Leiðbeiningar með eyðublaðinu TS-E9
Yfirlýsing um tímabundinn innflutning á ökutæki með erlend skráningarmerki (E9)
- Innflytjandi sem bókað hefur flutning á ökutæki til Íslands fær sendan tölvupóst og/eða SMS frá tollgæslu með leiðbeiningum.
- Athugið að nauðsynlegt er að skrá yfirlýsinguna svo hægt sé að fara með ökutæki frá borði á Íslandi.
- Afrit af yfirlýsingu E9 á rafrænu eða pappírsformi skal ávallt vera tiltækt í ökutæki meðan á dvöl stendur.
- Munið að skrá stöðu akstursmælis við eða fyrir komu.
Innflytjanda ökutækis með erlent skráningarmerki ber að kynna sér skilyrði fyrir tollfrjálsum innflutningi og útfylla yfirlýsingu E9.
- Innflytjandi þarf að fylla eyðublaðið út og staðfesta yfirlýsinguna fyrir komu til landsins.
- Fylla þarf út eitt eyðublað fyrir hvert ökutæki sem er skráningarskylt skv. umferðarlögum nr. 50/1987.
- Ef tengivagn fylgir ökutæki meðan á dvöl stendur er nægilegt að skrá tengivagn í þar til gerða dálka á sama eyðublaði og ökutæki.
- Innflytjanda ber að fylla út í alla rauðmerkta reiti.
- Afrit yfirlýsingar (E9) skal ávallt vera aðgengilegt í ökutæki vegna reglubundins eftirlits löggæsluaðila.
- Ökutæki einstaklinga eru eingöngu ætluð til persónulegra nota fyrir innflytjanda, fjölskyldu hans eða samferðafólk, sem öll hafa skráða búsetu erlendis.
- Komi ökutæki með farmflytjanda á farmskrá, þarf sama nafn að vera skráð á farmskrá og yfirlýsingu (E9).
- Komi ökutæki með Norröna, þarf sama nafn að vera skráð í bókunarkerfi ferjunnar og yfirlýsingu (E9).
- Ef nota á ökutæki í atvinnuskyni skal innflytjandi setja sig í samband við tollmiðlara fyrir komu til landsins vegna bráðabirgðaafgreiðslu.
- Ef nota á ökutæki til farþega- og farmflutninga eða útleigu skal innflytjandi kynna sér lög um farþega- og farmflutninga á landi nr. 28/2018 og lög um leigu skráningarskyldra ökutækja nr. 65/2015. Samgöngustofa sér um leyfisveitingar.
- Við útflutning á ökutæki sem hefur verið notað í atvinnuskyni er lögð fram beiðni um skoðun á vöru með eyðublaðinu E14. Einnig skal ökutækið tollafgreitt úr landi með því að skila útflutningsskýrslu.
- Ef innflytjandi tekur upp fasta búsetu á Íslandi skal hann tollafgreiða ökutæki um leið eða senda það úr landi. Þetta á einnig við þó að 12 mánuðir séu ekki liðnir frá komu ökutækis til landsins.
Tollgæsla getur farið fram á að innflytjandi ökutækis sýni fram á það með skjalfestum hætti að hann hyggist dvelja tímabundið á landinu og eigi lengur en 12 mánuði, t.d. með því að framvísa tímabundnum starfssamningi eða leigusamningi.
Fyrir nánari upplýsingar um tímabundinn innflutning á ökutækjum er innflytjendum bent á 7. gr. tollalaga nr. 88/2005 og reglugerð 630/2008 um ýmis tollfríðindi.