Ákvarðanir ríkisskattstjóra

Ákvörðun 2/2023 um stjórnvaldssekt

30.1.2023

Þann 27. janúar 2023 ákvað ríkisskattstjóri að leggja stjórnvaldssekt á Nótu ehf., kt. 560511-0510 (hér eftir félagið), vegna brota gegn ákvæðum laga nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka (hér eftir peningaþvættislög eða pþl.). Með ákvörðuninni er einnig felld úr gildi sáttargerð á milli ríkisskattstjóra og félagsins, sbr. ákvörðun ríkisskattstjóra nr. 2/2022, dags. 7. apríl 2022.

Með sáttargerð aðila viðurkenndi félagið að hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 140/2018 og innti af hendi sektargreiðslu að fjárhæð 750.000 kr. Samhliða sáttargerð aðila lagði ríkisskattstjóri fyrir félagið að gera nánar tilgreindar úrbætur. Ákvörðun þessi er tilkomin vegna þess að félagið hafði ekki framkvæmt áreiðanleikakannanir á viðskiptamönnum sínum með fullnægjandi hætti og taldist félagið því ekki hafa uppfyllt skilyrði úrbótakröfu ríkisskattstjóra.

Félagið telst hafa brotið gegn eftirfarandi ákvæðum laga nr. 140/2018:

  • Hafa ekki framkvæmt áreiðanleikakannanir með fullnægjandi hætti og telst það brot varða við 3., 4., 7. og 11. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.
  • Hafa ekki varðveitt gögn með fullnægjandi hætti og telst það brot varða við 16. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.

Með ákvörðun þessari hefur ríkisskattstjóri lagt á félagið stjórnvaldssekt að fjárhæð 2.000.000 kr.

Málavextir

Samkvæmt l-lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 140/2018 fellur félagið undir gildissvið laganna og telst vera tilkynningarskyldur aðili í skilningi þeirra.

Félaginu hafði verið tilkynnt að embættið hygðist leggja á félagið stjórnvaldssekt að fjárhæð 1.500.000 kr. vegna brota gegn ákvæðum laga nr. 140/2018. Í framhaldi þess var með ákvörðun ríkisskattstjóra nr. 2/2022, dags. 7. apríl 2022, gerð sáttargerð á milli ríkisskattstjóra og félagsins. Félagið viðurkenndi að hafa brotið gegn eftirfarandi ákvæðum laga nr. 140/2018 og laga nr. 64/2019 með því að:

Með sáttargerðinni samþykkti félagið að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 750.000 kr., þ.e. sem nam 50% af fyrirhugaðri sektarfjárhæð.

Samhliða sáttagerðinni lagði ríkisskattstjóri fyrir félagið úrbótakröfu á grundvelli 44. gr. pþl. Úrbótakrafan taldist vera ófrávíkjanlegur hluti af sáttargerðinni og taldist það brot gegn sáttargerð að framkvæma ekki þær úrbætur sem gengist var undir, sbr. 1. mgr. 5. gr. reglna ríkisskattstjóra nr. 1132/2020, um sáttagerðir samkvæmt lögum nr. 140/2018. Ríkisskattstjóri fór fram á að félagið fylgdi ákvæðum laga nr. 140/2018 og laga nr. 64/2019. Lagt var fyrir félagið að framkvæma áreiðanleikakönnun á núverandi og öllum nýjum viðskiptasamböndum sem falla undir gildissvið laga nr. 140/2018 með fullnægjandi hætti, afla skilríkja, kanna stjórnmálaleg tengsl og rekja eignarhald. Þá var einnig lagt fyrir félagið að útbúa og starfa í samræmi við verkferil, sbr. 1. og 3. mgr. 7. gr. laga nr. 64/2019.

Við úttekt ríkisskattstjóra á úrbótakröfu embættisins varð ljóst að félagið hafði ráðist í umfangsmiklar breytingar á verkferlum og kerfum sem halda utan um áreiðanleikakannanir viðskiptamanna. Þá var ljóst, þrátt fyrir framangreint, að innleiðingu var ekki lokið að fullu og framkvæmd áreiðanleikakannana var í öllum tilvikum ábótavant að einhverju leyti. Í úrtaki ríkisskattstjóra á áreiðanleikakönnunum félagsins kom í ljós að í engu tilviki hafði könnun á stjórnmálalegum tengslum verið staðfest og eignarhald var ekki rakið með fullnægjandi hætti í 50% tilvika. Þá lágu skilríki ekki fyrir í öllum tilvikum. Þá kom fram að félagið hygðist segja upp þremur viðskiptasamböndum, þar sem ekki lágu fyrir fullnægjandi upplýsingar, ef gögn bærust ekki fyrir lok mánaðarins. Fyrir lá að félagið hafði þegar gert sátt við ríkisskattstjóra vegna sambærilegra brota. Taldist félagið því ekki hafa fullnægt úrbótakröfu og var þ.a.l. um ítrekað brot að ræða. Samantektin var kynnt ábyrgðarmanni peningaþvættis hjá félaginu sem skrifaði undir hana.

Með bréfi embættisins var félaginu tilkynnt að ríkisskattstjóri teldi félagið ekki hafa uppfyllt úrbótakröfu embættisins, sem gerð var samhliða sáttargerð aðila í ákvörðun embættisins nr. 2/2022, dags. 7. apríl 2022. Fram kom að ljóst þætti að félagið framkvæmi ekki áreiðanleikakannanir á viðskiptamönnum sínum með fullnægjandi hætti í samræmi við ákvæði peningaþvættislaga, þá sérstaklega hvað varðar staðfestingu á eignarhaldi lögaðila, öflun viðurkenndra skilríkja og þá væri ljóst að félagið hafi enn ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt pþl. að kanna hvort viðskiptamenn félagsins hefðu stjórnmálaleg tengsl og að framkvæma aukna áreiðanleikakönnun á þeim í kjölfarið ef svo væri. Embættið hygðist því fella niður sáttargerð sem áður hafði verið gerð í máli félagsins og leggja á félagið stjórnvaldssekt að fjárhæð 2.000.000 kr.

Í andmælum félagsins við fyrirhugaða beitingu stjórnvaldssektar komu fram andmæli við því að ágallar hafi verið á framkvæmd áreiðanleikakannana af hálfu félagsins. Þar komu m.a. fram útskýringar á þeim atriðum sem ríkisskattstjóri gerði athugasemdir við í bréfi embættisins varðandi framkvæmd einstakra áreiðanleikakannana. Einnig hafnaði félagið því að um ítrekuð brot væri að ræða og fram kom að þeir viðskiptamenn sem nefndir væru í bréfi ríkisskattstjóra hafi nú allir svarað þeim spurningum sem félagið lagði fyrir þá og skilað umbeðnum gögnum. Þá er vísað til þess að athugasemdir embættisins eftir seinni vettvangskönnun lúta frekar að upplýsingum sem félagið var að bíða eftir frá viðskiptamönnum sínum, en ekki að félagið hafði ekki kallað eftir umræddum upplýsingum eftir fyrri vettvangskönnun. Félagið gerði kröfu um að fallið yrði frá fyrirhugaðri niðurfellingu sáttargerðar og fyrirhugaðri beitingu stjórnvaldssektar.

Ákvörðun ríkisskattstjóra

Við úttekt á úrbótakröfu ríkisskattstjóra kom í ljós að félagið hafði ekki fullnægt skilyrðum úrbótakröfu embættisins með því að hafa ýmist ekki framkvæmt áreiðanleikakönnun á viðskiptamönnum eða ekki framkvæmt áreiðanleikakönnun á viðskiptamönnum með fullnægjandi hætti. Töldust brot félagsins gegn peningaþvættislögum varða stjórnvaldssekt, sbr. 4., 7., 11. og 16. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.

Að mati ríkisskattstjóra þóttu framkomin andmæli félagsins ekki gefa tilefni til að falla frá fyrirhugaðri ákvörðun í heild eða að hluta. Félagið hafði ekki gert fullnægjandi úrbætur innan þess frests sem kveðið var á um í úrbótakröfu embættisins. Ætlaðar málsbætur félagsins í andmælum þess fjölluðu að mestu leyti um atriði sem áttu sér stað eftir að úttekt ríkisskattstjóra á úrbótakröfu félagsins fór fram, en ákvörðun ríkisskattstjóra væri takmörkuð við þau atriði sem ríkisskattstjóri lagði fyrir félagið að bæta úr í úrbótakröfu og fram komu við úttekt á þeirri úrbótakröfu. Það að fullnægjandi svör og gögn kunni að hafa borist félaginu frá viðskiptamönnum þess, eða gögn kunni að vera varðveitt með réttum hætti, eftir að úttekt á úrbótakröfu átti sér stað breytir því ekki að félagið hafði ekki uppfyllt skilyrði úrbótakröfu sinnar innan þess frests sem veittur var samkvæmt henni eða áður en úttekt ríkisskattstjóra fór fram.

Sektarfjárhæð og réttaráhrif

Ríkisskattstjóri getur lagt stjórnvaldssektir á eftirlitsskylda aðila sé brotið gegn þeim ákvæðum sem tilgreind eru í 1. mgr. 46. gr. pþl. Stjórnvaldssektir á hendur aðilum sem falla undir i–u-liði 1. mgr. 2. gr. pþl., geta numið frá 500.000 krónum til 500.000.000 króna, sbr. 5. mgr. 46. gr. pþl. Við ákvörðun um fjárhæð stjórnvaldssekta skal taka tillit til sjónarmiða sem fram koma í 44. gr. a pþl.

Í samræmi við 44. gr. a pþl. var við mat á fjárhæð sektar litið til málavaxta að öllu leyti, þá sérstaklega ítrekunaráhrifa brotanna frá því sem inntak úrbótakröfu ríkisskattstjóra laut að og þess að brotin höfðu staðið yfir frá gildistöku laganna.

Með ákvörðun ríkisskattstjóra er sáttargerð ríkisskattstjóra og Nótu ehf., sbr. ákvörðun embættisins nr. 2/2022, dags. 7. apríl 2022, felld úr gildi og er Nótu ehf. gert að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 2.000.000 kr.


Með vísan til 53. gr. pþl. og reglna ríkisskattstjóra nr. 1131/2020, um opinbera birtingu stjórnsýsluviðurlaga samkvæmt lögum nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, er meginreglan sú að birta skuli opinberlega stjórnsýsluviðurlög.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum