Bindandi álit, frávísun nr. 1/00
Skattaleg meðferð lífeyrisiðgjalda. Frávísun: Ósk um ráðgjöf, álitaefni varða ekki álitsbeiðanda., ráðstöfun þegar hafin.
Reykjavík, 4. febrúar 2000Ríkisskattstjóri hefur þann 24. janúar 2000 móttekið beiðni A hf. um bindandi álit.
Í beiðninni kemur fram að A hf. hafi í huga að stækka markhóp þeirra sem séu og verði viðskiptavinir Lífeyrissjóðsins B. Markmiðið sé að auknar greiðslur lífeyrissjóðsiðgjalda falli til sjóðsins í viðbót við þær greiðslur, sem nú séu tíðkaðar samkvæmt samningum og heimildarákvæði er um, þ.e. 10% greiðslurnar og 2% viðbótargreiðslurnar. Í beiðninni er greint frá því að til að ná þessu markmiði sé ætlunin að bjóða bæði erlendum fyrirtækjum og rekstraraðilum sem og innlendum að greiða viðbótariðgjald í sjóðinn, t.d. 2-20%. Í framhaldi af því eru lagðar fram fjórar spurningar um skattalega meðferð slíkra lífeyrisiðgjalda hjá tilvonandi viðskiptavinum sjóðsins.
Að mati ríkisskattstjóra felur álitsbeiðni yðar einungis í sér ósk um ráðgjöf með tilliti til gildandi laga um skattalega meðferð lífeyrisiðgjalda, en ekki beiðni um álit á tiltekinni fyrirhugaðri ráðstöfum. Þá vekur það athygli að þau málefni sem óskað er bindandi álits á varða ekki beina hagsmuni álitsbeiðanda, heldur hugsanlegra viðskiptavina hans. Ekki liggur fyrir að beiðnin sé sett fram í umboði þeirra. Þessar ástæður telur ríkisskattstjóri mæla gegn því að látið verði uppi bindandi álit, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit.
Með vísan til ofangreinds er beiðni um bindandi álit vísað frá.
Frávísun þessi er ekki kæranleg, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit.
Ályktunarorð
Álitsbeiðni nr. .... er vísað frá afgreiðslu bindandi álita í skattamálum
Ríkisskattstjóri