Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 10/2003

Aðflutningsgjöld af bifreiðinni X, sem er af gerðinni Jeep Grand Cherokee, árgerð 1999.

31.10.2003

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur móttók bréf innflytjanda, þar sem kærð var sú ákvörðun embættisins að hafna við tollafgreiðslu, vörureikningi sem lagður var fram vegna tollafgreiðslu á bifreið sem flutt var til landsins með sendingu númer Y, skv.100. gr. tollalaga nr. 55/1987.

Umrædd bifreið er af gerðinni Jeep Grand Cherokee, árgerð 1999. Íslenskt skráningarnúmer er X. Innkaupsverð samkvæmt framlögðum vörureikning er USD. 10.500,00.

Samkvæmt 8. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, sbr. og 2. gr. reglugerðar nr. 374/1995, um tollverð og tollverðsákvörðun, er tollverð innfluttrar vöru hið svokallaða viðskiptaverð hennar, þ.e. það verð sem raunverulega er greitt fyrir vöruna. Í IV. kafla reglugerðarinnar er síðan mælt fyrir um hvernig tollverð vöru skuli ákveðið þegar viðskiptaverð verður af einhverjum ástæðum ekki lagt til grundvallar, sbr. 10-15. gr. reglugerðarinnar. Í V. kafla reglugerðarinnar er að finna sérákvæði vegna innflutnings ökutækja. Í 17. gr. kemur fram að við tollafgreiðslu ökutækis skuli tollstjóri bera viðskiptaverð þess eins og það kemur fram í aðflutningsskýrslu eða fylgiskjölum saman við viðmiðunarverð ökutækis af sömu tegund, undirtegund og árgerð í því landi sem ökutækið var keypt.

Embættið lét fara fram skoðun á ástandi bifreiðarinnar. Sú skoðun leiddi ekki í ljós nein merki tjóns eða annarra annmarka og er sérstaklega tekið fram á verkbeiðni um vöruskoðun að útlit umræddrar bifreiðar sé gott, svo vitnað sé orðrétt í verkbeiðni.

Í 18. gr. reglugerðar nr. 374/1995 er kveðið á um, að gefi eftirlit tollstjóra skv. 17. gr. réttmæta ástæðu til að draga í efa sannleiksgildi aðflutningsskýrslu eða fylgiskjala skuli tollstjóri krefja innflytjanda um nánari skýringar eða gögn til sönnunar því að viðskiptaverðið sé réttilega tilgreint í gögnum þessum. Var það gert með bréfi tollstjóra dags. 13. febrúar 2003.

Embættinu barst svar við framangreindu bréfi, þar sem innflytjandi gaf m.a. þær skýringar á lágu viðskiptaverði bifreiðarinnar að verð á notuðum bílum í Bandaríkjunum hefði lækkað mikið eftir að bílaframleiðendur hófu að nota “zero- oint-financing” og að bifreiðaverð í Bandaríkjunum væri almennt lægra en verðmat tollstjóraembættisins kveður á um. Ekki var talið að mati embættisins að rök innflytjanda nægðu til að skýra hið lága viðskiptaverð bifreiðarinnar og var innflytjanda því tilkynnt með bréfi dags. 17. febrúar 2003, að vörureikningi hefði verið hafnað og tollverð bifreiðarinnar ákvarðað samkvæmt 20. gr. reglugerðar um tollverð og tollverðsákvörðun nr. 374/1995, ISK. 1.240.334,00.

Í bréfi innflytjanda dags. 23. maí 2003, leggur innflytjandi fram frekari skýringar á lágu viðskiptaverði bifreiðarinnar s.s. að skemmdir væru á ytra byrði bifreiðarinnar, m.a. skemmdir í lakki á toppi og brotið grill og er lagt fram vottorð frá Aðalskoðun hf. þess efnis dags. 21. október 2003. Embættið telur ekki unnt að leggja yfirlýsingu Aðalskoðunar hf. til grundvallar þ.s. hún er gefin 7 mánuðum eftir tollafgreiðslu bifreiðarinnar. Þvert á móti vísast hér í fyrrnefnda vöruskoðun sem tollstjóraembættið lét framkvæma, en skv. henni sáust engar skemmdir á bifreiðinni. Einnig segir innflytjandi að skv. Kelly Blue Book sé ljóst að bifreiðar séu jafnvel seldar á lægra verði í Bandaríkjunum en bifreið innflytjanda og þ.a.l. sé viðskiptaverð umræddrar bifreiðar eðlilegt.

Skv. 20. gr. skal tollverð innfluttra bifreiða vera viðmiðunarverð nýs ökutækis af sömu tegund og undirtegund eins og það er tilgreint í bifreiðaskrá ríkistollstjóra. Ríkistollstjóri hefur lagt embættinu til ritið Red Book til viðmiðunar, sem gefið er út af eftirlitsaðilum bifreiðaiðnaðarins í Bandaríkjunum. Er tollstjóraembættinu því ekki heimilt að nota verð í öðrum ritum sem viðmiðunarverð. Í Red Book kemur fram að verð á sams konar ökutæki er talsvert hærra en tilgreint er á framlögðum gögnum við tollafgreiðslu.

Beðist er velvirðingar á töfum sem orðið hafa á afgreiðslu máls þessa.

ÚRSKURÐUR

 

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar samkvæmt 100. gr. tollalaga nr. 55/1987 að með vísan til þess sem að framan er rakið og á grundvelli reiknireglu 21. gr. reglugerðar nr. 374/1995, að tollverð bifreiðarinnar Jeep Grand Cherokee, árg. 1999, með skráningarnúmerið X, skuli vera ISK. 1.240.334,00.

Álögð aðflutningsgjöld reiknuð út frá tollverði eru því að fjárhæð kr. 1.002.532,00.

Úrskurðurinn er kæranlegur til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, 101 Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 101. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum,

Reykjavík, 31. október 2003.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum