Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 8/2009

Tollflokkun á vegg- og armfestingum

24.7.2009

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 17. febrúar 2009, hefur B fyrir hönd C, kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 þá ákvörðun Tollstjóra frá 17. nóvember 2008, að veggfestingar í sendingu nr. S HVA 16 06 8 NL RTM J600 tollflokkist í tnr. 8529.9009. Kærandi krefst þess að sendingin verði tollflokkuð í tnr. 8302.4200.

II. Málsmeðferð

Þann 18. júlí 2008 móttók embættið aðflutningsskýrslu vegna fyrrgreindrar sendingar sem aðallega innihélt vegg- og armfestingar sem ætlaðar eru fyrir flatskjái. Jafnframt voru í sendingunni rammi og spegilfilma. Innflytjandi tollflokkaði sendinguna í tnr. 8302.4200: „Festingar, áfellur (fittings) og áþekkar vörur úr ódýrum málmi fyrir húsgögn, hurðir, stiga, glugga, gluggatjöld, vagnsmíði, söðlasmíði, ferðakoffort, kistur, skrínur eða þess háttar; hengi, snagar, hilluhné og áþekkar festingar, úr ódýrum málmi; hjól með festingum úr ódýrum málmi; sjálfvirkar dyralokur úr ódýrum málmi: Aðrar, til húsgagna.“ Embættið gerði athugasemd við skýrsluna og tollflokkaði vörurnar í tnr. 8529.9009: „Hlutar eingöngu eða aðallega nothæfir til tækja í nr. 8525-8528: Annars.“ Embættinu barst leiðrétting frá innflytjanda þann 28. júlí 2008 og athugasemd var send til innflytjanda þann 5. ágúst 2008. Önnur leiðrétting barst embættinu frá innflytjanda þann 10. nóvember 2008 og embættið sendi athugasemd til innflytjanda þann 17. nóvember 2008. Þann 17. febrúar sl. barst embættinu kæra vegna athugasemdar embættisins við tollflokkun fyrrnefndrar sendingar. Embættið óskaði eftir frekari gögnum og upplýsingum um vöruna frá kæranda. Starfsmenn embættisins könnuðu umrædda vöru hjá innflytjanda í framhaldinu. Þann 10. mars sl. barst embættinu bréf þess efnis frá kæranda að umrædd kæra varði eingöngu tollflokkun á vegg- og armfestingum en ekki væri gerð athugasemd við tollflokkun annarra vara í sendingunni. Þann 12. maí sl. var óskað eftir upplýsingum varðandi þá athugasemd kæranda að kærandi hafi orðið var við ójafnræði milli innflytjenda við tollflokkun veggfestinga, þar sem embættið hafi ekki gert athugasemd við sömu tollflokkun hjá öðrum innflytjendum. Embættið kannaði hvort þessi fullyrðing ætti rök við að styðjast og fann ekki aðra innflytjendur sem flokkuðu umrædda vöru í tollskrárnúmer 8302.4200 og óskaði því Tollstjóri eftir upplýsingum um hvaða innflytjendur væri að ræða. Beiðnin var ítrekuð þann 3. júní og 19. júní sl. en ekki bárust upplýsingar frá kæranda um hvaða innflytjendur væri að ræða.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Tollstjóra um að tollflokka vegg- og armfestingar í tnr. 8529.9009 verði fell úr gildi og að þær verði flokkaðar í tnr. 8302.4200. Kærandi telur að ef farið er eftir túlkunarreglum tollskrárinnar, einkum túlkunarreglu 1 og 3 a., sé augljóst að umræddar festingar flokkist í tnr. 8302.4200. Kærandi bendir á að notagildi festinganna sé víðtækara en til þess að festa flatskjái upp á vegg þótt þær séu einkum ætlaðar til þess. Kærandi vísar til framlagðra verð- og myndlista frá seljanda og að samkvæmt þeim séu umræddar veggfestingar rétt eins og hverjar aðrar festingar fyrir húsgögn.

Kærandi telur jafnframt að í ákvörðun Tollstjóra felist brot á ákvæðum 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem viðmið við tollflokkun hafi verið endurskoðuð án þess að vera birt í Stjórnartíðindum. Í kæru kemur fram að áður en kærandi hóf innflutning á festingunum hafi hann spurst fyrir um hjá embættinu í hvaða tollflokk umræddar festingar féllu. Hefði honum verið bent á að þær féllu flokk XV. og hefði kærandi fylgt því. Þá bendir kærandi á að í maí 2007 hafi Tollstjórinn í Reykjavík gert athugasemd við tollflokkun sams konar festinga í tnr. 8302.4200 en látið málið falla niður í framhaldi af andmælum kæranda. Kærandi segir að í samskiptum við aðra innflytjendur veggfestinga þykist kærandi hafa orðið var við að ekki sitji allir við sama borð þegar kemur að tollflokkun festinganna. Að lokum bendir kærandi á að þar sem ákvörðun Tollstjóra sé íþyngjandi þá skuli vafi á tollflokkun skýrð honum í hag m.a. með vísan til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga.

IV. Niðurstaða.

Ágreiningur í þessu máli snýst um í hvaða tollflokk festingar á vörureikningi nr. 0020081582, dags. 6. júní 2008, frá fyrirtækinu Milestone AV Technologies, sem eru auðkenndar MF202-B2, MF203-S1, MF203-S2, MF209-B2, MF2015-S1,LRF118-B1og LRF118-S1 skuli tollflokkast. Festingarnar eru gerðar úr járni eða stáli og eru hannaðar sérstaklega til að festa skjái eða annan tækjabúnað á veggi eða húsgögn. Kærandi heldur því fram að hægt sé að nota vöruna til að hengja upp málverk eða húsgögn en höfuðtilgangur vörunnar er engu að síður til að hengja upp flatskjái. Hönnun vörunnar gefur ekki tilefni til að búnaðurinn sé á nokkurn hátt ætlaður til annarra nota jafnvel þó slíkt væri unnt. Við tollflokkun vara skiptir meginhlutverk vörunnar höfuðmáli og hvaða tilgangi henni er ætlað að þjóna. Jafnframt gefa framlögð gögn kæranda ekkert annað til kynna en eina hlutverk festinga sé til að hengja upp flatskjái. Það er því augljóst að varan sem um ræðir er festing fyrir tæki, einkum skjái.

Meginreglan við tollflokkun er að velja fyrst viðeigandi vörulið og síðan undirliði þess vöruliðar eftir ákveðnum reglum og þar ber að gæta að orðalagi undirliða sem til greina koma. Er það gert með sama hætti og vöruliðir eru valdir. Til greina kemur að flokka umrædda vöru í þrjá vöruliði; 7326: sem aðrar vörur úr járni og stáli; 8302: sem festingar hvers konar; 8529: sem hlutar eingöngu eða aðallega nothæfir til tækja í nr. 8525-8528. Það er rétt að skoða orðalag þessara vöruliða og önnur ákvæði í þessu samhengi.

Orðalag í vörulið 8529 er eftirfarandi: „Hlutar eingöngu eða aðallega notaðir til tækja í nr. 8525 – 8528“ Kærandi vitnar til yfirskriftar kafla XVI og ályktar þar með að varan geti ekki fallið undir þann kafla. Í túlkunarreglu 1 er skýrt tekið fram að fyrirsagnir við kafla og flokka hafa ekki lagagildi og því ekki unnt að vísa til fyrirsagnar kafla máli sínu til stuðnings heldur ber að fara eftir orðalagi vöruliða, athugasemda við tilheyrandi flokka eða kafla, eins og kærandi benti einnig á í rökstuðningi sínum. Í kæru kemur réttilega fram að ýmsir nauðsynlegir fylgihlutir með skjám, til dæmis kaplar flokkist annars staðar í tollskránni. Ástæðan er framangreind ákvæði í túlkunarreglum tollskrár. Kaplar eru til dæmis nefndir í vörulið 8544. Þá er rétt að benda á að fylgihlutir eru ekki nefndir í vörulið 8529 heldur hlutar. Það þýðir að fylgihlutir skilgreindir sem slíkir flokkast ekki í 8529. Hins vegar er víða í tollskránni hlutar og fylgihlutar taldir saman, t.d. í vörulið 8708. Kærandi bendir réttilega á að samkvæmt athugasemd 1. k. sé vörum úr köflum 82. og 83. vísað frá. Jafnframt má benda á athugasemd 1. g. við flokk XVI. Þar er vísað frá hlutum til almennra nota eins og þeir eru skilgreindir í athugasemd 2. við flokk VX. Þar á meðal eru vörur úr vörulið 8302. Af þessu er ljóst að varan flokkast ekki í vörulið 8529.

Orðalagið í vörulið 8302 er eftirfarandi: „Festingar, áfellur (fittings) og áþekkar vörur úr ódýrum málmi fyrir húsgögn, hurðir, stiga, glugga, gluggatjöld, vagnasmíði, söðlasmíði, ferðakoffort, kistur, skrínur eða þess háttar“. Við túlkun orðalags vöruliðarins fyrir umrædda vöru skiptir orðalagið „... eða þess háttar;“ mestu máli. Það virðist augljóst að orðalagið gefi tilefni til að þar fari festingar fyrir aðra hluti en taldir eru upp á undan, til að mynda, veggfestingar fyrir skjái. Það er ljóst að hugtakið festingar er mest lýsandi fyrir vöruna, enda heiti vörunnar sem hér um ræðir. Tollstjóri fellst því á það með kæranda að flokka beri vöruna í vörulið 8302.

Hvað varðar vörulið 7326 sem er orðaður svo: ,,Aðrar vörur úr járni eða stáli“ telur embættið að hann komi ekki til greina þar sem samkvæmt almennri reglu 3 a, um túlkun tollskrár, kemur fram að vöruliður sem felur í sér nákvæmasta vörulýsinguna skal tekinn fram yfir vörulið með almennri vörulýsingu.

Eins og áður segir er sömu reglum beitt við flokkun í undirliði og vöruliði að því viðbættu að þess sé gætt að bera saman undirliði á sama sviði. Sú aðgreining er táknuð með tölustöfum í tollskrárnúmerum, til dæmis ef fimmti tölustafurinn er eitthvert gildi þá eru þeir undirliðir sem þannig eru númeraðir bornir saman. Vörulýsingin er einnig auðkennd með þankastrikum. Í þessu tilfelli þarf að velja á milli undirliða í vöruliðnum.

Kærandi telur að tnr. 8302.4200 sé rétt tollflokkun. Þar er yfirfyrirsögn „ Aðrar festingar, áfellur og áþekkar vörur.“ Texti númersins er „Til húsgagna“. Líta ber til þess að þar er um að ræða festingar sem eru sérhannaðar fyrir húsgögn vegna samsetningar eða uppsetningar þeirra. Skjáir eru ekki húsgögn svo veggfestingarnar sem hér eru til úrskurðar geta ekki eðli máls samkvæmt flokkast í tnr. 8302.4200. Hlutverk veggfestinganna er að festa upp tæki. Nokkrar þessar festingar eru með armi eða sveiflu sem búnaðurinn er festur eða hengdur á og því flokkast þær í tnr. 8302.5000 „Hengi, snagar, hillutré og áþekkar vörur“.

Það er unnt að líta til framkvæmdar í öðrum löndum til leiðbeiningar við ákvörðun um tollflokkun þar sem Ísland er aðili að alþjóðlegum samningi um samræmda vörulýsingar- og vörunúmeraskrá sem tók gildi 1. janúar 1988. Með lögum nr. 96/1987, um breytingu á tollalögum, nr. 55/1987, var tekin upp tollskrá sem byggir á tollflokkunarreglum samræmdu skrárinnar. Það styður ennfremur flokkun festinganna í tnr. 8302.5000 að samskonar festingar til dæmis fyrir myndvarpa, hátalara og eftirlitsmyndavélar hafa verið tollflokkaðar bindandi tollflokkun í tnr. 8302.5000 samkvæmt upplýsingum úr European Binding Tariff Information (EBTI). EBTI er gagnagrunnur með bindandi álitum ýmissa landa Evrópusambandsins um tollflokkun. Má þar nefna bindandi álit nr. IE-02NT-14-1265-4 og IE05NT-14-1487 frá Írlandi og bindandi álit nr. 1155425303 og 108636176 frá Bretlandi. Þar að auki er hægt að benda á úrskurð NY 186747, frá Bandaríkjunum, þar sem meðal annars var úrskurðað um tollflokkun á veggfestingu fyrir skjái með eftirfarandi orðalagi: „The applicable subheading to the wall mounting bracket, of steel, model PDM-1, will be 8302.50.0000 ..“

Hvorki er hægt að taka til greina kröfur kæranda varðandi tollflokkun varanna sem lúta að þeim rökum að verðmunur sé á mismunandi tollflokkum og því miklir hagsmunir í húfi fyrir kæranda, né heldur þau rök hans að sé vafi um hvernig skýra eigi ákvæði tollskrárinnar en í því samhengi vísaði kærandi til 12. gr. stjórnsýslulaga og benti meðal annars á að íþyngjandi ákvarðanir verði að hafa skýra lagastoð. Lögbundið er að færa skal vöru til tollflokks samkvæmt almennum reglum um túlkun tollskrárinnar en tollskráin er birt í viðauka I við tollalög nr. 88/2005. Reglur um túlkun skrárinnar eru birtar fremst í skránni. Meginreglan er sú að tollflokkun skal byggð á orðalagi vöruliða og athugasemda við viðeigandi kafla og flokka. Einnig skal flokkun vara í undirliði einstakra vöruliða byggð á orðalagi undirliða og sérhverri tilheyrandi athugasemd við undirliði skv. túlkunarreglu 6.

Kærandi heldur því fram að tollflokkun á innflutningi veggfestinga annarra innflytjanda en kæranda hafi ekki sætt athugasemdum Tollstjóra þrátt fyrir að þeir hafi flokkað festingarnar í sama tollskrárnúmer og kærandi og vísar til 11. gr. stjórnsýslulaga 37/1993 í því samhengi. Kærandi hefur ekki lagt fram nein gögn sem styðja þessa fullyrðingu né veitt upplýsingar um hvaða innflytjendur er að ræða þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar að lútandi. Jafnframt hefur Tollstjóri kannað hvort fullyrðingu kæranda ætti rök við að styðjast hjá embættinu án árangurs.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að tollflokka beri festingar sem á vörureikningi nr. 0020081582, dags. 6/6 2008, frá fyrirtækinu Milestone AV Technologies, eru auðkenndar MF202-B2, MF203-S1, MF203-S2, MF209-B2, MF2015-S1,LRF118-B1 og LRF118-S1 í tnr. 8302.5000.

Önnur atriði á reikningi skulu tollflokkast í tnr. 8302.4909.

Kæruréttur:

Athygli yðar er vakin á því að heimilt er að skjóta úrskurðinum til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum