Hagnaður CFC-félags verður því aðeins skattlagður hjá innlendum eigendum þess ef þeir eiga að lágmarki helmings eignarhlut í félaginu eða þeir hafi haft veruleg áhrif á stjórnun þess innan tekjuársins, þ.e. þess árs sem næst er á undan álagningarárinu. Nægir að lágmarkseignarhald/umráð hafi verið til staðar á einhverjum tímapunkti innan ársins til að reglan eigi við.
Lágmarkseignarhald
Ekki er litið til eignarhalds hvers eiganda við ákvörðun þess hvort skilyrðið telst uppfyllt, heldur hvert sameiginlegt eignarhald allra innlendra eigenda í hinum erlenda lögaðila er.
Litið er til beins og óbeins eignarhalds eigenda. Sem dæmi um óbeint eignarhald er þegar skattaðili á hlut í félagi A sem ekki telst CFC-félag, en það félag er einn eigenda CFC-félags. Skattaðilinn telst þá eigandi að CFC-félaginu með óbeinu eignarhaldi, þ.e. í gegnum félagið A.
Nægir að sameiginlegt eignarhald innlendra aðila nái 50% svo reglan verði virk. Nái eignarhlutdeild ekki því lágmarki verður að leggja mat á það hvort innlendir skattaðilar teljist hafa umráð yfir CFC-félaginu. Eftirfarandi eru dæmi um það hvernig sameiginlegt eignarhald innlendra aðila samkvæmt framansögðu er fundið.

Dæmi 1. Innlendir eigendur A eiga 25% eignarhlutdeild í CFC félaginu með óbeinu eignarhaldi. Félag B á 50% með beinu eignarhaldi. Sameiginlegt eignarhald íslenskra eigenda er 50% í þessu dæmi.

Dæmi 2. Innlendir eigendur A eiga 25% í CFC-félaginu vegna óbeinnar eignarhlutdeildar. Aðrir eigendur eru erlendir. Eignarhald íslenskra eigenda er 25%.
Umráð
Ekki er alltaf fullt samræmi á milli eignarhlutdeildar og stjórnunarlegra yfirráða. Þannig geta eigendur verið ráðandi aðilar í stjórnun félags, sjóðs eða stofnunar þrátt fyrir að eignarhald sé innan við 50%. Slík staða eigenda innan félags getur m.a. byggst á samningum hluthafa, félagssamþykktum eða takmörkun á atkvæðisrétti einhverra hlutabréfa eða hluthafa. Einnig ber að líta til þess hvernig óbeinu eignarhaldi er háttað í þessu sambandi, þ.e. hvort í því felist í raun umráð þeirra sem eiga óbeint í CFC-félagi. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 46/2009, þar sem CFC ákvæðið er lögfest, er í þessu sambandi gefið dæmi um íslenskan skattaðila sem á 50% hluta í félagi (A) sem á 50% í CFC-félagi. Eignarhluti skattaðilans í CFC-félaginu nær því 25% (0,5 x 0,5 = 0,25). Séu umráð hins vegar metin í ljósi framanritaðs eignarhalds liggur fyrir að umráð teljast fyrir hendi yfir félagi A, enda nægir 50% eignarhald til þess. Þar sem eignarhald A á CFC-félagi nær 50% hefur A umráð yfir CFC-félaginu. Í ljósi þess að skattaðilinn hefur umráð yfir félaginu A þá leiðir það til þess að hann hefur með höndum umráð félagsins A yfir CFC-félaginu og telst því hafa 50% umráð yfir því félagi. Því er ljóst að ekki nægir það eitt að líta til eignarhlutdeildar þegar um óbeint eignarhald er að ræða. Þannig myndu umráð ekki teljast vera fyrir hendi hefði skattaðili átt 25% í félagi A þótt CFC-félag hefði verið að fullu í eigu A, en í því tilviki er eignarhlutdeild skattaðilans í CFC-félaginu 25% líkt og í fyrra dæminu (0,25 x 1,00 = 0,25). Sjá eftirfarandi dæmi:

Dæmi 3. Innlendir eigendur eiga 25% í CFC- félaginu vegna óbeinnar eignarhlutdeildar og hafa umráð yfir því félagi vegna stöðu sinnar í félagi A

Dæmi 4. Innlendi eigandinn á 25% í CFC-félaginu vegna óbeinnar eignarhlutdeildar, en hefur ekki umráð yfir því félagi. Þar sem hann hefur ekki umráð yfir félagi A á grundvelli eignarhlutdeildar hefur hann ekki stjórnunarleg yfirráð yfir málefnum félagsins, þ.m.t. ákvörðunum er varða CFC félagið og telst því ekki hafa umráð yfir því félagi.