2013

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 146/2013

24.4.2013

Úrskurður nr. 146/2013

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2013, miðvikudaginn 24. apríl, er tekið fyrir mál nr. 358/2012; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Sverrir Örn Björnsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 29. nóvember 2012, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2008, 2009, 2010 og 2011.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„Sem stjórnarmanni og prókúruhafa X ehf., kt. (nú þrotabú) er A gefið eftirfarandi að sök:

1. Vangoldin afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda launamanna.

A er gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna X ehf. vegna greiðslutímabilanna september og nóvember 2008, vegna janúar, mars, apríl, maí, júní, júlí, september, október og desember rekstrarárið 2009, vegna janúar, febrúar, mars, apríl, maí, ágúst, september, október, nóvember og desember rekstrarárið 2010 og vegna janúar, mars, apríl, maí, júní, júlí og ágúst rekstrarárið 2011. Nemur vangoldin afdregin skilaskyld staðgreiðsla opinberra gjalda launamanna X ehf. samtals kr. 2.855.796. Sundurliðast þær fjárhæðir eins og hér greinir (ekki er um að ræða afdregna staðgreiðslu fyrirsvarsmanna til frádráttar):

Rekstrarár Greiðslutímabil Vangoldin staðgreiðsla samkvæmt rannsókn kr.
2008 september 117.062
2008 nóvember 26.160
Samtals kr.   143.222
2009 janúar 35.650
2009 mars 55.501
2009 apríl 66.051
2009 maí 56.443
2009 júní 72.879
2009 júlí 60.116
2009 september 82.801
2009 október 26.060
2009 desember 25.130
Samtals kr.   480.631
2010 janúar 133.126
2010 febrúar 193.313
2010 mars 192.372
2010 apríl 179.662
2010 maí 148.021
2010 ágúst 155.541
2010 september 164.059
2010 október 75.361
2010 nóvember 111.819
2010 desember 53.377
Samtals kr.   1.406.651
2011 janúar 104.317
2011 mars 118.771
2011 apríl 85.500
2011 maí 158.448
2011 júní 136.317
2011 júlí 126.299
2011 ágúst 95.640
Samtals kr.   825.292
Samtals öll árin kr.   2.855.796

Það er mat skattrannsóknarstjóra ríkisins að framangreindu hafi A komið til leiðar með saknæmum hætti, að því er frekast verður séð af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.

Telst þessi háttsemi A brjóta í bága við ákvæði 1. og 2. mgr. 20. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, sbr. aðalreglur 1. – 3. gr., 1. tl. 5. gr., 1. mgr. 7. gr. og 3. mgr. 8. gr. þeirra laga.

Framangreind háttsemi varðar A sekt samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda með áorðnum breytingum.

2. Vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur.

A er gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri X ehf. vegna uppgjörstímabilanna september–október og nóvember–desember rekstrarárið 2008, vegna allra uppgjörstímabila rekstrarársins 2009, vegna allra uppgjörstímabila rekstrarársins 2010 að frátöldu tímabilinu nóvember–desember og vegna uppgjörstímabilanna mars–apríl, maí–júní og júlí–ágúst rekstrarárið 2011. Nemur vangoldinn virðisaukaskattur til innheimtumanns ríkissjóðs vegna framangreindra uppgjörstímabila samtals kr. 8.388.487.

Ofangreindur vangoldinn virðisaukaskattur sundurliðast eftir uppgjörstímabilum sem hér greinir:

 

Rekstrarár

 

Uppgjörstímabil

Vangoldinn virðisaukaskattur til innheimtumanns ríkissjóðs kr.
2008 september – október 194.593
2008 nóvember – desember 119.586
Samtals kr.   314.179
2009 janúar – febrúar 484.327
2009 mars – apríl 275.170
2009 maí – júní 448.017
2009 júlí – ágúst 527.145
2009 september – október 380.173
2009 nóvember – desember 665.253
Samtals kr.   2.780.085
2010 janúar – febrúar 768.240
2010 mars – apríl 667.568
2010 maí – júní 772.685
2010 júlí –ágúst 926.391
2010 september – október 560.031
Samtals kr.   3.694.915
2011 mars – apríl 772.336
2011 maí – júní 581.486
2011 júlí – ágúst 295.486
Samtals kr.   1.599.308
Samtals öll árin kr.   8.388.487

Það er mat skattrannsóknarstjóra ríkisins að framangreindu hafi A komið til leiðar með saknæmum hætti, að því er frekast verður séð af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.

Telst þessi háttsemi A brjóta í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr. og 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. og 2. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Framangreind háttsemi varðar A sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 29. nóvember 2012, sem fylgdi kröfugerðinni. 

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 4. desember 2012, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Með bréfi, dags. 21. janúar 2013, hefur gjaldandi lagt fram vörn í máli þessu. Kveðst gjaldandi vilja árétta að hann hafi ekkert komið að rekstri X ehf., þrátt fyrir að hafa verið skráður stjórnarmaður og prókúruhafi félagsins. Hafi það m.a. verið staðfest með framburði B í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Hafi gjaldandi aldrei komið að skýrsluskilum hjá félaginu, hvorki varðandi staðgreiðslu opinberra gjalda né virðisaukaskatt, enda hafi gjaldandi ekkert með rekstur félagsins eða fjármál haft að gera. Í bréfi sínu tekur gjaldandi jafnframt fram að hann hafi enga ákvörðun tekið um að greiða ekki opinber gjöld og virðisaukaskatt félagsins, enda hafi hann ekki verið í aðstöðu til að gera slíkt.

III.

Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 29. nóvember 2012, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með því að hann hafi sem fyrrum fyrirsvarsmaður X ehf., nú afskráð, vanrækt að standa skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna félagsins tiltekin greiðslutímabil árin 2008, 2009, 2010 og 2011 og vanrækt skil á virðisaukaskatti félagsins tiltekin uppgjörstímabil árin 2008, 2009, 2010 og 2011. Gjaldandi hefur lagt fram athugasemdir sínar í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf hinn 17. nóvember 2011 rannsókn á skattskilum X ehf. er beindist að skilum félagsins á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launamanna félagsins og virðisaukaskatti árin 2008, 2009, 2010 og 2011. Skráður tilgangur X ehf. á þessu tímabili var sala á hugbúnaði og hugbúnaðarþjónustu, rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Frá september 2008 mun starfsemi félagsins þó hafa falist í rekstri söluturna. Samkvæmt gögnum málsins var bú X ehf. tekið til gjaldþrotaskipta hinn 14. mars 2012 og lauk skiptum 29. júní 2012. Var félagið afskráð 23. janúar 2013. Vegna rannsóknarinnar tók skattrannsóknarstjóri ríkisins skýrslu af gjaldanda, A, hinn 12. desember 2011, en skýrsla var einnig tekin af B hinn 24. janúar 2012. Með bréfum, dags. 9. febrúar 2012, sendi skattrannsóknarstjóri ríkisins gjaldanda og tilnefndum verjanda hans og B skýrslu um rannsóknina sem þá lá fyrir, dags. 3. febrúar 2012, og gaf þeim kost á að tjá sig um efni hennar, en athugasemdir voru ekki gerðar. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 1. mars 2012, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 1. mars 2012, segir að rannsókn á skattskilum X ehf. hafi einkum verið byggð á upplýsingum sem fram hafi komið við fyrrgreindar skýrslutökur, upplýsingum úr bókhaldi X ehf., staðgreiðsluskilagreinum félagsins ásamt sundurliðunum, virðisaukaskattsskýrslum félagsins, svo og tekjubókhaldi ríkissjóðs, sbr. fylgiskjöl með skýrslunni, en þar er um að ræða yfirlit um greiðslur X ehf. vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, virðisaukaskatts og opinberra gjalda.

Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að rannsókn embættisins á staðgreiðsluskilum X ehf. hafi falist í því að bera fjárhæðir afdreginnar staðgreiðslu samkvæmt bókhaldi, staðgreiðsluskilagreinum og sundurliðunum félagsins saman við greiðslur þess til innheimtumanns ríkissjóðs. Í skýrslunni er gerð grein fyrir þeirri niðurstöðu rannsóknarinnar að fyrirsvarsmaður X ehf. hafi ekki staðið skil innan lögboðins frests á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launamanna félagsins greiðslutímabilin september og nóvember 2008, janúar, mars, apríl, maí, júní, júlí, september, október og desember 2009, janúar, febrúar, mars, apríl, maí, ágúst, september, október, nóvember og desember 2010 og janúar, mars, apríl, maí, júní, júlí og ágúst 2011, samtals að fjárhæð 2.855.796 kr., en að greiddar hafi verið 81.606 kr. inn á höfuðstól staðgreiðsluskuldar.

Rannsókn á virðisaukaskattsskilum X ehf. var samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins fólgin í því að bera fjárhæð innheimts virðisaukaskatts samkvæmt bókhaldi félagsins og virðisaukaskattsskýrslum saman við greiðslur félagsins til innheimtumanns og er rakin sú niðurstaða rannsóknarinnar að fyrirsvarsmaður félagsins hafi ekki staðið skil á virðisaukaskatti vegna félagsins innan lögboðins frests uppgjörstímabilin september-október og nóvember-desember 2008, janúar-febrúar, mars-apríl, maí-júní, júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2009, janúar-febrúar, mars-apríl, maí-júní, júlí-ágúst og september-október 2010 og mars-apríl, maí-júní og júlí-ágúst 2011 að fjárhæð samtals 8.388.487 kr. Fram kemur að greiddar hafi verið 781.354 kr. inn á höfuðstól virðisaukaskattsskuldarinnar.

Gjaldandi, A, greindi frá því við skýrslutöku, sem fram fór hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 12. desember 2011, að hann hefði stofnað X ehf. árið 2007. Gjaldandi hefði verið skráður eini stjórnarmaður félagsins og kona hans væri varamaður í stjórn, en hann hefði ekki haft afskipti af félaginu frá því seint á árinu 2007. Sagði gjaldandi að B hefði séð um daglegan rekstur félagsins síðustu ár og á rannsóknartímabilinu. Kvaðst gjaldandi telja að B hefði einnig séð um fjármálin en hann gæti ekki fullyrt um það. B hefði hvorki verið skráður stjórnarmaður né framkvæmdastjóri. Sagði gjaldandi að B hefði ekki starfað undir sinni stjórn. Til að byrja með hefði gjaldandi séð einn um félagið, en hann hefði byrjað í nýrri vinnu í júlí 2007 og þá hefði hann hætt að starfa hjá félaginu. Engar breytingar hefðu þó verið gerðar á skráningu hans sem stjórnarmanns. Undanfarna mánuði hefði hann þó viljað losna frá þessu en það hefði ekki verið rætt að skipta um stjórnarmann í félaginu. Sagðist gjaldandi vera ágætur vinur B og hefði gjaldandi hjálpað til þegar eitthvað hefði farið úrskeiðis í tölvukerfinu. Hans styrkur lægi þar. Við skýrslutökuna voru bornar undir gjaldanda fyrirliggjandi staðgreiðsluskilagreinar og virðisaukaskattsskýrslur X ehf. vegna þeirra greiðslu- og uppgjörstímabila sem rannsóknin tók til. Sagðist gjaldandi gera ráð fyrir því að gögnin væru vegna X ehf., en kvaðst ekki vera með á hreinu hver hefði útbúið gögnin. Kvaðst gjaldandi enga ástæðu hafa til að vefengja gögnin en sagðist heldur ekki geta staðfest að þau gæfu rétta mynd af rekstrinum. Gjaldanda var kynnt að samkvæmt gögnum málsins hefði staðgreiðsla opinberra gjalda að fjárhæð 2.855.796 kr. vegna launamanna X ehf. tiltekin greiðslutímabil árin 2008, 2009, 2010 og 2011 ekki verið greidd á lögmæltum tíma og að virðisaukaskattur að fjárhæð 9.006.430 kr. tiltekin uppgjörstímabil árin 2008, 2009, 2010 og 2011 hefði ekki verið greiddur á lögmæltum tíma, en gjaldandi vildi ekki tjá sig um þessar fjárhæðir. Sagðist gjaldandi gera ráð fyrir því að afdreginni staðgreiðslu og virðisaukaskatti hefði ekki verið skilað á lögmæltum tíma vegna fjárskorts. Kvaðst gjaldandi telja að laun hefðu verið greidd að fullu. Gjaldandi kvaðst ekki hafa vitað til þess að greitt hefði verið inn á skuldina eftir 17. nóvember 2011. Taldi gjaldandi að nýlega væri útrunnin greiðsluáætlun við Tollstjóra og sagði gjaldandi að B hefði séð um að semja um skuldirnar við Tollstjóra. Lögmaður gjaldanda tók fram við skýrslutökuna að samkvæmt leiðréttingarskýrslum virðisaukaskatts kæmi fram að starfsemin væri hugbúnaðargerð og ráðgjöf en það væri ekki hin eiginlega starfsemi sem þessi velta byggi á. Um þetta kom fram af hálfu gjaldanda að X ehf. hefði verið stofnað í kringum vefsíðugerð en starfsemin hefði breyst í rekstur söluturna í september 2008. Hefðu söluturnarnir verið staðsettir í M og N en starfsemi hefði nýlega verið hætt. Að ósk lögmanns gjaldanda var gjaldandi spurður að því hvort honum hefðu verið ljós vanskil skattaðila á opinberum gjöldum og virðisaukaskatti og sagði gjaldandi að það hefði verið þegar hann fékk tilkynningu frá skattrannsóknarstjóra ríkisins sem hann hefði séð að komið væri í óefni.

Við skýrslutöku af B, sem fram fór 24. janúar 2012, kom fram af hans hálfu að hann hefði komið að rekstri X ehf. sem aðstoðarmaður, en hann hefði verið í annarri vinnu á sama tíma. Sagðist B hafa verið í því að semja við birgja fyrir sjoppurnar. Hann hefði verið „fronturinn“ í því að koma þessu af stað. Þá hefði hann tekið saman tíma starfsmanna, þ.e. reiknað hlutfall dagvinnu og yfirvinnu starfsmanna, og sent á bókara. Einnig hefði hann annað slagið keypt eitthvað, eins og gos. Kvaðst B ekki hafa starfað á vöktum hjá X ehf. og ekki komið nálægt greiðslu á neinu nema þegar hann hefði verslað í Y. Þá hefði hann ekki verið á launaskrá hjá félaginu. Kvaðst B hafa verið í fullri vinnu hjá Z og hefði vinna hans fyrir X ehf. aðallega farið fram á kvöldin og um helgar. Hann hefði sótt bækur með tímum starfsmanna á leið heim úr vinnunni í lok mánaðar og svo hafi hann kannski keypt inn á föstudögum fyrir helgina og fyllt á kælana. Aðspurður um hlutverk gjaldanda í rekstri félagsins sagði B að gjaldandi hefði í raun ekkert komið að rekstrinum. Gjaldandi hefði átt fyrirtækið, en það hefði verið annar rekstur á því í upphafi, þ.e. vefsíðan W. Svo hefði þessi sjoppurekstur komið inn í sömu kennitölu. Gjaldandi hefði ekkert komið að rekstrinum, ekki verið með bankareikning, kort eða neitt. Kannski hefði það verið kæruleysi af hans hálfu að vera ekki meira upplýstur um stöðu mála. Gjaldandi hefði kannski fengið einhverjar tilkynningar sendar heim og þá haft samband við sig og hefði hann þá tjáð honum að samkomulag hefði verið gert við innheimtumann og hlyti hann að hafa reiknað með því að málið væri komið í einhvern farveg. Aðspurður um hver hefði verið daglegur stjórnandi félagsins sagði B að þeir hefðu verið með svokallaða rekstrarstjóra og þetta væri bara þannig rekstur að það væru unglingar í vinnu og mikil velta á starfsfólki. Rekstrarstjórarnir hefðu séð um innkaup fyrir söluturnana og í raun annast daglegan rekstur og fjármál félagsins, en reksturinn hafi verið erfiður. Sagði B að fyrsti rekstrarstjórinn hefði heitið C en mundi ekki föðurnafn hans. Síðan hefði stúlka að nafni D verið rekstrarstjóri og önnur sem komið hefði minna að rekstrinum. Sagði B að þetta hefði verið eins og enginn skipstjóri hefði verið um borð, það hefði vantað framkvæmdastjóra. Við skýrslutökuna vakti skattrannsóknarstjóri ríkisins athygli B á því að í dómi frá því í maí 2011, vegna innbrots í söluturninn, væri þess getið að B kæmi fram fyrir hönd X ehf. og benti það til þess að hann væri fyrirsvarsmaður félagsins. Í svari B kom fram að hann hefði verið í forsvari í samningum til að byrja með, m.a. við Æ, og því hefði hann fengið hringingar um miðja nótt þegar brotist var inn. Þá hefði hann mætt og gefið skýrslu. Hann hefði því kannski ekki verið andlit félagsins en hann hefði komið fram fyrir hönd þess gagnvart viðskiptavinum. Þá hefði hann komið fram fyrir hönd félagsins í dómsmálinu þar sem hann hefði sennilega verið í sambandi við lögregluna og gefið skýrslu vegna innbrotsins. Aðspurður kvaðst B hafa haft aðgang að bankareikningi félagsins en hann hefði örsjaldan „farið þar inn“ og ekki verið inn í þessu daglega. Þá hefði hann gert samkomulag um greiðslur við innheimtumann. Sagðist B hafa hætt afskiptum af fyrirtækinu líklega í september 2011. Aðspurður um hvort gjaldandi hefði óskað eftir því að hann aðstoðaði við reksturinn svaraði B játandi. Þeir hefðu ásamt fleirum verið að vinna saman á „gamla V“ þegar þeim hefði boðist að taka við sjoppurekstrinum. Gjaldandi hefði ekki haft áhuga á að koma nálægt sjoppurekstrinum en verið tilbúinn til að nýta þessa kennitölu áfram. Þá hefði verið farið í það að koma rekstrinum „á koppinn“ en B hefði dregið sig út úr þessu þegar honum bauðst fast starf hjá Z. Því hefðu afskipti hans verið minni en til stóð.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, er refsivert ef skattskyldur maður afhendir eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum borið að innheimta. Í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, er með samsvarandi hætti lýst refsivert ef launagreiðandi innir ekki af hendi þær greiðslur vegna launamanna sem hann hefur haldið eftir eða honum borið að halda eftir. Samkvæmt fortakslausum ákvæðum nefndra laga og með stoð í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar 27. febrúar 1997 (H 1997:789), 25. september 1997 (H 1997:2446), 14. janúar 1999 (H 1999:79), 18. febrúar 1999 (H 1999:544 og 550), 10. júní 1999 (H 1999:2645) og 30. mars 2000 (H 2000:1422), geta fyrirsvarsmenn lögaðila unnið til refsingar með því einu að láta ógert að skila umræddum gjöldum í ríkissjóð á tilskildum tíma, enda sé huglægum refsiskilyrðum fullnægt.

Sektarkrafa á hendur gjaldanda, A, er reist á því að hann hafi sem stjórnarmaður og prókúruhafi X ehf. borið ábyrgð á skattskilum félagsins. Gjaldandi mótmælir sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, sbr. bréf til yfirskattanefndar, dags. 21. janúar 2013, á þeim grundvelli að hann hafi ekkert komið að rekstri X ehf. þrátt fyrir að hafa verið skráður stjórnarmaður og prókúruhafi félagsins. Hið sama kom fram af hálfu gjaldanda við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins þar sem gjaldandi greindi frá því að B hefði séð um daglegan rekstur félagsins á rannsóknartímabilinu. Kvaðst gjaldandi þó ekki geta fullyrt að B hefði séð um fjármál félagsins en taldi að svo hefði verið. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra staðfesti B að gjaldandi hefði ekkert komið að daglegum rekstri X ehf. á rannsóknartímabilinu. Hins vegar kannaðist B ekki við að hafa sjálfur borið ábyrgð á málefnum félagsins. Í vörn gjaldanda til yfirskattanefndar kemur ekkert frekar fram um það hvernig stjórnun félagsins hafi verið háttað.

Gjaldandi, A, var einn stjórnarmaður X ehf. á þeim tíma sem mál þetta varðar, sbr. m.a. stofnfundargerð, dags. 21. janúar 2007, þar sem kemur fram að gjaldandi hafi verið kjörinn stjórnarmaður í einkahlutafélaginu á fundinum. Þá fór gjaldandi með prókúruumboð fyrir félagið. Varamaður í stjórn til 14. nóvember 2008 var E en frá þeim tíma F. Samkvæmt gögnum um skráningar í fyrirtækjaskrá vegna félagsins, sbr. fskj. nr. 3.1 – 3.8 með skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, var ekki skráður sérstakur framkvæmdastjóri hjá félaginu á þeim tíma sem hér um ræðir. Hvað sem líður aðkomu B að rekstri X ehf. verður ekki litið fram hjá því að gjaldandi, A, var samkvæmt framansögðu stjórnarmaður og prókúruhafi X ehf. allt það tímabil sem mál þetta varðar. Sem stjórnarmanni félagsins bar gjaldanda að afla sér vitneskju um rekstur félagsins, svo og að annast um að starfsemi þess væri jafnan í réttu og góðu horfi, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Sé misbrestur á því að fyrirsvarsmaður fyrirtækis sinni ábyrgðarskyldu sinni, kann sú vanræksla að baka honum refsiábyrgð, enda sé honum kunnugt um refsiverð brot í tengslum við rekstur fyrirtækisins eða hann hefur að öðru leyti sýnt af sér saknæman eftirlitsskort. Við skýrslutökur af gjaldanda og B kom fram að gjaldanda var kunnugt um að B hefði verið í samskiptum við tollstjóra um skattskuldir félagsins. Þá er til þess að líta að í máli þessu er um að tefla vanskil virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda nær samfellt um þriggja ára tímabil. Þegar til þessa er litið þykir með engu móti fá staðist sú viðbára gjaldanda að honum hafi ekki verið kunnugt um þá misbresti sem á rekstrinum voru. Að þessu virtu verður að telja að gjaldandi hafi af stórkostlegu gáleysi vanrækt eftirlitsskyldu sína sem fyrirsvarsmaður félagsins. Er sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins því réttilega beint að gjaldanda, sbr. til hliðsjónar m.a. dóma Hæstaréttar Íslands frá 14. október 1999 í málinu nr. 242/1999 og 23. nóvember 2000 í málinu nr. 277/2000.

Til grundvallar niðurstöðu skattrannsóknarstjóra ríkisins um fjárhæð vangreiddrar staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts X ehf. árin 2008, 2009, 2010 og 2011 liggur bókhald félagsins, staðgreiðsluskilagreinar og virðisaukaskattsskýrslur, þar á meðal leiðréttingarskýrslur virðisaukaskatts, sem ekki hefur verið vefengt að varði rekstur einkahlutafélagsins, sbr. skýrslutöku af gjaldanda 12. desember 2011. Ekki hafa komið fram athugasemdir af hálfu gjaldanda af þessu tilefni eða vegna niðurstöðu skattrannsóknarstjóra ríkisins um fjárhæð vangreidds virðisaukaskatts eða staðgreiðslu opinberra gjalda að öðru leyti. Samkvæmt framansögðu og að virtum gögnum málsins verður því byggt á niðurstöðum skýrslunnar að þessu leyti.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins og greinargerð með kröfugerð embættisins til yfirskattanefndar er gerð grein fyrir greiðslum X ehf. til innheimtumanns vegna staðgreiðslu, virðisaukaskatts og opinberra gjalda frá því að skuldir sem um ræðir í máli þessu vegna skilaskyldrar staðgreiðslu og virðisaukaskatts byrjuðu að myndast 15. október 2008. Fram kemur að á tímabilinu 15. október 2008 til og með 28. nóvember 2012 voru alls greiddar 1.380.766 kr. vegna höfuðstóls skilaskyldrar staðgreiðslu og 1.627.565 kr. vegna höfuðstóls virðisaukaskatts félagsins. Þar er að hluta um að ræða greiðslur vegna greiðslu- og uppgjörstímabila sem rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins tók til. Nánar tiltekið var 81.606 kr. ráðstafað inn á höfuðstól staðgreiðslu greiðslutímabilið september 2008 svo og voru greiddar 781.354 kr. inn á höfuðstól virðisaukaskatts félagsins vegna uppgjörstímabilanna september-október 2008, nóvember-desember 2009 og janúar-febrúar 2010. Eins og mál þetta er lagt fyrir af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins þykir rétt að þessar fjárhæðir, sem skil voru gerð á samkvæmt framangreindu áður en mál þetta var sent yfirskattanefnd til meðferðar, komi til frádráttar fjárhæð vangreiddrar staðgreiðslu og virðisaukaskatts samkvæmt kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins, enda er það í samræmi við það sem tíðkast hefur við meðferð hliðstæðra mála fyrir yfirskattanefnd. Verður því miðað við vangreidda staðgreiðslu að fjárhæð 2.774.190 kr. og virðisaukaskatt að fjárhæð 7.607.133 kr. í máli þessu.

Sá hluti greiðslna X ehf. á umræddu tímabili, sem innheimtumaður ríkissjóðs hefur ráðstafað til greiðslu dráttarvaxta, álags og kostnaðar nemur 317.609 kr. vegna staðgreiðslu og 265.198 kr. vegna virðisaukaskatts. Þá kemur fram í gögnum málsins að greiðslur til innheimtumanns ríkissjóðs vegna opinberra gjalda X ehf., þ.m.t. tryggingagjalds, á þeim tíma sem hér um ræðir, námu 1.026.462 kr. og var innborgunum að hluta varið til greiðslu dráttarvaxta og kostnaðar. Aðrar greiðslur félagsins til innheimtumanns en vegna höfuðstóls staðgreiðslu og virðisaukaskatts námu því 1.609.269 kr.

Með dómi Hæstaréttar Íslands 2. október 2003 (H 2003:3178), sem varðar hliðstætt mál, var því hafnað að greiðslur, sem innheimtumaður hefur ráðstafað upp í álag, dráttarvexti og kostnað, geti haft áhrif á sakarmat og komið með beinum hætti til frádráttar skattskuld sem viðurlagaákvörðun tekur til. Ekki verður talið að breyting með lögum nr. 134/2005 á refsiákvæðum laga nr. 45/1987 og nr. 50/1988 haggi þessari dómaframkvæmd. Með breytingalögum þessum er hins vegar skýrt kveðið á um það að greiðslur skattaðila á verulegum hluta skattfjárhæðar geti að uppfylltum ákveðnum skilyrðum leitt til þess að ákvæði um lágmark sektarrefsingar eigi ekki við. Samkvæmt dómum Hæstaréttar Íslands 30. mars 2006 í málunum nr. 428/2005 og 469/2005 ber að taka í þessu sambandi tillit til innborgana sem ráðstafað hefur verið til greiðslu álags vegna vangreiddrar staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna og vangreidds virðisaukaskatts, svo og skuli fara á sama hátt með greiðslur vegna staðgreiðslu opinberra gjalda þess fyrirsvarsmanns sem refsiábyrgð sætir. Ekki verður annað séð en að líta megi með hliðstæðum hætti til greiðslna viðkomandi skattaðila sem innheimtumaður hefur ráðstafað upp í dráttarvexti og kostnað, og eftir atvikum til greiðslu á opinberum gjöldum, enda er það í samræmi við úrskurðaframkvæmd fyrir gildistöku laga nr. 134/2005, sbr. og fyrrgreindan dóm Hæstaréttar frá árinu 2003 og aðra dóma í hliðstæðum málum, m.a. H 2000:2387. Eins og mál þetta liggur fyrir þykir því mega taka tillit til fyrrgreindra greiðslna X ehf. að fjárhæð 1.609.269 kr. Við mat á þýðingu þeirra fyrir sektarákvörðun þykir rétt að skipta þeim hluta innborgana, sem ráðstafað var til greiðslu opinberra gjalda X ehf., í hlutfalli við fjárhæðir vangoldinnar staðgreiðslu og virðisaukaskatts sem um ræðir í málinu. Innborganir vegna staðgreiðslu opinberra gjalda teljast þá nema 591.909 kr. og innborganir vegna virðisaukaskatts 1.017.360 kr.

Samkvæmt því sem að framan er rakið og gögnum málsins að öðru leyti var afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda vegna launamanna X ehf. greiðslutímabilin september og nóvember 2008, janúar, mars, apríl, maí, júní, júlí, september, október og desember 2009, janúar, febrúar, mars, apríl, maí, ágúst, september, október, nóvember og desember 2010 og janúar, mars, apríl, maí, júní, júlí og ágúst 2011, samtals að fjárhæð 2.855.796 kr., ekki greidd til innheimtumanns ríkissjóðs á tilskildum tíma, sbr. 1. og 2. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987. Þá var virðisaukaskattur X ehf. að fjárhæð 8.388.487 kr. uppgjörstímabilin september-október og nóvember-desember 2008, janúar-febrúar, mars-apríl, maí-júní, júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2009, janúar-febrúar, mars-apríl, maí-júní, júlí-ágúst og september-október 2010 og mars-apríl, maí-júní og júlí-ágúst 2011 ekki greiddur innheimtumanni ríkissjóðs á tilskildum tíma, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988. Vegna þeirra skýringa gjaldanda að líklega hafi fjárskortur X ehf. valdið þeim vanskilum á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti sem í málinu greinir skal tekið fram að ekki telst tæk varnarástæða að fé hafi ekki verið til í rekstri félagsins til að standa skil á umræddum gjöldum, sbr. m.a. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar Íslands frá 30. mars 2000 (H 2000:1422).

Með vísan til þess sem rakið hefur verið telst fullnægt þeim huglægu refsiskilyrðum sem fram koma í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 42/1995, og ber að ákvarða gjaldanda, A, sekt samkvæmt þessum lagaákvæðum vegna vanrækslu á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts í rekstri X ehf.

Eins og lög nr. 45/1987 og nr. 50/1988 hljóða eftir breytingar, sem á þeim voru gerðar með lögum nr. 42/1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem vanrækt var greiðsla á, þó að teknu tilliti til álags. Samkvæmt breytingu á greindum lögum með lögum nr. 134/2005 eiga fésektarákvæði þessi þó ekki við hafi brot einskorðast við að standa ekki skil á réttilega tilgreindri staðgreiðslu eða virðisaukaskatti samkvæmt skilagrein staðgreiðslu eða virðisaukaskattsskýrslu, enda hafi verið gerð skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur eru miklar. Í tilviki gjaldanda er til þess að líta að skilagreinar staðgreiðslu og virðisaukaskattsskýrslur liggja fyrir vegna allra tímabila staðgreiðslu og virðisaukaskatts sem málið varðar og eru fjárhæðir í málinu byggðar á skýrslum þessum. Sem fyrr segir verður lagt til grundvallar að greiðslur til innheimtumanns ríkissjóðs, sem hér beri að líta til, hafi numið 591.909 kr. vegna staðgreiðslu og 1.017.360 kr. vegna virðisaukaskatts. Fyrrnefnda fjárhæðin svarar til vangreiddrar staðgreiðslu vegna fyrstu ellefu greiðslutímabila staðgreiðslu sem sektarkrafa tekur til og verulegs hluta fjárhæðar tólfta tímabilsins. Síðarnefnda fjárhæðin telst með sama hætti greiðsla á vangreiddum virðisaukaskatti fyrstu þrjú uppgjörstímabil virðisaukaskatts sem mál þetta varðar auk verulegs hluta fjárhæðar fjórða tímabilsins. Samkvæmt þessu og í samræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands, sbr. fyrrgreinda dóma frá 30. mars 2006, verður því talið að sú undantekning frá fésektarlágmarki, sem mælt er fyrir um í lögum nr. 134/2005, taki til vanskila á staðgreiðslu opinberra gjalda greiðslutímabilin september og nóvember 2008, janúar, mars, apríl, maí, júní, júlí, september, október og desember 2009 og janúar 2010 að fjárhæð 675.373 kr. og á virðisaukaskatti uppgjörstímabilin september-október og nóvember-desember 2008, janúar-febrúar og mars-apríl 2009 að fjárhæð 1.073.676 kr. Ekki liggur annað fyrir en að vangreiðsla á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti vegna annarra tímabila hafi fyrst og fremst stafað af erfiðleikum í rekstri X ehf. og ekkert er komið fram um að gjaldandi hafi persónulega notið nokkurs hags af brotinu. Hins vegar varðar mál þetta vanskil á staðgreiðslu og virðisaukaskatti að ekki óverulegri fjárhæð og vegna langs tímabils. Að þessu virtu og með vísan til greindrar dómaframkvæmdar verður því ekki talið að skilyrði um miklar málsbætur, sbr. ákvæði laga nr. 134/2005, eigi hér við. Því teljast lágmarksákvæði 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 gilda um vanskil á staðgreiðslu opinberra gjalda að fjárhæð 2.098.817 kr. og virðisaukaskatti að fjárhæð 6.533.457 kr.

Samkvæmt framansögðu og að teknu tilliti til álags samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 16.500.000 kr. til ríkissjóðs.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 16.500.000 kr. til ríkissjóðs. 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum