Almannaheillaskrá – skattfrádráttur

Lögaðilum sem uppfylla tiltekin skilyrði er heimilt að sækja um skráningu á almannaheillaskrá Skattsins.

Lögaðilar á almannaheillaskrá eru almennt óhagnaðardrifin félög (e. non-profit organization) sem í megindráttum reka ekki atvinnustarfsemi í skilningi skattalaga, heldur fyrst og fremst starfsemi sem að verulegu leyti byggir á vinnu sjálfboðaliða og með þjóðfélagslegan tilgang og samfélagsleg markmið að leiðarljósi. Þessum lögaðilum er þó heimil einhver atvinnustarfsemi til fjáröflunar innan þeirra marka sem tilgreind eru í samþykktum þeirra og leiða má beint af tilgangi lögaðilans. Þá er þessum lögaðilum heimil starfsemi sem hefur aðeins óverulega fjárhagslega þýðingu m.t.t. heildartekna lögaðilans.

Starfsemi sem telst til almannaheilla í þessu sambandi er eftirfarandi:

  1. mannúðar- og líknarstarfsemi,
  2. æskulýðs- og menningarmálastarfsemi,
  3. starfsemi björgunarsveita, landssamtaka björgunarsveita og slysavarnadeilda og einstakra félagseininga sem starfa undir merkjum samtakanna,
  4. vísindaleg rannsóknarstarfsemi,
  5. starfsemi sjálfstæðra háskólasjóða og annarra menntasjóða,
  6. neytenda- og forvarnastarfsemi,
  7. starfsemi þjóðkirkjunnar, þjóðkirkjusafnaða og annarra skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga.

Félög á almannaheillaskrá Skattsins

Einungis félögum, sjóðum og stofnunum, þar með töldum sjálfseignarstofnunum, sem hafa með höndum óhagnaðardrifna starfsemi, er heimil skráning á almannaheillaskrá. Aðrir lögaðilar, þ.e. hlutafélög, einkahlutafélög, sameignarfélög, samlagsfélög, samlagshlutafélög og samvinnufélög, falla ekki undir heimild til skráningar á almannaheillaskrá. Gjafir og framlög til slíkra lögaðila skapa því ekki frádráttarheimild hjá gefendum. Listi yfir viðurkennda lögaðila hvers árs er birtur á heimasíðu Skattsins.

Lögaðilar skráðir á almannaheillaskrá Skattsins

Skráning - skilyrði

Skattfrádráttur

Umsókn

Lögaðili sem óskar eftir skráningu þarf að senda inn umsókn til Skattsins, á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður, ekki síðar en 1. nóvember vegna þess almanaksárs sem skráningu er ætlað að ná til. Verði umsókn samþykkt telst aðili skráður á almannaheillaskrá Skattsins frá og með þeim degi sem sótt var um skráningu. Frá þeim tímamörkum gilda réttindi tengd skráningunni s.s. frádráttarheimildir styrkveitenda vegna framlaga og gjafa, tiltekin endurgreiðsla virðisaukaskatts og undanþága frá fjármagnstekjuskatti.

Umsókn um skráningu á almannaheillaskrá er rafræn í gegnum þjónustuvef Skattsins. Innskráning er eingöngu með skilaveflykli lögaðilans. Eftir innskráningu er tenging í umsókn undir Samskipti.

Við afgreiðslu umsóknar og endurskoðun ákvörðunar um umsókn getur Skatturinn farið fram á að lögaðili sýni með rökstuðningi og gögnum fram á rétt sinn til skráningar.

Skráning fer fram eins fljótt og auðið er og eigi síðar en tveimur mánuðum frá móttöku Skattsins á umsókn um skráningu

Endurnýja skal skráningu á almannaheillaskrá árlega fyrir hvert byrjað almanaksár eigi síðar en 15. febrúar ár hvert. Endurskráning skv. 1. málsl. gildir frá byrjun viðkomandi almanaksárs og til loka þess almanaksárs að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins að öðru leyti.

Rétt er að benda á að almannaheillaskrá er sjálfstæð skrá sem haldin skv. tekjuskattslögum um þau félög sem m.a. eru viðurkennd m.t.t. til gjafafrádráttar og er ekki sama skrá og almannaheillafélagaskrá sem haldin er um stofnun félaga á grundvelli félagaréttar. Skráning lögaðila í almannaheillafélagaskrá leiðir ekki sjálfkrafa til þess að lögaðilinn sé jafnframt skráður eða talin uppfylla skilyrði fyrir skráningu á almannaheillaskrá, sbr. 9. tl. 4. gr. tskl.

Umsókn um skráningu á almannaheillaskrá / endurnýjun skráningar

Gagnaskil almannaheillafélaga að ári loknu

Að loknu rekstrarári þarf að senda inn upplýsingar um móttekna styrki síðasta rekstrarárs vegna starfsemi til almannaheilla. Skilyrði fyrir frádrætti styrkveitenda er að almannaheillafélag sé skráð á almannaheillaskrá Skattsins á því tímamarki sem framlag er veitt.

Eingöngu er hér um að ræða móttekna styrki án gagngjalds til styrkveitanda. Ekki er heimilt að skrá félagsgjöld, greiðslur fyrir happdrættismiða, auglýsingar o.s.frv.

Upplýsingum þarf að skila rafrænt eigi síðar en 20. janúar að rekstrarári loknu í gegnum gagnaskil á þjónustuvef Skattsins.  Notaður er skilaveflykill til auðkenningar. Tvær leiðir eru í boði:

Handskráning einstakra styrktaraðila

Senda inn XML skrá með upplýsingum um styrktaraðila.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum