2014

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 46/2014

26.2.2014

Úrskurður nr. 46/2014

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2014, miðvikudaginn 26. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 40/2013; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], B, kt. [...], C, kt. [...], og D, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Sverrir Örn Björnsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I

Með bréfi, dags. 30. janúar 2013, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], B, kt. [...], C, kt. [...] og D, kt. [...] fyrir brot á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2009 og 2010.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A sem skráðum framkvæmdastjóra og prókúruhafa skattaðila, X[sic] ehf. (nú þrotabú), frá 1. nóvember 2008 til og með 1. september 2009, D sem skráðum framkvæmdastjóra skattaðila frá 1. september til og með 15. desember 2009, C sem framkvæmdastjóra og prókúruhafa skattaðila frá 15. desember 2009 til og með 11. janúar 2010 og sem stjórnarmanni, framkvæmdastjóra og prókúruhafa frá 11. janúar til og með 8. mars 2010 og B sem stjórnarmanni og prókúruhafa skattaðila frá 1. nóvember 2008 til og með 11. janúar 2010 er gefið að sök eftirfarandi:

1. Vangoldin afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda launamanna.

A er gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna X ehf. (nú þrotabú) vegna greiðslutímabilsins júlí 2009. Hið sama er B gefið að sök vegna greiðslutímabilanna júlí, ágúst, september, október, nóvember og desember rekstrarárið 2009, C vegna greiðslutímabilanna desember rekstrarárið 2009 og janúar rekstrarárið 2010 og D vegna greiðslutímabilanna ágúst, september, október og nóvember rekstrarárið 2009.

Vangoldin afdregin skilaskyld staðgreiðsla opinberra gjalda launamanna X ehf. vegna framangreindra greiðslutímabila nemur samtals kr. 6.080.765. Fjárhæðin og afdregin staðgreiðsla fyrirsvarsmanna sundurliðast svo sem hér greinir: (Staðgreiðsla fyrirsvarsmanna vegna þeirra tímabila sem þeir eru taldir ábyrgir fyrir skilum á er [undirstrikuð].) 

Rekstrarár Greiðslu-tímabil Vangoldin staðgreiðsla skv. skilagreinum, kr. Afdregin staðgreiðsla D, kr. Afdregin staðgreiðsla A, kr. Afdregin staðgreiðsla C, kr.
2009 júlí

            

 590.830    

 

1.037                                

                375.481                                 -    
2009 ágúst

             

582.765    

              

129.806    

                  90.202                                 -    
2009 september

          

1.070.225    

              

 123.137    

                174.317                                 -    
2009 október

          

1.347.486    

              

 146.428    

                135.380                                 15.783    
2009 nóvember

          

1.091.676    

                

 99.556    

                140.118                                 96.694    
2009 desember

             

839.502    

 

46.385                                

                161.443    

                

 73.105    

 

Samtals kr.

 

      

 5.522.484    

 

546.349    

    

 1.076.941    

 

185.582    

 

2010

janúar

           

  558.281    

                 

53.537    

              

34.728    

                

 74.440    

 

Samtals kr.

558.281     53.537                                   34.782      74.440      

 

Samtals bæði árin kr.

 

6.080.765

 

599.886             

 

1.111.723          

 

260.022             

 

Í töflunni hér að neðan eru sundurgreindar eftir greiðslutímabilum þær fjárhæðir vangoldinnar staðgreiðslu sem einstakir fyrirsvarsmenn eru taldir bera ábyrgð á að teknu tilliti til staðgreiðslu af eigin launum.  

 

Rekstrar-ár Greiðslu-tímabil Vangoldin staðgreiðsla skv. skila-greinum, kr. Ábyrgð A, kr. Ábyrgð D, kr. Ábyrgð C, kr. Ábyrgð B, kr.
2009 júlí               590.830    

 

215.349                                

   

        

590.830    

2009 ágúst               582.765       452.959               582.765    
2009 september            1.070.225       947.088              1.070.225    
2009 október            1.347.486       1.201.058              1.347.486    
2009 nóvember            1.091.676      

 

992.291

 

 

      

1.091.676    

2009 desember               839.502                                       

 

766.397

              839.502    

 

Samtals kr.

       5.522.484                   215.349                3.593.396

 

766.397                

   

5.522.484

 
2010 janúar               558.281                                       

 

483.841                 

          
Samtals kr.

 

558.281    

                                                                483.841    
Samtals bæði árin kr.

      

6.080.765

              218.349                3.593.396    

 

1.250.238             

 

5.522.484

 

Það er mat skattrannsóknarstjóra ríkisins, byggt á gögnum málsins, að ofangreindu hafi A, B, C og D komið til leiðar með saknæmum hætti, að því er frekast verður séð af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.

Telst þessi háttsemi A, B, C og D brjóta í bága við ákvæði 1. og 2. mgr. 20. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, sbr. aðalreglur 1.-3. gr., 1. tl. 5. gr., 1. mgr. 7. gr. og 1. og 3. mgr. 8. gr. þeirra laga.

Framangreind háttsemi varðar A, B, C og D sekt samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum.

2. Vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur. Vanræksla á afhendingu virðisaukaskattsskýrslna á lögmæltum tíma.

B og D er gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri X ehf. (nú þrotabú) vegna uppgjörstímabilanna júlí–ágúst og september–október og nóvember–desember rekstrarárið 2009. Hið sama er C gefið að sök vegna uppgjörstímabilsins nóvember–desember rekstrarárið 2009. Þá er B og D gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs á lögmæltum tíma skil á virðisaukaskattsskýrslu vegna uppgjörstímabilsins júlí – ágúst rekstrarárið 2009.

Vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur til innheimtumanns ríkissjóðs vegna framangreindra uppgjörstímabila nemur samtals kr. 3.753.046. Fjárhæðin sundurliðast svo sem hér greinir: 

Rekstrarár  Uppgjörstímabil Vangoldinn virðisaukaskattur til innheimtumanns ríkissjóðs kr.
2009 júlí. – ágúst.      1.791.661    
2009 sept. – okt.      1.581.982    
2009 nóv. – des.     379.403    
Samtals kr.   3.753.046

Það er mat skattrannsóknarstjóra ríkisins, byggt á gögnum málsins, að framangreindu hafi A, B, C og D komið til leiðar með saknæmum hætti, að því er frekast verður séð af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.

Telst þessi háttsemi B, C og D brjóta í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. og 2. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Framangreind háttsemi varðar B, C og D sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að B, C og D verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 30. janúar 2013, sem fylgdi kröfugerðinni.

II

Með bréfum yfirskattanefndar, dags. 1. febrúar 2013, sbr. og bréf yfirskattanefndar til gjaldanda, C, dags. 22. mars 2013, var gjaldendum veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef gjaldendur vildu ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál þeirra og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Með bréfi, dags. 19. mars 2013, hefur umboðsmaður gjaldanda, D, lagt fram vörn í málinu. Er þess krafist að gjaldanda verði ekki gerð sekt og til vara að honum verði ákveðin vægasta refsing sem lög leyfi. Þá er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði.

Því til stuðnings að gjaldanda verði ekki gerð sekt í málinu er vísað til þess að aðkoma gjaldanda að rekstri X ehf. hafi eingöngu verið að nafninu til og hafi gjaldandi ekki haft neina aðkomu að ákvörðunum eða daglegri stjórn félagsins. Öll gögn málsins styðji þessa staðreynd, þar á meðal launaseðlar gjaldanda og framburður annarra aðila í málinu. Sé óljóst hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi hugað nægilega að því hvort gjaldandi hefði aðstöðu til að kynna sér stöðu félagsins, en gjaldandi hafi ekki vitað um erfiðleika í rekstri þess. Af hálfu gjaldanda sé í þessu sambandi vísað til dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 392/2006 og dóms Hæstaréttar Íslands (H 1948:108), og dóms héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. S-250/2008.

Vegna varakröfu kemur fram að gjaldandi hafi verið skráður framkvæmdastjóri X ehf. frá 21. september 2009, en þá hafi tilkynning um breytingu á framkvæmdastjórn verið móttekin af ríkisskattstjóra. Sé því mótmælt að gjaldandi beri ábyrgð á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda greiðslutímabilið ágúst 2009, enda hafi gjaldandi ekki verið skráður fyrirsvarsmaður félagsins á gjalddaga þess tímabils. Af sömu ástæðu geti gjaldandi ekki borið ábyrgð á skilum virðisaukaskatts fyrir uppgjörstímabilið júlí-ágúst 2009 þó gjalddagi tímabilsins sé 5. október 2009. Verði ekki fallist á það sé augljóst að gjaldandi beri ekki ábyrgð á vangoldnum virðisaukaskatti fyrir tímabilið nóvember-desember 2009, enda hafi eindagi þess tímabils verið 5. febrúar 2010, en gjaldandi hafi látið af starfi framkvæmdastjóra 15. desember 2009. Þá beri að líta til þess, gjaldanda til hagsbóta, að brot hans hafi falist í stórkostlegu gáleysi frekar en ásetningi, enda hafi hann ekki haft aðkomu að rekstri félagsins og brotin í reynd flest framin án hans vitneskju.

Með bréfi umboðsmanns gjaldanda, D, dags. 28. janúar 2014, eru áréttuð sjónarmið í ofangreindu bréfi frá 19. mars 2013. Þá er tekið fram að eftir ritun þess bréfs hafi fallið dómar í Hæstarétti sem renni stoðum undir aðalkröfu gjaldanda. Í nýlegri dómaframkvæmd séu gerðar ríkari kröfur en áður til beinna áhrifa stjórnarmanna að rekstri félags svo að til refsiábyrgðar komi vegna vanskila á sköttum og opinberum gjöldum. Þótt ljóst sé að ábyrgð stjórnenda einkahlutafélaga sé rík séu hins vegar engin rök til þess að líta svo á að ábyrgðin sé fortakslaus. Í samræmi við grunnreglur refsiréttar sé eðlilegt að refsiábyrgð beinist að þeim sem sannanlega beri ábyrgð á brotum, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 612/2009, nr. 354/2013 og nr. 388/2013. Samkvæmt framburði allra aðila, sem aðkomu hafi að því máli sem hér sé til meðferðar, hafi gjaldandi verið óbreyttur starfsmaður hjá X ehf., svo sem launakjör hans beri einnig með sér. Félagið hafi hins vegar lotið daglegri stjórn A sem annast hafi öll fjármál og skattskil. Hins vegar hafi gjaldanda verið ómögulegt að hafa áhrif á skil virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda.

Með bréfi, dags. 30. apríl 2013, hefur umboðsmaður gjaldanda, C, lagt fram vörn í málinu. Í bréfinu er rakið að gjaldandi hafi einungis verið framkvæmdastjóri X ehf. að nafninu til. Hafi gjaldandi sýnt greiðsluvilja í verki þegar hún hafi haft samband við sýslumanninn í Hafnarfirði í þeim tilgangi að greiða vangreidda staðgreiðslu, virðisaukaskatt og þing- og sveitarsjóðsgjöld, sbr. meðfylgjandi greiðsluáætlun frá sýslumanninum í Hafnarfirði. Áætlunin hafi hins vegar aldrei komist til framkvæmda þar sem gjaldandi hafi hætt störfum hjá félaginu þegar henni hafi orðið ljósir ýmsir gjörningar yfirmanna hennar sem hafi ofboðið siðferðiskennd hennar. Af gögnum málsins megi ráða að gjaldandi hafi ekki haft neina hagnaðarvon eða ásetning til að brjóta gegn ákvæðum laga. Þá sýni vilji hennar til að greiða vangreidd gjöld í samræmi við meðfylgjandi greiðsluáætlun að ekki hafi verið um stórkostlegt gáleysi að ræða. Er þess krafist í bréfinu að málið verði látið niður falla gagnvart gjaldanda.

Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldendum, A og B.

III

Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 30. janúar 2013, er gerð sú krafa að gjaldendum, A, B, C og D, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með því að þau hafi sem fyrirsvarsmenn X ehf., nú þrotabú, vanrækt að standa skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna félagsins tiltekin greiðslutímabil árin 2009 og 2010 og vanrækt skil á virðisaukaskatti félagsins þau uppgjörstímabil árið 2009 sem þar greinir. Umboðsmenn gjaldenda, C og D, hafa lagt fram athugasemdir í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Gjaldendur, A og B, hafa átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldendur hafa ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að þeir mæli því ekki í gegn að málið sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf hinn 15. mars 2012 rannsókn á skattskilum X ehf. er beindist að skilum félagsins á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launamanna félagsins árin 2009 og 2010. Skráður tilgangur X ehf. á þessu tímabili var byggingastarfsemi, rekstur fasteigna og skyldur rekstur. Vegna rannsóknarinnar voru teknar skýrslur af gjaldendum hjá embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins, sbr. skýrslutökur af gjaldanda, B, hinn 22. mars 2012, af gjaldanda, C, hinn 23. mars 2012, af gjaldanda, D, hinn 23. mars 2012, og af gjaldanda, A, hinn 29. mars 2012. Með bréfum, dags. 17. apríl 2012, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldendum og skiptastjóra þrotabús X ehf. skýrslu um rannsóknina sem þá lá fyrir, dags. 16. apríl 2012, og gaf þeim kost á að tjá sig um efni hennar. Að fengnum athugasemdum tilnefndra verjenda gjaldenda, C og D, með bréfum, dags. 11. apríl 2012 og 4. maí 2012, tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 14. maí 2012, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar þar sem tekið var fram að framkomin andmæli þættu ekki gefa tilefni til breytinga frá upphaflegri skýrslu.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 14. maí 2012, segir að rannsókn á skattskilum X ehf. hafi einkum verið byggð á upplýsingum sem fram hafi komið við fyrrgreindar skýrslutökur, staðgreiðsluskilagreinum X ehf. ásamt sundurliðunum með þeim, virðisaukaskattsskýrslum, upplýsingum frá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, svo og tekjubókhaldi ríkissjóðs, sbr. fylgiskjöl með skýrslunni, en þar er um að ræða yfirlit um greiðslur X ehf. vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, virðisaukaskatts og opinberra gjalda.

Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að rannsókn embættisins á staðgreiðsluskilum X ehf. hafi falist í því að bera fjárhæðir afdreginnar staðgreiðslu samkvæmt staðgreiðsluskilagreinum félagsins saman við greiðslur þess til innheimtumanns ríkissjóðs. Í skýrslunni er gerð grein fyrir þeirri niðurstöðu rannsóknarinnar að fyrrum fyrirsvarsmenn X ehf. hafi ekki staðið skil innan lögboðins frests á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launamanna félagsins greiðslutímabilin júlí, ágúst, september, október, nóvember og desember 2009 og janúar, febrúar og mars 2010, samtals að fjárhæð 7.058.390 kr., en að greiddar hafi verið 368.629 kr. inn á höfuðstól staðgreiðsluskuldar vegna þessara tímabila. Fram kemur að afdregin staðgreiðsla af launum D, A og C hafi verið samtals 2.275.382 kr. á sama tímabili.

Rannsókn á virðisaukaskattsskilum X ehf. var samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins fólgin í því að bera fjárhæð innheimts virðisaukaskatts samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum félagsins saman við greiðslur þess til innheimtumanns. Í skýrslunni er rakin sú niðurstaða rannsóknarinnar að fyrrum fyrirsvarsmenn X ehf. hafi ekki staðið skil innan lögboðins frests á innheimtum virðisaukaskatti vegna félagsins uppgjörstímabilin júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2009 að fjárhæð samtals 3.753.046 kr. Fram kemur að greiddar hafi verið 1.306.067 kr. inn á höfuðstól virðisaukaskattsskuldarinnar vegna fyrrgreindra uppgjörstímabila.

Gjaldandi, B, greindi frá því við skýrslutöku 22. mars 2012 að maðurinn hennar, A, hefði verið með X ehf. Hún hefði verið í stjórn félagsins, en ekki komið nálægt rekstrinum að neinu leyti. Hún hefði ekki fengið þær upplýsingar sem hún hafi beðið um og því beðist undan því að vera stjórnarmaður og farið inn sem varamaður. Þá hefði fjármálastjórinn, C, orðið stjórnarmaður. A hefði algerlega séð um rekstur félagsins og C um fjármálin, en D hefði ekkert komið að rekstri félagsins. Kvaðst gjaldandi hvorki geta tjáð sig um staðgreiðsluskilagreinar né virðisaukaskattsskýrslur þar sem hún hefði ekki verið inni í rekstrinum, en taldi C hafa útbúið gögnin. Af sömu ástæðu vildi gjaldandi ekki tjá sig um fjárhæðir staðgreiðsluskuldar og virðisaukaskattsskuldar.

Við skýrslutöku af gjaldanda, C, sem fram fór 23. mars 2012, sagðist hún hafa verið ráðin til X ehf. til að færa bókhald, en síðan hefði eigandann, A, vantað framkvæmdastjóra. Hefði D verið ráðinn, en hann hefði aldrei komið nálægt neinu, heldur aðeins starfað við smíðar. Þegar honum hefði verið sagt upp hefði gjaldandi verið beðin um að taka við. Sagðist gjaldandi í heimsku sinni hafa játað því þar sem hún hefði ekki viljað vera atvinnulaus á þessum tíma. Kvaðst gjaldandi hafa greitt út laun og reikninga samkvæmt fyrirmælum A. Þá hefði hún séð um bókhaldið á skrifstofunni og svarað í síma. A hefði verið daglegur stjórnandi félagsins, en D og B hefðu ekki komið beint að rekstrinum. Gjaldandi kvaðst gera ráð fyrir því að skilagreinar staðgreiðslu og virðisaukaskattsskýrslur, sem bornar voru undir hana, væru vegna X ehf. og taldi gögnin gefa rétta mynd af rekstrinum. Gjaldanda var kynnt að samkvæmt gögnum málsins hefði staðgreiðsla opinberra gjalda að fjárhæð 7.058.390 kr. vegna launamanna X ehf. umrædd greiðslutímabil staðgreiðslu árin 2009 og 2010 ekki verið greidd á lögmæltum tíma og að virðisaukaskattur að fjárhæð 3.753.046 kr. tiltekin uppgjörstímabil árið 2009 hefði ekki verið greiddur á lögmæltum tíma. Gjaldandi vildi ekki tjá sig um fjárhæðirnar, en sagði að A hefði ákveðið að skila ekki skattgreiðslunum til þess að hægt væri að greiða birgjum og laun starfsmanna. Aðspurð sagði gjaldandi að laun hefðu verið greidd að fullu. Gjaldandi kvaðst ekki hafa óskað eftir því við innheimtumann ríkissjóðs að greiðslum vegna skattskulda yrði ráðstafað með tilteknum hætti. Gjaldandi tók fram í lok skýrslutökunnar að hún hefði ekki viljað taka þátt í því að gera verksamning vegna W á annarri kennitölu. Hún hefði boðist til að halda áfram starfi hjá félaginu án þess að taka ábyrgð. Þótt hún hefði óskað eftir því að fara úr stjórn félagsins hefði ekkert verið gert. Að 2-3 vikum liðnum hefði hún sjálf farið í fyrirtækjaskrá og skráð sig úr stjórninni, en þá hefði allt farið í háaloft. Hún hefði verið beðin um að skrifa undir samninga og afsöl afturvirkt sem hún hefði neitað að gera.

Við skýrslutöku 23. mars 2012 af gjaldanda, D, kom fram að hann hefði upphaflega verið ráðinn sem smiður hjá skattaðila og starfað sem slíkur. Sagði gjaldandi að yfirmaður hans, A, og reyndar einnig C hefðu beðið hann um að vera skráðan framkvæmdastjóra tímabundið til þess að auka líkurnar á því að fá stórt verk í W. Hefði hann þó ekki komið neitt nálægt rekstrinum. Honum hefði verið sagt að þetta ætti að vera í einn til tvo mánuði, en síðan hafi það dregist og á endanum hefði honum verið sagt upp störfum. Sagði gjaldandi að á þeim tíma sem hann starfaði hjá félaginu hefði A séð um reksturinn og A og C hefðu séð um fjármálin. Kvaðst gjaldandi ekki hafa séð að B hefði komið að rekstrinum, en hann vissi að C væri bókari og að A hefði ráðið öllu. Gat gjaldandi hvorki tjáð sig um staðgreiðsluskilagreinar og virðisaukaskattsskýrslur, sem bornar voru undir hann, né fjárhæð skuldar staðgreiðslu og virðisaukaskatts í málinu.

Gjaldandi, A, staðfesti við skýrslutöku, sem fram fór 29. mars 2012, að hann hefði verið framkvæmdastjóri X ehf. í upphafi. Kvaðst gjaldandi hafa lent í persónulegu gjaldþroti og þá hefði ekki verið æskilegt fyrir viðskiptasambönd félagsins að hann væri þar í forsvari. Hefði C þá tekið við sem framkvæmdastjóri og gjaldandi hætt afskiptum af daglegum rekstri félagsins að öðru leyti en því að sinna verkefnastjórn á verkstæði félagins og byggingarstað. Aðspurður sagði gjaldandi að C hefði séð um fjármálin frá upphafi. Þá greindi gjaldandi frá því að B hefði aldrei komið nálægt daglegum rekstri félagsins, en hún hefði tekið við sem stjórnarmaður félagsins af E, bróður gjaldanda, sem hefði verið stofnandi félagsins. B hefði ekki fengið umbeðnar upplýsingar varðandi rekstur félagsins frá C. Aðspurður um hlutverk D sagði gjaldandi að hann hefði aldrei komið nálægt rekstrinum, hann hefði bara verið „smiður úti í bæ“. Sagði gjaldandi að D hefði verið beðinn um að vera skráður framkvæmdastjóri á tímabili og að honum hefði verið talin trú um það að engin áhætta væri í því fólgin, en á þessum tíma hefði C séð um reksturinn. Sagði gjaldandi að C hefði fært bókhald frá upphafi og að bókhaldið hlyti að vera hjá skiptastjóra. Gjaldandi sagðist ekki vita hvort skilagreinar staðgreiðslu, sem bornar voru undir hann, væru vegna X ehf. Hann hefði ekki séð um þetta og hefði ekki hugmynd um hvort skýrslurnar gæfu rétta mynd af launagreiðslum félagsins. Gjaldandi kannaðist við að virðisaukaskattsskýrslur, sem bornar voru undir hann, væru vegna X ehf. og sagði C hafa annast gerð skýrslnanna og að hún hlyti að hafa byggt þær á reikningum félagsins. Sagðist gjaldandi ekki vita hvort skýrslurnar gæfu rétta mynd af rekstrinum. Gjaldanda var kynnt að samkvæmt gögnum málsins hefði staðgreiðsla opinberra gjalda að fjárhæð 7.058.390 kr. vegna launamanna X ehf. umrædd greiðslutímabil staðgreiðslu árin 2009 og 2010 ekki verið greidd á lögmæltum tíma og að virðisaukaskattur að fjárhæð 3.753.046 kr. tiltekin uppgjörstímabil árið 2009 hefði ekki verið greiddur á lögmæltum tíma. Gjaldandi vildi ekki tjá sig um fjárhæðirnar og sagði dapurlegt að þetta hefði farið svona. Gjaldandi sagðist ekki hafa hugmynd um hvers vegna afdreginni staðgreiðslu hefði ekki verið skilað og sagðist telja að virðisaukaskatti hefði ekki verið skilað á lögmæltum tíma vegna fjárskorts. Sagðist gjaldandi halda að laun hefðu verið greidd að mestu leyti nema hugsanlega orlof og lífeyrissjóðsgreiðslur, en hann myndi eftir því að hafa ráðlagt mönnum að sækja rétt sinn til Ábyrgðarsjóðs launa. Kvaðst gjaldandi ekki hafa óskað eftir því við innheimtumann ríkissjóðs að greiðslum vegna skattskulda yrði ráðstafað með tilteknum hætti.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, er refsivert ef skattskyldur maður afhendir eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum borið að innheimta. Í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, er með samsvarandi hætti lýst refsivert ef launagreiðandi innir ekki af hendi þær greiðslur vegna launamanna sem hann hefur haldið eftir eða honum borið að halda eftir. Samkvæmt fortakslausum ákvæðum nefndra laga og með stoð í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar 27. febrúar 1997 (H 1997:789), 25. september 1997 (H 1997:2446), 14. janúar 1999 (H 1999:79), 18. febrúar 1999 (H 1999:544 og 550), 10. júní 1999 (H 1999:2645) og 30. mars 2000 (H 2000:1422), geta fyrirsvarsmenn lögaðila unnið til refsingar með því einu að láta ógert að skila umræddum gjöldum í ríkissjóð á tilskildum tíma, enda sé huglægum refsiskilyrðum fullnægt.

Gjaldandi, A, var framkvæmdastjóri X ehf. frá stofnun félagsins hinn 16. janúar 2008 til 1. september 2009, sbr. gögn um skráningar í fyrirtækjaskrá vegna félagsins, sbr. fskj. nr. 3.1–3.14 með skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins lýtur að því að gjaldandi hafi vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna félagsins vegna greiðslutímabilsins júlí 2009. Sem framkvæmdastjóri X ehf. til 1. september 2009 bar gjaldandi ábyrgð á daglegum rekstri félagsins, þar á meðal fjárreiðum, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og var til þess bær að taka ákvörðun um hvaða kröfur á hendur félaginu skyldu greiddar og hverjar ekki. Samkvæmt framangreindu telst gjaldandi hafa borið ábyrgð á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda X ehf. vegna þess greiðslutímabils sem krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur honum tekur til.

Sektarkrafa á hendur gjaldanda, D, er byggð á því að hann hafi sem skráður framkvæmdastjóri X ehf. frá 1. september 2009 til og með 15. desember 2009 borið ábyrgð á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda greiðslutímabilin ágúst, september, október og nóvember 2009 og skilum virðisaukaskatts uppgjörstímabilin júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2009. Ekki er ástæða til að draga í efa fram komnar skýringar um ástæðu þess að gjaldandi, D, var skráður fyrirsvarsmaður X ehf. Það þykir þó ekki fá breytt því að sem skráður framkvæmdastjóri X ehf. bar gjaldandi ábyrgð á daglegum rekstri félagsins, þar á meðal fjárreiðum, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Um þetta má til hliðsjónar vísa til dóma Hæstaréttar Íslands frá 14. október 1999 í málinu nr. 242/1999, frá 14. janúar 2010 í málinu nr. 447/2009 og frá 19. janúar 2012 í málinu nr. 413/2011, þar sem menn, sem skráðir voru framkvæmdastjórar einkahlutafélaga, voru taldir bera refsiábyrgð vegna brota gegn lögum nr. 45/1987 og nr. 50/1988, þótt sýnt þætti að þeir hefðu ekki gegnt því starfi nema að nafninu til. Vegna skírskotunar umboðsmanns gjaldanda í bréfi, dags. 28. janúar 2014, til dóma Hæstaréttar Íslands frá 12. desember 2013 í málinu nr. 354/2013 og frá 23. janúar 2014 í málinu nr. 388/2013 skal tekið fram að þar reyndi á refsiábyrgð stjórnarmanna í einkahlutafélögum, sem ekki töldust hafa komið að daglegum fjármálum eða skattskilum félaganna, enda lutu þau daglegri stjórn framkvæmdastjóra. Voru atvik í málum þessum því ekki sambærileg atvikum í máli gjaldanda. Samkvæmt framangreindu og í samræmi við skráningu gjaldanda samkvæmt fyrirtækjaskrá sem framkvæmdastjóra X ehf. frá 1. september 2009 til og með 15. desember 2009 verður að leggja til grundvallar í málinu að gjaldandi hafi á því tímabili borið ábyrgð á daglegum rekstri félagsins, þar á meðal fjárreiðum, og verið til þess bær að taka ákvörðun um hvaða kröfur á hendur félaginu skyldu greiddar og hverjar ekki. Samkvæmt framangreindu telst gjaldandi hafa borið ábyrgð á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts X ehf. frá 1. september 2009 til og með 15. desember 2009 og er sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins því réttilega beint að gjaldanda vegna meintra brota á skattalögum á því tímabili, þó þannig að gjaldandi verður ekki talinn bera ábyrgð á skilum virðisaukaskatts uppgjörstímabilið nóvember-desember 2009.

Gjaldandi, C, var skráð framkvæmdastjóri C ehf. frá 15. desember 2009 til og með 8. mars 2010 og stjórnarmaður félagsins frá 11. janúar 2010 til 8. mars 2010, sbr. gögn um skráningar í fyrirtækjaskrá vegna félagsins, sbr. fskj. nr. 3.1–3.14 með skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er þess krafist að gjaldanda verði gerð sekt vegna vangoldinnar staðgreiðslu opinberra gjalda greiðslutímabilin desember 2009 og janúar 2010 og vangoldins virðisaukaskatts X ehf. uppgjörstímabilið nóvember-desember 2009. Sem framkvæmdastjóri X ehf. frá 15. desember 2009 til og með 8. mars 2010 bar gjaldandi ábyrgð á daglegum rekstri félagsins á því tímabili, þar á meðal fjárreiðum. Þykja skýringar gjaldanda þess efnis að hún hafi ekki farið með raunverulega framkvæmdastjórn í félaginu ekki fá haggað þessu, sbr. til hliðsjónar fyrrgreinda dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 242/1999, nr. 447/2009 og nr. 413/2011. Samkvæmt framangreindu telst gjaldandi hafa borið ábyrgð á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts X ehf. vegna þeirra greiðslutímabila staðgreiðslu og uppgjörstímabils virðisaukaskatts sem sektarkrafa skattrannsóknarstjóra tekur til.

Sektarkrafa á hendur gjaldanda, B, er byggð á því að hún hafi sem stjórnarmaður og prókúruhafi X ehf. borið ábyrgð á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda greiðslutímabilin júlí, ágúst, september, október, nóvember og desember 2009 og skilum virðisaukaskatts félagsins uppgjörstímabilin júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2009. Gjaldandi var skráð stjórnarmaður X ehf. frá 1. nóvember 2008 til 11. janúar 2010 og varamaður í stjórn frá 11. janúar 2010 til 25. maí 2010. Gjaldandi hafði einnig prókúruumboð fyrir félagið frá 1. september 2009 til 8. mars 2010. Sem stjórnarmanni bar gjaldanda að afla sér vitneskju um rekstur félagsins, þar á meðal um það hvort það stæði í skilum með greiðslu staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts, svo og að annast um að starfsemi félagins væri jafnan í réttu og góðu horfi, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Vísast um þetta m.a. til dóms Hæstaréttar Íslands 25. september 1997 (H 1997:2446). Sé misbrestur á því að fyrirsvarsmaður fyrirtækis sinni ábyrgðarskyldu sinni, kann sú vanræksla að baka honum refsiábyrgð, enda sé honum kunnugt um refsiverð brot í tengslum við rekstur fyrirtækisins eða hann hefur að öðru leyti sýnt af sér saknæman eftirlitsskort. Gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en við skýrslutöku af gjaldanda kom fram að hún teldi sig ekki hafa fengið þær upplýsingar sem hún hefði beðið um varðandi rekstur X ehf. á þeim tíma sem hún var eini stjórnarmaður félagsins. Þær skýringar þykja ekki vera sannfærandi í ljósi þess sem fyrir liggur um samfellda stjórnarsetu gjaldanda í félaginu um langt skeið og prókúruumboð mestan hluta þess tímabils sem um ræðir. Verður jafnframt ekki litið fram hjá því að í máli þessu er um að tefla vanrækslu á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts greinds einkahlutafélags vegna alllangs tímabils. Að þessu virtu verður að telja að gjaldandi hafi af stórkostlegu gáleysi vanrækt eftirlitsskyldu sína og verður því að telja hana bera refsiábyrgð samkvæmt þeim ákvæðum laga nr. 45/1987 og laga nr. 50/1988 er fyrr greinir vegna þeirra misbresta sem voru á skattskilum félagsins á þeim tíma sem sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins tekur til.

Til grundvallar niðurstöðu skattrannsóknarstjóra ríkisins um fjárhæð vangreiddrar staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts X ehf. umrædd greiðslu- og uppgjörstímabil árin 2009 og 2010 liggja staðgreiðsluskilagreinar og virðisaukaskattsskýrslur, sem ekki hefur verið vefengt að varði rekstur einkahlutafélagsins, sbr. skýrslutökur sem raktar hafa verið að framan. Þá er komið fram að skýrslur þessar hafi verið byggðar á bókhaldi félagsins. Verður samkvæmt þessu byggt á því að staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur, sem gjaldendum bar að standa skil á vegna X ehf., hafi numið þeim fjárhæðum sem greinir í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, enda þykir ekkert hafa komið fram sem gefur tilefni til annars. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra í máli þessu er byggð á niðurstöðum í skýrslu embættisins að öðru leyti en því að ekki er gerð krafa um ákvörðun sektar vegna vangreiddrar staðgreiðslu að fjárhæð samtals 1.971.631 kr. af launum gjaldenda, svo sem gerð er grein fyrir í kröfugerð.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins og greinargerð með kröfugerð embættisins til yfirskattanefndar er gerð grein fyrir greiðslum X ehf. til innheimtumanns vegna staðgreiðslu, virðisaukaskatts og opinberra gjalda frá því að skuldir sem um ræðir í máli þessu vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts byrjuðu að myndast 17. ágúst 2009. Fram kemur að á tímabilinu 17. ágúst 2009 til og með 29. janúar 2013 voru alls greiddar 368.629 kr. vegna höfuðstóls skilaskyldrar staðgreiðslu og 2.051.325 kr. vegna höfuðstóls virðisaukaskatts félagsins. Þar er að hluta um að ræða greiðslur vegna greiðslu- og uppgjörstímabila sem rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins tók til. Nánar tiltekið var 251.710 kr. ráðstafað inn á höfuðstól staðgreiðslu greiðslutímabilið júlí 2009 og 116.919 kr. greiðslutímabilið ágúst 2009. Þá voru 1.306.067 kr. greiddar inn á höfuðstól virðisaukaskatts félagsins vegna uppgjörstímabilsins júlí-ágúst 2009. Eins og mál þetta er lagt fyrir af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins þykir rétt að þessar fjárhæðir, sem skil voru gerð á samkvæmt framangreindu áður en mál þetta var sent yfirskattanefnd til meðferðar, komi til frádráttar fjárhæð vangreiddrar staðgreiðslu og virðisaukaskatts samkvæmt kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins, enda er það í samræmi við það sem tíðkast hefur við meðferð hliðstæðra mála fyrir yfirskattanefnd. Verður því miðað við vangreidda staðgreiðslu að fjárhæð 3.740.505 kr. og virðisaukaskatt að fjárhæð 2.446.979 kr. í máli þessu.

Sá hluti greiðslna X ehf. á umræddu tímabili, sem innheimtumaður ríkissjóðs hefur ráðstafað til greiðslu dráttarvaxta, álags og kostnaðar nemur 60.747 kr. vegna staðgreiðslu og 73.464 kr. vegna virðisaukaskatts. Þá kemur fram í gögnum málsins að greiðslur til innheimtumanns ríkissjóðs vegna opinberra gjalda X ehf., þ.m.t. tryggingagjalds, á þeim tíma sem hér um ræðir, námu 94.986 kr. og var innborgunum að hluta varið til greiðslu dráttarvaxta og kostnaðar. Aðrar greiðslur félagsins til innheimtumanns en vegna höfuðstóls staðgreiðslu og virðisaukaskatts námu því 229.197 kr.

Með dómi Hæstaréttar Íslands 2. október 2003 (H 2003:3178), sem varðar hliðstætt mál, var því hafnað að greiðslur, sem innheimtumaður hefur ráðstafað upp í álag, dráttarvexti og kostnað, geti haft áhrif á sakarmat og komið með beinum hætti til frádráttar skattskuld sem viðurlagaákvörðun tekur til. Ekki verður talið að breyting með lögum nr. 134/2005 á refsiákvæðum laga nr. 45/1987 haggi þessari dómaframkvæmd. Með breytingalögum þessum er hins vegar skýrt kveðið á um það að greiðslur skattaðila á verulegum hluta skattfjárhæðar geti að uppfylltum ákveðnum skilyrðum leitt til þess að ákvæði um lágmark sektarrefsingar eigi ekki við. Samkvæmt dómum Hæstaréttar Íslands 30. mars 2006 í málunum nr. 428/2005 og 469/2005 ber að taka í þessu sambandi tillit til innborgana sem ráðstafað hefur verið til greiðslu álags vegna vangreiddrar staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna og vangreidds virðisaukaskatts, svo og skuli fara á sama hátt með greiðslur vegna staðgreiðslu opinberra gjalda þess fyrirsvarsmanns sem refsiábyrgð sætir. Ekki verður annað séð en að líta megi með hliðstæðum hætti til greiðslna viðkomandi skattaðila sem innheimtumaður hefur ráðstafað upp í dráttarvexti og kostnað, og eftir atvikum til greiðslu á opinberum gjöldum, enda er það í samræmi við úrskurðaframkvæmd fyrir gildistöku laga nr. 134/2005, sbr. og fyrrgreindan dóm Hæstaréttar frá árinu 2003 og aðra dóma í hliðstæðum málum, m.a. H 2000:2387. Eins og mál þetta liggur fyrir þykir því mega taka tillit til fyrrgreindra greiðslna X ehf. að fjárhæð 229.197 kr. Við mat á þýðingu þeirra fyrir sektarákvörðun þykir rétt að skipta þeim hluta innborgana, sem ráðstafað var til greiðslu opinberra gjalda X ehf., í hlutfalli við fjárhæðir vangoldinnar staðgreiðslu og virðisaukaskatts sem um ræðir í málinu. Innborganir vegna staðgreiðslu opinberra gjalda teljast þá nema 118.169 kr. og innborganir vegna virðisaukaskatts 111.028 kr.

Samkvæmt því sem að framan er rakið og gögnum málsins að öðru leyti var afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda vegna launamanna X ehf. greiðslutímabilin júlí, ágúst, september, október, nóvember og desember 2009 og janúar 2010, samtals að fjárhæð 3.740.505 kr., ekki greidd til innheimtumanns ríkissjóðs á tilskildum tíma, sbr. 1. og 2. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987. Þá var virðisaukaskattur X ehf. að fjárhæð 2.446.979 kr. uppgjörstímabilin júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2009 ekki greiddur innheimtumanni ríkissjóðs á tilskildum tíma, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988. Vegna fram kominna skýringa um að erfiðleikar í rekstri X ehf. hafi valdið vanskilum á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts sem í málinu greinir skal tekið fram að ekki telst tæk varnarástæða að fé hafi ekki verið til í rekstri félagsins til að standa skil á umræddum gjöldum, sbr. m.a. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar Íslands frá 30. mars 2000 (H 2000:1422).

Með vísan til þess sem rakið hefur verið telst fullnægt þeim huglægu refsiskilyrðum sem fram koma í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 42/1995. Ber að ákvarða gjaldendum, A, D, C og B, sekt samkvæmt þessum lagaákvæðum vegna vanrækslu á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts í rekstri X ehf.

Eins og lög nr. 45/1987 og lög nr. 50/1988 hljóða eftir breytingar, sem á þeim voru gerðar með lögum nr. 42/1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem vanrækt var greiðsla á, þó að teknu tilliti til álags. Samkvæmt breytingu á greindum lögum með lögum nr. 134/2005 eiga fésektarákvæði þessi þó ekki við hafi brot einskorðast við að standa ekki skil á réttilega tilgreindri staðgreiðslu eða virðisaukaskatti samkvæmt skilagrein staðgreiðslu eða virðisaukaskattsskýrslu, enda hafi verið gerð skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur eru miklar. Í tilviki gjaldenda er til þess að líta að skilagreinar staðgreiðslu og virðisaukaskattsskýrslur X ehf. liggja fyrir vegna allra tímabila staðgreiðslu og virðisaukaskatts sem málið varðar og eru fjárhæðir í málinu byggðar á þeim. Sem fyrr segir verður lagt til grundvallar að greiðslur til innheimtumanns ríkissjóðs, sem hér beri að líta til, hafi numið 118.169 kr. vegna staðgreiðslu og 111.028 kr. vegna virðisaukaskatts. Að teknu tilliti til innborgunar á höfuðstól svarar fyrrnefnda fjárhæðin til vangreiddrar staðgreiðslu vegna fyrsta greiðslutímabils staðgreiðslu sem sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins tekur til og verulegs hluta fjárhæðar annars tímabilsins. Að teknu tilliti til innborgunar inn á höfuðstól svara greiðslur vegna virðisaukaskatts með sama hætti til verulegs hluta vangreidds virðisaukaskatts félagsins fyrsta uppgjörstímabils virðisaukaskatts sem málið varðar.

Samkvæmt þessu og í samræmi við greinda dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands, sbr. fyrrgreinda dóma frá 30. mars 2006, verður því talið að sú undantekning frá fésektarlágmarki, sem mælt er fyrir um í lögum nr. 134/2005, taki til vanskila á staðgreiðslu opinberra gjalda að fjárhæð samtals 208.440 kr. og á virðisaukaskatti að fjárhæð samtals 485.594 kr. fyrrgreind tímabil. Ekki liggur annað fyrir en að vangreiðsla á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti vegna annarra tímabila hafi fyrst og fremst stafað af erfiðleikum í rekstri X ehf. og ekkert er komið fram um að gjaldendur hafi persónulega notið nokkurs hags af brotinu. Hins vegar varðar mál þetta vanskil á staðgreiðslu og virðisaukaskatti að ekki óverulegri fjárhæð og vegna alllangs tímabils. Að þessu virtu og með vísan til greindrar dómaframkvæmdar verður því ekki talið að skilyrði um miklar málsbætur, sbr. ákvæði laga nr. 134/2005, eigi hér við. Því teljast lágmarksákvæði í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 gilda um vanskil staðgreiðslu að fjárhæð 3.494.667 kr. og virðisaukaskatts að fjárhæð 1.961.385 kr.

Þegar höfð eru í huga lagarök, sem búa að baki framangreindum ákvæðum um lágmarks- og margfeldissektir, með tilliti til háttsemi gjaldenda og afleiðinga hennar, þykir rétt að ákveða sektarfjárhæð í máli þessu heildstætt en með tiltekinni skiptingu milli gjaldenda. Er í því sambandi litið til þess sem fyrir liggur um afdregna staðgreiðslu af launum gjaldenda. Þá er til þess að líta, að því er varðar þátt gjaldanda, D, að brot hans felast fyrst og fremst í saknæmum eftirlitsskorti með rekstrinum. Þykir rétt að taka tillit til þeirra aðstæðna við skiptingu sektarfjárhæðar milli gjaldenda, sbr. m.a. sjónarmið í fyrrgreindum dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 242/1999 og nr. 413/2011. Samkvæmt framansögðu og að teknu tilliti til álags samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldenda hæfilega ákveðin 9.100.000 kr. til ríkissjóðs sem skiptist þannig milli þeirra að gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 200.000 kr., gjaldandi, D, greiði sekt að fjárhæð 1.500.000 kr., gjaldandi, C, greiði sekt að fjárhæð 1.500.000 kr. og gjaldandi, B, greiði sekt að fjárhæð 5.900.000 kr.

Samkvæmt úrslitum máls þessa þykja ekki vera til staðar lagaskilyrði til þess að ákvarða gjaldanda, D, málskostnað til greiðslu úr ríkissjóði. Kröfu gjaldenda þess efnis er því hafnað.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 200.000 kr. til ríkissjóðs. Gjaldandi, D, greiði sekt að fjárhæð 1.500.000 kr. til ríkissjóðs. Gjaldandi, C, greiði sekt að fjárhæð 1.500.000 kr. til ríkissjóðs. Gjaldandi, B, greiði sekt að fjárhæð 5.900.000 kr. til ríkissjóðs.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum