Ákvörðun 2/2025 um niðurfellingu sáttagerðar og beitingu stjórnvaldssektar
Þann 8. apríl 2025 ákvað ríkisskattstjóri að leggja stjórnvaldssekt á Litla Jón ehf. (hér eftir félagið), kt. 5804132770, vegna brota gegn ákvæðum laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka (hér eftir oftast pþl.) og vegna brota gegn ákvæðum laga nr. 68/2023 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna (hér eftir oftast þfl.). Með ákvörðuninni var einnig felld úr gildi sáttargerð á milli ríkisskattstjóra og félagsins, sem þá hét Fasteignasala Akureyrar ehf., dags. 20 febrúar 2023, sbr. ákvörðun ríkisskattstjóra nr. 3/2023.
Ákvörðun ríkisskattstjóra er tilkomin vegna þess að félagið hefur ekki starfað í samræmi við ákvæði laganna og framkvæmdi ekki fullnægjandi úrbætur í samræmi við úrbótakröfu embættisins. Félagið uppfyllti því ekki skilyrði sáttargerðar þess við ríkisskattstjóra. Ákvörðun ríkisskattstjóra tekur bæði til brota sem fjallað var um í sátt ríkisskattstjóra og félagsins og brota sem embættið varð áskynja um við úttekt ríkisskattstjóra á úrbótakröfu félagsins.
Félagið telst hafa brotið gegn ákvæðum laganna með því að:
- Hafa ekki framkvæmt áreiðanleikakönnun í samræmi við 8. og 10. gr. pþl., sem taldist brot gegn 3. og 4. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl., sbr. nú 4. og 5. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl., og var það fyrra brot úr sátt ríkisskattstjóra og félagsins.
- Ekki var gerð krafa um að viðskiptamenn og einstaklingur sem kom fram fyrir hönd lögaðila sönnuðu á sér deili í samræmi við a-lið 1. mgr. 10. gr. pþl., sbr. b-lið 1. mgr. 10. gr. pþl., sem telst brot gegn 5. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl. og var það ítrekað brot úr sátt ríkisskattstjóra og félagsins.
- Ekki var gerð krafa um að lögaðili sannaði á sér deili í samræmi við b-lið 1. mgr. 10. gr. pþl., sem telst brot gegn 5. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.
- Fullnægjandi upplýsinga um raunverulegan eiganda var ekki aflað í samræmi við e-lið 1. mgr. 10. gr. pþl., sem telst brot gegn 5. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl. og var það ítrekað brot úr sátt ríkisskattstjóra og félagsins.
- Ekki var framkvæmd athugun á því hvort viðskiptamaður væri í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla samkvæmt 1. mgr. 17. gr. pþl., sem telst brot gegn 12. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl. og var það ítrekað brot úr sátt ríkisskattstjóra og félagsins .
- Ekki var framkvæmd athugun á því hvort raunverulegur eigandi væri í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla samkvæmt 1. mgr. 17. gr. pþl., sem telst brot gegn 12. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.
- Varðveita gögn ekki með fullnægjandi hætti í samræmi við 1. mgr. 28. gr. pþl., sem taldist brot gegn 16. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl., sbr. nú 17. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl., og var það fyrra brot úr sátt ríkisskattstjóra og félagsins.
- Fylgja ekki ákvæðum laga nr. 64/2019 og kanna hvort viðskiptamenn sæti alþjóðlegum þvingunaraðgerðum, sbr. 2. og 3. mgr. 7. gr. laganna, sem taldist brot gegn 2. tölul. 1. mgr. 20. gr. laganna, sbr. nú 2. og 3. mgr. 13. gr. þfl., sem telst brot gegn 2. tölul. 1. mgr. 30. gr. þfl., og var það fyrra brot úr sátt ríkisskattstjóra og félagsins.
Með ákvörðun embættisins lagði ríkisskattstjóri stjórnvaldssekt á félagið að fjárhæð 1.300.000 kr.
Málavextir, málsástæður og lagarök
Með vísan til n-liðar 1. mgr. 2. gr. pþl. falla fasteignasölur, bifreiðaumboð, fasteigna-, fyrirtækja-, skipa- og bifreiðasalar og fasteignafélög, hvort sem starfsemi snýst um beina leigu eða sölu þessara félaga á fasteignum, undir gildissvið laganna.
Samkvæmt 12. tölul. 1. mgr. 3. gr. þfl. er tilkynningarskyldur aðili samkvæmt lögunum skilgreindur sem aðili sem fellur undir 2. gr. pþl.
Ríkisskattstjóri hefur eftirlit með því að tilkynningarskyldir aðilar sem falla undir l–u-liði 1. mgr. 2. gr. pþl. fari að ákvæðum laganna og reglum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra, sbr. 2. mgr. 38. gr. pþl. Þá hefur ríkisskattstjóri eftirlit með því að sömu tilkynningarskyldir aðilar fari að ákvæðum 10. og 13. gr. þfl., sbr. 2. mgr. 26. gr. laganna.
Aðdragandi ákvörðunar ríkisskattstjóra er að eftir vettvangsathugun á starfsstöð félagsins var því tilkynnt að embættið hygðist leggja á félagið stjórnvaldssekt að fjárhæð 1.100.000 kr. vegna brota gegn ákvæðum laga nr. 140/2018 og þágildandi laga nr. 64/2019. Í framhaldi þess var með ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 20. febrúar 2023, gerð sátt á milli ríkisskattstjóra og félagsins, sbr. ákvörðun embættisins nr. 3/2023. Í sáttinni fólst að félagið viðurkenndi að hafa brotið gegn eftirfarandi lagaákvæðum með því að:
- Áreiðanleikakönnun hafi ekki verið framkvæmd í samræmi við 8. og 10. gr. pþl., sem taldist vera brot gegn 3. og 4. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.
- Afla ekki upplýsinga um raunverulega eigendur í samræmi við 10. gr. pþl., sem taldist vera brot gegn 4. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.
- Ekki hafi verið gerð krafa um að viðskiptamaður sannaði á sér deili í samræmi við 1. mgr. 10. gr. pþl., sem taldist brot gegn 4. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.
- Framkvæma ekki athugun á því hvort viðskiptamaður hafi stjórnmálaleg tengsl samkvæmt 1. mgr. 17. gr pþl., sem taldist vera brot gegn 11. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.
- Varðveita ekki gögn með fullnægjandi hætti í samræmi við 1. mgr. 28. gr. pþl., sem taldist brot gegn 16. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.
- Fylgja ekki ákvæðum laga nr. 64/2019 og kanna hvort viðskiptamenn sæti alþjóðlegum þvingunaraðgerðum, sbr. 2. og 3. mgr. 7. gr. laganna, sem taldist vera brot gegn 2. tölul. 1. mgr. 20 gr. laganna.
Með sáttargerðinni samþykkti félagið að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 550.000 kr., þ.e. sem nam 50% af fyrirhugaðri sektarfjárhæð sem félaginu hafði verið tilkynnt um.
Með viðauka við sátt ríkisskattstjóra og félagsins, dags. 20. febrúar 2023, setti ríkisskattstjóri fram kröfur um úrbætur af hálfu félagsins. Viðaukinn taldist vera ófrávíkjanlegur hluti af sátt aðila. Fram kom að ríkisskattstjóri færi fram á að félagið færi að ákvæðum laganna. Lagt var fyrir félagið að áreiðanleikakanna alla viðskiptamenn félagsins, þar með talda fyrirsvarsmenn lögaðila í samræmi við ákvæði 8. og 10. gr. pþl. Einnig þyrfti félagið að framkvæma athugun á stjórnmálalegum tengslum skv. 1. mgr. 17. gr. pþl. og vista staðfestingu þeirrar leitar í samræmi við 1. mgr. 28. gr. pþl. Að lokum var lagt fyrir félagið að útbúa og starfa í samræmi við skriflegan verkferil sbr., 2. og 3. mgr. 7. gr. þágildandi laga nr. 64/2019. Þá kom fram að ef fullnægjandi úrbætur væru ekki gerðar innan tilgreinds frests myndi ríkisskattstjóri beita auknum viðurlögum í samræmi við ákvæði laga nr. 140/2018 og þágildandi laga nr. 64/2019.
Úttekt ríkisskattstjóra á úrbótakröfu fór fram með gagnaöflun þar sem ríkisskattstjóri kannaði framkvæmd áreiðanleikakannana af hálfu félagsins í ákveðnum viðskiptum.
Við úttekt ríkisskattstjóra varð ekki annað séð en að félagið hafði ekki framkvæmt fullnægjandi úrbætur í samræmi við úrbótakröfu embættisins. Félagið hafði ekki framkvæmt áreiðanleikakannanir á viðskiptamönnum sínum með fullnægjandi hætti í samræmi við ákvæði laga nr. 140/2018, þá sérstaklega hvað varðar framkvæmd áreiðanleikakannana í upphafi viðskipta. Einnig hvað varðar könnun upplýsinga um raunverulega eigendur og hvort einstaklingar og raunverulegir eigendur væru í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla.
Með bréfi ríkisskattsstjóra var félaginu tilkynnt að ekki yrði annað séð en að félagið hefði ekki framkvæmt fullnægjandi úrbætur í samræmi við úrbótakröfu þess og því ekki uppfyllt skilyrði sáttargerðar félagsins við ríkisskattsstjóra, sbr. ákvörðun embættisins nr. 3/2023. Ríkisskattstjóri hygðist því fella úr gildi sáttagerð embættisins við félagið og leggja á það stjórnvaldssekt vegna þeirra brota félagsins sem fjallað var um í sáttargerð og vegna þeirra brota sem embættið varð áskynja um við úttekt á úrbótakröfu félagsins.
Í andmælum félagsins við fyrirhugaðri beitingu stjórnvaldssektar kom fram að félagið gangist við því að misbrestir hafi verið á framkvæmd áreiðanleikakannanna og að félagið hafi reynt að tryggja hlítni við regluverk til varnar peningaþvætti og fjármögnum hryðjuverka í kjölfar sáttarinnar og athugasemdir ríkisskattstjóra skýrist fremur af misskilningi fremur en hirðuleysi. Helstu andmæli félagsins að mati ríkisskattstjóra voru eftirfarandi:
- Að annmarkar sem væru til grundvallar sekt hefði nú verið bætt úr og væru ekki lengur til staðar.
- Að fremur hafi verið um misbrest í skjölun að ræða heldur en að ekki hafi verið óskað eftir skilríkjum.
- Að nýta hafi mátt eldri gögn þar sem vitað hafi verið að þau væru rétt að efni til.
- Að fjárhæð stjórnvaldssektar væri of há, m.a. með hliðsjón af því að rekstur hafði minnkað.
Ákvörðun
Ríkisskattstjóri getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn þeim ákvæðum sem tilgreind eru í 1. mgr. 46. gr. pþl. og 1. mgr. 30. gr. þfl. Stjórnvaldssektir á hendur aðilum sem falla undir i–u-liði 1. mgr. 2. gr. pþl., geta numið frá 500.000 krónum til 500.000.000 króna, sbr. 5. mgr. 46. gr. pþl. og 5. mgr. 30. gr. þfl. Við ákvörðun um tegund og umfang viðurlaga samkvæmt XII. kafla pþl., þ.m.t. fjárhæð stjórnvaldssekta, skal taka tillit til sjónarmiða sem fram koma í a–i-liðum 1. mgr. 44. gr. a pþl., sbr. einnig 2. mgr. 30 gr. þfl.
Að mati ríkisskattstjóra þóttu framkomnar athugasemdir ekki breyta afstöðu embættisins til málsins og þeirra annmarka sem hafi verið á framkvæmd félagsins. Meðal annars gæti ríkisskattstjóri ekki fallist á að það að félagið kynni nú að hafa bætt úr annmörkum sem embættið varð áskynja um við úttekt á úrbótakröfunni geti haft áhrif, hvorki til lækkunar á sektarfjárhæð né hvað varðar heimfærslu á brotum. Í úrbótakröfu ríkisskattstjóra, sem var ófrávíkjanlegur viðauki sáttarinnar, hafði félaginu verið veittur rúmur frestur til að gera tilgreindar úrbætur á starfsemi sinni. Ríkisskattstjóri taldi þó mega fallast á að það að starfsfólki félagsins hafi fækkað og þar með umsvif félagsins á sínum markaði gæti leitt til þess að lækka megi sektarfjárhæð. Í ljósi þess þó að stærstur hluti sektarfjárhæðarinnar væri vegna sáttargerðar ríkisskattstjóra og félagsins, dags. 20. febrúar 2023, gæti embættið þó ekki fallist á nema takmarkaða lækkun af þeim ástæðum.
Við mat á fjárhæð sektar leit ríkisskattstjóri til fyrri brota félagsins og þess að einnig væri um ítrekuð brot að ræða, en félagið gerði ekki fullnægjandi úrbætur eftir úrbótakröfu embættisins, sem var ófrávíkjanlegur viðauki með sáttargerð við félagið vegna fyrri brota þess. Þá var litið til þess að ákvörðunin tæki bæði til þeirra brota félagsins sem fjallað var um í sáttargerð ríkisskattstjóra við félagið og þeirra brota sem embættið varð áskynja um við úttekt á úrbótakröfu félagsins. Sérstaklega væri litið til þess að félagið hafði ekki framkvæmt áreiðanleikakannanir á viðskiptamönnum sínum með fullnægjandi hætti í samræmi við ákvæði peningaþvættislaga, þá hvað varðar framkvæmd áreiðanleikakönnunar áður en viðskipti fara fram, könnun á raunverulegu eignarhaldi og könnun á hvort viðskiptamaður og raunverulegur eigandi sé í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Einnig var litið til þess að þrátt fyrir að félaginu hafði verið veittur rúmur frestur hafði félagið enn ekki lokið við að innleiða viðunandi úrbætur þegar úttekt á úrbótakröfunni fór fram. Að lokum leit ríkisskattstjóri til rekstrar félagsins og fjárhagsstöðu þess eins og hún birtist í ársreikningum félagsins.
Með ákvörðun ríkisskattstjóra var sáttargerð ríkisskattstjóra og Fasteignasölu Akureyrar ehf. (Litli Jón ehf.), dags. 20. febrúar 2023, sbr. ákvörðun embættisins nr. 3/2023, felld úr gildi og Litla Jón ehf. gert að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 1.300.000 kr.
Samkvæmt 53. gr. pþl., 36. gr. þfl. og reglum ríkisskattstjóra nr. 1131/2020, um opinbera birtingu stjórnsýsluviðurlaga samkvæmt lögum nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, er meginreglan sú að birta skuli opinberlega stjórnsýsluviðurlög sem ákveðin eru í samræmi við 46.–47. og 50.–51. gr. pþl. og 30. og 31. gr. þfl.
