2018

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 14/2018

24.1.2018

Úrskurður nr. 14/2018

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2018, miðvikudaginn 24. janúar, er tekið fyrir mál nr. 134/2017; beiðni A, kt. […], dags. 6. október 2017, um endurupptöku á máli nr. 12/2017. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 6. október 2017, hefur umboðsmaður gjaldanda farið fram á að mál nr. 12/2017 vegna kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins um ákvörðun skattsektar á hendur gjaldanda, sem fellt var niður hjá yfirskattanefnd hinn 4. október 2017, verði tekið til meðferðar að nýju að því er snertir ákvörðun málskostnaðar til handa gjaldanda, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Með bréfi, dags. 27. janúar 2017, gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins þá kröfu að yfirskattanefnd tæki til sektarmeðferðar mál gjaldanda fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum, framin vegna tekjuáranna 2006, 2007, 2008 og 2009. Samkvæmt kröfugerð skattrannsóknarstjóra var gjaldanda gefið að sök „að hafa, jafnvel af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattyfirvöldum skil á efnislega röngum skattframtölum árin 2007, 2008, 2009 og 2010 ...“ og þannig vantalið tekjur að fjárhæð samtals 30.199.610 kr. sem væru til komnar vegna starfa hans við hjá erlendum félögunum X., Z, Y og W. Hefði háttsemi gjaldanda leitt til ákvörðunar lægri tekjuskatts og útsvars hans en vera bæri gjaldárin 2007, 2008, 2009 og 2010, svo sem nánar var rakið. var byggt á því að háttsemi gjaldanda bryti í bága við ákvæði 90. gr., sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 22. gr., 19. gr. og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum, og varðaði gjaldanda sekt samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum. Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 27. janúar 2017, sem fylgdi kröfugerðinni. Krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins, sem hlaut málsnúmerið 12/2017 í bókum yfirskattanefndar, var kynnt gjaldanda með bréfi yfirskattanefndar, dags. 31. janúar 2017, og honum gefinn kostur á að skila vörn í tilefni af kröfugerð skattrannsóknarstjóra.

Með bréfi umboðsmanns gjaldanda, dags. 17. mars 2017, var lögð fram vörn af hálfu gjaldanda vegna kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Í bréfinu var þess aðallega krafist að gjaldanda yrði ekki gerð sekt í málinu. Til vara var þess krafist að gjaldanda yrði ekki gerð sekt vegna gjaldáranna 2007, 2008 og 2010 að því er varðaði tekjur sem gjaldandi hefði aflað sér eftir brottflutning frá Íslandi í september 2009. Þá var gerð krafa um að gjaldanda yrði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.

Til stuðnings aðalkröfu gjaldanda kom m.a. fram í bréfi umboðsmanns hans að gallar hefðu verið á málatilbúnaði skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli gjaldanda. Í fyrsta lagi hefði skattrannsóknarstjóri brotið gegn reglum um málshraða en ekkert hefði verið gert í málinu fyrr en á árinu 2014 þrátt fyrir að skattrannsóknarstjóri hefði tilkynnt um upphaf rannsóknar í desember 2012. Í öðru lagi hefði skattrannsóknarstjóri ekki afhent gögn sem óskað hefði verið eftir, t.a.m. afrit af beiðnum til íslenskra fjármálastofnana um upplýsingar vegna málsins. Í þriðja lagi hefði skattrannsóknarstjóri brotið gegn meðalhófsreglu að því er varðaði tilfærslu tekna áranna 2006 og 2007, svo sem nánar greindi. Í fjórða lagi hefði skattrannsóknarstjóri brotið gegn meðalhófsreglu og meginreglum laga um meðferð sakamála þar sem ekki hefði verið tekið tillit til þess að gjaldandi hefði alfarið flutt af landi brott til Spánar á árinu 2009. Í fimmta lagi bryti skattrannsóknarstjóri gegn meginreglum stjórnsýsluréttar um meðalhóf, gegn meginreglum laga um meðferð sakamála og gegn siðareglum ákærenda þar sem farið væri gegn skýrum fordæmum yfirskattanefndar í úrskurðum nr. 61/2016 og 124/2016 um að saknæmisskilyrði laga nr. 90/2003 ætti ekki við um þá háttsemi sem gjaldanda væri gefin að sök að því er varðaði vanframtaldar tekjur árið 2006 og meirihluta vanframtalinna tekna árið 2007.

Varakrafa gjaldanda byggði í fyrsta lagi á því að sök vegna áranna 2006 og 2007 væri fyrnd, en samkvæmt ákvæðum laga nr. 90/2003 væri fyrningartími sex ár og yrði fyrning ekki rofin nema með því að kalla sakborning fyrir og kynna honum sakargiftir. Gjaldandi hefði ekki verið borinn sökum fyrr en í maí 2014, en þá hefði framtalsfrestur vegna skattframtals árið 2008 verið liðinn. Í öðru lagi taldi gjaldandi að saknæmisskilyrði væru ekki fyrir hendi að því er varðaði tekjur sem hann hefði haft af sjómannsstörfum erlendis á árinu 2006 og þar til hann flutti til Íslands árið 2007. Í þriðja lagi var byggt á því að ríkisskattstjóri hefði ekki haft heimild til að endurákvarða opinber gjöld gjaldanda þar sem skýra yrði 3. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 til samræmis við meginreglur um rof fyrningar. Í fjórða lagi taldi gjaldandi að saknæmisskilyrði væru ekki fyrir hendi vegna tekna sem hann hefði aflað eftir brottflutning til Spánar í október 2009. Vísaði gjaldandi um þetta til áralangrar skattframkvæmdar sem enn væri við lýði.

Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins til yfirskattanefndar, dags. 29. september 2017, tilkynnti skattrannsóknarstjóri þá ákvörðun sína að afturkalla kröfu sína um sekt á hendur gjaldanda sem gerð hefði verið með bréfi 27. janúar 2017. Með bréfi, dags. 4. október 2017, tilkynnti yfirskattanefnd gjaldanda um niðurfellingu máls nr. 12/2017 í samræmi við bréf skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Í endurupptökubeiðni gjaldanda kemur fram að þrátt fyrir niðurfellingu máls nr. 12/2017 hafi ekki verið leyst úr kröfu gjaldanda um greiðslu málskostnaðar á grundvelli 2. mgr. 8. gr. laga um yfirskattanefnd. Sú krafa hafi ekki verið afturkölluð og sé hér með ítrekuð. Til stuðnings kröfunni er vísað til meðfylgjandi afrits tímaskýrslu, reiknings og staðfestingar á greiðslu reiknings.

II.

Eins og fram er komið afturkallaði skattrannsóknarstjóri ríkisins með bréfi, dags. 29. september 2017, kröfu sína til yfirskattanefndar, dags. 27. janúar 2017, um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda sökum meintra brota á skattalögum, sbr. mál yfirskattanefndar nr. 12/2017. Í samræmi við það felldi yfirskattanefnd umrætt mál niður og tilkynnti gjaldanda þau málalok með bréfi, dags. 4. október 2017. Af hálfu gjaldanda er því mótmælt að mál gjaldanda hafi verið fellt niður fyrir yfirskattanefnd án þess að afstaða væri tekin til fyrirliggjandi kröfu gjaldanda um greiðslu málskostnaður úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Ákvæði þetta er svohljóðandi:

„Nú fellur úrskurður yfirskattanefndar skattaðila í hag, að hluta eða öllu leyti, og getur yfirskattanefnd þá úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, að hluta eða öllu leyti, enda hafi hann haft uppi slíka kröfu við meðferð málsins, um sé að ræða kostnað sem eðlilegt var að hann stofnaði til vegna meðferðar málsins og ósanngjarnt væri að hann bæri þann kostnað sjálfur.“

Um ákvörðun málskostnaðar samkvæmt þessu lagaákvæði styðst yfirskattanefnd við starfsreglur frá 21. nóvember 2014 sem nefndin hefur sett sér og birtar eru á vef nefndarinnar.

Í úrskurðaframkvæmd yfirskattanefndar hefur verið litið svo á að heimilt sé að úrskurða á greindum lagagrundvelli um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði í málum sem skattrannsóknarstjóri ríkisins ber undir nefndina til ákvörðunar skattsekta, sbr. 3. mgr. 2. gr. og 22. gr. laga nr. 30/1992, þegar niðurstaðan verður sú að krafa skattrannsóknarstjóra nær ekki fram að ganga. Um þetta er fjallað í starfsreglum yfirskattanefndar frá 21. nóvember 2014 og segir þar í lið 2.3 að úrskurður um sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur skattaðila teljist ekki falla skattaðila í hag, þannig að til greiðslu málskostnaðar geti komið, nema sektarkröfu sé hafnað að öllu leyti.

Samkvæmt orðalagi 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, er ljóst að kröfu um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði verður ekki komið fyrir yfirskattanefnd nema í tengslum við úrlausn kæranlegrar ákvörðunar, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. laga þessara, eða úrlausn um sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, sbr. 3. mgr. 2. gr. og 22. gr. laganna, sbr. að framan. Að þessu virtu og þar sem sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur gjaldanda, dags. 27. janúar 2017, kom ekki til úrlausnar yfirskattanefndar, enda afturkölluð af hálfu embættisins, ber að vísa kröfu gjaldanda um að honum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði frá yfirskattanefnd. Er sú niðurstaða og í samræmi við úrskurðaframkvæmd, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 3/2006 sem birtur er á vef nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Erindi gjaldanda, dags. 6. október 2017, er vísað frá yfirskattanefnd.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum