Áhersluatriði í eftirliti ársreikningaskrár vegna reikningsársins 2020

Í minnisblaði þessu eru birt áhersluatriði í eftirliti ársreikningaskrár með reikningsskilum vegna reikningsársins sem hófst 1. janúar 2020. Áhersluatriðin eru til umhugsunar fyrir stjórnendur og þeirra sem koma að gerð reikningsskila félaga sem falla undir gildissvið ársreikningalaga. Félög sem falla undir gildissvið laga nr. 3/2006 um ársreikninga (hér eftir lög nr. 3/2006) ber að semja ársreikning í samræmi við ákvæði laganna, reglugerð nr. 696/2019 um framsetningu ársreikninga og samstæðureikninga (reglugerð nr. 696/2019) og settar reikningsskilareglur.

Ársreikningaskrá vill benda á að í þeim tilvikum þar sem val er um reikningsskilaaðferð ber stjórnendur nota dómgreind sína til að velja reikningsskilaaðferð sem er viðeigandi að teknu tilliti til þeirra aðstæðna sem fyrirtækið stendur frammi fyrir. Kveðið er á um í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 3/2006 að ársreikningur skuli gefa glögga mynd afkomu, efnahag og breytingu á handbæru fé. Jafnframt er kveðið á um í 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. að ef ákvæði laganna nægja ekki til að reikningsskilin gefi glögga mynd skal félagið veita viðbótarupplýsingar svo að þau gefi glögga mynd. Aðeins er heimilt sbr. ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 5. gr. að víkja frá ákvæðum laganna ef það að fylgja ákvæðum laganna leiðir til þess að reikningsskilin gefi villandi mynd.

Sé ekki mælt fyrir um tiltekið atriði í lögunum skal fara eftir viðeigandi ákvæðum í settum reikningsskilareglum. Ef vafi leikur á túlkun ákvæða ársreikningalaga og lögskýringargögn greiða ekki úr þeim vafa ber að túlka ákvæði ársreikningalaga í samræmi við efnislega sambærileg ákvæði í settum reikningsskilareglum. Þegar kemur að öðrum ákvæðum ársreikningalaga, svo sem vegna skýrslu stjórnar, þar sem vafi leikur á túlkun laganna og lögskýringargögn greiða ekki úr þeim vafa skal horft til ákvæða reglugerða, tilskipana og annars útgefins efnis frá Evrópusambandinu. Ársreikningaskrá vill vekja sérstaka athygli ákvæði 5. gr. laga nr. 3/2006 þess efnis að ef ákvæði laganna nægja ekki til að reikningsskil gefi glögga mynd þá skal bæta við viðbótarupplýsingum svo að þau gefi glögga mynd.

Áhersluatriðin taka mið af nýlegum breytingum laga og reglugerða auk atriða sem upp hafa komið við eftirlit með reikningsskilum á síðustu árum. Að þessu sinni er lögð áhersla á umfjöllun um áhrif af kórónuveirufaraldrinum (COVID-19) á reikningsskil félaga, upplýsingagjöf í skýrslu stjórnar, þ.m.t. vegna áhrifa af COVID-19 og ófjárhagslegar upplýsingar. Stjórnendur félaga bera ábyrgð á því að reikningsskilin innihaldi fullnægjandi upplýsinga vegna áhrifa COVID-19 á rekstur, stöðu og sjóðstreymi viðkomandi félags. Ársreikningaskrá vill ítreka að við eftirlit með reikningsskilum félaga sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum er farið eftir áhersluatriðum í eftirliti sem Verðbréfaeftirlit Evrópu gaf út hinn 22. október 2020.

Skýrsla stjórnar

Ófjárhagslegar upplýsingar

Áhrif COVID-19 á reikningsskil


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum