2013

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 53/2013

20.2.2013

Úrskurður nr. 53/2013

                                                                  

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2013, miðvikudaginn 20. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 338/2012; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Sverrir Örn Björnsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 8. nóvember 2012, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstrarársins 2008.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum. Vanframtalin skattskyld velta og útskattur. Mögulegur innskattur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi sinnar til skattstjórans í Reykjavík vegna allra uppgjörstímabila rekstrarárið 2008 og vanframtelja með því skattskylda veltu og virðisaukaskatt. Samkvæmt niðurstöðu skattrannsóknarstjóra ríkisins nemur vanframtalin skattskyld velta samtals kr. 31.936.380 og vanframtalinn útskattur samtals kr. 7.824.415. Mögulegur innskattur nemur samtals kr. 1.686.952.

Sundurliðast vanframtalin skattskyld velta og virðisaukaskattur svo sem hér greinir:

  Uppgjörstímabil Vantalin skattskyld velta Vanframtalinn útskattur Mögulegur innskattur
Rekstrarár        
2008 jan. - feb. 6.567.090 1.608.938 365.370
2008 mars - apríl 2.616.421 641.023 78.800
2008 maí - júní 3.946.858 966.980 200.405
2008 júlí - ágúst 5.286.410 1.295.171 192.028
2008 sept. - okt. 5.828.015 1.427.863 744.900
2008 nóv. - des. 7.691.586 1.884.440 105.449
Samtals kr.   31.936.380 7.824.415 1.686.952

Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr. sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. 

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Við endurákvörðun á virðisaukaskatti vegna rekstrarársins 2008 hefur A verið gert að sæta álagi á vangreiddan virðisaukaskatt, kr. 613.746 er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 8. nóvember 2012, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 13. nóvember 2012, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 8. nóvember 2012, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á bókhaldi og skattskilum gjaldanda vegna rekstrarársins 2008, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 27. desember 2011, þar sem fram kom að á rannsóknartímabilinu hefði gjaldandi starfað sjálfstætt við múrverk. Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hófst formlega hinn 11. október 2011 og beindist að virðisaukaskattsskilum gjaldanda. Var rannsóknin einkum byggð á upplýsingum sem fram komu við skýrslutöku af gjaldanda 19. október 2011, á bókhaldi og sölureikningum gjaldanda og upplýsingum úr upplýsingakerfum ríkisskattstjóra. Með bréfi, dags. 9. desember 2011, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, dags. sama dag, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar. Athugasemdir voru ekki gerðar af hálfu gjaldanda. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 27. desember 2011, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 27. desember 2011, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og skattsskilum skattaðila eru:

·1   Virðisaukaskattsskýrslum hefur ekki verið skilað.

·2   Bókhald hefur ekki verið fært.

·3   Gefnir hafa verið út reikningar vegna vinnu skattaðila.

·4   Vöntun er á sölureikningum til að númeraröð geti talist samfelld.

·5   Skattskyld velta og útskattur eru vantalin.

·6   Ekki er talin ástæða til að áætla skattskylda veltu og útskatt vegna vöntunar sölureikninga.

·7   Samkvæmt rannsókninni er mögulega vantalinn innskattur vegna rekstrarársins 2008.“

Þá gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins tölulega grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflu í niðurlagi skýrslu sinnar. Þar kom fram að skattskyld velta gjaldanda væri vantalin um 31.936.380 kr. og útskattur um 7.824.415 kr. rekstrarárið 2008. Þá næmi mögulega vantalinn innskattur 1.686.952 kr. sama ár.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 29. desember 2011. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af bréfi til gjaldanda, dags. 8. júní 2012, sem gjaldandi svaraði ekki, endurákvarðaði ríkisskattstjóri með úrskurði, dags. 10. júlí 2012, virðisaukaskatt gjaldanda árið 2008. Samkvæmt úrskurðinum var skattskyld velta ákvörðuð 31.936.380 kr. rekstrarárið 2008 Samkvæmt framangreindu og að teknu tilliti til innskatts 1.686.952 kr. varð virðisaukaskattur til greiðslu 6.137.463 kr. árið 2008 auk álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Gjaldandi nýtti sér ekki heimilaðar málskotsleiðir vegna þessa úrskurðar ríkisskattstjóra.

3. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 27. desember 2011, að gjaldandi hafi ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabila á árinu 2008 og hafi gjaldandi sætt áætlun virðisaukaskatts öll uppgjörstímabilin. Um ástæður vanskila er rakinn sá framburður gjaldanda við skýrslutöku 19. október 2011 að kenna megi óreiðu og óreglu gjaldanda um og hversu mikið hann hafi haft umfangs. Þá kemur fram að hinn 12. október 2011 hafi bókhald gjaldanda fengist afhent hjá bókhaldsstofunni X ehf. Fyrirliggjandi séu afrit sölureikninga gjaldanda frá rannsóknartímabilinu með númeraröðinni 40-188, þar af séu 11 sölureikningar ógildir. Inn í númeraröð sölureikninga gjaldanda vanti sölureikninga nr. 41-44, 55, 61, 81, 84-97, 100-183 og 187 til hún verði samfelld, eða samtals 106 reikninga.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er gerð grein fyrir rannsókn á skattskyldri veltu og útskatti gjaldanda. Við skýrslutöku 19. október 2011 voru útgefnir sölureikningar gjaldanda rekstrarárið 2008 lagðir fyrir hann og staðfesti gjaldandi að hann hefði gefið þá út og sagðist hafa fengið þá greidda fyrir utan reikninga útgefna á Y ehf. að fjárhæð u.þ.b. 700-800 þúsund kr. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að heildarfjárhæð útgefinna sölureikninga á hendur Y ehf. nemi 5.408.200 kr. og séu þeir allir færðir í bókhaldi gjaldanda. Við skoðun á bankareikningi gjaldanda hafi komið í ljós greiðslur frá Y ehf. að sömu fjárhæð. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins kemur fram að skattskyld velta lækki um 803.213 kr. og útskattur um 196.787 kr. frá því sem gengið hafi verið út frá við skýrslutöku þar sem fjárhæð sölureiknings nr. 72 sé innifalin í heildarfjárhæð reiknings nr. 79. Þá er gerð grein fyrir því að við skýrslutöku hafi gjaldandi verið spurður um innborgun frá Z, húsfélagi að fjárhæð 450.000 kr. Kvaðst gjaldandi hafa verið að vinna fyrir húsfélagið og að hann hefði gefið út reikning sem hann gæti hugsanlega afhent. Samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins barst embættinu ekki umræddur sölureikningur en staðfestingar var aflað frá Z vegna vinnunnar. Í ljósi upplýsinga um vinnu gjaldanda fyrir húsfélagið hækkaði skattskyld velta um 361.446 kr. og útskattur um 88.554 kr. frá því sem gengið var út frá við skýrslutöku af gjaldanda. Þá var gjaldandi spurður um innborganir frá B að fjárhæð samtals 3.598.380 kr. og Q ehf. að fjárhæð 479.600 kr. Sagði gjaldandi hann hefði unnið við lagfæringar á íbúðarhúsi B en hann myndi ekki hvort hann hefði gefið út sölureikninga. Gjaldandi kannaðist ekki við Q ehf. en í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins kemur fram að B sé fyrirsvarsmaður Q ehf. Aflaði skattrannsóknarstjóri ríkisins staðfestingar frá B vegna framangreindrar vinnu og kom þar fram að ekki hefðu verið gefnir út reikningar vegna verksins. Samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins eru greindar innborganir færðar sem skattskyld velta miðað við innborgunardaga. Hækkaði skattskyld velta vegna þessa um samtals 3.275.181 kr. og útskattur um samtals 802.419 kr. Í skýrslunni er tekið fram að skattrannsóknarstjóri telji ekki ástæðu til að áætla gjaldanda skattskylda veltu og útskatt vegna vöntunar sölureikninga. Samkvæmt framansögðu sé skattskyld velta gjaldanda talin hafa numið 31.936.380 kr. rekstrarárið 2008 og útskattur 7.824.415 kr. samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins. Hafi vanframtalin skattskyld velta og útskattur gjaldanda numið sömu fjárhæðum.

Í kafla um rannsókn á innskatti gjaldanda kemur fram að við skýrslutöku hafi verið lagður fyrir gjaldanda hreyfingalisti úr fjárhagsbókhaldi hans er sýndi innskatt vegna rekstrarins að fjárhæð 1.686.952 kr. Hafi gjaldandi staðfest að um rekstrargjöld hafi verið um að ræða en taldi mikið vanta upp á fjárhæðina. Var gjaldanda gefinn frestur til 21. október 2011 til að afhenda kostnaðargögn en engin gögn hafi borist um mögulegan innskatt gjaldanda. Fram kemur að skattrannsóknarstjóri ríkisins geri ekki athugasemdir við færðan innskatt í bókhaldi gjaldanda og sé mögulegur innskattur gjaldanda rekstrarárið 2008 því talinn nema samtals 1.686.952 kr.

4. Gjaldandi hefur sem fyrr segir ekki gert athugasemdir í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins og við skýrslutöku, sem fram fór hjá skattrannsóknarstjóra vegna rannsóknar málsins, kom fram viðurkenning gjaldanda á því að hann hefði ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum og innheimtum virðisaukaskatti árið 2008. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Eins og rakið er að framan eru tölulegar niðurstöður samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum gjaldanda vegna ársins 2008 byggðar á útgefnum sölureikningum gjaldanda sem hann afhenti skattrannsóknarstjóra vegna rannsóknar málsins og innborgunum inn á bankareikninga gjaldanda. Greindir sölureikningar, sem eru að fjárhæð 36.233.195 kr., voru lagðir fyrir gjaldanda við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 19. október 2011 og staðfesti gjaldandi að hafa gefið sölureikningana út og að þeir hefðu fengist greiddir að undanskildum reikningum útgefnum á hendur Y ehf. að fjárhæð 700-800 þúsund kr. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins kemur fram að heildarfjárhæð sölureikninga á hendur Y ehf. sé 5.408.200 kr. og við skoðun á bankareikningi gjaldanda komu í ljós greiðslur frá Y ehf. að sömu fjárhæð. Þá námu innborganir inn á bankareikning gjaldanda frá B, Q ehf. og Z, húsfélagi, samtals 4.127.600 kr., en sölureikningar á hendur þessum aðilum lágu ekki fyrir. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 19. október 2011 staðfesti gjaldandi að hafa unnið fyrir B og Z en kannaðist ekki við Q ehf. Í skýrslu sinni gerir skattrannsóknarstjóri ríkisins grein fyrir því að B hafi verið fyrirsvarsmaður Q ehf. á umræddum tíma. Þá aflaði skattrannsóknarstjóri ríkisins staðfestingar frá fyrrgreindum aðilum um vinnu gjaldanda fyrir þá. Þykir ekki fara á milli mála að greindar innborganir á bankareikning gjaldanda frá fyrrgreindum aðilum á árinu 2008 hafi verið vegna vinnu gjaldanda fyrir þá. Að þessu athuguðu og að virtum gögnum málsins að öðru leyti þykir bera að leggja til grundvallar í úrskurði þessum að skattskyld velta gjaldanda til virðisaukaskatts hafi numið þeirri fjárhæð sem greinir í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Gjaldandi gerði grein fyrir innskatti að fjárhæð 1.686.952 kr. í bókhaldi sínu og hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins ekki gert athugasemdir við þá fjárhæð. Við skýrslutöku af gjaldanda 19. október 2011 kom fram að gjaldandi teldi mögulegan innskatt vera hærri og kvaðst ætla að afhenda skattrannsóknarstjóra ríkisins gögn um mögulegan kostnað. Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins bárust embættinu engin slík gögn fyrir lok rannsóknar málsins. Hefur ekkert komið fram í málinu sem gefur tilefni til þess að tekið verði tillit til innskatts með hærri fjárhæð en greinir í rannsóknarskýrslu og verður því byggt á niðurstöðum rannsóknarskýrslu um þann þátt málsins.

Fullsannað þykir samkvæmt því sem að framan er rakið og að öðru leyti með stoð í gögnum málsins, m.a. framburði gjaldanda við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, að gjaldandi, sem skyldur var til þess að standa skil á virðisaukaskatti, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, hafi á saknæman hátt vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum öll uppgjörstímabil ársins 2008 og þannig vanrækt að gera grein fyrir virðisaukaskatti til greiðslu samtals að fjárhæð 6.137.463 kr. umrædd uppgjörstímabil, að teknu tilliti til innskatts, sbr. sundurliðun í kröfubréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins. Varðar þetta gjaldanda sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, vegna vanrækslu á skilum virðisaukaskatts og virðisaukaskattsskýrslna sem að framan greinir. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Líta ber til þess að gjaldandi gekkst greiðlega við brotum sínum. Að þessu virtu og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 11.700.000 kr. til ríkissjóðs.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 11.700.000 kr. til ríkissjóðs. 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum