2012

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 423/2012

20.6.2012

Úrskurður nr. 423/2012

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2012, miðvikudaginn 20. júní, er tekið fyrir mál nr. 509/2011; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Sverrir Örn Björnsson og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 15. september 2011, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2008 og 2009.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A, sem stjórnarmanni og prókúruhafa X ehf., (nú þrotabú), er gefið að sök eftirfarandi:

Vangoldin afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda launamanna. Vanræksla á afhendingu skilagreina á lögmæltum tíma.

A er gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna X ehf. vegna greiðslutímabilanna júní rekstrarárið 2008 til og með júlí rekstrarárið 2009. Þá er honum gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, vegna greiðslutímabilanna ágúst og desember rekstrarárið 2008 og janúar, mars, apríl, maí og júní rekstrarárið 2009, á lögmæltum tíma. Vangoldin afdregin skilaskyld staðgreiðsla opinberra gjalda launamanna X ehf., vegna framangreindra greiðslutímabila, nemur samtals kr. 7.561.618. Fjárhæðin sundurliðast svo sem hér greinir:

Rekstrarár Greiðslutímabil Vangoldin skilaskyld staðgreiðsla kr.
2008 júní 630.806
2008 júlí 941.497
2008 ágúst 924.903
2008 september 983.393
2008 október 811.229
2008 nóvember 809.665
2008 desember 643.961
Samtals kr.   5.745.454
2009 janúar 480.083
2009 febrúar 442.260
2009 mars 548.707
2009 apríl 283.368
2009 maí 21.628
2009 júní 25.572
2009 júlí 14.546
Samtals kr.   1.816.164
Samtals bæði árin kr.   7.561.618

 Það er mat skattrannsóknarstjóra ríkisins, byggt á gögnum málsins, að þetta hafi A gert á saknæman hátt, að því er frekast verður séð af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.

Telst þessi háttsemi A brjóta í bága við ákvæði 1. og 2. mgr. 20. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, sbr. aðalreglur 1.-3. gr., 1. tl. 5. gr., 1. mgr. 7. gr. og 1. og 3. mgr. 8. gr. þeirra laga.

Framangreind háttsemi varðar A sekt samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 15. september 2011, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 16. september 2011, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Að ósk gjaldanda var viðbótarfrestur veittur til að leggja fram vörn í málinu og var sá frestur tvívegis framlengdur. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 15. september 2011, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með því að hann hafi sem fyrirsvarsmaður X ehf., nú afskráð, vanrækt að standa skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna félagsins tiltekin greiðslutímabil árin 2008 og 2009 og vanrækt að standa skil á skilagreinum á lögmæltum tíma tiltekin greiðslutímabil árin 2008 og 2009. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf hinn 8. febrúar 2011 rannsókn á skattskilum X ehf. er beindist að skilum félagsins á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launamanna félagsins árin 2008 og 2009. Skráður tilgangur X ehf. á þessu tímabili var rekstur veitingahúss og tengdur rekstur. Samkvæmt gögnum málsins var bú X ehf. tekið til gjaldþrotaskipta hinn 28. júní 2011 og lauk skiptum 21. desember 2011. Var félagið afskráð 4. janúar 2012. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi, A, til skýrslutöku hjá embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins þann 15. febrúar 2011, auk þess sem teknar voru skýrslur B og C dagana 2. mars og 25. mars 2011. Með bréfum, dags. 14. apríl 2011, sendi skattrannsóknarstjóri skattaðila, gjaldanda, B og C skýrslu um rannsóknina sem þá lá fyrir, dags. sama dag, og gaf þeim kost á að tjá sig um efni hennar. Andmæli bárust frá tilnefndum verjanda B með bréfi, dags. 28. apríl 2011. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 10. maí 2011, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar þar sem kom fram að fram komnar athugasemdir þættu ekki gefa tilefni til breytinga á skýrslunni að frátalinni tiltekinni leiðréttingu.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 10. maí 2011, segir að rannsókn á skattskilum X ehf. hafi einkum verið byggð á upplýsingum sem fram hafi komið við fyrrgreindar skýrslutökur, upplýsingum frá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, staðgreiðsluskilagreinum X ehf. ásamt sundurliðunum með þeim, svo og tekjubókhaldi ríkissjóðs, sbr. fylgiskjöl með skýrslunni, en þar er um að ræða yfirlit um greiðslur X ehf. vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, virðisaukaskatts og opinberra gjalda. Bókhald X ehf. var ekki afhent skattrannsóknarstjóra ríkisins þrátt fyrir beiðni þar um.

Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að rannsókn embættisins á staðgreiðsluskilum X ehf. hafi falist í því að bera fjárhæðir afdreginnar staðgreiðslu samkvæmt staðgreiðsluskilagreinum félagsins saman við greiðslur þess til innheimtumanns ríkissjóðs. Í skýrslunni er gerð grein fyrir þeirri niðurstöðu rannsóknarinnar að fyrrum fyrirsvarsmaður X ehf. hafi ekki staðið skil innan lögboðins frests á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launamanna félagsins greiðslutímabilin júní til og með desember 2008 og janúar til og með júlí 2009, samtals að fjárhæð 7.561.618 kr. Þá hafi verið vanrækt að standa skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna greiðslutímabilanna ágúst og desember 2008 og janúar, mars, apríl, maí og júní 2009. Fram kemur að greiddar hafi verið 8.268 kr. inn á höfuðstól staðgreiðsluskuldar vegna umræddra greiðslutímabila.

Gjaldandi, A, sagði við skýrslutöku, sem fram fór hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 15. febrúar 2011, að hann hefði sett upp veitingastaðinn Z með syni sínum sem væri kokkur. Kvaðst gjaldandi ekki hafa starfað hjá félaginu á rannsóknartímabilinu. Hann hefði verið skráður stjórnarformaður félagsins en ekki komið að daglegum rekstri og fjármálum þess. C og B hefðu séð um þann þátt rekstrarins. Gjaldandi sagðist ekki vita hvort skilagreinar staðgreiðslu og sundurliðanir, sem bornar voru undir hann við skýrslutökuna, væru vegna rekstrar X ehf. Taldi hann B hafa annast gerð þeirra og byggt á einhverju bókhaldi. Sagði gjaldandi B hafa annast launaútreikning félagsins. Kvaðst gjaldandi ekki vita hvers vegna skilagreinum staðgreiðslu vegna ágúst og desember 2008 og janúar, mars, apríl, maí og júní 2009 var ekki skilað á lögmæltum tíma. Gjaldanda var kynnt að samkvæmt gögnum málsins hefði staðgreiðsla opinberra gjalda að fjárhæð 7.561.618 kr. vegna launamanna X ehf. umrædd greiðslutímabil staðgreiðslu árin 2008 og 2009 ekki verið greidd á lögmæltum tíma. Vildi gjaldandi ekki tjá sig um fjárhæðina. Fram kom af hálfu gjaldanda að hann vissi ekki hvers vegna afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda hefði ekki verið skilað á lögmæltum tíma til ríkissjóðs. Taldi gjaldandi að fé vegna afdreginnar staðgreiðslu hefði farið til kaupa á hráefni. Aðspurður sagðist gjaldandi hafa heyrt það að laun hefðu ekki verið greidd að fullu en sagðist annars ekki þekkja það. Gjaldandi kvaðst ekki hafa óskað eftir því við innheimtumann að greiðslum X ehf. yrði ráðstafað með sérstökum hætti.

Við skýrslutöku af B hinn 2. mars 2011 sagði B að hann hefði verið ráðinn til X ehf. sem sölumaður til að selja veislur. Þá hefði hann séð um þjónustu í sal. Kvaðst B hafa verið með aðgang að heimabanka félagsins til að greiða birgjum. Gjaldandi og C hefðu starfað sem framkvæmdastjórar félagsins og hefði C verið kokkur. Kvaðst gjaldandi ekki hafa starfað hjá félaginu sem framkvæmdastjóri. Sagði hann gjaldanda hafa séð um fjármál skattaðila. Taldi B launabókhald hafa verið fært og hefði gjaldandi fengið stúlku að nafni D, sjálfstæðan bókara, til þess að færa bókhaldið. Kvaðst B ekki geta svarað því hvort staðgreiðsluskilagreinar, sem bornar voru undir hann við skýrslutökuna, væru vegna X ehf. Taldi hann D hafa útbúið skilagreinarnar og byggt þær á tímaskýrslum starfsmanna. Taldi B að skilagreinum vegna ágúst og desember 2008 og janúar, mars, apríl, maí og júní 2009 hefði ekki verið skilað þar sem D hefði ekki fengið greitt fyrir vinnu sína á réttum tíma. Aðspurður sagðist B ekki geta svarað því hvers vegna afdreginni staðgreiðslu var ekki skilað til ríkissjóðs á lögmæltum tíma og kvaðst hann ekki vita hvað hafi orðið um féð. Vildi B ekki tjá sig um fjárhæð afdreginnar staðgreiðslu. Sagði B laun hafa verið greidd að fullu þrátt fyrir að staðgreiðslu hafi ekki verið skilað. Kvaðst B að lokum vilja taka fram að honum þætti skrýtið að hafa réttarstöðu sakbornings við skýrslutökuna.

Við skýrslutöku af C hinn 25. mars 2011 kom fram að C hefði starfað hjá X ehf. sem matreiðslumaður. Hann hefði stjórnað í eldhúsinu og séð um það en ekki stjórnað launamálum né neinu slíku. Aðspurður um hver hefði verið daglegur stjórnandi félagsins sagði hann B hafa verið allt í öllu hjá félaginu og svo væri best að spyrja föður sinn (gjaldanda) um það hver hefði stjórnað rekstrinum. Sagði C að B hefði verið hægri hönd gjaldanda en hann þyrði ekki að fara með hver hefði séð um daglegan rekstur félagsins að hluta á móti B. Sagði hann B hafa stundum séð um að borga reikninga og hefði það farið í gegnum gjaldanda. Sagði C gjaldanda eða B hafa séð um fjármál skattaðila. Gjaldandi hefði stofnað félagið en C kvaðst hafa komið að hugmyndafræðinni á bak við eldamennskuna. Gjaldandi hefði sett fullt af peningum inn í reksturinn en þó ekki komið að daglegum rekstri félagsins. Sagðist C hafa starfað hjá X ehf. til enda, þ.e. til ársins 2009, og hefði hann starfað launalaust í um það bil eitt ár hjá félaginu. Kvaðst C telja að launabókhald hefði verið fært en hann vissi þó ekki hver færði það. Taldi hann að bókhaldið væri ekki til. Sagði C bókhaldið hafa orðið eftir að Y þegar starfsfólki hefði verið hent út af lögreglu að beiðni húseiganda vegna meints stuldar á húsmunum í húsinu. Kvaðst C ekki vita hvort staðgreiðsluskilagreinar, sem bornar voru undir hann við skýrslutökuna, væru vegna X ehf. Sagðist hann ekki vita hver hefði útbúið skilagreinarnar, á hverju þær byggðu eða hvort skilagreinarnar gæfu rétta mynd af launagreiðslum félagsins. Vildi C ekki tjá sig um staðgreiðsluskuld félagsins að fjárhæð 7.561.618 kr. Taldi C að afdreginni staðgreiðslu hefði ekki verið skilað vegna fjárskorts, en hann vissi ekki hvað hefði orðið um fé vegna afdreginnar staðgreiðslu. Þá taldi C að laun hefðu ekki verið greidd að fullu.

Samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, er refsivert ef launagreiðandi innir ekki af hendi þær greiðslur vegna launamanna sem hann hefur haldið eftir eða honum borið að halda eftir. Samkvæmt fortakslausum ákvæðum nefndra laga og með stoð í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar 27. febrúar 1997 (H 1997:789), 25. september 1997 (H 1997:2446), 14. janúar 1999 (H 1999:79), 18. febrúar 1999 (H 1999:544 og 550), 10. júní 1999 (H 1999:2645) og 30. mars 2000 (H 2000:1422), geta fyrirsvarsmenn lögaðila unnið til refsingar með því einu að láta ógert að skila umræddum gjöldum í ríkissjóð á tilskildum tíma, enda sé huglægum refsiskilyrðum fullnægt.

Sektarkrafa á hendur gjaldanda, A, er reist á því að hann hafi sem stjórnarmaður og prókúruhafi X ehf. borið ábyrgð á skattskilum félagsins. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hinn 15. febrúar 2011 bar gjaldandi á móti því að hafa stjórnað daglegum rekstri einkahlutafélagsins á þeim tíma sem málið varðar. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra hinn 2. mars 2011 hélt B því á hinn bóginn fram að gjaldandi og C hefðu starfað sem framkvæmdastjórar félagsins og hefði gjaldandi séð um fjármálin hjá félaginu. Við skýrslutöku 25. mars 2011 sagði C að B hafi verið allt í öllu hjá félaginu og hefði B séð um daglegan rekstur að hluta til, en verið hægri hönd gjaldanda í þessu sambandi. Hafi B séð um að greiða reikninga og hafi það farið í gegnum gjaldanda. Þá sagði C gjaldanda hafa lagt fé í rekstur félagsins en ekkert komið að daglegum rekstri þess.

Fyrir liggur að gjaldandi, A, var skráður stjórnarmaður og prókúruhafi X ehf. allt það tímabil sem mál þetta varðar, en enginn skráður framkvæmdastjóri var starfandi hjá félaginu. Sem stjórnarmanni félagsins bar gjaldanda að afla sér vitneskju um rekstur félagsins, svo og að annast um að starfsemi þess væri jafnan í réttu og góðu horfi, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Sé misbrestur á því að fyrirsvarsmaður fyrirtækis sinni ábyrgðarskyldu sinni, kann sú vanræksla að baka honum refsiábyrgð, enda sé honum kunnugt um refsiverð brot í tengslum við rekstur fyrirtækisins eða hann hefur að öðru leyti sýnt af sér saknæman eftirlitsskort. Eins og rakið er í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins voru B og C spurðir um það við skýrslutökur hver hefði stjórnað rekstri félagsins á rannsóknartímabilinu. Þótt svör þeirra hafi ekki að öllu leyti verið samhljóða um það atriði, þykir mega draga þá ályktun að aðkoma gjaldanda að rekstrinum hafi verið meiri en hann upplýsti við skýrslutöku 15. febrúar 2011. Samkvæmt framansögðu þykir rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hafa leitt í ljós að gjaldandi hafi verið fyrirsvarsmaður X ehf. á því tímabili sem málið varðar. Sem stjórnandi félagsins bar gjaldandi ábyrgð á daglegum rekstri þess, þar á meðal fjárreiðum, og var til þess bær að taka ákvarðanir um hvaða kröfur á hendur félaginu skyldu greiddar og hverjar ekki. Telst gjaldandi því hafa borið ábyrgð á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda X ehf. og er sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins því réttilega beint að gjaldanda.

Til grundvallar niðurstöðu skattrannsóknarstjóra ríkisins um fjárhæð vangreiddrar staðgreiðslu opinberra gjalda X ehf. árin 2008 og 2009 liggja staðgreiðsluskilagreinar, sem ekki hefur verið vefengt að varði rekstur einkahlutafélagsins, sbr. skýrslutökur af gjaldanda og starfsmönnum félagsins sem raktar hafa verið að framan. Verður samkvæmt þessu byggt á því að staðgreiðsla opinberra gjalda, sem gjaldanda bar að standa skil á vegna X ehf., hafi numið þeim fjárhæðum sem greinir í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, enda þykir ekkert hafa komið fram sem gefur tilefni til annars. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra í máli þessu er byggð á niðurstöðum í skýrslu embættisins.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins og greinargerð með kröfugerð embættisins til yfirskattanefndar er gerð grein fyrir greiðslum X ehf. til innheimtumanns vegna staðgreiðslu, virðisaukaskatts og opinberra gjalda frá því að skuldir sem um ræðir í máli þessu vegna staðgreiðslu opinberra gjalda byrjuðu að myndast 15. júlí 2008. Fram kemur að á tímabilinu 15. júlí 2008 til og með 9. ágúst 2011 voru alls greiddar 8.268 kr. vegna höfuðstóls skilaskyldrar staðgreiðslu X ehf., og er þar að öllu leyti um að ræða greiðslur vegna greiðslutímabils sem rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins tók til, nánar tiltekið júní 2008. Eins og mál þetta er lagt fyrir af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins þykir rétt að þessi fjárhæð, sem gjaldandi stóð samkvæmt framangreindu skil á áður en mál hans var sent yfirskattanefnd til meðferðar, komi til frádráttar fjárhæð vangreiddrar staðgreiðslu samkvæmt kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins, enda er það í samræmi við það sem tíðkast hefur við meðferð hliðstæðra mála fyrir yfirskattanefnd. Verður því miðað við vangreidda staðgreiðslu að fjárhæð 7.553.350 kr. í máli þessu.

Sá hluti greiðslna X ehf. á umræddu tímabili, sem innheimtumaður ríkissjóðs hefur samkvæmt yfirliti skattrannsóknarstjóra ríkisins ráðstafað til greiðslu dráttarvaxta, álags og kostnaðar vegna staðgreiðslu, nam 79.332 kr. Þá kemur fram í gögnum málsins að engar greiðslur hafi verið inntar af hendi vegna opinberra gjalda X ehf., þ.m.t. tryggingagjalds, á þeim tíma sem hér um ræðir. Aðrar greiðslur félagsins til innheimtumanns en vegna höfuðstóls staðgreiðslu námu samkvæmt þessu samtals 79.332 kr.

Með dómi Hæstaréttar Íslands 2. október 2003 (H 2003:3178), sem varðar hliðstætt mál, var því hafnað að greiðslur, sem innheimtumaður hefur ráðstafað upp í álag, dráttarvexti og kostnað, geti haft áhrif á sakarmat og komið með beinum hætti til frádráttar skattskuld sem viðurlagaákvörðun tekur til. Ekki verður talið að breyting með lögum nr. 134/2005 á refsiákvæðum laga nr. 45/1987 haggi þessari dómaframkvæmd. Með breytingalögum þessum er hins vegar skýrt kveðið á um það að greiðslur skattaðila á verulegum hluta skattfjárhæðar geti að uppfylltum ákveðnum skilyrðum leitt til þess að ákvæði um lágmark sektarrefsingar eigi ekki við. Samkvæmt dómum Hæstaréttar Íslands 30. mars 2006 í málunum nr. 428/2005 og 469/2005 ber að taka í þessu sambandi tillit til innborgana sem ráðstafað hefur verið til greiðslu álags vegna vangreiddrar staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna og vangreidds virðisaukaskatts, svo og skuli fara á sama hátt með greiðslur vegna staðgreiðslu opinberra gjalda þess fyrirsvarsmanns sem refsiábyrgð sætir. Ekki verður annað séð en að líta megi með hliðstæðum hætti til greiðslna viðkomandi skattaðila sem innheimtumaður hefur ráðstafað upp í dráttarvexti og kostnað, og eftir atvikum til greiðslu á opinberum gjöldum, enda er það í samræmi við úrskurðaframkvæmd fyrir gildistöku laga nr. 134/2005, sbr. og fyrrgreindan dóm Hæstaréttar frá árinu 2003 og aðra dóma í hliðstæðum málum, m.a. H 2000:2387. Eins og mál þetta liggur fyrir þykir því mega taka tillit til fyrrgreindra greiðslna X ehf. að fjárhæð samtals 79.332 kr.

Samkvæmt því sem að framan er rakið og gögnum málsins að öðru leyti var afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda vegna launamanna X ehf. greiðslutímabilin júní til og með desember 2008 og janúar til og með júlí 2009, samtals að fjárhæð 7.553.350 kr., ekki greidd til innheimtumanns ríkissjóðs á tilskildum tíma, sbr. 1. og 2. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987. Vegna skýringa gjaldanda um að líklega hafi peningarnir farið í rekstur skattaðila, skal tekið fram að ekki telst tæk varnarástæða að fé hafi ekki verið til í rekstri félagsins til að standa skil á umræddum gjöldum, sbr. m.a. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar Íslands frá 30. mars 2000 (H 2000:1422).

Með vísan til þess sem rakið hefur verið telst fullnægt þeim huglægu refsiskilyrðum sem fram koma í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995. Ber að ákvarða gjaldanda, A, sekt samkvæmt þessum lagaákvæðum vegna vanrækslu á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda í rekstri X ehf.

Eins og lög nr. 45/1987 hljóða eftir breytingar, sem á þeim voru gerðar með lögum nr. 42/1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem vanrækt var greiðsla á, þó að teknu tilliti til álags. Samkvæmt breytingu á greindum lögum með lögum nr. 134/2005 eiga fésektarákvæði þessi þó ekki við hafi brot einskorðast við að standa ekki skil á réttilega tilgreindri staðgreiðslu samkvæmt skilagrein staðgreiðslu, enda hafi verið gerð skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur eru miklar. Í tilviki gjaldanda er til þess að líta að skilagreinar staðgreiðslu liggja fyrir vegna allra tímabila staðgreiðslu sem málið varðar, þótt skil margra þeirra hafi dregist nokkuð, og eru fjárhæðir í málinu byggðar á þeim. Sem fyrr segir verður lagt til grundvallar að greiðslur til innheimtumanns ríkissjóðs, sem hér beri að líta til, hafi numið 79.332 kr. Þessar greiðslur verða að teljast óverulegur hluti vangreiddrar staðgreiðslu miðað við fjárhæðir í málinu, sbr. dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands, m.a. fyrrgreinda dóma frá 30. mars 2006, og hafa því ekki áhrif við ákvörðun sektarfjárhæðar. Ekki liggur annað fyrir en að vangreiðsla á staðgreiðslu opinberra gjalda hafi fyrst og fremst stafað af erfiðleikum í rekstri X ehf. og ekkert er komið fram um að gjaldandi hafi persónulega notið nokkurs hags af brotinu. Hins vegar varðar mál þetta vanskil á staðgreiðslu að ekki óverulegri fjárhæð og vegna alllangs tímabils. Að svo vöxnu og með vísan til þess sem fyrr segir um fjárhæð greiðslna vegna skattskulda félagsins þykja ekki vera fyrir hendi lagaskilyrði til þess að ákvarða sekt vegna vanrækslu á skilum staðgreiðslu lægri en lágmarksákvæði 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 mælir fyrir um.

Samkvæmt framansögðu og að teknu tilliti til álags samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 14.300.000 kr. til ríkissjóðs.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 14.300.000 kr. til ríkissjóðs.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum