Áhersluatriði í eftirliti ársreikningaskrár vegna reikningsársins sem lýkur 31. desember 2024

Í minnisblaði þessu eru sett fram áhersluatriði fyrir eftirlit ársreikningaskrár á árinu 2025 vegna reikningsársins sem lýkur 31. desember 2024. Þessi atriði miða að því að tryggja að reikningsskil félaga uppfylli kröfur laga nr. 3/2006, reglugerðar nr. 696/2019 og settar reikningsskilareglur, og leggja áherslu á aukið gagnsæi í upplýsingagjöf. Ársreikningaskrá hvetur stjórnendur, þá aðila sem koma að gerð ársreikninga og samstæðureikninga í félögum, endurskoðendur og aðra fagaðila til að fylgja þessum áherslum nákvæmlega.

Áhersluatriðin taka mið af atriðum sem upp hafa komið við eftirlit með reikningsskilum á síðustu árum auk nýlegra breytinga á lögum, reglugerðum og settum reikningsskilareglum. Að þessu sinni er lögð áhersla á eftirfarandi atriði í reikingsskilum félaga;

  • Framsetning og upplýsingar í skýrslum stjórnar, þ.m.t. um viðbótarupplýsingar sbr. ákvæði 66. gr. laga nr. 3/2006, að teknu tilliti til leiðbeininga reikningsskilaráðs.
  • Upplýsingar um leigusamninga í skýringum félaga sem kjósa að beita reglu reikningsskilaráðs (RR6) um reikningshaldslega meðferð leigusamninga í reikningsskilum leigutaka.
  • Stærðarflokkun félaga ásamt framsetningu og efni upplýsinga í skýringum með ársreikningum og samstæðureikningum.

Ársreikningaskrá vill vekja athygli á að sé ekki mælt fyrir um tiltekið atriði í lögunum skal fara eftir viðeigandi ákvæðum í settum reikningsskilareglum. Settar reikningsskilareglur eru reglur sem reikningsskilaráð hefur gefið út sbr. ákvæði 119. gr. laga nr. 3/2006 og alþjóðlegra reikningsskilastaðla eins og þeir hafa verið staðfestir af Evrópusambandinu, sbr. ákvæði 35. tölul. 2. gr. laganna.

Ársreikningaskrá vill einnig benda á að ef vafi leikur á túlkun ákvæða laga nr. 3/2006 og lögskýringargögn greiða ekki úr þeim vafa þá ber að túlka ákvæði ársreikningalaga í samræmi við efnislega sambærileg ákvæði í settum reikningsskilareglum. Sama gildir ef ekki er mælt fyrir um tiltekið atriði í lögunum eða reglugerðum en þá skal fara eftir viðeigandi ákvæðum í settum reikningsskilareglum, sbr. 3. gr. laga nr. 3/2006.

Þegar kemur að öðrum ákvæðum,laga nr. 3/2006, svo sem vegna skýrslu stjórnar, þar sem vafi leikur á túlkun laganna og lögskýringargögn greiða ekki úr þeim vafa skal horft til ákvæða reglugerða, leiðbeininga reikningsskilaráðs um upplýsingar í skýrslum stjórnar og framsetningu þeirra og tilskipana og annars útgefins efnis frá Evrópusambandinu. Leiðbeiningar reikningsskilaráðs er að finna á vef ráðsins, www.reikningsskilarad.is.

Ársreikningaskrá vill benda stjórnendum á að í undirritun þeirra á ársreikning felst yfirlýsing um að ársreikningurinn er saminn í samræmi við lög nr. 3/2006, reglugerðir og settar reikningsskilareglur, sbr. ákvæði 2. málsl. 3. mgr. 3. gr. laganna. Ársreikningaskrá vill einnig vekja athygli stjórnenda á ákvæði 5. gr. laga nr. 3/2006 þess efnis að ársreikningur skuli gefa glögga mynd af afkomu, efnahag og breytingum á handbæru fé. Jafnframt ef ákvæði laganna nægja ekki til að reikningurinn gefi glögga mynd þá skal bæta við viðbótarupplýsingum svo að reikningsskilin gefi glögga mynd í skilningi laganna.

Gagnsæi í upplýsingagjöf er lykilatriði í því að auka traust fjárfesta, lánardrottna og annarra hagaðila á þeim upplýsingum sem birtar eru í reikningsskilum.

Skýrsla stjórnar

Við eftirlit með skýrslum stjórna verður lögð sérstök áhersla á að þær uppfylli ákvæði 65. og 66. gr. laga nr. 3/2006 ásamt öðrum ákvæðum laga sem gilda um framsetningu og innihald skýrslu stjórnar. Ársreikningaskrá leggur áherslu á eftirfarandi:

  • Að í skýrslu stjórnar sé fjallað um aðalstarfsemi félagsins.
  • Skýrsla stjórnar gefi glögga mynd af þróun, stöðu og árangri í rekstri félagsins á yfirstandandi reikningstímabili auk annarra atriða sem gerðar eru kröfur um í 65. gr. og eftir atvikum í 66. gr. laganna.
  • Að skýrsla stjórnar uppfylli ákvæði annarra laga, eftir atvikum, svo sem um framsetingu og innihald ófjárhagslegra upplýsinga og yfirlýsingu um góða stjórnarhætti.
  • Að samræmi sé milli upplýsinga í skýrslu stjórnar og í meginyfirlitum ársreiknings.

Veruleg vanhöld hafa verið á undanförnum árum á að skýrsla stjórnar uppfylli þær kröfur sem gerðar eru í 65. gr. laganna og ná til allra félaga ásamt þeim kröfum sem gerðar eru í greinum 66. til 66. e. Ársreikningaskrá vill vekja athygli á því að skv. 3. gr. laganna telst skýrsla stjórnar vera hluti af ársreikningi. Stjórn og framkvæmdastjóri bera sameiginlega ábyrgð á gerð, skilum og birtingu ársreiknings, þ.m.t. samningu skýrslu stjórnar.

Ársreikningaskrá vill benda á að skýrsla stjórnar er frásögn í texta og tölum sem styður við rekstrarreikning, efnahagsreikning og sjóðstreymi og setur upplýsingar úr töluyfirlitum í samhengi sem aðstoðar notendur reikningsskilanna við að skilja hvernig félagið starfar og hvað liggur að baki þeim ákvörðunum sem teknar eru í rekstri félagsins. Í skýrslunni er fjallað um stefnu félagsins og hvernig hún er framkvæmd í daglegum rekstri sem hjálpar notendum reikningsskilanna að meta framtíðarhorfur og stefnumótun félagsins.

Skýrsla stjórnar er nauðsynlegt tæki fyrir fjárfesta til að hjálpa þeim að meta hvort að félagið sé vænleg fjárfesting eða ekki og fyrir lánadrottna veitir skýrslan upplýsingar sem hjálpa við mat á fjárhagslegri stöðu og greiðslugetu félagsins. Skýrsla stjórnar er vettvangur fyrir stjórnendur til að útskýra stefnu, framtíðaráætlanir og þær ákvarðanir sem hafa verið teknar.

Ársreikningaskrá vill jafnframt vekja athygli á ákvæði 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 696/2019, um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga. Í reglugerðinni sem nálgast má á vef embættisins kemur fram að það hversu ítarlegar upplýsingar þarf að veita í skýrslu stjórnar ræðst m.a. af því hversu margbrotin starfsemi félagsins er, umfangi rekstrar og stærð viðkomandi félags. Við mat á því hversu miklar upplýsingar á að veita í skýrslu stjórnar ber stjórnendum að líta til hugtaksins „glögg mynd“, sbr. ákvæði 5. gr. laganna. Fram kemur í 2. mgr. 5. gr. laganna að ef ákvæði laganna nægja ekki til að ársreikningurinn gefi glögga mynd skal veita viðbótarupplýsingar, þ.m.t. í skýrslu stjórnar.

Ársreikningaskrá vill benda á að reikningsskilaráð hefur birt á heimasíðu sinni leiðbeiningar um upplýsingar í skýrslu stjórnar og framsetningu þeirra.

Ófjárhagsleg upplýsingagjöf

Ársreikningaskrá vill benda á að ákvæði 66. gr. d. um ófjárhagslega upplýsingagjöf gilda þangað til að Ísland hefur innleitt ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2022/2464/ESB um sjálfbærni reikningsskila. Öll félög sem flokkast sem stór félög eða sem stórar samstæður skulu birta ófjárhagslegar upplýsingar í samræmi við ákvæði 66. gr. d. en einnig í samræmi við leiðbeiningar framkvæmdastjórnar ESB um aðferðarfræði við framsetningu ófjárhagslegra upplýsinga frá árinu 2017 og um loftlagstengdar upplýsingar frá árinu 2019. Ársreikningaskrá vill einnig benda á að ákvæði 8. gr. flokkunarreglugerðar ESB (EU-Taxonomy) gildir einnig fyrir stór félög.

Upplýsingar um leigusamninga (Regla Reikningsskilaráðs nr. RR 6)

Við eftirlit með reikningsskilum síðustu ára hafa komið í ljós verulegir annmarkar á að upplýsingagjöf um leigusamninga þeirra félaga sem kjósa að beita reglu reikningsskilaráðs um leigusamninga uppfylli þær kröfur sem gerðar eru um upplýsingar í reikningsskilunum hjá þeim félögum sem leigja til sín eignir. Ársreikningaskrá vill benda á að kröfur í RR 6 um upplýsingar vegna leigusamninga eru töluvert ítarlegri en voru í alþjóðlegum reikningsskilastaðli IAS 17 en sá staðall er fallinn úr gildi.

Ársreikningaskrá mun fylgjast með því að félög sem kjósa að beita RR 6 um reikningshaldslega meðferð leigusamninga uppfylli allar skýringakröfur sem gerðar eru samkvæmt reglu reikningsskilaráðs. Fram kemur í 11. gr. reglu reikningsskilaráðs RR 6 að þau félög sem flokka leigusamninga sína í samræmi við RR 6 skuli gera skýra grein fyrir leiguskuldbindingum sínum í skýringarhluta ársreiknings. Skýringar skulu vera settar fram með hliðsjón af þörfum notenda reikningsskilanna en að lágmarki skal upplýsa um:

  • Helstu skilmála leigusamninga, svo sem undirliggjandi eignir, leigutíma og framlengingar- og uppsagnarheimildir.
  • Fjárhæðir gjalda færðar í rekstrarreikning og sundurliðun þeirra.
  • Heildarfjárhæðir skuldbindinga vegna leigusamninga næstu fimm ár og lengri tíma, eftir því sem við á.

Ársreikningaskrá hvetur félög til að skýra hvernig val á reikningsskilaaðferð þjóni þörfum notenda reikningsskilanna og tryggi glögga mynd af fjárhagsstöðu félagsins.

Stærðarflokkun félaga og upplýsingagjöf í ársreikningi

Ákvæði um hvernig flokka skuli félög og samstæður eftir stærð eru í 11. og 33. tölul. 2. gr. laga nr. 3/2006. Flokkun félaga eftir stærð skiptir máli þegar kemur að kröfum ársreikningalaga hvað varðar hvaða upplýsingar í skýrslum stjórnar og í skýringum með töluyfirlitum ársreikninga og samstæðureikninga. Stærðarflokkun skiptir einnig máli þegar kemur að kröfu um gerð samstæðureiknings fyrir meðalstórar og stórar samstæður. Við eftirlit ársins 2025 verður horft til eftirfarandi atriða varðandi stærðarflokkun og upplýsingagjöf í ársreikningi:

  • Að félög birti ítarlegar og fullnægjandi upplýsingar í skýrslum stjórnar og í skýringum sem endurspegla eðli og umfang starfsemi félagsins.
  • Að við mat á umfangi skýringa verði tekið mið af þörfum notenda reikningsskila og ákvæðum 7. gr. reglugerðar nr. 696/2019.

Ársreikningaskrá bendir á að ef hrein velta er ekki lýsandi fyrir starfsemi félags skal miðað við aðrar tekjur, þ.m.t. tekjur af fjármálagerningum og söluhagnað. Ársreikningskrá vill vekja athygli á að ef félag á eignarhlut í öðru félagi þarf að leggja mat á hvort að félagið fari með yfirráð yfir félaginu sem fjárfest er í en við útreikning viðmiðunarmarka móðurfélags skal miða við stærðir í samstæðureikningi fyrir þau félög sem semja slíkan reikning. Ef móðurfélag semur ekki samstæðureikning skal leggja saman viðmiðunarmörk móðurfélags og allra dótturfélaga. Í töflunni hér að neðan er að finna viðmiðunarmörk félaga

Örfélag ≤ 20.000.000 ≤ 40.000.000 ≤ 3
Lítið félag ≤ 600.000.000 ≤ 1.200.000.000 ≤ 50
Meðalstórt félag ≤ 3.000.000.000 ≤ 6.000.000.000 ≤ 250
Stórt félag > 3.000.000.000 > 6.000.000.000 > 250

Ársreikningaskrá leggur áherslu á mikilvægi gagnsæis og áreiðanleika í reikningsskilum. Eftirlit ársins 2025 mun taka mið af framangreindum áherslum með það að markmiði að auka traust og trúverðugleika á íslenskum reikningsskilum.

Ársreikningaskrá ríkisskattstjóra

Reykjavík, 26. nóvember 2024


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum