Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 7/2016

Höfnun tollfríðinda fyrir búslóð

26.9.2016

Reifun

A kærði ákvörðun Tollstjóra um álagningu aðflutningsgjalda á sendingu S. Óskaði A eftir því að sendingin nyti tollfrelsis búslóða. A hafði ásamt fjölskyldu sinni hafði flutt erlendis og búið á erlendri grundu í rúma 11 mánuði áður en flutt var aftur til landsins.

Niðurstaða: Í 4. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 er að finna undanþágu frá almennri tollskyldu. Samkvæmt ákvæðinu er búslóð þeirra sem flytjast búferlum til landsins tollfrjálsar að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum. Í fyrrnefndu ákvæði tollalaga, sem og í 16. gr. reglugerðar 630/2008 um ýmis tollfríðindi, þar sem undanþágan er frekar útfærð, er kveðið á um það almenna skilyrði tollfrelsis búslóða að innflytjandi hafi haft fasta búsetu erlendis í að minnsta kosti samfellt í eitt næstliðið ár fyrir búferlaflutning til landsins. Telur Tollstjóri að umrædd sending uppfylli ekki skilyrði til þess að geta notið tollfrelsis skv. 4. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga sbr. 16. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi. Var ákvörðun Tollstjóra um álagningu aðflutningsgjalda staðfest.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með tölvupósti, dags. 24. ágúst 2016, hefur A kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, álagningu aðflutningsgjalda vegna sendingar S.

Kærandi óskar eftir því að Tollstjóri endurskoði ákvörðun um álagningu aðflutningsgjalda á sendingu nr. S. Kærandi fer fram á að sendingin falli undir tollfríðindi búslóða og verði undanþegin greiðslu aðflutningsgjalda.

II. Málsmeðferð

Þann 2. ágúst 2016 kom hingað til landsins með Samskip sending S frá Svíþjóð. Sendingin innihélt búslóð kæranda og fjölskyldu hans. Við tollafgreiðslu sendingarinnar var beiðni kæranda um tollfrelsi hafnað og voru tilskilin gjöld lögð á sendinguna. Ákvörðun Tollstjóra um álagningu aðflutningsgjalda var kærð með tölvupósti dags. 24. ágúst 2016.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi tekur fram að hann, ásamt sinni fjölskyldu hafi flutt til Svíþjóðar í ágúst 2015. Þau hafi flutt aftur til landsins í ágúst 2016 eftir rúma 11 mánaða búsetu erlendis.

Við tollafgreiðslu sendingar S voru aðflutningsgjöld reiknuð að fjárhæð 75.227 kr., þar sem almennum skilyrðum fyrir tollfrelsi búslóðar voru ekki talin uppfyllt. Kærandi telur að samkvæmt almennum reglum nytu hann og fjölskylda hans tollfrelsis að fjárhæð 420.000 kr. þ.e. búslóð tveggja fullorðinna og tveggja barna. Fjölskyldan hlyti að njóta einhvers konar tollfrelsis og bendir kærandi því til stuðnings að hefðu þau ferðast með vörurnar í farangri til landsins hefðu þau notið tollfrelsis að fjárhæð 264.000 kr. og þ.a.l. ekki þurft að borga nein aðflutningsgjöld.

Kærandi gerir einnig athugasemd við útreikning aðflutningsgjalda. Þær vörur sem aðflutningsgjöldin hafi verið lögð á hafi verið keyptar í september 2015 og virði þeirra við innflutning hafi ekki verið það sama og þegar vörurnar voru keyptar.

Af þessum sökum óskar kærandi eftir því að Tollstjóri endurskoði ákvörðun sína um álagningu aðflutningsgjalda á sendingu S.

IV. Niðurstöður

Kæruefni úrskurðarins er álagning aðflutningsgjalda á sendingu S. Deilt er um hvort sendingin eigi að njóti tollfrelsis sem búslóðarsending skv. 4. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. ákvæða II. kafla reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi.

Almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim sem flytur inn vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla, sbr. 3. gr. tollalaga nr. 88/2005. Meginreglan er því sú að greiða skuli aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar eru til landsins. Allar undantekningar frá almennri toll- og skattskyldu ber að túlka þröngt og verða því ríkar kröfur gerðar um að skilyrðum þeirra sé fullnægt.

Í 4. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, er að finna undantekningu frá ofangreindri meginreglu. Samkvæmt ákvæðinu er búslóð manna sem flytjast búferlum hingað til lands tollfrjáls, enda hafi viðkomandi haft búsetu erlendis í a.m.k. eitt ár áður en hann fluttist til landsins. Ákvæðið er nánar útfært í reglugerð nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi. Í 1. tl. 1. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar segir að tollfrelsi búslóða sé háð því almenna skilyrði að innflytjandi hafi haft fasta búsetu erlendis a.m.k. samfellt í eitt næstliðið ár fyrir búferlaflutning til landsins.

Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá flutti kærandi úr landi þann 28. ágúst 2015 og svo aftur til landsins þann 5. ágúst 2016. Kærandi var því búsettur erlendis í rúma 11 mánuði þegar hann fluttist búferlum til landsins þann 5. ágúst 2016. Ljóst er að kærandi uppfyllir ekki þau skilyrði um lágmarks búsetutíma erlendis sem kveðið er á um í 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, sbr. 1. tl. 1. mgr. 16. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi nr. 630/2008.

Í b-lið 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga er kveðið á um undanþágu frá almennri tollskyldu. Þar kemur fram að varningur sem ferðamenn, búsettir hér á landi, hafa meðferðis hingað til lands eða kaupa í tollfrjálsri verslun hér á landi umfram það sem teldist venjulegur farangur skv. a-lið 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, að verðmæti allt að 88.000 kr., miðað við smásöluverð á innkaupsstað, tollfrjáls. Tollfrelsi skv. b-lið 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga er bundið við ferðamenn sem búsettir eru hér á landi. Einstaklingur, sem er að flytja búferlum til landsins getur af þeim sökum ekki notið þess tollfrelsis sem kveðið er á um í b-lið 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga við komu til landsins.

Tollverð innfluttra vara er viðskiptaverðið, þ.e. það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vörurnar við sölu þeirra til útflutnings til landsins, sbr. 14. gr. tollalaga nr. 88/2005. Um tollverðsákvörðun er kveðið á um í 15. gr. tollalaga. Í ákvæðinu er listað upp það sem bæta á við það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir hinar innfluttu vörur, auk þess hvað skuli vera innifalið í tollverði. Tollverðsákvörðun er svo nánar útfærð í reglugerð um vörslu og tollmeðferð vöru nr. 1100/2006. Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. reglugerðar nr. 1100/2006 er aðalgrundvöllur tollverðs viðskiptaverð vöru. Verði tollverð ekki ákvarðað á grundvelli viðskiptaverðs, skal það ákvarðað skv. ákvæðum 57.-62. gr. reglugerðarinnar. Á yfirlýsingu vegna flutnings búslóðar, einu af fylgiskjölum sendingar S voru tilgreindir annars vegar hátalarar, kaupverð 82.000 kr., og hins vegar sjónvarp, kaupverð 115.000 kr. sem munir sem innflytjandi og aðrir fjölskyldumeðlimir hafi átt skemur en í eitt ár. Til stuðnings áætluðu kaupverði á fyrrnefndri búslóðaryfirlýsingu voru fengnar upplýsingar, sóttar af heimasíðu sænsks raftækjamarkaðar. Aðflutningsskýrslu var síðar skilað inn þar sem verðmæti varanna var tiltekið í samræmi við þær upplýsingar sem fengnar voru á sölusíðu hins erlenda söluaðila. Var það verðmat samþykkt af hálfu Tollstjóra. Þar sem kaupverð lá fyrir, voru aðflutningsgjöld með réttu álögð miðað við viðskiptaverð varanna, en hvorki er að finna í ákvæðum tollalaga, né reglugerðum settum með stoð í tollalögum heimildir fyrir því að víkja frá viðskiptaverði vara þegar það liggur fyrir.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, með vísan til þess sem er rakið hér að framan, að ákvörðun Tollstjóra um höfnun á tollafgreiðslu sendingar S sem búslóð, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan þriggja mánaða frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum