Milliverðlagning

Hugtakið milliverðlagning vísar til þess hvernig tengdir lögaðilar verðleggja viðskipti sín á milli. Reglum um milliverðlagningu er ætlað að tryggja að verðákvörðun í viðskiptum slíkra aðila sé í samræmi við verð í sambærilegum viðskiptum milli ótengdra aðila, þ.e. að verð sé í samræmi við svokallaða armslengdarreglu. Reglurnar eru jafnframt leiðbeinandi fyrir skattyfirvöld um hvernig eigi að ganga úr skugga um að verðlagningin uppfylli þessi skilyrði. Ef verðlagning er innan armslengdar (þ.e. milli tengdra aðila), og verð er frábrugðið því sem væri í viðskiptum ótengdra aðila, ber að leiðrétta verðið og ákvarða skattstofn eða skattstofna að nýju eftir því hvort verð reynist of- eða vanmetið.

Reglurnar taka hvorki til viðskipta milli óskattskyldra lögaðila né  viðskipta milli einstaklinga eða viðskipta einstaklinga við lögaðila. Hafa ber þó í huga að ef verð í viðskiptum einstaklinga víkur frá armslengdarreglunni geta almennar reglur um skattasniðgöngu mögulega átt við. Sama á við um viðskipti milli lögaðila og einstaklinga.

Reglur um milliverðlagningu eiga við um viðskipti milli tengdra lögaðila þrátt fyrir að á þeim hvíli ekki krafa um skjölunarskyldu. Ef tengsl milli lögaðila eru með öðrum hætti en greinir í ákvæði um milliverðlagningu geta almennar reglur um skattasniðgöngu átt við vegna viðskipta þeirra á milli.

Reglurnar eiga ekki við ef um málamyndagerninga eða sýndargerninga er að ræða. Í þeim tilvikum gilda almenn ákvæði um skattasniðgöngu.

Reglurnar eiga við óháð því hvort innlendur lögaðili á í viðskiptum við innlendan eða erlendan lögaðila sem honum er tengdur. Hins vegar á skjölunarskylda eingöngu við þegar innlendir aðilar eiga í viðskiptum yfir landamæri við tengda aðila.

Armslengdarreglan

Tengdir lögaðilar

Reglurnar eiga eingöngu við þegar tiltekin tengsl eru á milli lögaðila sem eiga í viðskiptum.

Tengsl geta verið fyrir hendi vegna beinna og/eða óbeinna tengsla á milli lögaðilanna sjálfra annars vegar og hins vegar vegna tengsla milli manna sem eru meirihlutaeigendur lögaðilanna eða manna sem fara með stjórnunarleg yfirráð yfir þeim lögaðilum, sem eiga í viðskiptum.

Tengsl milli lögaðilanna sjálfra með beinum eða óbeinum hætti:

  • Þegar lögaðilar eru hluti af sömu samstæðunni eru þeir ótvírætt tengdir lögaðilar.  
  • Þegar lögaðili er undir beinu og/eða óbeinu meirihlutaeignarhaldi eða stjórnunarlegum yfirráðum tveggja eða fleiri lögaðila innan samstæðu telst hann tengdur öllum lögaðilum innan samstæðunnar.
  • Þegar lögaðili á meira en 50% í öðrum lögaðila með óbeinum hætti teljast þeir tengdir í skilningi ákvæðis laganna um milliverðlagningu. Ef annar lögaðilinn er hluti af samstæðu telst hinn lögaðilinn tengdur öllum öðrum lögaðilum innan samstæðunnar.

Tengsl milli lögaðilanna vegna tiltekinna tengsla manna sem eru eigendur þeirra og/eða manna sem fara með stjórnunarleg yfirráð yfir þeim:

Ef lögaðilarnir eru beint eða óbeint í meirihlutaeigu eða undir stjórnunarlegum yfirráðum einstaklinga sem eru tengdir sifjaréttarlegum böndum, t.d. einstaklinga í hjónabandi eða staðfestri samvist, systkina og einstaklinga sem eru skyldir í beinan legg, teljast þeir tengdir aðilar í skilningi reglna um milliverðlagningu. Í þessum tilvikum eru tengsl lögaðilanna afleidd vegna tengsla eigenda þeirra eða manna sem fara með stjórnunarleg yfirráð yfir þeim.

Samstæða (dæmi I)

Beint og óbeint eignarhald (dæmi II)

Meirihlutaeignarhald/stjórnunarleg yfirráð tveggja eða fleiri lögaðila innan samstæðu (dæmi III)

Samantekt (dæmi I-III)

Stjórnunarleg yfirráð

Sifjaréttarleg tengsl einstaklinga

Ákvörðun verðs

Í leiðbeiningarreglum OECD er fjallað um fimm aðferðir til að ákvarða eðlilegt verð í viðskiptum tengdra aðila. Engin ein aðferð hentar öllum viðskiptatilvikum og því er ekki lögð sérstök áhersla á að beita einni aðferð umfram aðra heldur er skoðað hvað á best við í einstökum tilvikum. Aðferðirnar fimm eru greindar upp í tvo flokka, annars vegar hefðbundnar aðferðir og hins vegar það sem mætti kalla framlegðar- eða ágóðamyndandi aðferðir. Hefðbundnu aðferðirnar nefnast samanburðaraðferðin, endursöluaðferðin og álagningaraðferðin. Aðrar aðferðir ganga út á að skoða tilteknar afkomustærðir eins og framlegð af sölu, sölu að frádregnum framleiðslukostnaði, hagnað fyrir afskriftir, vexti og skatta (e. operating profit/EBITA) og bera saman við t.d. tilteknar eignir, skuldir eða aðrar stærðir í rekstrinum. Eins kann að vera horft til þess hvernig ætla mætti að hagnaður af tilteknu rekstrarskipulagi (e. structure) hefði skipst ef viðskiptin hefðu átt sér stað á milli ótengdra aðila. Þá er litið til hlutverks (e. function), eigna og áhættu, sér í lagi óefnislegra eigna og eins hvort reksturinn feli í sér þætti rannsókna og þróunar. Í flóknum rekstri getur reynst nauðsynlegt að byggja á starfsþáttagreiningu (e. segment accounting) séu þessar aðferðir notaðar. Ef einhver af hefðbundnu aðferðunum hentar vel miðað við aðstæður er mælt með að beita henni frekar en öðrum aðferðum því að þær eru taldar meira afgerandi við mat á því hvort armslengdarsjónarmið hafi verið lögð til grundvallar verðákvörðun í viðskiptum tengdra aðila.

Hefðbundnar aðferðir

Aðrar aðferðir

Skjölunarskylda

Við mat á því hvort skjölunarskylda vegna viðskipta við tengda aðila er til staðar ber að líta til rekstrartekna, heildareigna og umfangs einstakra viðskipta. Varðveita ber sérstaklega gögn um skjölunarskyld viðskipti, s.s. upplýsingar um viðskiptaskilmála, veltu, eignir og annað sem þýðingu kann að hafa við milliverðlagninguna, í sjö ár frá lokum reikningsárs.

Hverjir eiga að skjala?

Eru einhverjar undanþágur frá skjölun?

Hversu ítarleg þarf skjölun að vera?

 Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Eyðublöð

Annað


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum