Áhersluatriði í eftirliti ársreikningaskrár vegna reikningsársins 2018

Í minnisblaði þessu eru sett fram áhersluatriði í eftirliti ársreikningaskrár með reikningsskilum vegna reikningsársins sem hófst 1. janúar 2018. Áhersluatriðin eru birt til umhugsunar fyrir stjórnendur og endurskoðendur eða skoðunarmenn, félaga sem falla undir
gildissvið ársreikningalaga, við samningu og endurskoðun eða yfirferð reikningsskila.

Áhersluatriðin taka mið af nýlegum breytingum laga auk atriða sem upp hafa komið við eftirlit með reikningsskilum á síðustu reikningsárum. Að þessu sinni er lögð áhersla á ófjárhagslegar upplýsingar í reikningsskilum, skylduna til að endurskoða félög og upplýsingagjöf vegna eignarhalds og kaupa og sölu eigin hluta.

Ófjárhagslegar upplýsingar

Samkvæmt 66. gr. d. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, þar sem kveðið er á um ófjárhagslega upplýsingagjöf, skulu einingar tengdar almannahagsmunum og móðurfélög stórra samstæða birta upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að leggja mat á þróun, umfang, stöðu og áhrif félagsins í tengslum við umhverfis-, félags- og starfsmannamál. Jafnframt skal gera grein fyrir stefnu félagsins í mannréttindamálum og hvernig félagið spornar við spillingar og mútumálum. Yfirlitið skal enn fremur innihalda eftirfarandi:

 1. stutta lýsingu á viðskiptalíkani félagsins,
 2. lýsingu á stefnu félagsins í tengslum við mál samkvæmt greininni, ásamt lýsingu á því hvaða áreiðanleikakönnunarferli félagið framfylgir,
 3. yfirlit yfir árangur af stefnu félagsins í málum samkvæmt greininni,
 4. lýsingu á megináhættum sem tengjast þessum málum í rekstri félagsins, þ.m.t., eftir því sem við á og í réttu hlutfalli,  viðskiptatengslum þess, vörur og þjónustu, sem líklegar eru til að hafa skaðleg áhrif á þessum sviðum, og hvernig félagið tekst á við þá áhættu og
 5. ófjárhagslega lykilmælikvarða sem eru viðeigandi fyrir viðkomandi fyrirtæki.

Á árinu 2018 kannaði ársreikningaskrá framkvæmd nokkurra félaga við framsetningu ófjárhagslegra upplýsinga í reikningsskilum. Var niðurstaðan úr þeirri könnun að verulegra úrbóta er þörf. Ársreikningaskrá mun því fylgjast sérstaklega með framsetningu ófjárhagslegra upplýsinga í reikningsskilum íslenskra fyrirtækja á árinu 2019 vegna reikningsskila ársins 2018.

Skylda til að láta endurskoða ársreikning eða samstæðureikning

Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, eru þau félög sem falla undir gildissvið laganna endurskoðunarskyld. Í 1. mgr. 98. gr. er kveðið á um að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 96. gr. er félögum sem eru undir tveimur af eftirfarandi stærðartakmörkum tvö næstliðin reikningsár, ekki skylt að láta endurskoða ársreikninga sína, sbr. þó 3.-5. mgr.:

 1. niðurstöðutala efnahagsreiknings er 200 millj. kr.,
 2. hrein velta er 400 millj. kr. og
 3. meðalfjöldi ársverka á fjárhagsári er 50

Á árinu 2018 hefur ársreikningaskrá fylgst með félögum sem falla undir endurskoðunarskyldu og hefur ársreikningum 2017 verið hafnað ef í ljós hefur komið að þeir séu ekki endurskoðaðir. Á næsta ári mun ársreikningaskrá sérstaklega fylgjast með félögum sem eru yfir stærðarmörkum eins og þau eru tilgreind í 1. mgr. 98. gr. laga nr. 3/2006. Óendurskoðuðum reikningum sem falla undir endurskoðunarskyldu verður hafnað og jafnframt gerð krafa um að félagið láti endurskoða viðkomandi reikningsskil.

Eigin hlutir

Samkvæmt 60. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, skal veita eftirfarandi upplýsingar um
eign félags á eigin hlutum í skýringum með reikningsskilum:

 1. fjölda og nafnverð eigin hluta, svo og hlutfall þeirra af heildarhlutum,
 2. fjölda og nafnverð eigin hluta sem hafa verið keyptir eða seldir á reikningsárinu, svo og kaup- og söluverð þeirra og
 3. ástæður þess að félag eignaðist eigin hluti á reikningsárinu.

Sömu upplýsingar skal veita ef tekið hefur verið veð í eigin hlutum eða ef dótturfélag hefur
eignast eða látið af hendi hluti í móðurfélagi á reikningsárinu. Samkvæmt 65. gr. skal einnig
veita sömu upplýsingar í skýrslu stjórnar.

Ársreikningaskrá mun fylgjast sérstaklega með að framsetning upplýsinga um eigin hluti í
reikningsskilum sé í samræmi við ákvæði laga.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum