Bindandi álit 1/2022, frávísun
Skattstofn erfðafjárskatts
Framfærð álitaefni í álitsbeiðninni hverfast um skyldu til greiðslu erfðafjárskatts og ákvörðun skattstofns.
Forsendur og niðurstöður:
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, skal ríkisskattstjóri láta uppi bindandi álit í skattamálum þegar um sé að ræða álitamál er snerta álagningu skatta og gjalda sem eru á valdsviði ríkisskattstjóra og falla undir úrskurðarvald yfirskattanefndar.
Þau álitamál er álitsbeiðnin varðar lúta að ákvörðun skattstofns til erfðafjárskatts skv. lögum nr. 14/2004, um erfðafjárskatt. Í lögunum er m.a. fjallað um hlutverk og valdheimildir sýslumanns, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og yfirskattanefndar við beitingu laganna.
Samkvæmt 7. gr. erfðafjárskattslaga skal leggja erfðafjárskýrslu fyrir sýslumann sem yfirfer hana, gætir þess að hún sé í samræmi við skiptagerð viðkomandi dánarbús og ákvarðar erfðafjárskatt að því loknu telji hann hana fullnægjandi, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar. Í 4. mgr. 7. gr. laganna kemur fram að greini erfingja á við sýslumann um skattstofn vegna tiltekinnar eignar eða annað sem áhrif hefur á fjárhæð erfðafjárskattsins skuli sýslumaður veita erfingjum allt að tveggja vikna frest til að leggja fram gögn til stuðnings kröfum sínum. Er honum heimilt að lengja frestinn um allt að tvær vikur. Að frestinum liðnum skuli sýslumaður ákvarða erfðafjárskattinn á grundvelli framkominna gagna og tilkynna erfingjum með sannanlegum hætti. Ákvörðun sýslumanns er kæranleg til yfirskattanefndar samkvæmt lokamálslið málsgreinarinnar. Samkvæmt 5. mgr. sömu lagagreinar ber sýslumanni að árita skýrsluna þegar endanleg niðurstaða um ágreiningsefnið liggur fyrir og senda skýrsluna að því búnu til ríkisskattstjóra sem yfirfer hana og kannar hvort eignir séu réttilega taldar fram.
Í 1. mgr. 8. gr. erfðafjárskattslaga kemur fram að þegar dánarbúi er skipt opinberum skiptum skuli skiptastjóri útfylla erfðafjárskýrslu í samræmi við frumvarp til úthlutunar úr búinu, undirrita hana einn en leggja hana síðan fyrir sýslumann ásamt frumvarpi til úthlutunar til bráðabirgðaákvörðunar á erfðafjárskatti áður en skiptafundur verði haldinn um frumvarpið. Innan viku frá því að skiptum er lokið skal skiptastjóri leggja skýrsluna á ný fyrir sýslumann til ákvörðunar skattsins og áritunar. Í 2. mgr. segir að sýslumanni beri að senda skýrsluna, að lokinni áritun hans, til ríkisskattstjóra sem yfirfari hana og kanni hvort eignir séu réttilega taldar fram. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar er ákvörðun sýslumanns kæranleg til yfirskattanefndar.
Líkt og að framan er rakið hefur ríkisskattstjóri enga aðkomu að ákvörðun sýslumanns um skattstofn við frumákvörðun erfðafjárskatts. Samkvæmt 2. mgr. b-liðs 3. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt er gert ráð fyrir því að heimilt sé skv. 17. -23. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum að óska eftir fram fari mat á verðmæti fasteigna. Þá er tekið fram í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 14/2004 að rísi ágreiningur um ákvörðun sýslumanns um skattstofn, þá sé unnt að kæra ákvörðun sýslumanns til yfirskattanefndar. Að endingu þykir rétt að benda á 1. málslið 6. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, þar sem tekið er fram að „Ríkisskattstjóri skal leggja bindandi álit til grundvallar skattlagningu álitsbeiðanda“. Ákvæði þetta beinist eðli máls samkvæmt sérstaklega að þeim sköttum og gjöldum sem ríkisskattstjóra er falin framkvæmd á og varða frumálagningu opinberra gjalda. Hvorki er að finna í lögum um bindandi álit né í lögum um erfðafjárskatt heimild til að óska eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvernig ákvarða beri skattstofn til erfðafjárskatts, þannig að slíkt álit bindi hendur sýslumanns er hann sinnir lögboðnu hlutverki sínu samkvæmt framangreindum ákvæðum. Þá verður ekki talið á framangreindum forsendum að ríkisskattstjóra sé rétt eða skylt að svara almennum fyrirspurnum um framkvæmd álagningar erfðafjárskatts. Engu breytir í þessu sambandi þótt sýslumaður skuli að lokinni áritun senda ríkisskattstjóra til yfirferðar skýrslur um erfðafjárskatt. Samkvæmt framansögðu þykir ekki að annarri niðurstöðu komist en að það falli utan valdsviðs ríkisskattstjóra að veita bindandi álit um þau álitamál sem sett eru fram í álitsbeiðninni.
Með vísan til framangreinds er beiðni álitsbeiðanda um bindandi álit vísað frá, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.
