Endurgreiðsla virðisaukaskatts til opinberra aðila

Ríki, sveitarfélög og stofnanir þeirra fá endurgreiddan virðisaukaskatt sem þau greiða af tilteknum aðföngum, svo sem sorphreinsun, ræstingu, snjómokstri, björgunarstörfum og öryggisgæslu, samræmdri neyðarsímsvörun og sérfræðiþjónustu.

Sótt er um endurgreiðslur á eyðublaði RSK 10.23 og skal þeirri umsókn skilað með tölvupósti á tölvupóstfangið skatturinn@skatturinn.is

Endurgreiðslubeiðni skal byggjast á fullnægjandi sölureikningum.

Hægt er að sækja um endurgreiðslur í sex ár talið frá því að endurgreiðsluréttur stofnaðist.

Gögn með umsókn

Með umsókn um endurgreiðslu skal fylgja hreyfingalisti yfir þá reikninga sem liggja til grundvallar umsókninni.

Endurgreiðslutímabil og afgreiðsla umsókna

Tímabil:

tb.

Skiladagur umsóknar og gagna

janúar- febrúar

8

1. apríl

mars -apríl

16

1. júní

maí -júní

24

1. ágúst

júlí - ágúst

32

1. október

september - október

40

1. desember

nóvember - desember

48

1. febrúar

Afgreiðslutími er 15 dagar frá lokum skilafrests. Athugið þó að skilafrestur framlengist ef ríkisskattstjóri getur, vegna atvika sem rekja má til umsækjanda, ekki gert nauðsynlegar athuganir á gögnum þeim sem beiðnin byggir á.

Endurgreiðslubeiðnir, sem berast eftir lok skilafrests, eru afgreiddar með umsókn næsta tímabils.

Endurgreiðsla má aðeins fara fram að ákvörðun um virðisaukaskatt viðkomandi opinbers aðila liggi fyrir.

Þjónusta sem endurgreitt er vegna

Sorphreinsun

Endurgreitt er vegna sorphreinsunar, þ.e. söfnun, flutningi, urðun og eyðingu sorps og annars úrgangs, þar með talið brotamálma. Virðisaukaskattur vegna endurvinnslu fellur ekki hér undir.

Einnig er endurgreitt vegna leigu eða kaupa á sorpgámum vegna staðbundinnar sorphirðu.

Ræsting

Endurgreitt er vegna kaupa á ræstingu ásamt hreingerningarefnum sem notuð eru við hana. Með ræstingu er átt við bæði venjulega ræstingu og hreingerningu innan húss, þ.m.t. teppahreinsun og gluggaþvott innan dyra. Ekki er endurgreitt vegna hreinsunar utan dyra.

Snjómokstur

Endurgreitt er vegna snjómoksturs og snjó- og hálkueyðingar með salti eða sandi. Einnig er endurgreitt vegna flutnings á snjó þegar aðstæður eru þannig að ekki er unnt eða nægilegt að ryðja snjó til hliðar heldur sé nauðsynlegt að flytja hann í burtu.

Björgunarstörf og öryggisgæsla vegna náttúruhamfara og almannavarna.

Endurgreitt er vegna kostnaðar sem opinber aðili verður fyrir vegna björgunarstarfa sem miða að því að koma í veg fyrir að meiri eyðilegging verði af sama atburði eða að eyðilegging vegna sama atburðar haldi áfram á þeim tíma sem náttúruhamfarir standa yfir eða í órofa tengslum við þær.

Ekki er endurgreitt vegna forvarnaraðgerða né aðgerða vegna afleiðinga náttúruhamfara, þannig er ekki endurgreitt vegna kostnaðar við viðgerðir.

Þjónusta sérfræðinga

Endurgreitt er vegna kaupa á þjónustu verkfræðinga, tæknifræðinga, arkitekta, lögfræðinga, löggiltra endurskoðenda, tölvunarfræðinga og annarra sérfræðinga er almennt þjóna atvinnulífinu og lokið hafa háskólanámi eða sambærilegu langskólanámi eða starfa sannanlega á sviði fyrrgreindra aðila og veita sambærilega þjónustu.

Ekki er endurgreitt vegna þeirrar þjónustu sérfræðinga sem ekki er í tengslum við sérfræðimenntun þeirra.

Þjónusta vaktstöðva vegna samræmdrar neyðarsímsvörunar

 Endurgreitt er vegna þjónustu samræmdrar neyðarsímsvörunar og öðru því nauðsynlega tengdu.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Endurgreiðslur til opinberra aðila – 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Reglugerð um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila – Reglugerð nr. 248/1990

Fullgildir sölureikningar samkvæmt 4. gr. reglugerðar um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila – Reglugerð nr. 50/1993

Eyðublöð

RSK 10.23 - Beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa sveitarfélags eða ríkisstofnunar á þjónustu.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum