Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 16/2017

Tollflokkun á bifreið af gerðinni Volkswagen Transporter, með palli

4.9.2017

Reifun

A kærði ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun á ökutæki og krafðist þess að ökutækið teldist dembari í tollflokki 8704.1001, sem bæri 13% vörugjald.

Tollstjóri taldi ljóst af útliti og hönnun ökutækisins að það væri ekki dembari og hafnaði því kröfu kæranda þess efnis. Aftur á móti leit Tollstjóri til niðurstöðu yfirskattanefndar í málum nr. 8/2017 og 9/2017, enda eru úrskurðirnir tveir fordæmisgefandi um tollflokkun sambærilegra bifreiða og kæranda. Í málum nr. 8/2017 og 9/2017 var komist að þeirri niðurstöðu að ákveðnar bifreiðar skyldu flokkast í tollflokk 8704.2199 sem grindur með hreyfli og ökumannshúsi sem búið er að bæta við vöruflutningarými en slík ökutæki bera 13% vörugjald.

Að virtu heildarmati á útliti og útbúnaði bifreiðar kæranda var það mat Tollstjóra að bifreiðin uppfyllti þau skilyrði sem fram komu í úrskurðum yfirskattanefndar í málum nr. 8/2017 og 9/2017. Var því fyrri ákvörðun Tollstjóra hnekkt og úrskurðað að bifreið kæranda skyldi bera 13% vörugjald sem ökutæki í tollflokki 8704.2199.

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með tölvupósti, dags. 1. apríl 2016, hefur B, f.h. A, kært, á grundvelli skriflegs umboðs, til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra dags. um tollflokkun á bifreið af gerðinni Volkswagen Transporter.

Kærandi mótmælir ákvörðun Tollstjóra um að bifreiðin skuli flokkast í tollskrárnúmer 8703.3238, sem notuð pallbifreið, með meira en 1500 cm3 til og með 2500 cm3 sprengirými, og skráða koltvísýringslosun á bilinu 201-225 g/km, og beri 55% vörugjald. Kærandi krefst þess að bifreiðin verði flokkuð í tollskrárnúmer 8704.1001, sem dembari (dumper), gerður til nota utan þjóðvega og að heildarþyngd 5 tonn eða minna, og beri 13% vörugjald.

II. Málsmeðferð

Í nóvember 2015 flutti kærandi inn bifreið af gerðinni Volkswagen Transporter með sendingu sem bar sendingarnúmerið X. Aðflutningsskýrslu vegna sendingarinnar var skilað inn til Tollstjóra og var bifreiðin sett í tollflokk 8704.2199, sem notað ökutæki til vöruflutninga, með vörurými. Starfsmaður Tollstjóra gerði athugasemd við þá tollflokkun og taldi bifreiðina eiga að vera í tollskrárnúmeri 8703.3238, sem notuð pallbifreið, með meira en 1500 cm3 til og með 2500 cm3 sprengirými, og skráða koltvísýringslosun á bilinu 201-225 g/km og bar bifreiðin 55% vörugjald í samræmi við 1. mgr. 3. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Kærandi leiðrétti skýrsluna samdægurs, í samræmi við athugasemdir Tollstjóra, og hlaut sendingin tollafgreiðslu.

Í kjölfar tollafgreiðslu fór kærandi fram á að ökutækið yrði sett í tollflokk 8704.1001, sem dembari (dumper), gerður til nota utan þjóðvega og að heildarþyngd 5 tonn eða minna. Tollstjóri hafnaði þeirri beiðni formlega þann 23. nóvember 2015. Eftir nokkur tölvupóstsamskipti á milli kæranda og Tollstjóra þá leiðbeindi Tollstjóri kæranda um kærurétt skv. 117. gr. tollalaga þann 30. mars 2016. Þann 1. apríl 2016 kærði umboðsmaður kæranda ákvörðun Tollstjóra og óskaði Tollstjóri eftir skriflegu umboði frá kæranda. Umboðið barst þann 8. ágúst 2017, eftir ábendingu frá Tollstjóra þess efnis að málið væri enn til vinnslu og að umboð f.h. A hefði ekki borist embættinu.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi kveður bifreið þá sem hér um ræðir vera vöruflutningabifreið með lokað vörurými og sem slíka telur kærandi að tollflokka beri hana í tollskrárnúmer 8704.1001 en bifreiðar í því tollskrárnúmeri bera 13% vörugjald. Að mati kæranda er tollalöggjöfin skýr varðandi þetta atriði, þar sem kveðið er á um að ökutæki með vöruflutningarými eigi að bera 13% vörugjald og vera í tollflokki 8704.1001. Kærandi telur að fjöldi sæta í ökutækinu og efnið sem vörurýmið er gert úr eigi ekki að hafa áhrif á tollflokkun.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í máli þessu snýr að tollflokkun á bifreið af gerðinni Volkswagen Transporter. Kærandi heldur því fram að um vöruflutningabifreið sé að ræða sem eigi að flokkast í tollskrárnúmer 8704.1001 og bera 13% vörugjald. Kærð ákvörðun Tollstjóra lítur hins vegar að því að um sé að ræða notaða pallbifreið sem beri gjöld eftir losun koltvísýrings, sbr. tollskrárnúmer 8703.3238.

Tollflokkur sá sem kærandi nefnir í kæru er fyrir dembara (dumpers), gerðir til nota utan þjóðvega og að heildarþyngd 5 tonn eða minna. Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO) á demburum í undirlið 8704.10 þá eru dembarar harðbyggð ökutæki með sturtu- eða losunarbúnaði, sérstaklega hönnuð til flutnings á jarðvegi eða öðrum uppgreftri og útbúin sérútbúnum dekkjum til aksturs utanvegar.

Tollstjóri telur að bifreið kæranda falli ekki undir skilgreiningu á demburum í vörulið 8704 enda er bifreiðin fyrst og fremst ætluð til almennra nota á hefðbundnum vegum.

Að þessu virtu er kröfu kæranda um að bifreið hans verði tollflokkuð í tollskrárnúmer 8704.1001 hafnað.

Þann 18. janúar sl. úrskurðaði yfirskattanefnd í málum nr. 8/2017 og 9/2017 en nauðsynlegt er að líta til þeirra við úrlausn þess máls sem hér er til umfjöllunar. Um er að ræða fordæmisgefandi niðurstöðu um tollflokkun sambærilegra bifreiða og í því máli sem hér er til úrskurðar. Í málunum var deilt um tollflokkun bifreiða af gerðinni Ford Transit og Mercedes- Benz Sprinter 313 CDI. Niðurstaða yfirskattanefndar var á þá leið að bifreiðarnar bæri að tollflokka í tollskrárnúmer 8704.2199 og á þær skyldi því leggja 13% vörugjald í samræmi við undanþáguákvæði h-liðar 2. tl. 4. gr. vörugjaldslaga, enda teldust þær Grindur með hreyfli og ökumannshúsi sem búið er að bæta við vöruflutningarými. Yfirskattanefnd felldi þar með úr gildi ákvörðun Tollstjóra um að fella skyldi bifreiðarnar undir meginreglu 3. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Verður sá skilningur lagður í forsendur framangreindra úrskurða yfirskattanefndar að bifreiðar útbúnar vörupalli (nefndar pallbílar í daglegu tali) beri, samkvæmt meginreglu, vörugjald miðað við skráða losun koltvísýrings nema þær megi fella undir undantekningarákvæði q-liðar 1. tl. og h-liðar 2. tl. 4. gr. vörugjaldslaga. Við tollflokkun slíkra bifreiða þarf að horfa til þess hvort þær geti talist grindur í skilningi framangreindra undantekningarákvæða. Við þá ákvörðun þarf að framkvæma heildarmat á útliti og útbúnaði bifreiðanna við framvísun til tollmeðferðar en í vafatilvikum má líta til þess hvort almennt séu bifreiðar af viðkomandi tegund, eða eftir atvikum undirtegund, seldar sem grindur frá verksmiðju við innflutning. Þá virðist nefndin telja þann skilsmun á milli pallbíla, sem bera vörugjald miðað við koltvísýringslosun, og grindarbíla með viðbættu vöruflutningarými, sem bera 13% vörugjald, að hinir síðarnefndu hafi einkenni svokallaðra vinnuflokkabifreiða, svo sem vegna þess að vörupallur þeirra er við innflutning útbúinn niðurfellanlegum skjólborðum.

Að mati Tollstjóra uppfyllir umrædd bifreið kæranda ofangreindar forsendur sem koma fram í nefndum úrskurðum yfirskattanefndar sem leiðir til þess að bifreið A getur fallið undir ákvæði h-liðar 2. tl. 4. gr. vörugjaldslaga. Á bifreiðinni er viðbætt vöruflutningarými, með niðurfellanlegum skjólborðum, en vöruflutningarými í þeim skilningi getur verið bæði pallur eða kassi. Í úrskurðum yfirskattanefndar kemur fram að við ákvörðun um tollflokkun í svona málum þurfi að framkvæma heildarmat á útliti og útbúnaði bifreiðanna. Vöruflutningarými bifreiðarinnar sem hér er til umfjöllunar er hvorki sambyggt ökumannshúsinu né myndar það sjónræna heild með því, m.a. af því að ökumannshúsið er af öðrum lit og úr öðru efni en vöruflutningarýmið. Þykir framangreint að mati Tollstjóra enn fremur benda til þess að flokka beri bifreiðina sem grind með hreyfli og ökumannshúsi, að viðbættu vörurými.

Með vísan til ofangreinds fellst Tollstjóri á kröfu kæranda um að bifreið hans af gerðinni Volkswagen Transporter skuli bera 13% vörugjald, í samræmi við h-lið 2. tl. 4. gr. vörugjaldslaga.

Álagt vörugjald skv. hinni kærðu ákvörðun Tollstjóra var samtals að fjárhæð 1.692.840 kr. sem kærandi greiddi þann 23. nóvember 2015. Með vísan til ofangreinds skal vörugjald réttilega vera að fjárhæð 400.126 kr. Mismunur til endurgreiðslu er því að fjárhæð 1.292.714 kr. auk vaxta skv. 2. mgr. 125. gr. tollalaga frá 23. nóvember 2015.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að bifreið kæranda af gerðinni Volkswagen Transporter skuli bera 13% vörugjald, í samræmi við h-lið 2. tl. 4. gr. vörugjaldslaga nr. 29/1993. Skal mismunur að fjárhæð kr. 1.292.714, auk vaxta skv. 2. mgr. 125. gr. tollalaga frá 23. nóvember 2015, endurgreiddur kæranda.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum