2011

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 382/2011

23.11.2011

Úrskurður nr. 382/2011

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2011, miðvikudaginn 23. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 328/2010; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Sverrir Örn Björnsson og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 18. nóvember 2010, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2005, 2006, 2007 og 2008.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum. Skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum. Vanframtalin skattskyld velta og útskattur. Mögulegur innskattur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi sinnar, sem fólst í vörubílaakstri og þjónustu því tengdu, til skattstjórans í Norðurlandsumdæmi vestra vegna uppgjörstímabilanna mars–apríl til og með júlí–ágúst rekstrarárið 2005, maí–júní til og með nóvember–desember rekstrarárið 2006, janúar–febrúar til og með nóvember–desember rekstrarárið 2007 og janúar–febrúar til og með nóvember–desember rekstrarárið 2008. Þá stóð A skattstjóranum í Norðurlandsumdæmi vestra, skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna janúar–febrúar og nóvember–desember rekstrarárið 2005 og mars–apríl rekstrarárið 2006. Með framangreindri háttsemi sinni offramtaldi A skattskylda veltu og útskatt vegna uppgjörstímabilsins janúar–febrúar rekstrarárið 2005 og vanframtaldi skattskylda veltu og útskatt vegna uppgjörstímabilanna mars–apríl, maí–júní, júlí–ágúst og nóvember–desember rekstrarárið 2005, mars–apríl til og með nóvember–desember rekstrarárið 2006, janúar–febrúar til og með nóvember–desember rekstrarárið 2007 og janúar–febrúar til og með nóvember–desember rekstrarárið 2008. Samkvæmt niðurstöðu skattrannsóknarstjóra ríkisins nemur vanframtalin skattskyld velta vegna framangreindra uppgjörstímabila samtals kr. 16.641.853 og vanframtalinn útskattur samtals kr. 4.077.256. Mögulegur innskattur nemur samtals kr. 989.826. Sundurliðast vanframtalin skattskyld velta og virðisaukaskattur svo sem hér greinir:

Rekstrarár Uppgjörs-tímabil

Offramtalin/

vanframtalin skattskyld velta

Offramtalinn / vanframtalinn útskattur

Mögulegur

innskattur

2005 jan. – feb. -63.107 -15.461 31.790
2005 mar. – apr. 221.652 54.305 35.448
2005 maí – jún. 1.377.095 337.389 35.207
2005 júl. – ágú. 1.030.150 252.388 44.467
2005 nóv. – des. 8.686 2.130 37.184
Samtals kr.   2.574.476 630.751 184.096
2006 mar. – apr. 57 14 32.891
2006 maí – jún. 597.720 146.441 47.636
2006 júl. – ágú. 1.565.698 383.596 50.296
2006 sept. – okt. 1.031.220 252.649 57.487
2006 nóv. – des. 442.247 108.350 53.314
Samtals kr.   3.636.942 891.050 241.624
2007 jan. – feb. 351.390 86.090 78.837
2007 mar. – apr. 136.453 33.431 58.679
2007 maí – jún. 1.089.854 267.015 67.652
2007 júl. – ágú. 917.660 224.826 67.642
2007 sept. – okt. 963.560 236.072 44.917
2007 nóv. – des. 245.843 60.231 49.406
Samtals kr.   3.704.760 907.665 367.133
2008 jan. – feb 934.282 228.898 26.048
2008 mar. – apr. 1.365.974 334.664 37.706
2008 maí – jún. 924.287 226.450 35.983
2008 júl. – ágú. 1.205.573 295.365 34.784
2008 sept. – okt. 690.424 169.153 34.985
2008 nóv. – des. 1.605.135 393.260 27.467
Samtals kr.   6.725.675 1.647.790 196.973
 Samtals öll árin kr. 16.641.853 4.077.256 989.826  

Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. 

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Við endurákvörðun á virðisaukaskatti vegna umræddra uppgjörstímabila rekstrarárin 2005, 2006, 2007 og 2008 hefur A verið gert að sæta álagi á vangreiddan virðisaukaskatt á grundvelli 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals kr. 101.629.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 18. nóvember 2010, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 30. desember 2010, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 18. nóvember 2010, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Til grundvallar sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er rannsókn embættisins á bókhaldi og skattskilum gjaldanda vegna rekstraráranna 2005, 2006, 2007 og 2008, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 4. nóvember 2009, þar sem fram kom að á rannsóknartímabilinu hefði sjálfstæð starfsemi gjaldanda falist í vörubílaakstri og þjónustu því tengdu. Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hófst formlega hinn 28. apríl 2009 og beindist að bókhaldi og virðisaukaskattsskilum gjaldanda. Var rannsóknin einkum byggð á upplýsingum sem fram komu við skýrslutökur af gjaldanda 25. júní 2009, 14. ágúst 2009 og 30. október 2009 og skýrslutöku af B, bókara, 13. ágúst 2009, á virðisaukaskattsskýrslum og leiðréttingarskýrslum virðisaukaskatts, bókhaldsgögnum gjaldanda og upplýsingakerfum ríkisskattstjóra. Með bréfi, dags. 18. september 2009, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, dags. 15. september 2009, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar. Með svarbréfi tilnefnds verjanda gjaldanda, dags. 15. október 2009, fylgdu bókhalds- og skattgögn gjaldanda vegna rekstrarársins 2006 og var óskað eftir því í bréfinu að tekið yrði tillit til þeirra. Í endanlegri skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins var fjallað um framkomnar athugasemdir og gerð grein fyrir breytingum á skýrslunni með tilliti til þeirra, sbr. kafla um lok rannsóknar, en að öðru leyti var skýrslan efnislega samhljóða hinni fyrri.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 4. nóvember 2009, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og virðisaukaskattsskilum skattaðila fyrir rekstrarárin 2005, 2006, 2007 og 2008 eru:

·1   Staðin hafa verið skil á virðisaukaskattsskýrslum fyrir uppgjörstímabilin janúar-febrúar, september-október og nóvember-desember rekstrarárið 2005 og janúar-febrúar og mars-apríl rekstrarárið 2006.

·2   Ekki hafa verið staðin skil á virðisaukaskattsskýrslum fyrir uppgjörstímabilin mars-apríl til og með júlí-ágúst rekstrarárið 2005, maí-júní til og með nóvember-desember rekstrarárið 2006 og öllum virðisaukaskattsskýrslum fyrir uppgjörstímabilin á rekstrarárunum 2007 og 2008.

·3   Leiðréttingarskýrsla virðisaukaskatts fyrir rekstrarárið 2005 var á meðal bókhaldsgagna skattaðila en var ekki skilað til skattyfirvalda.

·4   Staðin hafa verið skil á leiðréttingarskýrslum virðisaukaskatts fyrir rekstrarárin 2006, 2007 og 2008 eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra hófst.

·5   Bókhald fyrir rekstrarárin 2005, 2006, 2007 og 2008 hefur verið afhent.

·6   Bókhald skattaðila er fært rekstrarárin 2005, 2007 og 2008.

·7   Bókhald skattaðila fyrir rekstrarárið 2006 var fært eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra hófst.

·8   Skattskyld velta er vantalin.

·9   Útskattur er vantalinn.

·10 Innskattur er vantalinn vegna allra uppgjörstímabila rekstraráranna 2005, 2006, 2007 og 2008.“

Þá gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins tölulega grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflu í niðurlagi skýrslu sinnar. Þar kom fram að skattskyld velta gjaldanda væri vantalin um 2.574.478 kr. rekstrarárið 2005, 3.636.939 kr. rekstrarárið 2006, 3.704.760 kr. rekstrarárið 2007 og 6.725.675 kr. rekstrarárið 2008, eða samtals 16.641.852 kr. öll árin, en vantalinn útskattur næmi 630.750 kr. rekstrarárið 2005, 891.050 kr. rekstrarárið 2006, 907.665 kr. rekstrarárið 2007 og 1.647.790 kr. rekstrarárið 2008, eða samtals 4.077.255 kr. Þá væri innskattur vantalinn um 223.919 kr. rekstrarárið 2005, 274.295 kr. rekstrarárið 2006, 367.133 kr. rekstrarárið 2007 og 196.973 kr. rekstrarárið 2008, eða samtals 1.062.320 kr. öll árin.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 5. nóvember 2009. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af bréfi til gjaldanda, dags. 8. desember 2009, sem gjaldandi svaraði ekki, endurákvarðaði ríkisskattstjóri með úrskurði, dags. 30. desember 2009, virðisaukaskatt gjaldanda árin 2005, 2006, 2007 og 2008. Samkvæmt úrskurðinum var skattskyld velta ákvörðuð 4.851.285 kr. rekstrarárið 2005, 4.796.669 kr. rekstrarárið 2006, 3.704.760 kr. rekstrarárið 2007 og 6.725.675 kr. rekstrarárið 2008, og kom fram að það væri niðurstaða ríkisskattstjóra að vantalin skattskyld velta, útskattur og innskattur væri sá sem tilgreindur væri í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Að teknu tilliti til innskatts, sem ríkisskattstjóri ákvarðaði 223.919 kr. árið 2005, 274.295 kr. árið 2006, 367.133 kr. árið 2007 og 196.973 kr. árið 2008, varð virðisaukaskattur til greiðslu 964.650 kr. árið 2005, 900.888 kr. árið 2006, 540.532 kr. árið 2007 og 1.450.817 kr. árið 2008 auk álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Gjaldandi nýtti sér ekki heimilaðar málskotsleiðir vegna þessa úrskurðar ríkisskattstjóra.

3. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 4. nóvember 2009, að gjaldandi hafi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum fyrir uppgjörstímabilin janúar-febrúar, september-október og nóvember-desember rekstrarárið 2005 og janúar-febrúar og mars-apríl rekstrarárið 2006. Við skýrslutöku 25. júní 2009 voru virðisaukaskattsskýrslur vegna ársins 2005 lagðar fyrir gjaldanda og staðfesti gjaldandi undirritun sína á skýrslurnar og kvaðst hafa séð um gerð þeirra. Gjaldandi sagði að vegna flutninga hafi misfarist að skila skýrslum vegna uppgjörstímabilanna mars-apríl til og með júlí-ágúst 2005. Jafnframt staðfesti gjaldandi undirritun sína á virðisaukaskattsskýrslur vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar og mars-apríl 2006, sem bornar voru undir hann við skýrslutökuna, en kvaðst ekki vera viss um hver hefði séð um gerð skýrslnanna. Sagði gjaldandi að öðrum virðisaukaskattsskýrslum, þ.e. vegna maí-júní til og með nóvember-desember 2006 og vegna rekstraráranna 2007 og 2008, hefði ekki verið skilað þar sem gjaldandi hefði mikið verið á þvælingi. Taldi gjaldandi innsendar virðisaukaskattsskýrslur gefa rétta mynd af rekstrinum. Leiðréttingarskýrsla virðisaukaskatts fyrir rekstrarárið 2005 var á meðal bókhaldsgagna gjaldanda en hafði ekki verið skilað til skattyfirvalda. Staðfesti gjaldandi undirritun sína á skýrsluna við skýrslutöku og kvað B hafa annast gerð skýrslunnar og byggt á bókhaldsgögnum hans. Taldi gjaldandi skýrsluna gefa rétta mynd af rekstri sínum. Þá kemur fram í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að skil hafi verið gerð á leiðréttingarskýrslum virðisaukaskatts vegna rekstraráranna 2007 og 2008 eftir að rannsókn málsins hófst. Aðspurður kvað gjaldandi B einnig hafa annast gerð skýrslnanna og byggt á bókhaldsgögnum hans og taldi gjaldandi jafnframt að skýrslurnar ættu að gefa rétta mynd af rekstri sínum. Leiðréttingarskýrsla virðisaukaskatts vegna rekstrarársins 2006 var send skattrannsóknarstjóra ríkisins með bréfi skipaðs verjanda gjaldanda, dags. 15. október 2009.

Bókhaldsgögn gjaldanda vegna rekstraráranna 2005, 2006, 2007 og 2008 voru afhent skattrannsóknarstjóra ríkisins og var bókhald fært að öðru leyti en því að bókhald vegna ársins 2006 var fært eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hófst. Við rannsóknina kom fram að inn í númeraröð sölureikninga gjaldanda vantaði 71 sölureikning svo númeraröð gæti talist samfelld. Samkvæmt athugun á bankareikningi gjaldanda, sem gerð er grein fyrir í skýrslu skattrannsóknarstjóra, komu ekki fram vísbendingar um frekari tekjur en samkvæmt sölureikningum. Er komist að þeirri niðurstöðu í skýrslunni að ekki þyki tilefni til að leggja mat á ætlaðar vantaldar tekjur gjaldanda vegna vöntunar sölureikninga.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er gerð grein fyrir rannsókn á skattskyldri veltu og útskatti gjaldanda. Við skýrslutökur voru útgefnir sölureikningar gjaldanda rekstrarárin 2005 til og með 2008 lagðir fyrir hann og staðfesti gjaldandi að þeir væru vegna rekstrar síns og að þeir hafi fengist greiddir á endanum. Kemur fram að samkvæmt innsendum virðisaukaskattsskýrslum gjaldanda hafi skattskyld velta numið 2.276.807 kr. (útskattur 557.819 kr.) rekstrarárið 2005 og 1.159.730 kr. (útskattur 284.133 kr.) rekstrarárið 2006. Rannsókn skattrannsóknarstjóra hafi aftur á móti leitt í ljós að skattskyld velta hafi numið 4.851.285 kr. (útskattur 1.188.569 kr.) rekstrarárið 2005, 4.796.669 kr. (útskattur 1.175.183 kr.) rekstrarárið 2006, 3.704.760 kr. (útskattur 907.665 kr.) rekstrarárið 2007 og 6.725.675 kr. (útskattur 1.647.790 kr.) rekstrarárið 2008. Samkvæmt framansögðu hafi skattskyld velta því verið vantalin um 2.574.478 kr. rekstrarárið 2005, 3.636.939 kr. rekstrarárið 2006, 3.704.760 kr. rekstrarárið 2007 og 6.725.675 kr. rekstrarárið 2008, og útskattur um 630.750 kr. fyrsta árið, 891.050 kr. annað árið, 907.665 kr. þriðja árið og 1.647.790 kr. fjórða árið.

Í kafla um rannsókn á rekstrargjöldum og innskatti gjaldanda er rakið að gjaldandi hafi verið spurður að því við skýrslutöku hvort hann hefði stofnað til innskattshæfra rekstrargjalda það tímabil sem til rannsóknar væri og hafi gjaldandi þá vísað í bókhald sitt vegna rekstraráranna 2005 og 2006, en hann ætti eftir að koma gögnum til skattrannsóknarstjóra varðandi rekstrarárin 2007 og 2008. Í skýrslunni kemur fram að samkvæmt leiðréttingarskýrslum virðisaukaskatts gjaldanda, sem fylgdu bókhaldi gjaldanda vegna rekstraráranna 2005 og 2006, nam innskattur samtals 223.919 kr. rekstrarárið 2005 og 274.295 kr. rekstrarárið 2006. Þá nam innskattur 367.133 kr. rekstrarárið 2007 og 196.973 kr. rekstrarárið 2008 samkvæmt leiðréttingarskýrslum greindra ára. Var það niðurstaða skattrannsóknarstjóra að innskattur samkvæmt leiðréttingarskýrslum virðisaukaskatts gjaldanda gæfi rétta mynd af innskatti gjaldanda umrædd ár.

4. Gjaldandi hefur sem fyrr segir ekki gert athugasemdir í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins og við skýrslutökur, sem fram fóru hjá skattrannsóknarstjóra vegna rannsóknar málsins, kom fram viðurkenning gjaldanda á því að hann hefði ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum og innheimtum virðisaukaskatti vegna seldrar þjónustu tiltekin tímabil árin 2005, 2006, 2007 og 2008. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. áður 45. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.

Eins og rakið er að framan eru tölulegar niðurstöður samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að því er varðar skattskylda veltu gjaldanda árin 2005, 2006, 2007 og 2008 byggðar á útgefnum sölureikningum hans að fjárhæð 6.039.854 kr. árið 2005, 5.971.852 kr. árið 2006, 4.612.425 kr. árið 2007 og 8.373.465 kr. árið 2008. Að teknu tilliti til tilgreindrar skattskyldrar veltu samkvæmt fyrirliggjandi virðisaukaskattsskýrslum gjaldanda er niðurstaða skattrannsóknarstjóra ríkisins um þennan þátt sú að skattskyld velta sé vantalin um samtals 2.574.478 kr. rekstrarárið 2005, 3.636.939 kr. rekstrarárið 2006, 3.704.760 kr. rekstrarárið 2007 og 6.725.675 kr. rekstrarárið 2008, og útskattur um 630.750 kr. fyrsta árið, 891.050 kr. annað árið, 907.665 kr. þriðja árið og 1.647.790 kr. fjórða árið. Umræddir sölureikningar voru lagðir fyrir gjaldanda við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 25. júní 2009 og 30. október 2009 og staðfesti gjaldandi að hafa gefið sölureikningana út og að þeir hefðu allir fengist greiddir. Að þessu athuguðu og að virtum gögnum málsins að öðru leyti þykir bera að leggja til grundvallar í úrskurði þessum að vantalin skattskyld velta gjaldanda á umræddum árum hafi numið þeim fjárhæðum sem greinir í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Niðurstöður í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins um mögulegan innskatt gjaldanda vegna rekstraráranna 2005, 2006, 2007 og 2008 byggja á bókhaldsgögnum gjaldanda sem fram komu við rannsókn málsins og innsendum leiðréttingarskýrslum virðisaukaskatts vegna umræddra ára. Eins og fram er komið eru í niðurstöðukafla skýrslunnar tilgreindar fjárhæðir „vantalins innskatts“ með 223.919 kr. rekstrarárið 2005, 274.295 kr. rekstrarárið 2006, 367.133 kr. rekstrarárið 2007 og 196.973 kr. rekstrarárið 2008, eða samtals 1.062.320 kr. öll árin. Í þessari framsetningu er ekki tekið tillit til þess að gjaldandi stóð skil á þremur virðisaukaskattsskýrslum á árinu 2005 og tveimur skýrslum á árinu 2006 þar sem innskattur var tilgreindur samtals 97.679 kr. fyrra árið og 47.441 kr. síðara árið. Sé litið til þessara skýrslna er vanfærður innskattur því þessum fjárhæðum lægri en tilgreint er í rannsóknarskýrslu eða 126.240 kr. rekstrarárið 2005 og 226.854 kr. rekstrarárið 2006. Í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins er hvorki byggt á síðastnefndum fjárhæðum né „vantöldum innskatti“ samkvæmt rannsóknarskýrslu að því er varðar rekstrarárin 2005 og 2006, heldur er mögulegur innskattur tilgreindur 184.096 kr. fyrra árið og 241.624 kr. það síðara. Verður að skilja kröfugerðina þannig að þær fjárhæðir ásamt tilgreindum mögulegum innskatti rekstrarárin 2007 og 2008 eigi að koma til frádráttar vantöldum útskatti samkvæmt kröfugerðinni. Verður við þetta miðað í úrskurði þessum, enda er það gjaldanda til hagsbóta.

Samkvæmt framansögðu telst hafa verið leitt í ljós með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að gjaldandi gerði ekki skil á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti uppgjörstímabilin mars–apríl til og með júlí–ágúst 2005, maí–júní til og með nóvember–desember 2006, janúar–febrúar til og með nóvember–desember 2007 og janúar–febrúar til og með nóvember–desember 2008 þrátt fyrir skattskylda veltu í rekstri sínum samkvæmt því sem rakið er að framan. Einnig voru annmarkar á virðisaukaskattsskýrslum gjaldanda uppgjörstímabilin janúar–febrúar og nóvember–desember rekstrarárið 2005 og mars–apríl rekstrarárið 2006, þótt ekki væru þeir verulegir. Eins og fram er komið voru í tengslum við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins lagðar fram leiðréttingarskýrslur virðisaukaskatts vegna rekstrar gjaldanda árin 2006, 2007 og 2008. Tekið skal fram að gögn málsins þykja bera með sér að skil voru ekki gerð á virðisaukaskatti samkvæmt greindum leiðréttingarskýrslum, sbr. m.a. úrskurð ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 30. desember 2009, og fylgiskjöl nr. 6.9, 6.10 og 6.12 með rannsóknarskýrslu.

Fullsannað þykir samkvæmt því sem að framan er rakið og að öðru leyti með stoð í gögnum málsins, m.a. framburði gjaldanda við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, að gjaldandi hafi á saknæman hátt vanrækt skyldur sínar til þess að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum fyrrgreind uppgjörstímabil árin 2005, 2006, 2007 og 2008, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, og þannig vanrækt að gera grein fyrir virðisaukaskatti til greiðslu samtals að fjárhæð 3.087.430 kr. umrædd uppgjörstímabil, sbr. sundurliðun í kröfubréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, að teknu tilliti til innskatts. Varðar þetta gjaldanda sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, vegna vanrækslu á skilum virðisaukaskatts og virðisaukaskattsskýrslna sem að framan greinir. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Líta ber til þess að gjaldandi gekkst greiðlega við brotum sínum. Að þessu virtu og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 5.800.000 kr. til ríkissjóðs.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 5.800.000 kr. til ríkissjóðs.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum