Tilkynningarskyldir aðilar sem heyra undir eftirlit ríkisskattstjóra

(myndband opnast á youtube)

Ríkisskattstjóri hefur eftirlit með aðilum sem falla undir l.-u.-liði 1. mgr. 2. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 140/2018 (hér eftir pþl.)

Þeir aðilar eru eftirfarandi:*

  • Endurskoðunarfyrirtæki, endurskoðendur, skattaráðgjafar og aðilar sem færa bókhald eða sinna bókhaldsþjónustu fyrir þriðja aðila gegn endurgjaldi.

  • Lögmannsstofur, lögmenn og aðrir sérfræðingar í eftirfarandi tilvikum:

  1. þegar þeir sjá um eða koma fram fyrir hönd umbjóðanda síns í hvers kyns fjármála- eða fasteignaviðskiptum,

  2. þegar þeir aðstoða við skipulagningu eða framkvæmd viðskipta fyrir umbjóðanda sinn hvað varðar kaup og sölu fasteigna eða fyrirtækja,

  3. þegar þeir sjá um umsýslu peninga, verðbréfa eða annarra eigna umbjóðanda síns,

  4. þegar þeir opna eða hafa umsjón með banka-, spari- eða verðbréfareikningum,

  5. þegar þeir koma að öflun, skipulagningu eða umsjón með framlögum til að stofna, reka eða stýra fyrirtækjum,

  6. þegar þeir aðstoða við stofnun, rekstur eða stjórnun fyrirtækja, fjárvörslusjóða eða annarra sambærilegra aðila.

  • Fasteignasölur, bifreiðaumboð, fasteigna-, fyrirtækja-, skipa- og bifreiðasalar og fasteignafélög, hvort sem starfsemi snýst um beina leigu eða sölu þessara félaga á fasteignum.
  • Leigumiðlarar þegar mánaðarlegar leigugreiðslur nema 10.000 evrum eða meira.*
  • Listmunasalar eða listmunamiðlarar, þar á meðal listmunagallerí og uppboðshús, þegar um er að ræða viðskipti að fjárhæð 10.000 evrur eða meira.*
  • Skartgripa- og gullsalar, þegar um er að ræða viðskipti í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira. *
  • Aðilar á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu.**
  • Aðilar sem í atvinnuskyni eiga viðskipti sem greitt er fyrir með reiðufé að fjárhæð 10.000 evrur eða meira.*
  • Aðilar sem hafa hlotið starfsleyfi á grundvelli laga um happdrætti eða til reksturs fjársafnana og happdrætta á grundvelli sérlaga.
  • Aðilar sem geyma eða eiga viðskipti með listmuni, sem eru geymdir á geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur skv. 1. Mgr. 69. Gr. tollalaga nr. 88/2005, þegar um er að ræða viðskipti í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira. 

*Miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
**Aðilar sem eru á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu veita eftirfarandi þjónustu gegn gjaldi.

  1. aðstoðar við stofnun fyrirtækja eða annarra lögaðila,
  2. gegnir eða útvegar annan aðila til að gegna stöðu forstjóra eða framkvæmdastjóra fyrirtækis, stöðu meðeiganda í félagi eða sambærilegri stöðu hjá annarri tegund lögaðila,
  3. útvegar lögheimili eða annað skráð heimilisfang sem á svipaðan hátt er notað til að hafa samband við fyrirtækið eða aðra tengda þjónustu,
  4. starfar sem eða útvegar annan einstakling til að starfa sem fjárvörsluaðili sjóðs eða annars sambærilegs aðila,
  5. starfar sem eða fær annan einstakling til að starfa sem tilnefndur hluthafi fyrir annan aðila en fyrirtæki sem skráð er á skipulegum markaði.

Tilkynningarskyldum aðilum samkvæmt a–m-lið 1. mgr. 2. gr. pþl. er óheimilt að taka þátt í eða stuðla að viðskiptum sem ætlað er að dylja raunverulegt eignarhald lögaðila. Með raunverulegu eignarhaldi er vísað til skilgreiningar 13. tölul. 1. mgr. 3. gr. pþl. Undir l- og m-liði falla eftirfarandi aðilar:

  • Endurskoðunarfyrirtæki, endurskoðendur, skattaráðgjafar og aðilar sem færa bókhald eða sinna bókhaldsþjónustu fyrir þriðja aðila gegn endurgjaldi.
  • Lögmannsstofur, lögmenn og aðrir sérfræðingar í áðurnefndum tilvikum.

Skyldur tilkynningarskyldra aðila

Áhættumat

Samkvæmt 4. gr. pþl. annast ríkislögreglustjóri gerð áhættumats stjórnvalda á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. 

Áhættumat ríkislögreglustjóra frá árinu 2023

Uppfært áhættumat 2025 (viðbót við áhættumat 2023)

Áhættumat ríkislögreglustjóra á fjármögnun gereyðingarvopna 2025

Tilkynningarskyldir skulu aðilar framkvæma áhættumat, annars vegar á starfsemi sinni og hins vegar á samningssamböndum og einstökum viðskiptum, út frá helstu veikleikum og ógnum sem að starfsemi þeirra beinast. Dómsmálaráðherra hefur sett reglugerð um framkvæmd áhættumats.

Áhættumat á starfsemi

Áhættumat á starfsemi felur í sér að bera kennsl á og meta hættu á peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka og fjármögnun gereyðingarvopna, í starfsemi aðila út frá helstu veikleikum og ógnum sem að starfseminni beinast. Matið skal innihalda skriflega heildstæða greiningu og skal m.a. taka mið af áhættuþáttum sem tengjast viðskiptamönnum, viðskiptalöndum eða svæðum, vörum, þjónustu, viðskiptum, tækni og dreifileiðum. Við gerð áhættumats ber tilkynningarskyldum aðilum að hafa áhættumat ríkislögreglustjóra til hliðsjónar. Þá skal áhættumat tilkynningarskyldra aðila skal taka mið af stærð, eðli og umfangi starfsemi þeirra og margbreytileika starfseminnar. Í matinu skal m.a. fjallað um:

  1. eðlislæga áhættu, áhættuflokkun einstakra áhættuþátta og forsendur þeirrar niðurstöðu,
  2. gæði stýringa og annara aðferða til að draga úr áhættu,
  3. eftirstæða áhættu og áhættuflokkun einstakra áhættuþátta.

Áhættumatið skal uppfært eftir því sem tilefni er til, svo sem við uppfærslu áhættumats ríkislögreglustjóra eða ef fyrir liggja upplýsingar um breytingar á þekktri áhættu og áhættuþáttum. Þá skal skjalfesta þá aðferðafræði sem notuð er við gerð áhættumats.

Áhættumat á samningssamböndum og einstökum viðskiptum

Áhættumat þetta byggir á áhættumati á starfsemi og skal notað til að ákveða tegund og umfang áreiðanleikakönnunar, m.a. til að meta hvort beita eigi aukinni áreiðanleikakönnun. Þá er það einnig grundvöllur ákvörðunar um með hvaða hætti eftirliti með samningssamböndum og einstökum viðskiptum skuli háttað.

Við mat á því hvernig samningssambönd og einstök viðskipti skulu áhættuflokkuð skal horft til allra viðeigandi áhættuþátta sem geta, einir sér eða samanlagt, aukið eða dregið úr áhættu vegna peningaþvættis, fjármögnunar hryðjuverka og fjármögnunar gereyðingarvopna. Horfa skal til þeirrar heildaráhættu sem tengist samningssambandi og einstökum viðskiptum, m.a. til:

  1. starfsemi, orðspors og stjórnmálalegra tengsla viðskiptamanns og raunverulegs eiganda,
  2. ríkja eða ríkjasvæða sem tengjast viðskiptasambandinu,
  3. áhættuþátta sem tengjast þeirri vöru, þjónustu eða færslum sem sóst er eftir,
  4. dreifileiða sem notaðar eru,
  5. þess hvort viðskiptamaður noti milligönguaðila til að koma fram fyrir sína hönd,
  6. þess hvort viðskiptamaður sé lögaðili með flókið eignarhald eða stjórnskipulag,
  7. þess hvort viðskiptamaður sé fjárvörslusjóður eða sambærilegur aðili, og
  8. þess hvort viðskiptamaður stundi aðallega reiðufjárviðskipti.

Þá skal tryggt að áhættumat á samningssamböndum endurspegli fyrirliggjandi áhættu á hverjum tíma og sé í samræmi við þau viðskipti sem viðskiptamaður stundar. Að lokum skal einnig skjalfesta þá aðferðafræði sem notuð er við gerð þessa áhættumats.

Stefna, stýringar og verkferlar

Í samræmi við stærð, eðli, umfang og margbreytileika starfsemi skulu tilkynningarskyldir hafa skjalfesta stefnu, stýringar og verkferla til að draga úr og stýra áhættu sem stafar af peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka og fjármögnun gereyðingarvopna. Stefna, stýringar og verkferlar skulu byggja á áhættumati ríkislögreglustjóra og eigin áhættumati aðila. Stefna skal samþykkt af stjórn og stýringar og verkferlar skulu samþykkt af yfirstjórn. Yfirstjórn skal hafa eftirlit með framkvæmd stefnu, stýringa og verkferla og gefa fyrirmæli um auknar ráðstafanir þar sem við á.

Tilkynningarskylda

Tilkynningarskyldum aðilum, þ.e. ábyrgðarmanni eða eftir atvikum regluverði, er skylt að tilkynna skrifstofu fjármálagreininga lögreglu (SFL) tímanlega um grunsamleg viðskipti og fjármuni sem grunur leikur á að rekja megi til refsiverðrar háttsemi. Tilkynningarskyldum aðilum er enn fremur skylt að gera skriflegar skýrslur um öll grunsamleg og óvenjuleg viðskipti sem eiga sér stað í starfsemi þeirra. Skylt er að varðveita slík gögn.

SFL tekur á móti tilkynningum um viðskipti þar sem grunur leikur á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka, aflar viðbótarupplýsinga og miðlar þeim til hlutaðeigandi yfirvalda til frekari meðferðar.

Frekari upplýsingar um tilkynningarskyldu samkvæmt lögunum, ásamt dæmum um grunsamleg og óvenjuleg viðskipti má finna á heimasíðu SFL:
Lesa nánar

SFL notast við kerfi sem heitir goAML til að taka á móti tilkynningum. Frekari upplýsingar um notkun á kerfinu og tilkynningar þar innan má finna á heimasíðu SFL:
Lesa nánar

Hér að neðan má finna sameiginlegan fræðslufyrirlestur Skattsins og SFL þar sem nánar er fjallað um tilkynningarskyldu.


(Myndband opnast á youtube)

Hættumerki

Ýmsar aðferðir og hættumerki (e. red flags) eru þekkt við að þvætta fé, m.a. út frá dómaframkvæmd, fræðiritum og leiðbeiningum ESB og FATF. Jafnframt hefur það sýnt sig að ýmsir veikleikar geta verið í starfsemi tilkynningarskyldra aðila hvað viðkemur hættu á að starfsemin sé notuð við að þvætta fé. Líkt og áður var nefnt er tilkynningarskyldum aðilum skylt að tilkynna öll grunsamleg viðskipti til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, að eigin frumkvæði, og veita henni allar nauðsynlegar upplýsingar við greiningu tilkynninga. Með hugtakinu grunur er vísað til lægsta stigs gruns, þ.e. að sérhver grunur, óháð því hve mikill hann er, uppfyllir skilyrði greinarinnar um grun. Með grun er því að þessu leyti ekki gerð jafn ítarleg og afdráttarlaus krafa og almennt gildir í réttarfari um rökstuddan grun. Væri í þessu sambandi nægjanlegt að grunur kviknaði um að fjármuni kunni að mega rekja til refsiverðrar háttsemi hvort sem sá grunur reynist síðar meir hafa verið reistur á fullnægjandi rökum eður ei.

Eftirfarandi eru dæmi um hættumerki er tengjast peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Það skal athugast að þessi listi er einungis til viðmiðunar og alls ekki tæmandi. Þrátt fyrir að eitthvað af eftirfarandi hættumerkjum eigi við getur það átt sér eðlilegar skýringar. Tilkynningarskyldir aðilar skulu því meta áhættu með heildrænum hætti þar sem eitt hættumerki á ekki sjálfkrafa að færa viðskiptavin upp eða niður um áhættuflokk.

Dæmi um hættumerki tengd peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

  1. Viðskipti eða röð viðskipta sem virðast tengjast, þegar viðskipti í reiðufé nema hærri fjárhæð en 10.000 evrum, eða jafngildi hennar í annarri mynt.
  2. Grunur um að verið sé að reyna að fela raunverulegt eignarhald, þ.e. ekki hafi verið veittar upplýsingar um að raunverulegur eigandi sé annar en lagalegur eigandi, t.d. ef sá sem kemur fram sem eigandi í viðskiptum virðist ekki vera sá sem tekur raunverulega ákvarðanir.
  3. Tilgangur viðskipta er ekki augljós, þ.e. þegar efnahagslegan tilgang þeirra má ekki leiða beint af þeim gögnum og upplýsingum sem liggja fyrir.
  4. Viðskipti sem ekki ná fram að ganga vegna þess að tilvonandi viðskiptamaður dregur sig í hlé eða hættir við viðskipti þegar tilkynningarskyldur aðili óskar eftir upplýsingum eða gögnum um þætti sem falla undir pþl., s.s. viðurkennd persónuskilríki, tilgang viðskipta og uppruni fjármuna.
  5. Um er að ræða óvenjulega umfangsmikil eða flókin viðskipti.
  6. Viðskiptin eru óvenjuleg miðað við fyrri viðskipti hlutaðeigandi aðila.
  7. Viðskipti hafa að öðru leyti á sér óvenjulegan blæ.
  8. Um er að ræða viðskipti sem varða aðila með tengsl við áhættusöm eða ósamvinnuþýð ríki.
  9. Viðskiptamaður er einstaklingur í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla.
  10. Viðskipti þar sem hvatt er til eða þar sem óskað er nafnleyndar.
  11. Viðskiptamaður notar millilið án þess að tilgangur þess sé ljós.
  12. Viðskiptamaður forðast persónuleg tengsl við tilkynningarskylda aðila án ástæðu.
  13. Viðskiptamaður reynir að koma sér hjá því að veita tilkynningarskyldum aðilum umbeðnar upplýsingar og gögn.
  14. Viðskiptamaður hefur hlotið dóm eða er með þekkt tengsl við brotastarfsemi.
  15. Viðskiptamaður er náinn aðstandandi aðila sem er með tengsl við brotastarfsemi.
  16. Umfjöllun í fjölmiðlum sem bendir til tengsla aðila við brotastarfsemi.
  17. Þekkir skilyrði pþl. „óvenju vel“.
  18. Viðskipti eru óvenjuleg miðað við aldur eða stöðu hlutaðeigandi aðila.
  19. Greiðsla kemur frá ríki sem hefur ekki skýr tengsl við viðskiptamann eða viðskiptamaður notast við erlenda bankareikninga án skýrrar ástæðu.
  20. Greiðsla kemur frá ríki sem talið er áhættusamt eða ósamvinnuþýtt.
  21. Fjöldi greiðslna fer fram á óvenjulega stuttu tímabili án ástæðu.
  22. Ósk um breytingu á greiðslufyrirkomulagi eða notkun óhefðbundins greiðslufyrirkomulags án nægjanlegrar ástæðu.
  23. Lögaðili eignast auknar eignir sem telst óvenjulegt miðað við aðra sambærilega aðila.
  24. Aðili hefur skipt um lögfræðiaðstoð oft á stuttum tíma án ástæðu.
  25. Aðila hefur verið neitað um aðstoð sérfræðings eða viðskiptum við hann var hætt.
  26. Viðskipti eiga sér stað án þess að viðskiptavinur skoðar hinn keypta hlut eða sýnir honum áhuga.
  27. Viðskiptamaður hefur ekki áhyggjur af því að borga „yfirverð“ fyrir hinn keypta hlut.
  28. Viðskiptamanni er í mun að flýta viðskiptum án ástæðu.
  29. Of há greiðsla er greidd inn á viðskiptamannareikning og óskað eftir endurgreiðslu inn á annan reikning.

Ábyrgðarmaður og þjálfun starfsmanna

Stjórn tilkynningarskylds aðila er skylt að tilnefna einn úr hópi stjórnenda sem sérstakan ábyrgðarmann og í ákveðnum tilvikum skal einnig tilnefna regluvörð. Ábyrgðarmaður skal annast innleiðingu stefnu, stýringa og verkferla og hann annast að jafnaði tilkynningar til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu um grunsamleg viðskipti og fjármuni sem grunur leikur á að rekja megi til refsiverðrar háttsemi. Ábyrgðarmaður skal njóta sjálfstæði í störfum sínum, geta gert ráðstafanir til að tryggja fylgni við stefnu, stýringar og verkferla, auk þess sem hann skal hafa skilyrðislausan aðgang að áreiðanleikakönnun viðskiptamanna, upplýsingum um viðskipti eða beiðnum um viðskipti ásamt öllum þeim gögnum sem skipt geta máli vegna tilkynninga. Tilkynna skal skrifstofu fjármálagreininga lögreglu og viðeigandi eftirlitsaðila (ríkisskattstjóri og Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands) um tilnefningu ábyrgðarmanns og regluvarðar.

Tilkynningarskyldum aðilum ber að sjá til þess að starfsfólk hljóti sérstaka þjálfun í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þjálfun starfsfólks skal innihalda leiðbeiningar um hvernig áreiðanleikakönnun skal framkvæmd, tilkynningarskyldu til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu og að starfsfólk sé vel upplýst um hvað felst í og hverjar birtingarmyndir peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka eru. Fræðsla þessi skal fara fram við upphaf starfs og síðan með reglubundnum hætti á starfstíma. Fræðslan skal taka mið af stærð, eðli og umfangi starfsemi hins tilkynningarskylda aðila.

Tilkynningarskyldum aðilum ber að setja sér reglur um athugun á bakgrunni umsóknaraðila um ný störf. Þá skulu tilkynningarskyldir aðilar setja sér reglur um í hvaða tilvikum skuli krafist sakavottorðs og staðfestingu á ferli og fyrri störfum umsækjenda.

Skráningarskylda

Eftirtaldir aðilar eru skráningarskyldir hjá ríkisskattstjóra:

  1. Aðilar á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu
  2. Aðilar sem færa bókhald eða sinna bókhaldsþjónustu fyrir þriðja aðila
  3. Skattaráðgjafar
  4. Aðilar sem selja eðalmálma og –steina

  1. Listmunasalar og –miðlarar, þar á meðal listmunagallerí og uppboðshús

Skráning fer fram á þjónustuvef Skattsins þar sem þarf að tilgreina tegund starfsemi hans, ásamt upplýsingum um ábyrgðarmann. 

Opna skráningu

Traustir stjórnarhættir

  • Stjórnendur setja tóninn: Stjórn og framkvæmdastjórn tekur ábyrgð á skuldbindingum félags hvað varðar aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Æðstu stjórnendur hafa yfirsýn og taka þátt í mótun og fylgni við stefnu, stýringar og verkferla og leggja áherslu á að starfsemi félagsins sé í samræmi við lög
  • Fylgni við reglur er forgangsatriði og hluti af stefnumótun en ekki verkefni til að „haka í box“ eða sætir afgangi
  • Sjálfstæð og skilvirk regluvarsla og innri endurskoðun
  • Skilvirkt ferli fyrir tilkynningar
  • Áhættumat styður við ákvarðanatöku um viðskiptamenn, vörur og þjónustu
  • Áhættumiðuð nálgun er notuð í reynd, en ekki bara „á blaði“
  • Stefnur og vinnustaðamenning gefa til kynna að aðili hafi ekkert umburðarlyndi gagnvart fjármálaglæpum eða annarri ólögmætri háttsemi
  • Skjalfesting á allri stefnumótun, fundargerðum og ákvarðanatöku hvað varðar aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

  • Umfram hið formlega skipulag er mælst til þess að ræktuð sé menning þar sem venjan er að reglum sé fylgt, hegðun sé siðferðileg og gagnsæi og ábyrgð séu viðtekin venja

Öflug áhættuvitund

  • Skýr ábyrgð og verkaskipting vegna áhættu tengdri peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, allt frá stjórn til starfsfólks í framlínu
  • Áhættumiðuð nálgun er innleidd og starfsfólk skilji hvernig áhættumat hefur áhrif á áreiðanleikakannanir, tilkynningar og viðvarandi viðskiptasambönd
  • Öflug fræðsla og fullnægjandi leiðbeiningar til alls starfsfólks, m.a. hvað varðar sértæk atriði og sértæka áhættu vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka sem eiga við starfsgrein viðkomandi aðila

  • Öflug áhættuvitund er tengd við stefnumótun, m.a. þegar farið er á nýja markaði, boðið upp á nýja vöru eða þjónustu eða breytingar verða á því hvernig viðskipta er aflað

Árangursrík framkvæmd

  • Öflugir og skýrir verkferlar til að draga úr áhættuþáttum
  • Ferlar eru skýrir og eiga við um dagleg störf ásamt því að fela í sér skýra ábyrgðarskiptingu
  • Reglubundnar athuganir ábyrgðarmanns/stjórnenda á því að framkvæmd sé í samræmi við stefnu og verkferla félagsins
  • Viðvarandi áhættumiðað eftirlit til samræmis við þá áhættu sem viðskiptavinur hefur í för með sér
  • Tilkynnt er tímanlega til ábyrgðarmanns um alla grunsamlega hegðun og haldið utan um gögn vegna tilkynninga til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu

  • Áhersla er lögð á skjölun upplýsinga og vistun gagna 

Leiðbeiningar til tilkynningarskyldra aðila

Fræðsla um rauð flögg fyrir fasteignasala

Váþættir í starfsemi endurskoðenda

Váþættir í starfsemi fasteignasala

Váþættir í starfsemi lögmanna

Váþættir í starfsemi þar sem mikið er um reiðufjárnotkun

Váþættir varðandi veðmál og spilakassa

Váþættir varðandi bílaumboð og bílasala

Váþættir varðandi skartgripa- og gullsala

Fræðsluefni frá stýrihópi um varnir gegn peningaþvætti o.fl.

Almannaheillafélög - góðir starfshætti

Áhættumat

Áreiðanleikakönnun  

Áhættusöm ríki  

Ábyrgðarmaður  

Þjálfun starfsmanna  

Alþjóðlegar þvingunaraðgerðir

Ítarefni

Skammstafanir

Lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 140/2018 (pþl.)
Financial action task force (FATF)
Tilkynningarskyldir aðilar (TA)
Skrifstofa fjármálagreiningar lögreglu (SFL)
Ríkisskattstjóri (RSK)
Fjármálaeftirlitið (FME)
Ríkislögreglustjóri (RLS)

Fræðsluefni fyrir tilkynningarskylda aðila

l. liður 1. mgr. 2. gr. pþl. Endurskoðendur, skattaráðgjafar og aðilar sem færa bókhald eða sinna bókhaldsþjónustu.

m. liður 1. mgr. 2. gr. pþl. Lögmenn, í vissum tilvikum. http://www.fatf-gafi.org/media/fatf/documents/reports/ML%20and%20TF%20vulnerabilities%20legal%20professionals.pdf

https://www.fatf-gafi.org/content/fatf-gafi/en/publications/Fatfrecommendations/Rba-legal-professionals.html

https://www.lawsociety.org.uk/support-services/documents/iba-aml-typologies-report/

https://www.anti-moneylaundering.org

n. og o. liðir 1. mgr. 2. gr. pþl. Fasteigna- fyrirtækja- og skipasalar og jafnframt leigumiðlarar

http://www.fatf-gafi.org/media/fatf/documents/reports/ML%20and%20TF%20through%20the%20Real%20Estate%20Sector.pdf

p. liður 1. mgr. 2. gr. pþl. Listmunasalar, listmunamiðlarar, gallerí og uppboðshús

q. liður 1. mgr. 2. gr. pþl. Aðilar á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu

r. liður 1. mgr. 2. gr. pþl. Einstaklingar og lögaðilar sem í atvinnuskyni eiga viðskipti í reiðufé yfir 10.000 evrur.

Eðalmálmar: https://www.fatf-gafi.org/content/fatf-gafi/en/publications/Methodsandtrends/Ml-tf-risks-and-vulnerabilities-gold.html

Eðalsteinar: http://www.fatf-gafi.org/media/fatf/documents/reports/ML-TF-through-trade-in-diamonds.pdf

s. liður 1. mgr. 2. gr. pþl. Happdrætti og fjársafnanir

https://www.fatf-gafi.org/content/fatf-gafi/en/publications/Methodsandtrends/Vulnerabilitiesofcasinosandgamingsector.html

Fyrirlestur starfsmanna RSK um peningaþvætti 28. maí 2019 (Opnast á youtube.com

Almennt efni um peningaþvætti

Lög 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Tilmæli FATF - International standards on combating money laundering and the financing of terrorism & proliferation

Skýrsla FATF - Money laundering/terrorist financing risks and vulnerabilities associated with gold


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum