2013

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 309/2013

2.10.2013

Úrskurður nr. 309/2013

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2013, miðvikudaginn 2. október, er tekið fyrir mál nr. 21/2013; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Sverrir Örn Björnsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 17. janúar 2013, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2007 til og með 2011.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A, sem stjórnarmanni, framkvæmdastjóra og prókúruhafa X ehf., (nú afskráð), er gefið að sök eftirfarandi:

1. Vangoldin afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda launamanna. Vanræksla á afhendingu skilagreina á lögmæltum tíma.

A er gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna X ehf. (nú afskráð) vegna greiðslutímabilanna júní til og með desember rekstrarárið 2008, janúar til og með desember rekstrarárið 2009, ágúst, september og nóvember rekstrarárið 2010 og janúar rekstrarárið 2011. Þá er A gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, vegna greiðslutímabilanna júní til og með desember rekstrarárið 2008 og janúar til og með nóvember rekstrarárið 2009 á lögmæltum tíma. Vangoldin afdregin skilaskyld staðgreiðsla opinberra gjalda launamanna X ehf., vegna framangreindra greiðslutímabila nemur samtals kr. 3.888.793. Fjárhæðin sundurliðast svo sem hér greinir:

Rekstrarár Greiðslu-tímabil Vangoldin staðgreiðsla skv. skilagreinum
2008 júní 170.569
2008 júlí 124.332
2008 ágúst 103.444
2008 september  103.444
2008 október 124.314
2008 nóvember 138.916
2008 desember 112.606
Samtals kr.    877.625
2009 janúar 221.412
2009 febrúar 221.412
2009 mars 221.412
2009 apríl 221.412
2009 maí 221.412
2009 júní 221.412
2009 júlí 221.412
2009 ágúst 221.412
2009 september 154.490
2009 október 154.490
2009 nóvember 154.490
2009 desember 154.490
Samtals kr.   2.389.256
2010 ágúst 155.504
2010 september 155.504
2010 nóvember 155.504
Samtals kr.   466.512
2011 janúar 155.400
Samtals kr.   155.400
Samtals bæði árin   3.888.793

Það er mat skattrannsóknarstjóra ríkisins, byggt á gögnum málsins, að ofangreindu hafi A komið til leiðar með saknæmum hætti, að því er frekast verður séð af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.

Telst þessi háttsemi A brjóta í bága við ákvæði 1. og 2. mgr. 20. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, sbr. aðalreglur 1.-3. gr., 1. tl. 5. gr., 1. mgr. 7. gr. og 1. og 3. mgr. 8. gr. þeirra laga.

Framangreind háttsemi varðar A sekt samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum.

2. Vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur. Vanræksla á afhendingu virðisaukaskattsskýrslna á lögmæltum tíma.

A er gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri X ehf. (nú afskráð) vegna uppgjörstímabilanna nóvember–desember rekstrarárið 2007, janúar–febrúar, maí–júní, júlí–ágúst, september–október og nóvember–desember rekstrarárið 2008, janúar–febrúar til og með nóvember–desember rekstrarárið 2009, mars–apríl, júlí–ágúst, september–október og nóvember–desember rekstrarárið 2010 og janúar–febrúar og mars–apríl rekstrarárið 2011. Þá er A gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna nóvember–desember rekstrarárið 2007, júlí–ágúst og nóvember–desember rekstrarárið 2008, mars–apríl, maí–júní, júlí–ágúst og nóvember–desember rekstrarárið 2009, september–október rekstrarárið 2010 og janúar–febrúar rekstrarárið 2011 á lögmæltum tíma. Vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur til innheimtumanns ríkissjóðs vegna framangreindra uppgjörstímabila nemur samtals kr. 7.785.294. Fjárhæðin sundurliðast svo sem hér greinir:

Rekstrarár Uppgjörstímabil Vangoldinn virðisaukaskattur til innheimtumanns ríkissjóðs kr.
2007 nóv. – des. 1.313.896
Samtals kr.   1.313.896
2008 jan. –  feb.  672.034
2008 maí –  júní 643.815
2008 júlí – ágúst 354.474
2008 sept. – okt. 384.942
2008 nóv. – des. 205.030
Samtals kr.   2.260.295
2009 jan. –  feb. 367.808
2009 mars –  apríl. 347.226
2009 maí –  júní 301.767
2009 júlí – ágúst 161.210
2009 sept. – okt. 260.535
2009 nóv. –  des. 460.421
Samtals kr.   1.898.967
2010 mars –  apríl. 410.730
2010 júlí – ágúst 496.990
2010 sept. – okt. 289.364
2010 nóv. –  des. 753.757
Samtals kr.   1.950.841
2011 jan. –  feb. 112.460
2011 mars –  apríl. 248.835
Samtals kr.   361.295
Samtals öll árin kr.   7.785.294

Það er mat skattrannsóknarstjóra ríkisins, byggt á gögnum málsins, að framangreindu hafi A komið til leiðar með saknæmum hætti, að því er frekast verður séð af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.

Telst þessi háttsemi A brjóta í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. og 2. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Framangreind háttsemi varðar A sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 17. janúar 2013, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 18. janúar 2013, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hún vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hennar og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 17. janúar 2013, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með því að hún hafi sem fyrrum fyrirsvarsmaður X ehf., nú afskráð, vanrækt að standa skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna félagsins tiltekin greiðslutímabil árin 2008, 2009, 2010 og 2011 og vanrækt skil á virðisaukaskatti félagsins tiltekin uppgjörstímabil árin 2007, 2008, 2009, 2010 og 2011. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hún mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf hinn 23. mars 2012 rannsókn á skattskilum X ehf. er beindist að skilum félagsins á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launamanna félagsins og virðisaukaskatti árin 2007, 2008, 2009, 2010 og 2011. Skráður tilgangur X ehf. á þessu tímabili var m.a. pípulagnir, viðhald og eftirlit með sprinklerkerfum, hreinsun á forhiturum og almenn verktaka- og þjónustustarfsemi. Samkvæmt gögnum málsins var bú X ehf. tekið til gjaldþrotaskipta hinn 21. desember 2011 og lauk skiptum 5. mars 2012. Var félagið afskráð 22. mars 2012. Vegna rannsóknarinnar tók skattrannsóknarstjóri ríkisins skýrslu af gjaldanda, A, hinn 30. mars 2012, en einnig var tekin skýrsla af B vegna málsins 18. apríl 2012. Með bréfum, dags. 3. maí 2012, sendi skattrannsóknarstjóri ríkisins gjaldanda, B og skiptastjóra þrotabús X ehf. skýrslu um rannsóknina sem þá lá fyrir, dags. 27. apríl 2012, og gaf þeim kost á að tjá sig um efni hennar. Skiptastjóri þrotabús X ehf. gerði athugasemdir við tiltekið atriði í skýrslunni, en andmæli bárust ekki frá gjaldanda eða B. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 21. maí 2012, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 21. maí 2012, segir að rannsókn á skattskilum X ehf. hafi einkum verið byggð á upplýsingum sem fram hafi komið við fyrrgreindar skýrslutökur, staðgreiðsluskilagreinum X ehf. ásamt sundurliðunum, virðisaukaskattsskýrslum og leiðréttingarskýrslum virðisaukaskatts, upplýsingum frá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, svo og tekjubókhaldi ríkissjóðs, sbr. fylgiskjöl með skýrslunni, en þar er um að ræða yfirlit um greiðslur X ehf. vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, virðisaukaskatts og opinberra gjalda.

Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að rannsókn embættisins á staðgreiðsluskilum X ehf. hafi falist í því að bera fjárhæðir afdreginnar staðgreiðslu samkvæmt staðgreiðsluskilagreinum og sundurliðunum félagsins saman við greiðslur þess til innheimtumanns ríkissjóðs. Í skýrslunni er gerð grein fyrir þeirri niðurstöðu rannsóknarinnar að fyrrum fyrirsvarsmenn X ehf. hafi ekki staðið skil innan lögboðins frests á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launamanna félagsins greiðslutímabilin júní til og með desember 2008, janúar til og með desember 2009, ágúst, september og nóvember 2010 og janúar 2011, samtals að fjárhæð 3.888.793 kr. Fram kemur að afdregin staðgreiðsla af launum B nemi samtals 1.219.882 kr. þau tímabil sem hér um ræðir.

Rannsókn á virðisaukaskattsskilum X ehf. var samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins fólgin í því að bera fjárhæð innheimts virðisaukaskatts samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum saman við greiðslur félagsins til innheimtumanns og er rakin sú niðurstaða rannsóknarinnar að fyrrum fyrirsvarsmenn félagsins hafi ekki staðið skil á virðisaukaskatti vegna félagsins innan lögboðins frests uppgjörstímabilin nóvember-desember 2007, janúar-febrúar, maí-júní, júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2008, janúar-febrúar til og með nóvember-desember 2009, mars-apríl, júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2010 og janúar-febrúar og mars-apríl 2011 að fjárhæð samtals 7.785.294 kr. Í skýrslunni kemur fram að greiddar hafi verið 845.742 kr. inn á höfuðstól virðisaukaskatts vegna fyrrgreindra uppgjörstímabila.

Gjaldandi, A, greindi frá því við skýrslutöku, sem fram fór hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 30. mars 2012, að hún hefði verið eigandi og skráður fyrirsvarsmaður X ehf. á því tímabili sem rannsóknin varðaði. Félagið hefði verið stofnað í kringum atvinnu eiginmanns gjaldanda og tengdaföður og hefðu þeir starfað fyrir félagið. Kvaðst gjaldandi hafa „svarað fyrir innheimtuna á þessu“ og séð um bókhaldið en ekki komið nálægt einstaka verkum eða neinu slíku út á við. Hefðu eiginmaður gjaldanda, B, og tengdafaðir, C, stýrt verkefnunum. Þá hefðu gjaldandi og B stýrt fjármálunum í sameiningu, en gjaldandi hefði m.a. séð um skýrslugerð og að senda inn skýrslur, greiða reikninga og annast samninga við lánardrottna. Við skýrslutökuna voru bornar undir gjaldanda fyrirliggjandi staðgreiðsluskilagreinar og virðisaukaskattsskýrslur X ehf. vegna þeirra greiðslu- og uppgjörstímabila sem rannsóknin tók til. Staðfesti gjaldandi undirritun sína á þær staðgreiðsluskilagreinar og virðisaukaskattsskýrslur sem ekki hafi verið skilað með rafrænum hætti og kvaðst sjálf hafa útbúið skýrslurnar. Taldi gjaldandi að gögnin gæfu rétta mynd af rekstri félagsins. Gjaldanda var kynnt að samkvæmt gögnum málsins hefði staðgreiðsla opinberra gjalda að fjárhæð 3.888.793 kr. vegna launamanna X ehf. tiltekin greiðslutímabil árin 2008, 2009, 2010 og 2011 ekki verið greidd á lögmæltum tíma og að virðisaukaskattur að fjárhæð 7.785.294 kr. tiltekin uppgjörstímabil árin 2007, 2008, 2009, 2010 og 2011 hefði ekki verið greiddur á lögmæltum tíma, en gjaldandi vildi ekki tjá sig um þessar fjárhæðir. Fram kom af hálfu gjaldanda að sökum rekstrarerfiðleika hefði afdreginni staðgreiðslu og innheimtum virðisaukaskatti ekki verið skilað á lögmæltum tíma. Sagði gjaldandi að dóttir þeirra B hefði staðið í skilnaðar- og forsjárdeilu í Y á þessum tíma og hafi þau farið til Y til að hjálpa henni. Þegar þau hafi verið komin í vanskil hafi verið erfitt að greiða þau niður og vanskilin vaxið. Af hálfu gjaldanda kom fram að starfsmenn X ehf. hefðu fengið laun sín greidd að fullu að öðru leyti en því að hugsanlegt væri að D ætti inni ógreidd laun. Gjaldandi kvaðst ekki muna hvort óskað hafi verið eftir því við innheimtumann að greiðslum X ehf. yrði ráðstafað með sérstökum hætti. Kvaðst gjaldandi vilja taka fram að ásetningur hafi aldrei staðið til að þetta endaði svona.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, er refsivert ef skattskyldur maður afhendir eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum borið að innheimta. Í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, er með samsvarandi hætti lýst refsivert ef launagreiðandi innir ekki af hendi þær greiðslur vegna launamanna sem hann hefur haldið eftir eða honum borið að halda eftir. Samkvæmt fortakslausum ákvæðum nefndra laga og með stoð í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar 27. febrúar 1997 (H 1997:789), 25. september 1997 (H 1997:2446), 14. janúar 1999 (H 1999:79), 18. febrúar 1999 (H 1999:544 og 550), 10. júní 1999 (H 1999:2645) og 30. mars 2000 (H 2000:1422), geta fyrirsvarsmenn lögaðila unnið til refsingar með því einu að láta ógert að skila umræddum gjöldum í ríkissjóð á tilskildum tíma, enda sé huglægum refsiskilyrðum fullnægt.

Gjaldandi, A, var stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi X ehf. á þeim tíma sem mál þetta varðar. Gjaldandi bar því ábyrgð á daglegum rekstri félagsins, þar á meðal fjárreiðum, og var til þess bær að taka ákvörðun um hvaða kröfur á hendur félaginu skyldu greiddar og hverjar ekki. Samkvæmt framangreindu telst gjaldandi hafa borið ábyrgð á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts X ehf. og er sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins því réttilega beint að gjaldanda.

Til grundvallar niðurstöðu skattrannsóknarstjóra ríkisins um fjárhæð vangreiddrar staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts X ehf. árin 2007, 2008, 2009, 2010 og 2011 liggja staðgreiðsluskilagreinar og virðisaukaskattsskýrslur sem gjaldandi hefur staðfest að varði rekstur einkahlutafélagsins, sbr. skýrslutöku af gjaldanda 30. mars 2012, þar sem einnig kom fram það álit gjaldanda að gögnin gæfu rétta mynd af rekstrinum. Ekki hafa komið fram athugasemdir af hálfu gjaldanda af þessu tilefni eða vegna niðurstöðu skattrannsóknarstjóra ríkisins um fjárhæð vangreidds virðisaukaskatts eða staðgreiðslu opinberra gjalda. Þykja gögn málsins ekki gefa tilefni til annars en að byggja á því að staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur, sem gjaldanda bar að standa skil á vegna X ehf., hafi numið þeim fjárhæðum sem greinir í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra í máli þessu er byggð á niðurstöðum í skýrslu embættisins.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins og greinargerð með kröfugerð embættisins til yfirskattanefndar er gerð grein fyrir greiðslum X ehf. til innheimtumanns vegna staðgreiðslu, virðisaukaskatts og opinberra gjalda frá því að skuldir sem um ræðir í máli þessu vegna skilaskyldrar staðgreiðslu og virðisaukaskatts byrjuðu að myndast 5. febrúar 2008. Fram kemur að á tímabilinu 5. febrúar 2008 til og með 16. janúar 2013 voru alls greiddar 2.325.662 kr. vegna höfuðstóls skilaskyldrar staðgreiðslu og 2.818.171 kr. vegna höfuðstóls virðisaukaskatts félagsins. Vegna síðarnefndrar fjárhæðar er að hluta um að ræða greiðslur vegna uppgjörstímabila sem rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins tók til. Nánar tiltekið var 845.742 kr. ráðstafað inn á höfuðstól virðisaukaskatts félagsins vegna uppgjörstímabilanna nóvember-desember 2007, júlí-ágúst 2008 og mars-apríl 2010. Eins og mál þetta er lagt fyrir af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins þykir rétt að þessi fjárhæð, sem skil voru gerð á samkvæmt framangreindu áður en mál þetta var sent yfirskattanefnd til meðferðar, komi til frádráttar fjárhæð vangreidds virðisaukaskatts samkvæmt kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins, enda er það í samræmi við það sem tíðkast hefur við meðferð hliðstæðra mála fyrir yfirskattanefnd. Verður því miðað við vangreidda staðgreiðslu að fjárhæð 3.888.793 kr. og virðisaukaskatt að fjárhæð 6.939.552 kr. í máli þessu.

Sá hluti greiðslna X ehf. á umræddu tímabili, sem innheimtumaður ríkissjóðs hefur ráðstafað til greiðslu dráttarvaxta, álags og kostnaðar nemur 289.110 kr. vegna staðgreiðslu og 514.838 kr. vegna virðisaukaskatts. Þá kemur fram í gögnum málsins að greiðslur til innheimtumanns ríkissjóðs vegna opinberra gjalda X ehf., þ.m.t. tryggingagjalds, á þeim tíma sem hér um ræðir, námu 860.672 kr. og var innborgunum að hluta varið til greiðslu dráttarvaxta og kostnaðar. Aðrar greiðslur félagsins til innheimtumanns en vegna höfuðstóls staðgreiðslu og virðisaukaskatts námu því 1.664.620 kr.

Með dómi Hæstaréttar Íslands 2. október 2003 (H 2003:3178), sem varðar hliðstætt mál, var því hafnað að greiðslur, sem innheimtumaður hefur ráðstafað upp í álag, dráttarvexti og kostnað, geti haft áhrif á sakarmat og komið með beinum hætti til frádráttar skattskuld sem viðurlagaákvörðun tekur til. Ekki verður talið að breyting með lögum nr. 134/2005 á refsiákvæðum laga nr. 45/1987 og nr. 50/1988 haggi þessari dómaframkvæmd. Með breytingalögum þessum er hins vegar skýrt kveðið á um það að greiðslur skattaðila á verulegum hluta skattfjárhæðar geti að uppfylltum ákveðnum skilyrðum leitt til þess að ákvæði um lágmark sektarrefsingar eigi ekki við. Samkvæmt dómum Hæstaréttar Íslands 30. mars 2006 í málunum nr. 428/2005 og 469/2005 ber að taka í þessu sambandi tillit til innborgana sem ráðstafað hefur verið til greiðslu álags vegna vangreiddrar staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna og vangreidds virðisaukaskatts, svo og skuli fara á sama hátt með greiðslur vegna staðgreiðslu opinberra gjalda þess fyrirsvarsmanns sem refsiábyrgð sætir. Ekki verður annað séð en að líta megi með hliðstæðum hætti til greiðslna viðkomandi skattaðila sem innheimtumaður hefur ráðstafað upp í dráttarvexti og kostnað, og eftir atvikum til greiðslu á opinberum gjöldum, enda er það í samræmi við úrskurðaframkvæmd fyrir gildistöku laga nr. 134/2005, sbr. og fyrrgreindan dóm Hæstaréttar frá árinu 2003 og aðra dóma í hliðstæðum málum, m.a. H 2000:2387. Eins og mál þetta liggur fyrir þykir því mega taka tillit til fyrrgreindra greiðslna X ehf. að fjárhæð 1.664.620 kr. Við mat á þýðingu þeirra fyrir sektarákvörðun þykir rétt að skipta þeim hluta innborgana, sem ráðstafað var til greiðslu opinberra gjalda X ehf., í hlutfalli við fjárhæðir vangoldinnar staðgreiðslu og virðisaukaskatts sem um ræðir í málinu. Innborganir vegna staðgreiðslu opinberra gjalda teljast þá nema 598.204 kr. og innborganir vegna virðisaukaskatts 1.066.416 kr.

Samkvæmt því sem að framan er rakið og gögnum málsins að öðru leyti var afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda vegna launamanna X ehf. greiðslutímabilin júní til og með desember 2008, janúar til og með desember 2009, ágúst, september og nóvember 2010 og janúar 2011, samtals að fjárhæð 3.888.793 kr., ekki greidd til innheimtumanns ríkissjóðs á tilskildum tíma, sbr. 1. og 2. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987. Þá var virðisaukaskattur X ehf. að fjárhæð 6.939.552 kr. uppgjörstímabilin nóvember-desember 2007, janúar-febrúar, maí-júní, júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2008, janúar-febrúar til og með nóvember-desember 2009, mars-apríl, júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2010 og janúar-febrúar og mars-apríl 2011, ekki greiddur innheimtumanni ríkissjóðs á tilskildum tíma, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988. Vegna þeirra skýringa gjaldanda að rekstrarerfiðleikar X ehf. hafi valdið þeim vanskilum á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti sem í málinu greinir skal tekið fram að ekki telst tæk varnarástæða að fé hafi ekki verið til í rekstri félagsins til að standa skil á umræddum gjöldum, sbr. m.a. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar Íslands frá 30. mars 2000 (H 2000:1422).

Með vísan til þess sem rakið hefur verið telst fullnægt þeim huglægu refsiskilyrðum sem fram koma í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 42/1995. Ber að ákvarða gjaldanda, A, sekt samkvæmt þessum lagaákvæðum vegna vanrækslu á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts í rekstri X ehf.

Eins og lög nr. 45/1987 og lög nr. 50/1988 hljóða eftir breytingar, sem á þeim voru gerðar með lögum nr. 42/1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem vanrækt var greiðsla á, þó að teknu tilliti til álags. Samkvæmt breytingu á greindum lögum með lögum nr. 134/2005 eiga fésektarákvæði þessi þó ekki við hafi brot einskorðast við að standa ekki skil á réttilega tilgreindri staðgreiðslu eða virðisaukaskatti samkvæmt skilagrein staðgreiðslu eða virðisaukaskattsskýrslu, enda hafi verið gerð skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur eru miklar. Í tilviki gjaldanda er til þess að líta að staðgreiðsluskilagreinar og virðisaukaskattsskýrslur liggja fyrir vegna allra greiðslu- og uppgjörstímabila sem málið varðar og eru fjárhæðir í málinu byggðar á þeim. Sem fyrr segir verður lagt til grundvallar að greiðslur til innheimtumanns ríkissjóðs, sem hér beri að líta til, hafi numið 598.204 kr. vegna staðgreiðslu og 1.066.416 kr. vegna virðisaukaskatts. Svarar fyrrnefnda fjárhæðin til vangreiddrar staðgreiðslu vegna fyrstu fjögurra greiðslutímabila staðgreiðslu sem sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins tekur til og verulegs hluta fjárhæðar fimmta tímabilsins. Að teknu tilliti til innborgana á höfuðstól svara greiðslur vegna virðisaukaskatts með sama hætti til vangreidds virðisaukaskatts félagsins vegna fyrsta uppgjörstímabils virðisaukaskatts sem málið varðar og verulegs hluta fjárhæðar annars tímabilsins. Samkvæmt þessu og í samræmi við greinda dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands, sbr. fyrrgreinda dóma frá 30. mars 2006, verður því talið að sú undantekning frá fésektarlágmarki, sem mælt er fyrir um í lögum nr. 134/2005, taki til vanskila á staðgreiðslu opinberra gjalda að fjárhæð samtals 626.103 kr. og á virðisaukaskatti að fjárhæð samtals 1.243.546 kr. fyrrgreind tímabil. Ekki liggur annað fyrir en að vangreiðsla á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti vegna annarra tímabila hafi fyrst og fremst stafað af erfiðleikum í rekstri X ehf. og ekkert er komið fram um að gjaldandi hafi persónulega notið nokkurs hags af brotinu. Hins vegar varðar mál þetta vanskil á staðgreiðslu og virðisaukaskatti að ekki óverulegri fjárhæð og vegna alllangs tímabils. Að þessu virtu og með vísan til greindrar dómaframkvæmdar verður því ekki talið að skilyrði um miklar málsbætur, sbr. ákvæði laga nr. 134/2005, eigi hér við. Því teljast lágmarksákvæði í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 gilda um vanskil staðgreiðslu að fjárhæð 3.262.690 kr. og virðisaukaskatts að fjárhæð 5.696.006 kr.

Samkvæmt framansögðu og að teknu tilliti til álags samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 17.200.000 kr. til ríkissjóðs.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 17.200.000 kr. til ríkissjóðs.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum