2018

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 86/2018

16.4.2018

Úrskurður nr. 86/2018

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2018, miðvikudaginn 16. maí, er tekið fyrir mál nr. 40/2018; beiðni A, kt. […], dags. 9. mars 2018, um endurupptöku á úrskurði yfirskattanefndar nr. 14/2018. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 9. mars 2018, hefur umboðsmaður gjaldanda farið fram á að yfirskattanefnd taki til meðferðar að nýju kröfu gjaldanda um að honum verði ákvarðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Krafa gjaldanda þessa efnis var til umfjöllunar í úrskurði yfirskattanefndar nr. 14/2018, sem kveðinn var upp 24. janúar 2018, og er litið svo á að endurupptökubeiðni gjaldanda taki til þess úrskurðar.

Í bréfi umboðsmanns gjaldanda er vísað til þess að yfirskattanefnd hafi haft kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins um ákvörðun skattsektar á hendur gjaldanda til meðferðar á grundvelli 3. mgr. 2. gr. laga nr. 30/1992, þ.e. til úrskurðar um skattsekt, en ekki sem kærumál, sbr. 1. og 2. mgr. sömu lagagreinar. Af því leiði að 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992 eigi ekki við um málskostnaðarkröfu gjaldanda, enda lúti lagagreinin eingöngu að kærumálum, sbr. 1. mgr. 8. gr. laganna. Í 22. gr. sömu laga sé kveðið á um sektarmeðferð. Við meðferð máls skuli gæta ákvæða laga um meðferð sakamála að því er varði rétt gjaldanda/sökunautar og varnir hans. Gegni skattrannsóknarstjóri stöðu ákæranda í málinu en yfirskattanefnd í raun stöðu dómstóls, að breyttu breytanda, sbr. ákvæði laga um meðferð sakamála. Í 1. mgr. 170. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, komi fram að mál verði fellt niður af tilgreindum ástæðum, þar á meðal ef ákærandi afturkalli ákæru áður en dómur gengur, sbr. b-lið málsgreinarinnar. Þetta hafi einmitt gerst í tilviki gjaldanda. Ákærandi í málinu, þ.e. skattrannsóknarstjóri, hafi afturkallað kröfu sína (ákæru) á hendur gjaldanda og málið hafi síðan verið fellt niður hjá yfirskattanefnd. Að þessu leyti hafi meðferð málsins verið í samræmi við ákvæði laga um meðferð sakamála. Hins vegar hafi yfirskattanefnd láðst að taka afstöðu til kröfu gjaldanda um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 170. gr. laga um meðferð sakamála.

Bréfi umboðsmanns gjaldanda fylgir ljósrit af bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 13. febrúar 2018, vegna ákvörðunar um þóknun verjanda. Í bréfi umboðsmanns gjaldanda er vísað til þess að skattrannsóknarstjóri hafi hafnað því að ákvarða málsvarnarlaun vegna meðferðar refsimálsins fyrir yfirskattanefnd. Sé það í skýrri andstöðu við lög um meðferð sakamála og ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu ef verjanda verði ekki ákvörðuð málsvarnarlaun.

II.        

Eins og rakið er í úrskurði yfirskattanefndar nr. 14/2018 afturkallaði skattrannsóknarstjóri ríkisins með bréfi, dags. 29. september 2017, kröfu sína til yfirskattanefndar, dags. 27. janúar 2017, um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda sökum meintra brota á skattalögum, sbr. mál yfirskattanefndar nr. 12/2017. Í samræmi við það felldi yfirskattanefnd umrætt mál niður og tilkynnti gjaldanda þau málalok með bréfi, dags. 4. október 2017. Af hálfu gjaldanda var því mótmælt með bréfi, dags. 6. október 2017, að mál gjaldanda hefði verið fellt niður fyrir yfirskattanefnd án þess að afstaða væri tekin til fyrirliggjandi kröfu gjaldanda um greiðslu málskostnaður úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum.

Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 14/2018 var tekin afstaða til greindrar kröfu gjaldanda. Í úrskurðinum er gerð grein fyrir ákvæðum 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992 og því að yfirskattanefnd hafi litið svo á að á þeim lagagrundvelli væri heimilt að úrskurða um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði í málum sem skattrannsóknarstjóri ríkisins bæri undir nefndina til ákvörðunar skattsekta þegar niðurstaðan yrði sú að sektarkrafa næði ekki fram að ganga. Í úrskurðinum segir síðan:

„Samkvæmt orðalagi 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, er ljóst að kröfu um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði verður ekki komið fyrir yfirskattanefnd nema í tengslum við úrlausn kæranlegrar ákvörðunar, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. laga þessara, eða úrlausn um sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, sbr. 3. mgr. 2. gr. og 22. gr. laganna, sbr. að framan. Að þessu virtu og þar sem sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur gjaldanda, dags. 27. janúar 2017, kom ekki til úrlausnar yfirskattanefndar, enda afturkölluð af hálfu embættisins, ber að vísa kröfu gjaldanda um að honum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði frá yfirskattanefnd. Er sú niðurstaða og í samræmi við úrskurðaframkvæmd, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 3/2006 sem birtur er á vef nefndarinnar.“

Í bréfi umboðsmanns gjaldanda, dags. 9. mars 2018, er dregið í efa að ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992 geti átt við um málskostnaðarkröfu gjaldanda, enda lúti lagagreinin (8. gr.) eingöngu að kærumálum samkvæmt 1. og 2. mgr. 2. gr. laganna. Kemur fram í bréfinu að krafa gjaldanda um greiðslu málskostnaðar sé byggð á ákvæðum laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, en samkvæmt 2. mgr. 170. gr. þeirra laga skuli kveðið á um sakarkostnað í bókun dómara í þingbók um niðurfellingu máls.

Ályktun í endurupptökubeiðni um gildissvið 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992 þykir hvorki hafa stuðning af orðalagi þess ákvæðis né staðsetningu í 8. gr. laganna. Ef fallist yrði á sjónarmið gjaldanda væri raunar vafasamt að yfirleitt teldist heimilt að ákvarða greiðslu málskostnaðar til málsaðila eftir 2. mgr. 8. gr. laganna við þær aðstæður að sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins næði ekki fram að ganga. Tekið skal fram að vikið er að þessu álitamáli í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 3047/2000 án þess að afstaða sé tekin til lögmætis þess að „dæma aðilum málskostnað í sektarmálum“, svo sem þar segir. Ekki verður talið að lagastoð sé fyrir því að yfirskattanefnd ákvarði sakarkostnað eftir ákvæðum laga nr. 88/2008 í málum sem skattrannsóknarstjóri ríkisins ber undir yfirskattanefnd til sektarákvörðunar. Verður málskostnaður til gjaldanda því ekki ákvarðaður á þeim grundvelli.

Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að neitt það sé fram komið af hálfu gjaldanda sem gefur tilefni til þess að endurupptaka beri mál hans. Beiðni gjaldanda þar að lútandi er því hafnað.

Úrskurðarorð:

Beiðni gjaldanda um endurupptöku úrskurðar yfirskattanefndar nr. 14/2018 er hafnað.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum