Bindandi álit

Bindandi álit nr. 1/07

7.2.2007

7. febrúar 2007 nr. 1/07

Tilefni:
Í bréfi dagsettu 31. október 2006 fer umboðsmaður álitsbeiðanda fram á að ríkisskattstjóri láti, á grundvelli laga nr. 91/1988, um bindandi álit í skattamálum, uppi álit sitt um skattalega meðferð verðbréfalánaviðskipta.

Ríkisskattstjóri telur að uppfyllt séu skilyrði laga nr. 91/1998 fyrir því að hann gefi álit sitt af þessu tilefni.

Málavextir:
Atvikum máls og fyrirætlunum álitsbeiðanda er lýst með svofelldum orðum:

,,A verðbréfavarsla hf. (hér eftir nefnt A) hefur hug á að bjóða upp á verðbréfalánaviðskipti á verðbréfamarkaði.

Verðbréfalánaviðskipti (e. security lending transaction) eru þegar eignarhald verðbréfa er tímabundið fært frá einum aðila (leigusala) yfir á annan (leigutaka) með samtíma skuldbindingu um að færa viðskiptin til baka þegar þess er krafist eða þegar tilgreindu lánstímabili lýkur. Leigusali þarf ekki að skila sömu bréfum sem hann fékk lánuð en þarf að skila jafngildi þeirra til leigusala.

Leigusali leigir verðbréf til milligönguaðila (A), sem leigir sömu bréf áfram og getur leigusalinn aldrei vitað hver leigutakinn er og leigusalinn veit ekki hver leigir. Leigutakinn greiðir þóknun til milligönguaðila, sem aftur greiðir þóknun til leigusala. Undir lok leigutíma skilar leigutaki milligönguaðila sömu eða eins verðbréfum og milligönguaðilinn skilar þeim til leigusala. Milligönguaðilinn gegnir meðal annars því hlutverki að veita trúnað og nafnleynd, þ.e. leigutaki og leigusali vita ekki hvor af öðrum. Með öðrum orðum, milligönguaðilinn kemur fram sem sjálfstæður leigutaki og leigusali gagnvart upphaflegum leigusala og endanlegum leigutaka.

Leigutaki þarf að veita A tryggingu sem aftur er í ábyrgð gagnvart leigusala. Tryggingar verða í formi reiðufjár eða annarra verðmæta sem yfirfærð eru á A og síðan aftur til baka á leigutaka þegar hinum leigðu verðbréfum hefur verið skilað.

Opinber eignaskráning leigðra verðbréfa breytist á þann hátt að milligönguaðili verður fyrst skráður eigandi og síðan verður leigutakinn skráður eigandi. Við skil verðbréfa skilar leigutaki verðbréfunum, eða eins verðbréfum, til milligönguaðila og hann skilar þeim til leigusala.

Verðbréfin eru leigð með öllum réttindum sem þeim fylgja, svo sem atkvæðisrétti og réttindum til arðgreiðslna. Falli arðgreiðsla til á meðan hlutabréf eru í leigu rennur hún til skráðs eiganda, sem er leigutakinn og skal leigutaki standa A sem skil á aukinni þóknun sem er að minnsta kosti jafnhá arðgreiðslunni. A stendur svo leigusala skil á þóknun í samræmi við arðgreiðsluna. Leigusali, sem hefði fengið arðgreiðslu ef hann hefði ekki leigt bréfin, hefði getað nýtt heimild 9. tl. 31. gr. laga nr. 90/2003, og dregið fenginn arð frá tekjum sínum. Þóknanatekjur eru hins vegar skattskyldar og þarf tilbúin arðgreiðsla því að vera hærri sem skattlagningunni nemur, til að vera jafngildi arðgreiðslunnar sem leigusalinn tapar vegna leigunnar.

Markmið slíkra viðskipta er í sumum tilfellum að sýna fram á verðbréfaeign gagnvart viðskiptaaðila og kann að vera að hann telji hagstæðara að fá verðbréf leigð í stað þess að kaupa á markaði. Í öðrum tilfellum er leigutaki að leigja bréf til að efna samning við viðskiptaaðila. Í slíkum tilfellum er ljóst að leigutaki getur ekki skilað sömu bréfum og þarf að kaupa eins verðbréf á markaði til að skila A.

Leigusalar geta meðal annarra verið Lífeyrissjóðir, verðbréfafyrirtæki, verðbréfasjóðir og erlendir aðilar.

Leigutakar geta meðal annarra verið Verðbréfafyrirtæki, verðbréfasjóðir og erlendar fjármálastofnanir." ... ,,Í því tilviki sem hér um ræðir mun leigusali verða Lífeyrissjóður X. Leigusalinn mun leigja milliliðnum hlutabréf. A mun svo samstundis framleigja leigutaka, Z UK,, sömu hlutabréf. Að leigutíma loknum, mun hlutabréfunum verða skilað til A, sem skilar þeim svo til Lífeyrissjóðs X."

Að mati umboðsmanns álitsbeiðanda eru uppi eftirfarandi álitamál í skattalegu tilliti:

,,Ef framangreindar færslur hlutabréfa milli aðila, leigusala, milliliðs og leigutaka verða meðhöndlaðar sem sala í skattalegu tilliti þarf að reikna út hvort söluhagnaður hafi myndast, sbr. 18. gr. laga nr. 90/2003. Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir A að vita hvort litið verði á framsalið sem sölu eða leigu, því það er forsenda þess að A geti boðið upp á þessa þjónustu.

Einnig er mikilvægt að fá úrlausn skattalegra álitaefna sem skapast þegar arðgreiðsla fellur til leigutaka á leigutíma, arðgreiðsla sem leigusali raunverulega hefði átt rétt á að fá ef hann hefði ekki leigt bréfin frá sér. Samningur um leigu ber með sér að hlutabréfin eru leigð með öllum réttindum sem þeim fylgja, þar með talið réttindum til arðgreiðslna. Leigutakinn þarf því að standa leigusala skil á hærri þóknun, sem nemur arðgreiðslunni (tilbúin arðgreiðsla).

Álitsbeiðandi lýtur svo á að ekki geti verið um sölu að ræða. Samkvæmt Ólafi Lárussyni prófessor, í riti hans kaflar úr kröfurétti á bls. 75, er sala „gagnkvæmur samningur, þar sem annar aðila (seljandinn) lætur af hendi eða lofar að láta af hendi einhverja eign til hins aðilans (kaupandans), en kaupandinn greiðir eða lofar að greiða seljanda peninga sem endurgjald fyrir eignina“. Svo segir Ólafur: „aðalatriði kaupsamnings er yfirfærsla hins beina eignarréttar yfir hinni seldu eign“. Einnig segir eftirfarandi um hugtakið sölu, í riti Ásmunds G. Vilhjálmssonar, Skattur á fyrirtæki á bls. 146: „Með sölu í skattalögum er átt við endanlega yfirfærslu á eignarrétti að eign með endurgjaldi í peningum, sem nemi andvirði eignar á hlutaðeigandi stað og tíma“. Svo segir einnig á sömu blaðsíðu: „Yfirfærsla á eignarrétti verður að vera endanleg til að framkalla söluhagnaðarskattlagningu“.

Leitað var eftir upplýsingum frá Danmörku varðandi álitaefni það sem hér er uppi og kannað hvernig verðbréfalánaviðskipti eru meðhöndluð í skattalegu tilliti. Þar er ekki litið á slík lán sem sölu heldur leigu og leiguþóknanir eru skattlagðar sem venjulegar tekjur. Tilbúin arðgreiðsla til lánveitanda er meðhöndluð sem venjulegar tekjur og skattlagðar sem slíkar. Gagnvart lántakandanum þá leigir hann verðbréfin til sín með öllum réttindum, þar með töldum rétti til arðgreiðslu. Slíkar tekjur í hendi leigutaka eru án undantekninga meðhöndlaðar sem arðstekjur.

Í Svíþjóð falla færslur verðbréfa í tengslum við verðbréfalánaviðskipti ekki undir hugtakið sölu, sbr. 9. mgr. 44. kafla sænsku skattalaganna (Inkomstskattelag) (1999:1229).

Samkvæmt framansögðu og með tilliti til þess að hinni leigðu eign eða eins, verður skilað til Lífeyrissjóðs X að leigutíma loknum, ætti niðurstaðan að vera sú að eingöngu verði litið á gerninginn sem leigu en ekki sölu og því getur ekki verið um að ræða að gera þurfi grein fyrir slíkum viðskiptum sem kaupum eða sölu hlutabréfa."

Álitaefni:
Álitsbeiðandi fer fram á að ríkisskattstjóri staðfesti í bindandi áliti:

  1. Að ekki verði litið á framsal hlutabréfa frá Lífeyrissjóð X til A og frá A til Z UK sem sölu í skattalegu tilliti heldur leigu.
  2. Að ekki verið litið á framsal hlutabréfa frá Z UK til A og frá A til Lífeyrissjóðs X sem sölu í skattalegu tilliti heldur leigu.
  3. Að tilbúin arðgreiðsla (e. manufactured dividend) frá Z UK til A og frá A til Lífeyrissjóðs X jafnhá eða hærri arðgreiðslu sem fellur til Z UK á leigutímabilinu sé ekki skilgreind sem arðstekjur sbr. 4. tl. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, í hendi A heldur tekjur skv. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt."

Meðfylgjandi gögn:
Afrit af uppkasti rammasamnings og viðauka við hann um leigu verðbréfa.

Forsendur og niðurstöður:
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, er það forsenda þess að ríkisskattstjóri láti uppi bindandi álit sitt, að um sé að ræða mál er varðar verulega hagsmuni þess sem eftir álitinu leitar. Álitaefni þarf þannig að varða skattalega stöðu álitsbeiðanda sjálfs. Áliti er aðeins ætlað að vera bindandi fyrir skattyfirvöld við skattlagningu álitsbeiðanda að því er þau atvik varðar er álit tekur til, sbr. 6. gr. laga nr. 91/1998, en bindur skattyfirvöld ekki með sama hætti gagnvart öðrum þeim er atvikin kunna að varða. Ekki verður því látið uppi bindandi álit um skattalega stöðu tilgreindra væntanlegra leigusala og leigutaka gagnvart álitsbeiðanda.

Í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er kveðið á um að hagnaður af sölu hlutabréfa teljist að fullu til skattskyldra tekna á söluári og skiptir engu máli hve lengi skattaðili hefur átt hin seldu hlutabréf. Við mat á því hvort framangreint ákvæði gildi verður að vera um að ræða sölu á hlutabréfum. Skilgreining umboðsmanns álitsbeiðanda á verðbréfalánaviðskiptum er að finna í þeirri álitsbeiðni sem hér er til umfjöllunar. Þar kemur fram að um verðbréfalánaviðskipti sé að ræða þegar eignarhald verðbréfa er tímabundið fært frá einum aðila (leigusala) yfir á annan (leigutaka) með samtíma skuldbindingu um að færa viðskiptin til baka þegar þess er krafist eða þegar tilgreindu lánstímabili lýkur. Leigusali þarf þá ekki að skila sömu bréfum sem hann fékk lánuð en þarf að skila jafngildi þeirra til leigusala. Álitsbeiðandi óskar eftir að ríkisskattstjóri staðfesti í áliti sínu að: „...ekki verði litið á framsal hlutabréfa frá Lífeyrissjóð X til A og frá A til Z UK sem sölu í skattalegu tilliti heldur leigu" og að „...ekki verið litið á framsal hlutabréfa frá Z UK til A og frá A til Lífeyrissjóðs X sem sölu í skattalegu tilliti heldur leigu". Varðandi framangreint umfjöllunarefni þarf að taka afstöðu til þess hvort um er að ræða sölu eða leigu á hlutabréfum þegar um verðbréfalánaviðskipti, eins og þau eru skilgreind hér að framan, er að ræða. Að mati ríkisskattstjóra má fallast á að þegar eignarhald verðbréfa er tímabundið fært frá einum aðila yfir á annan og gerður er samningur milli aðila um að færa viðskiptin til baka þegar tilgreindu lánstímabili líkur, sé um að ræða leigu á tilgreindum verðbréfum en ekki sölu.

Þá óskar álitsbeiðandi eftir því að ríkisskattstjóri staðfesti í áliti sínu að „...tilbúin arðgreiðsla (e. manufactured dividend) frá Z UK til A og frá A til Lífeyrissjóðs X jafnhá eða hærri arðgreiðslu sem fellur til Z UK á leigutímabilinu sé ekki skilgreind sem arðstekjur sbr. 4. tl. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, í hendi A heldur tekjur skv. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt." Í 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, segir að til arðs af hlutum og hlutabréfum í félögum, sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., teljist auk venjulegrar arðgreiðslu sérhver afhending verðmæta til hlutareiganda með takmarkaða eða ótakmarkaða ábyrgð eða hluthafa er telja verður sem tekjur af hlutareign þeirra í félaginu. Af framangreindu ákvæði má ráða að arður sé einvörðungu greiddur hluthöfum í félögum, sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Verður tilbúin arðgreiðsla til og frá álitsbeiðanda því ekki skilgreind sem arðstekjur, sbr. 4. tl. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003.

Ekki verður annað séð en að tilbúin arðgreiðsla til og frá álitsbeiðanda sé hluti af leigutekjum samkvæmt samningi aðila. Af þeim sökum fellst ríkisskattstjóri á að tilbúin arðgreiðsla til og frá álitsbeiðanda verði skilgreind sem tekjur skv. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003.

Álitsorð:
Álit þetta miðast við fram færðar forsendur og að áform álitsbeiðanda gangi eftir með þeim hætti sem fram kemur í málavaxtalýsingu hér að framan.

Litið verður á framsal álitsbeiðanda á hlutabréfum til Z UK annars vegar og til Lífeyrissjóðs X hins vegar sem leigu en ekki sölu. Í slíkum tilvikum á 1. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt því ekki við. Þá verður litið á tilbúna arðgreiðslu til og frá álitsbeiðanda sem tekjur skv. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, en ekki arðstekjur 4. tl. C-liðar 7. gr. sömu laga.

Kæruréttur:
Bindandi álit þetta er kæranlegt til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Kærufrestur er þrír mánuðir frá póstlagningardegi álitsins sem fram kemur í dagsetningu bréfs þessa. Kæra skal vera skrifleg. Skal koma fram í henni hvaða atriði álitsins sæta kæru og rökstuðningur fyrir kröfum. Frumrit eða endurrit hins kærða álits skal fylgja kæru, svo og þau gögn sem ætluð eru til stuðnings kærunni.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum