýsingum sem máli skipta. Einnig geta önnur atvik leitt til þess að félagið teljist hafa brotið gegn sáttinni. Verði félagið uppvíst að því að brjóta gegn samkomulaginu getur ríkisskattstjóri fellt það úr gildi og tekið málið til meðferðar á ný.

Með vísan til 53. gr. pþl., 36. gr. þfl. og reglna ríkisskattstjóra nr. 1131/2020, um opinbera birtingu stjórnsýsluviðurlaga samkvæmt lögum nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, er meginreglan sú að birta skuli opinberlega stjórnsýsluviðurlög sem ákveðin eru í samræmi við 46.–47. og 50.–51. gr. pþl. og 30. og 31. gr. þfl. 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum