2018

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 45/2018

14.3.2018

Úrskurður nr. 45/2018

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2018, miðvikudaginn 14. mars, er tekið fyrir mál nr. 174/2017; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. […], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 12. desember 2017, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. […], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum, framin vegna tekjuársins 2011.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

Skil á efnislega röngu skattframtali. Vanframtaldar skattskyldar tekjur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattyfirvöldum skil á efnislega röngu skattframtali gjaldárið 2012, vegna tekjuársins 2011, með því að vanframtelja tekjur sínar, sem til eru komnar vegna afhendingar á hlutabréfum í X ehf. og Y ehf., í formi gjafa samtals að fjárhæð 44.323.852 kr. Skattrannsóknarstjóri lítur svo á að framangreindar tekjur séu gjöf sem beri að skattleggja samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og upphafsákvæði greinarinnar.

Leiddi háttsemi A til ákvörðunar lægri tekjuskatts- og útsvarsstofns hennar en vera bar gjaldárið 2012, vegna tekjuársins 2011, og þar með ákvörðunar lægri tekjuskatts og útsvars, svo sem hér greinir: 

Reiknaður tekjuskattur og útsvar 

Tekjuár Vanframtaldar tekjur Tekjuskattur Útsvar
2011 44.323.852 12.913.262 6.054.638
Samtals kr. 44.323.852 12.913.262 6.054.638

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. 4. tölul. A. lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 22. gr. og 19. gr. og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum.

Við væntanlega endurákvörðun skattstofna opinberra gjalda A vegna tekjuársins 2011 mun A að líkum verða gert að sæta álagningu tekjuskatts og útsvars á álag á vanframtalda skattstofna samkvæmt 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum, er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 12. desember 2017, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með ábyrgðarbréfi yfirskattanefndar, dags. 14. desember 2017, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hún vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hennar og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um það hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Var bréfið endursent yfirskattanefnd með því að þess hefði ekki verið vitjað. Reynt var að koma fram birtingu fyrir gjaldanda eftir ákvæðum b-liðar 1. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, með bréfi yfirskattanefndar, dags. 30. janúar 2018, en birting tókst ekki.

III.

Sú regla kemur fram í 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að skattrannsóknarstjóri ríkisins getur vísað máli til opinberrar rannsóknar af sjálfsdáðum, svo og eftir ósk sökunauts ef hann vill eigi hlíta því að mál verði afgreitt af yfirskattanefnd samkvæmt framangreindum ákvæðum. Ákvæði þetta ber að skilja svo að skattrannsóknarstjóri ríkisins geti ekki vísað máli til sektarmeðferðar fyrir yfirskattanefnd nema málið hafi áður verið borið undir gjaldanda og hann hafi gefið skattrannsóknarstjóra til kynna á sannanlegan hátt að hann mæli því ekki í gegn að málið hljóti sektarmeðferð fyrir yfirskattanefnd. Þar sem afstaða gjaldanda, A, til meðferðar málsins fyrir yfirskattanefnd liggur ekki fyrir eru ekki skilyrði til þess að fjalla um málið hvað hann varðar fyrir yfirskattanefnd og er sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur gjaldanda því vísað frá.

Þessi niðurstaða breytir engu um heimild skattrannsóknarstjóra ríkisins til þess að ákveða af sjálfsdáðum hvort efni séu til að vísa máli gjaldanda til opinberrar rannsóknar og almennrar sakamálameðferðar fyrir dómstólum.

Úrskurðarorð:

Sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur gjaldanda, A, er vísað frá yfirskattanefnd. 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum