Upprunareglur

Það er iðulega áskilið í fríverslunarsamningum að vara sé að öllu leyti fengin í aðildarríkjunum eða hljóti þar fullnægjandi aðvinnslu eigi hún að öðlast rétt til fríðindameðferðar samkvæmt þeim. Upprunareglurnar kveða á um skilyrði þess að vara, sem á undir fríverslunarsamning, teljist upprunavara og eru því nauðsynlegar til þess að unnt sé að greina vörur, sem falla undir fríverslunarsamningana og njóta fríðindameðferðar frá öðrum vörum sem ekki fá notið fríðindameðferðar, hinum svonefndu þriðja lands vörum.

Innflytjandi vöru, sem uppfyllir skilyrði upprunareglna viðeigandi fríverslunarsamnings, þarf að leggja fram upprunasönnun í innflutningslandinu til stuðnings kröfu um fríðindameðferð vörunnar.

Formáli

Upprunareglur og upprunasannanir

Tilgangurinn með fríverslunarsamningum er sá að víkja frá almennum reglum um innheimtu tolla og annarra aðflutningsgjalda í vöruviðskiptum milli ríkja með því að fella niður tolla eða lækka þá og/eða með því að afnema eða takmarka aðrar hindranir í viðskiptum aðildarríkjanna með vörur sem samningarnir eru gerðir um.

Það er iðulega áskilið í frí­verslunar­samningum að vara sé að öllu leyti fen­gin í aðildar­ríkjunum eða hljóti þar full­nægjandi að­vinnslu eigi hún að öðlast rétt til fríðinda­með­ferðar samkvæmt þeim. Upprunareglurnar kveða á um skil­yrði þess að vara, sem á undir frí­verslunar­samning, teljist upp­runa­vara og eru því nauðsynlegar til þess að unnt sé að greina vörur, sem falla undir frí­verslunar­samningana og njóta fríðinda­með­ferðar frá öðrum vörum sem ekki fá notið fríðindameðferðar, hinum svonefndu þriðja lands vörum.

Innflytjandi vöru, sem upp­fyllir skil­yrði upp­runa­reglna við­­eigandi frí­verslunar­samnings, þarf að leggja fram upp­runa­sönnun í inn­flutnings­landinu til stuðnings kröfu um fríðinda­meðferð vörunnar.

Framsetning þessa efnis

Í upphafi er vikið almennum orðum að fríverslunarsamningum og fríðinda­­meðferð vöru á grund­velli þeirra og nokkrum hugtökum sem koma oft við sögu þegar fjallað er um fríverslunar­samninga (sjá 1. kafla). Á þessum síðum er gerð almenn grein fyrir fríverslunarsamningum sem Ísland á aðild að. Megináherslan er þó lögð á samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, EES-samninginn. Að öðru leyti er upp­byggingu efnisins hagað á þann veg að leitað er svara við spurningum sem jafnan vakna þegar ákveða skal hvort vara njóti réttar til fríðinda­með­ferðar samkvæmt frí­verslunar­samningum Ís­lands við önnur ríki, þ.á.m. þessum spurningum:

 1. Hvert á að flytja vöruna? Hefur Ísland gert frí­verslunar­samning við við­komandi ríki? Hvaða ríki eru aðilar að hverjum samningi fyrir sig? (sjá 2. kafla).
 2. Ef fríverslunarsamningur er fyrir hendi, fellur varan þá undir samninginn, þ.e. var samið um að varan sem um er rætt geti notið fríðinda­með­ferðar? (sjá 3. kafla).
 3. Ef varan fellur undir tiltekinn fríverslunarsamning, hvaða skil­yrði þurfa að vera upp­fyllt til þess að vara öðlist rétt til fríðinda­með­ferðar samkvæmt samningnum, þ.e. er varan upp­runa­vara með til­liti til upprunareglna viðeigandi frí­verslunar­samnings? Hvað er marg­hliða upp­söfnun upp­runa? Hvernig á að nota aðvinnsluskrárnar? (sjá 4. kafla).
 4. Hvaða reglur gilda um flutning vörunnar frá upp­runa­landinu til áfanga­staðar? (sjá 5. kafla).
 5. Hvaða reglur gilda um sönnun upp­runa? (sjá 6. kafla).

1. kafli

1.1 Fríverslunarsvæði og tollabandalög

Það er talað um fríverslunarsvæði þegar vikið er frá almennum reglum um innheimtu aðflutningsgjalda og inn- og útflutningstakmarkanir í viðskiptum með tilteknar vörur á milli aðildarríkja fríverslunarsamnings, sem eru að öllu leyti fengnar eða hafa fengið fullnægjandi aðvinnslu á yfirráðasvæði aðildarríkja samningsins. Aðildarríkjunum er hins vegar heimilt að halda uppi ólíkum tollum og inn- og útflutningstakmörkunum gagnvart ríkjum sem ekki eru aðilar að fríverslunarsvæðinu, svonefndum þriðju löndum. Almennum afgreiðsluháttum er haldið uppi við landamæri ríkjanna, sem mynda fríverslunarsvæðið, til þess að tryggja þegar við á innheimtu tolla og annarra aðflutningsgjalda við innflutning og til þess að tryggja að ákvæðum laga um inn- og útflutningstakmarkanir sé fylgt.

Í tollabandalagi hafa aðildarríki þess fellt niður sín á milli tolla og aðrar viðskiptahindranir en þau hafa jafnframt tekið upp sameiginlegan ytri toll og sameiginlega viðskiptastefnu gagnvart þriðju ríkjum. Upprunareglur um tollfríðindi eru því óþarfar í viðskiptum innan bandalagsins. Vörur frá þriðju löndum eru tollafgreiddar á ytri landamærum tollabandalagsins og eru eftir það í frjálsri umferð á bandalagssvæðinu.

Fríverslunarsamtök Evrópu (European Free Trade Associaton - EFTA), sem sett voru á fót árið 1960 með samningnum um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu, eru dæmi um fríverslunarsvæði.[1] Í EFTA eru nú auk Íslands: Noregur, Sviss og Liechtenstein.

Evrópubandalagið (EB) er hins vegar m.a. tollabandalag, en ekki fríverslunarsvæði eins og EFTA. Evrópubandalagsríkin eru: Austurríki, Belgía, Danmörk, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ítalía, Lúxemborg, Portúgal, Spánn, Stóra-Bretland og Norður-Írland, Svíþjóð og Þýskaland.

 

1.2 Almenn tollmeðferð – fríðindameðferð

Í 2. og 4. gr. tollalaga er kveðið á um hina almennu tollskyldu vegna innflutnings á vörum til Íslands en í henni felst að innflytjanda ber að fá vöruna tollafgreidda áður en hann getur tekið hana til frjálsra umráða. Tilgangurinn með fríverslunarsamningum milli tveggja eða fleiri ríkja er, eins og áður sagði, sá að fella niður eða lækka tolla og fella niður eða takmarka aðrar viðskiptahindranir, s.s. ákvæði um leyfi eða kvóta, vegna þeirrar vöru sem fríverslunarsamningur er gerður um. Þegar skilyrðum fríverslunarsamninga fyrir lækkun eða niðurfellingu tolla eða annarra beinna viðskiptahindrana er fullnægt er talað um að vara öðlist rétt til fríðindameðferðar.[2]

Það ber að hafa í huga að fríðindameðferð er veitt án þess að varan sé undanþegin tollmeðferð. Fríðindameðferð er sérstök tollmeðferð sem gerir innflytjanda kleift að fá tollalækkun eða tollfrelsi með tilliti til almenna tollsins (A-dálkur í tollskrá) á grundvelli gerðs fríverslunarsamnings að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru í samningnum. Innflytjanda ber að fá vöruna tollafgreidda áður en hann getur tekið hana til frjálsra umráða. Sá háttur er nauðsynlegur til þess að tryggja að tollur og önnur gjöld sem lögð eru á vöru séu greidd, að innflutningstakmarkana sem um hana kunna að gilda sé gætt og eins til þess að hægt sé að kanna réttmæti kröfu til fríðindameðferðar.

 

1.3 Tengsl fríverslunarsamninga og tollalaga

Fríverslunarsamningar eru þjóðréttarsamningar. Þeir öðlast ekki sjálfkrafa lagagildi hér á landi heldur verður að koma til atbeini löggjafans.

Fríverslunarsamningar, sem gerðir hafa verið frá því að Ísland gerðist aðili að EFTA, hafa almennt verið staðfestir af Íslands hálfu samkvæmt þingsályktun þar sem Alþingi veitir ríkisstjórninni heimild til þess að fullgilda viðkomandi samning. Tollabreytingar, sem samningarnir hafa í för með sér, hafa verið gerðar með lagabreytingum á tollskránni, sbr. lög nr. 1/1970 um tollskrá, lög nr. 7/1973 um tollskrá, lög nr. 18/1993 um breytingu á tollalögum, nr. 55/1987 og lög nr. 87/1995, um breytingar á lögum vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Þetta er þó ekki algild regla. Samkvæmt 1. mgr. 147. gr. tollalaga hefur fjármálaráðherra heimild til þess að hrinda í framkvæmd þeim ákvæðum fríverslunar- og milliríkjasamninga sem fela í sér lækkun eða niðurfellingu tolla. Tollalækkunar- eða tollfrelsisákvæðum fríverslunarsamninga hefur verið hrint í framkvæmd á grundvelli þessarar lagaheimildar, með þingsályktun Alþingis og staðfestingu ríkisstjórnarinnar, sbr. samninga við ýmsar Mið- og Austur-Evrópuþjóðir, Ísrael og Tyrkland. Þá hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið gefið út auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda um sérstaka tollmeðferð vegna EFTA-samninganna og tvíhliða samninga Íslands og hlutaðeigandi ríkja, sbr. t.d. nýlega auglýsingu um sérstaka tollmeðferð vegna fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og konungsríkisins Marokkó og bókun milli lýðveldisins Íslands og konungsríkisins Marokkó um landbúnaðarafurðir. 

Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. og 122. gr. hefur ráðherra heimildir til þess að setja með reglugerð eða öðrum fyrirmælum nánari reglur um ýmis atriði er varða framkvæmd ákvæða fríverslunarsamninga við innflutning (19. gr.) og útflutning (122. gr.), s.s. nauðsynleg gögn, sbr. auglýsingu nr. 404/1987 um sérstaka tollmeðferð vegna aðildar Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) og samnings Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu (EBE).

1.4 Hvar er upprunareglurnar að finna?

Upprunareglurnar eru teknar upp í fríverslunarsamningana sem sjálfstæðar bókanir eða viðaukar við þá. Upprunareglur EES-samningsins eru í bókun 4 við samninginn. Aðvinnsluskrá yfir tilskilda aðvinnslu þriðja lands efnivöru er sett fram sem II. viðbætir við bókun 4. Í EFTA-sáttmálanum og samningum EFTA-ríkjanna við Búlgaríu, Eistland, Ísrael, Lettland, Litháen, Marokkó, Pólland, Rúmeníu, Slóvakíu, Slóveníu, Tékkland og Tyrkland eru upprunareglurnar í viðauka B við samningana. Aðvinnsluskrá og skýringar eru í II. viðbæti við viðauka B. Ísland hefur auk þess gert tvíhliða samninga við einstök ríki um landbúnaðarvörur. Í þeim samningum eru sérstakar upprunareglur sem taka til umsaminna vara. Upprunareglur í samningi Íslands og Færeyja eru í 3. viðauka við samninginn.

Samningana er hægt að nálgast í heild sinni á ensku á vef Fríverslunarsamtaka Evrópu.

- - - - - -

[1] Samningurinn um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu er birtur í C-deild Stjórnartíðinda nr. 7/1970.

[2] Rétturinn til fríðindameðferðar á grundvelli fríverslunarsamninga sem Ísland er aðili að verður að byggjast á lagaheimild. Slíka heimild er að finna í 4. gr. tollalaga nr. 55/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 87/1995 og 2. og 11. gr. laga nr. 91/1998, viðauka I við þau (tollskrá), og 147. gr. laganna, sbr. 10. gr. I. kafla laga nr. 104/2000.

[3] Sjá B-deild Stjórnartíðinda nr. 813/1999.

2. kafli

2.1 Almenn atriði um fríverslunarsamninga – tvíhliða og marghliða samningar

Það er mikilvægt að athuga hvaða ríki eru aðilar að hverjum samningi fyrir sig. Samningarnir gilda aðeins á milli þeirra ríkja sem eru aðilar að þeim. Þau ríki sem ekki eru aðilar að samningi eru nefnd þriðju ríki m. t. t. þess samnings.

Það er unnt að skipta þeim fríverslunarsamningum sem Ísland er aðili að í tvo flokka, marghliða og tvíhliða samninga. Aðilar að marghliða samningum eru fleiri en tveir. Nokkrir marghliða samningar hafa verið gerðir á milli EFTA-ríkjanna annars vegar og einstakra ríkja hins vegar. Samningar EFTA-ríkjanna við Tyrkland, Lettland, Litháen, o.s.frv. eru dæmi um marghliða samninga. Tvíhliða samningur er samningur á milli tveggja ríkja, sbr. til dæmis fríverslunarsamning á milli Íslands og Grænlands frá 1985.

Bæði tvíhliða og marghliða fríverslunarsamningar eru byggðir á meginreglunni um gagnkvæmni. Báðir eða allir samningsaðilar njóta góðs af ákvæðum um tollfríðindi við útflutning til annars samningsaðila. Þetta þarf þó ekki að þýða að samningarnir geti ekki verið ósamhverfir, þ.e. einn samningsaðilinn veitir t.d. tiltekinni vöru tollfrelsi (0%) frá gildistöku samningsins en annar samningsaðili lækkar tolla af sömu vöru í áföngum.

2.2 Fríverslunarsamningar sem Ísland á aðild að

Í þessum kafla er fríverslunarsamningum sem Ísland á aðild að skipt í þrjá flokka. Fyrstir eru taldir samningar Íslands við Evrópubandalagið. Í næsta flokki er samningurinn um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og fríverslunarsamningar EFTA við ýmis ríki. Að lokum er minnst á tvíhliða samninga Íslands við Grænland og Færeyjar um fríverslun.

2.2.1 Samningar við Evrópubandalagið

 

 • Fríverslunarsamningur Íslands og Evrópubandalagsins, 1972
 • Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið, 1. janúar 1994
 • Samningur við Kola- og stálbandalagið

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn) var undirritaður í Óportó hinn 2. maí 1992 og tók gildi gagnvart Íslandi hinn 1. janúar 1994, sbr. auglýsingu nr. 31 frá 1993.

EFTA-samningurinn og Fríverslunarsamningur Íslands og Evrópubandalagsins frá 1972 halda gildi sínu þrátt fyrir tilkomu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þau tollfríðindi sem tryggð eru með fyrrnefndu samningunum halda gildi sínu ef samsvarandi fríðindi eru ekki áskilin í EES-samningnum, sbr. 120. gr. hans.

2.2.2 Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) og samningar þess við önnur ríki

 • Samningur um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu - EFTA, 1970
 • Samningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Tyrklands, 13. júlí 1992
 • Samningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Tékklands, 1. janúar 1993
 • Samningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Slóvakíu, 1. janúar 1993
 • Samningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Ísrael, 1. ágúst 1993
 • Samningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Póllands, 1. sept. 1994 [10]
 • Samningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Rúmeníu, 1. júní 1994
 • Samningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Búlgaríu, 1. júní 1994
 • Samningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Ungverjalands, 1. júní 1994
 • Samningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Slóveníu, 1. september 1998
 • Samningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lettlands, 1. júní 1996
 • Samningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Litháen, 1. janúar 1997
 • Samningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Eistlands, 1. október 1997
 • Samningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Marokkó, 1. desember 1999
 • Samningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Sjálfstjórnarsvæðis Palestínumanna, óráðin

2.2.3 Tvíhliða samningar Íslands

 • Samningur um viðskipti Íslands og Grænlands, 1. febrúar 1985
 • Samningur við Færeyjar um fríverslun, 1. júlí 1993

[1] Evrópubandalagið nær til eftirtalinna 15 ríkja: Þýskalands, Frakklands, Ítalíu, Belgíu, Hollands, Lúxemborgar, Bretlands, Írlands, Danmerkur, Grikklands, Spánar, Portúgals, Svíþjóðar, Finnlands og Austurríkis.

[2] Sjá C-deild Stjórnartíðinda nr. 31/1993.

[3] EES-samningurinn nær til eftirtalinna 18 ríkja: Þýskalands, Frakklands, Ítalíu, Belgíu, Hollands, Lúxemborgar, Bretlands, Írlands, Danmerkur, Grikklands, Spánar, Portúgals, Svíþjóðar, Finnlands, Austurríkis, Liechtenstein, Noregs og Íslands. Þá skal þess getið að EES-samningurinn nær til Jan Mayen en ekki Svalbarða.

[4] Sjá C-deild Stjórnartíðinda nr. 7/1970.

[5] Sjá C-deild Stjórnartíðinda nr. 15/1992.

[6] Sjá C-deild Stjórnartíðinda nr. 22/1992 og aug. í B-deild Stjórnartíðinda nr. 73/1993.

[7] Sjá C-deild Stjórnartíðinda nr. 22/1992 og aug. í B-deild Stjórnartíðinda nr. 73/1993.

[8] Sjá C-deild Stjórnartíðinda nr. 10/1993.

[9] Sjá C-deild Stjórnartíðinda nr. 8/1993 og aug. í B-deild Stjórnartíðinda nr. 319/1994.

[10] Bráðabirgðagildistaka 15. nóvember 1993.

[11] Sjá C-deild Stjórnartíðinda nr. 3/1995 og aug. í B-deild Stjórnartíðinda nr. 320/1994.

[12] Sjá C-deild Stjórnartíðinda nr. 2/1995 og aug. í B-deild Stjórnartíðinda nr. 321/1994.

[13] Sjá C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/1995 og aug. í B-deild Stjórnartíðinda nr. 322/1994.

[14] Óbirtur. Sjá aug. í B-deild stjórnartíðinda nr. 228/1996

[15] Óbirtur.

[16] Óbirtur.

[17] Óbirtur.

[18] Óbirtur. Sjá aug. í B-deild stjórnartíðinda nr. 813/1999.

[19] Óbirtur.

[20] Sjá C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/1985.

[21] Sjá C-deild Stjórnartíðinda nr. 12/1993.

[22] Bráðabirgðagildistaka 1. september 1992.

 

Sjá einnig: Fríverslunarsamninga á vef utanríkisráðuneytisins og fríverslunarsamninga EFTA

3. kafli

3.1 Iðnaðarvörur

Flestar iðnaðarvörur, sem falla undir 25.-97. kafla tollskrárinnar, heyra undir fríverslunarsamninga Íslands við önnur ríki. Undantekningarnar eru taldar upp í bókun 2 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og viðauka 1 við samninga EFTA-ríkjanna við Búlgaríu, Eistland, Ísrael, Lettland, Litháen, Marokkó, Pólland, Rúmeníu, Slóvakíu, Slóveníu, Tékkland, Tyrkland og Ungverjaland og 1. viðauka við tvíhliða samning Íslands og Færeyja um fríverslun.

Þær vörur sem undanþegnar eru vörusviði samninganna eru að jafnaði kaseín og eggja- og mjólkuralbúmín (úr vöruliðum 3501 og 3502 í samræmdu tollskráinni). Þó er talsvert um að undanþegnar vörur séu breytilegar frá einum samningi til annars og því er nauðsynlegt að athuga viðeigandi viðauka og bókanir þegar vara er í eftirtöldum vöruliðum í tollskránni: 2905, 3501, 3502, 3505, 3809, 3823, 4501, 5301 og 5302.

3.2 Sjávarafurðir

Í bókun 9 við EES-samninginn eru ákvæði um viðskipti með fisk og aðrar sjávarafurðir. Þess skal getið að tvíhliða samningur Íslands og Evrópubandalagsins gildir framar ákvæðum bókunar 9 og því er unnt að styðjast við samninginn frá 1972 þegar ákvæðum bókunar 9 sleppir eða þegar hann veitir betri rétt en ákvæði bókunar 9, sbr. 7. gr. bókunarinnar. Til dæmis fellur rækja undir samninginn frá 1972 en ekki undir vörusvið EES-samningsins eins og það er skilgreint í bókun 9 við hann.

Samkvæmt 2. gr. bókunar 9 við EES-samninginn voru tollar Evrópubandalagsins af sjávarafurðum, sem tilgreindar eru í töflu II í 2. viðbæti við bókunina, felldir niður að fullu frá og með gildistöku samningsins. Hins vegar féllu tollar Evrópubandalagsins niður í áföngum af sjávarafurðum sem taldar eru upp í töflu III í 2. viðbæti, nema af þeim sjávarafurðum sem sérstakar tollalækkanir gilda um í áðurnefndri töflu II og þeim sem fram koma í fylgiskjali með töflu III. Samningurinn tekur m.ö.o. ekki til þeirra sjávarafurða sem taldar eru upp í nefndu fylgiskjali. Þar er um að ræða lax, síld, makríl, rækju, hörpuskel og leturhumar.

Sérstakar reglur um sjávarafurðir eru í viðauka II við fríverslunarsamninga EFTA-ríkjanna. Þær eru breytilegar frá einum samningi til annars. Þess vegna er nauðsynlegt að gaumgæfa efni þeirra vandlega þegar áfangastaður útfluttra sjávarafurða er aðildarríki þessara samninga.

 

3.3 Landbúnaðarvörur

Ákvæði EES-samningsins taka einungis til framleiðsluvara sem tilgreindar eru í bókun 3 við samninginn, með því sérstaka fyrirkomulagi sem þar greinir. Samkvæmt bókuninni er heimilt að beita verðjöfnun varðandi tiltekið hráefni úr landbúnaði, sbr. skrá yfir hráefni í 2. viðbæti við bókunina, sem notað er við framleiðslu þeirra vara sem taldar eru í töflu I í bókuninni, þ.e. álagning breytilegra gjalda við innflutning og endurgreiðslu við útflutning er heimil, sjá nánar efni bókunarinnar.

 

Í tengslum við EES-samninginn var undirritaður samningur á milli Íslands og Efnahags- bandalags Evrópu um sérstakt fyrirkomulag vegna landbúnaðarafurða. [1] Með samningnum var ákveðið að afnema tolla af tilgreindum vörum úr 6.- 10., 12., 13., 15., 18., 20., 22. og 24. kafla tollskrár.

Það er kveðið á um verðjöfnun í bókun A við fríverslunarsamninga EFTA-ríkjanna við ríki Mið- og Austur-Evrópu og Marokkó. Tvíhliða samningar á milli Íslands og þessara ríkja [2] um viðskipti með landbúnaðarafurðir tóku gildi samhliða fríverslunarsamningunum.

Verðjöfnunarákvæðunum í tilvitnuðum bókunum við EES-samninginn og EFTA-samningana hefur ekki verið hrint í framkvæmd. Hins vegar er mælt fyrir um verðjöfnun við útflutning á vörum sem innihalda landbúnaðarhráefni í reglugerð nr. nr. 535/2003.

 

- - - - - -

[1] Sjá auglýsingu nr. 34/1993 í C-deild Stjórnartíðinda.

[2] Sjá auglýsingu nr. 9/1993 í C-deild Stjórnartíðinda, sbr. auglýsingu nr. 39/1995 (Pólland).

Sjá auglýsingu nr. 23/1992 í C-deild Stjórnartíðinda, sbr. auglýsingar nr. 20/1993 og 24/1993

(Tékkland og Slóvakía).

Sjá auglýsingu nr. 11/1993 í C-deild Stjórnartíðinda (Ísrael).

Sjá auglýsingu nr. 16/1992 í C-deild Stjórnartíðinda (Tyrkland).

 

4. kafli

Vara, sem á undir vörusvið fríverslunarsamnings, sbr. 3. kafla, telst upprunavara ef hún er að öllu leyti fengin á yfirráðasvæði aðildarríkja viðkomandi samnings með þeim skilyrðum sem getur í honum. Vörur, sem eru ekki að öllu leyti fengnar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna, geta hins vegar öðlast rétt til fríðindameðferðar ef skilyrði aðvinnslureglna samningsins eru uppfyllt. Skilyrðin lúta m.a. að uppruna aðfanga til framleiðslunnar og frekari vinnslu vörunnar (aðvinnslunni). Aðvinnslureglurnar mæla með öðrum orðum fyrir um hvort heimilt sé að nota efnivörur frá þriðja landi til framleiðslunnar og hversu mikil aðvinnsla er áskilin til þess að fullbúna varan (framleiðsluvaran) öðlist upprunaréttindi.

Í þessum kafla er í fyrsta lagi gerð grein fyrir reglum sem gilda um vörur sem teljast að öllu leyti fengnar á yfirráðasvæði aðildarríkja fríverslunarsamnings (sjá lið 4.2).

Í öðru lagi er gerð grein fyrir meginatriðum aðvinnslureglna fríverslunarsamninganna (sjá lið 4.3).

Í þriðja lagi verður fjallað um 10% regluna (sjá lið 4.3) og reglur um marghliða uppsöfnun uppruna (sjá lið 4.4) en báðar reglurnar fela í sér frávik frá almennum reglum í liðum 4.2 og 4.3.

Reglur fríverslunarsamningana um uppruna og aðvinnslu eru í meginatriðum efnislega samhljóða, ef frá eru taldar upprunareglur fríverslunarsamninga EFTA-ríkjanna við Ísrael og Marokkó, fríverslunarsamnings Íslands og Færeyja og samnings Íslands og Danmerkur um viðskipti á milli Íslands og Grænlands. Í þessum kafla er vísað til ákvæða bókunar 4 við EES-samninginn. Sambærileg ákvæði gilda samkvæmt öðrum fríverslunarsamningum ef annað er ekki sérstaklega tekið fram. Þó nýtur samningurinn við Grænland nokkurrar sérstöðu og þess vegna verður minnst á aðalatriði hans í sérstökum kafla, sjá lið 4.5.

4.1 Skilgreiningar hugtaka

4.1.1 Efni (efnivara)

Með efnivöru er átt við hvers konar efnisþætti, hráefni, íhluta, hluta, o.s.frv., sem notaðir eru við framleiðslu vöru, sbr. b-lið 1. gr. bókunar 4 við EES-samninginn.

4.1.2 Framleiðsla

Með framleiðslu er átt við hvers konar aðvinnslu, þ.m.t. samsetningu eða sérvinnslu, sbr. a-lið 1. gr. bókunar 4.

4.1.3 Framleiðsluvara

Með framleiðsluvöru er átt við vöru sem er framleidd, jafnvel þótt fyrirhugað sé að nota hana við annars konar framleiðslu síðar, sbr. c-lið 1. gr. bókunar 4.

4.1.4 Skilgreiningareining

a) Almennt

Grunneining vöru við flokkun samkvæmt tollskrá [1] telst vera sú skilgreiningareining sem lögð er til grundvallar við athugun á því hvort vara telst vera upprunavara á grundvelli aðvinnslureglna fríverslunarsamnings, sbr. 7. gr. bókunar 4 við EES-samninginn. Það er flokkun grunneiningar (skilgreiningareiningar) í tollskrá sem vísar á viðeigandi aðvinnslureglu í aðvinnslulistanum. [2]

Af reglunni leiðir í fyrsta lagi, að framleiðsluvara, sem gerð er úr blöndum eða samsettum vörum og talin ein grunneining og flokkuð undir einn vörulið með tilliti til samræmdu skrárinnar, telst í heild ein skilgreiningareining m.t.t. aðvinnslureglnanna og í öðru lagi, að þegar í vörusendingu eru margar framleiðsluvörur af sama tagi, sem flokkaðar eru í sama vörulið í samræmdu tollskránni, skal hver einstök framleiðsluvara virt þegar aðvinnslureglunum er beitt.

Dæmi:

Við útflutning er tölvusamstæða gerð úr:

Vörulýsing Vöruliður nr.
minniseiningu 8471
lyklaborði 8471
skjá 8528

Samkvæmt tollskránni flokkast fullgerð tölvusamstæða undir vörulið nr. 8471. Ef hlutar tölvusamstæðunnar eru fluttir út hver fyrir sig verður niðurstaðan önnur.

Þegar sending er samsett úr nokkrum framleiðsluvörum, sem flokkast í sama vörulið, þá ber að virða hverja framleiðsluvöru fyrir sig þegar aðvinnslureglunum er beitt.

b) Fylgihlutir, varahlutir, verkfæri

Þá eru í bókun 4 sérstakar reglur sem gilda um úrlausn álitamála um fylgihluti, varahluti og verkfæri, sbr. 8. gr. bókunarinnar. Samkvæmt reglunni skal skoða fylgihluti, varahluti og verkfæri, sem send eru með búnaði, vél, tæki eða ökutæki og teljast eðlilegir fylgihlutir þeirra og eru innifalin í verði þeirra, sem hluta af viðkomandi búnaði, vél, tæki eða ökutæki. Um fylgihluti, varahluti og verkfæri, sem send eru hvert fyrir sig, gildir hins vegar meginregla 7. gr. bókunarinnar.

Dæmi:

Fylgi verkfærasett fólksbíl við útflutning skal tollflokka framleiðsluvörurnar, verkfærasettið og fólksbíllinn, undir sama tollskrárnúmerið. Það á því að beita aðvinnslureglunni sem gildir um vörulið nr. 8703 um alla vörueininguna. Ef verkfærasettið er hins vegar flutt út eitt og sér ber að beita aðvinnslureglunni sem gildir um vörulið nr. 8205.

c) Vörusamstæður

Ákvæði 9. gr. bókunar 4 fjallar um vörusamstæður (sett), sbr. b-lið 3. almennu túlkunarreglu tollskrárinnar. Samkvæmt reglunni eru vörusamstæður taldar upprunavörur þegar allir vöruíhlutir samstæðunnar eru upprunavörur. Ef vörusamstæðan er samsett bæði úr upprunavörum og vörum, sem ekki teljast upprunavörur, telst samstæðan í heild upprunavara að því tilskildu að verðmæti þeirra vara, þ.e. tollverð þeirra við innflutning sbr. lið 4.1.7 og 4.1.5, sem ekki eru upprunavörur sé ekki meira en 15% af verksmiðjuverði samstæðunnar.

Í þessu tilviki ber fyrst að leggja mat á hvort einstakir vöruíhlutir uppfylli skilyrði aðvinnslureglunnar sem gildir um þá. Að því loknu má beita ákvæðum 9. gr. bókunarinnar. Það má skýra efni þessarar reglu með dæmum:

Dæmi 1:

Vörusamstæða Upprunaland Verðmæti (ISK)
Hnífur Noregur 30
Skeið Spánn 35
Gaffall Danmörk 35
  Samtals 100

Í þessu dæmi eru allir vöruíhlutirnir upprunnir á EES-svæðinu og vörusamstæðan telst EES-upprunavara.

Dæmi 2:

Vörusamstæða Upprunaland Verðmæti (ISK)
Hnífur Noregur 30
Skeið Spánn 35
Gaffall Tævan 35
  Samtals 100

Í þessu dæmi er verðmæti þeirrar vöru sem ekki telst upprunavara (gaffall frá Tævan) meira en 15% af verksmiðjuverði samstæðunnar og telst vörusamstæðan því ekki EES-upprunavara.

Dæmi 3:

Vörusamstæða Upprunaland Verðmæti (ISK)
Hnífur Noregur 30
Skeið Spánn 45
Gaffall Tævan 15
  Samtals 100

Í þessu dæmi fer verðmæti þeirrar vöru sem ekki telst upprunavara (gaffall frá Tævan) ekki yfir 15% af verksmiðjuverði samstæðunnar og telst vörusamstæðan því EES-upprunavara.

c) Umbúðir

Þegar umbúðir eru taldar hluti framleiðsluvöru við tollflokkun samkvæmt 5. almennu túlkunarreglu tollskrárinnar skal telja þær með við ákvörðun uppruna, sbr. 2. tl. 7. gr. bókunar 4.

Dæmi:

 • Útflutningur fistölvu ásamt tösku. Í þessu tilviki skal tollflokka tölvuna og töskuna saman undir vörulið 8471 og upprunareglan sem við á er sú sem gildir um vörulið nr. 8471.
 • Útflutningur á tösku fyrir fistölvu. Í þessi tilviki hins vegar skal flokka vöruna í vörulið nr. 4202 og beita upprunareglunni sem gildir um vörulið nr. 4202.

d) Atriði sem ekki hafa áhrif

Við ákvörðun uppruna þarf ekki að taka tillit til uppruna orku, verksmiðju eða búnaðar hennar, svo og véla og tækja sem notuð eru við framleiðslu vöru, sbr. 10. gr bókunarinnar. Þá er tekið fram í ákvæðinu að það, sem notað er til framleiðslunnar en verður ekki efnisþáttur í fullgerðri framleiðsluvörunni, hafi ekki áhrif við ákvörðun uppruna endanlegrar framleiðsluvöru.

4.1.5 Tollverð vöru

Tollverð vöru með tilliti til upprunareglnanna er ákveðið í samræmi við samning um framkvæmd VII. gr. hins almenna samkomulags um tolla og viðskipti 1994, sbr. e-lið 1. gr. bókunar 4. Um tollverð er fjallað í 8.–10. gr. tollalaga og reglugerð nr. 374/1995, um tollverð og tollverðsákvörðun, sbr. reglugerð nr. 457/1995 um breytingu á henni. Meginreglan samkvæmt tilvitnuðum laga- og reglugerðaákvæðum er að tollverð er samtala viðskiptaverðs, kostnaðar við flutning vörunnar hingað til lands og vátryggingarkostnaðar. Nokkrir þættir til viðbótar eru taldir í ákvæðunum, t.d. umboðslaun og miðlaraþóknun, og vísast til ákvæðanna um nánari skilgreiningu á tollverði.

4.1.6 Upprunaefni

Til upprunaefna teljast efnivörur eða framleiðsluvörur sem eru að öllu leyti fengnar eða hafa hlotið nægilega aðvinnslu.

4.1.7 Verðmæti efnis

Með orðunum “verðmæti efnis” er átt við tollverð efnivara, sem eru ekki upprunaefni, við innflutning þeirra til nota til framleiðsluvöru eða fyrsta verð sem sýnt er fram á að greitt hafi verið fyrir hina innfluttu efnivöru innan EES, ef tollverð þeirra er ekki þekkt og ekki verður sýnt fram á hvert það er, sbr. g-lið 1. gr. bókunar 4.

4.1.8 Verksmiðjuverð

Verksmiðjuverð vöru er verð frá framleiðanda, sem síðast vann að vörunni á EES-svæðinu, til kaupanda, að því tilskildu að verðmæti alls efnis sem notað er að frádregnum innlendum álögum, sem hafa verið endurgreiddar eða endurgreiða má þegar framleiðsluvaran er flutt út, sé innifalið í verksmiðjuverðinu, sbr. f-lið 1. gr. bókunar 4.

4.1.9 Virðisauki

Virðisauki í tilteknu ríki er verksmiðjuverð hinnar endanlegu framleiðsluvöru, að frádregnu tollverði þess hráefnis sem notað var til framleiðslunnar og ekki er upprunnið í því ríki, sbr. i-lið 1. gr. bókunar 4.

Aðrir fríverslunarsamningar

Í öðrum öðrum fríverslunarsamningum er vísað til yfirráðasvæðis aðildarríkja viðeigandi samnings í stað EES-svæðisins en að örðu leyti er ákvæðin samhljóða ef frá eru taldir EFTA-samningarnir við Ísrael og Marokkó og samningur Íslands við Færeyjar. EFTA-samningurinn við Ísrael hefur ekki að geyma skilgreiningarákvæði sama efnis og tilvitnuð ákvæði úr bókun 4 við EES-samningnum. Þá er hugtakið “virðisauki” ekki skilgreint í samningunum við Marokkó og Færeyjar.

4.2 Vara er að öllu leyti fengin á EES-svæðinu

Eins og fram hefur komið er sú regla sett fram í 1. mgr. 2. gr. bókunar 4 við EES-samninginn að framleiðsluvara sem er að öllu leyti fengin á EES-svæðinu teljist EES-upprunavara. Í 4. gr. bókunar 4 eru taldar þær vörur sem teljast fengnar að öllu leyti á EES-svæðinu. Þær eru:

 

 1. jarðefni sem unnin eru úr jörðu á EES-svæðinu eða úr hafsbotni þess;
 2. vörur úr jurtaríkinu sem þar eru ræktaðar;
 3. lifandi dýr sem þar eru borin og alin;
 4. afurðir lifandi dýra sem þar eru alin;
 5. veiðibráð og fiskafurðir sem aflað er með veiðum þar;
 6. sjávarafurðir og aðrar afurðir teknar úr sjó utan landhelgi samningsaðila af skipum þeirra;
 7. vörur sem framleiddar eru um borð í verksmiðjuskipum þeirra, eingöngu úr afurðum sem teknar eru úr sjó utan landhelgi samningsaðila af skipum þeirra;
 8. notaðar vörur sem þar er safnað saman og eingöngu er hægt að notað til þess að vinna hráefni úr, þar á meðal notaðir hjólbarðar sem nýtast eingöngu til sólunar eða sem úrgangur;
 9. úrgangur og rusl sem til fellur vegna framleiðslustarfsemi þar;
 10. vörur unnar úr yfirborðslögum hafsbotnsins utan landhelgi samningsríkjanna, að því tilskildu að þau hafi einkarétt á að vinna úr þessum lögum;
 11. vörur sem eru framleiddar á EES-svæðinu eingöngu úr þeim vörum sem tilgreindar eru hér að ofan.

 

Orðin skip þeirra og verksmiðjuskip þeirra gilda einvörðungu um skip sem uppfylla eftirtalin skilyrði, sbr. 2. tl. 4. gr. bókunar 4:

 

 1. skip er skráð eða skrásett í aðildarríki Evrópubandalagsins eða í EFTA-ríki;
 2. skip siglir undir fána aðildarríkis Evrópubandalagsins eða EFTA-ríkis;
 3. skip er að minnsta kosti í 50 af hundraði í eigu ríkisborgara aðildarríkja Evrópubandalagsins eða EFTA-ríkis, eða í eigu fyrirtækis sem hefur aðalstöðvar í einu þessara ríkja enda sé framkvæmdarstjóri eða framkvæmdarstjórar þess, stjórnarformaður eða formaður umsjónarnefndar og meirihluti stjórnarnefndarmanna eða umsjónarnefndarmanna ríkisborgarar aðildarríkja Evrópubandalagsins eða EFTA-ríkis; auk þess sem að minnsta kosti helmingur höfuðstóls sé í eigu þessara ríkja eða opinberra stofnana eða ríkisborgara nefndra ríkja, ef um er að ræða sameignarfélög eða hlutafélög;
 4. skipstjóri og yfirmenn skips eru ríkisborgarar aðildarríkis Evrópubandalagsins eða EFTA-ríkis; og
 5. að minnsta kosti 75 % áhafnarinnar eru ríkisborgarar Evrópubandalagsins eða EFTA-ríkis.

 

Sérstök athygli er vakin á því að uppfylla þarf öll ofantalin skilyrði til þess að skip eða verksmiðjuskip geti talist skip samningsaðila.

Aðrir fríverslunarsamningar

Samsvarandi ákvæði í EFTA-sáttmálanum og fríverslunarsamningum EFTA-ríkjanna hljóða á þann veg að vara telst að öllu leyti fengin í EFTA-ríki eða viðkomandi samningsríki ef sömu skilyrði og að ofan greinir eru uppfyllt ef frá er talinn EFTA-samningurinn við Ísrael. Fiskur telst t.d. að öllu leyti fenginn í Póllandi ef hans er aflað í pólskri landhelgi. Afli, sem fenginn er í pólskri landhelgi, er pólsk upprunavara þrátt fyrir að hann sé tekinn úr sjó af brasilísku skipi. Hins vegar telst fiskur, sem tekinn er úr sjó utan pólskrar landhelgi, því aðeins vera pólsk upprunavara ef að ofangreind skilyrði, er varða skipið og útgerð þess, eru uppfyllt. Fiskur telst t.d. pólsk upprunavara ef hann er veiddur af skipi, sem siglir undir pólskum fána og er þar skráð, sem er í tiltekinni eignaraðild EFTA-ríkja og Póllands og með áhöfn frá EFTA-ríkjum og Póllandi.

Í EFTA-samningnum við Ísrael er ekki samsvarandi skilgreining á “skipum þeirra og verksmiðjuskipum þeirra.” Í athugasemd 3 í skýringum við upprunareglur samningsins er mælt fyrir um að ofangreindar reglur skuli gilda um “skip þeirra og verksmiðjuskip þeirra.” Að öðru leyti er ákvæðið samhljóða, þ.e. vara telst að öllu leyti fengin í aðildarríki samningsins ef hún er fengin með þeim hætti sem segir í ákvæðinu.

Vörur teljast að öllu leyti fengnar á Íslandi eða í Færeyjum ef samsvarandi ákvæði eru uppfyllt.

4.3 Aðvinnslureglurnar og tengdar reglur

4.3.1 Nægileg aðvinnsla

Framleiðsluvara getur öðlast EES-uppruna samkvæmt 1. mgr. 2. gr. bókunar 4 við EES-samninginn fái hún nægilega aðvinnslu á EES-svæðinu. Nánar er kveðið á um hvað felst í skilyrðinu um nægilega aðvinnslu í 5. gr. bókunar 4. Þar segir að vörur, sem ekki eru að öllu leyti fengnar á EES-svæðinu, teljist hafa fengið nægilega aðvinnslu hafi skilyrðum II. viðbætis við bókun 4 verið fullnægt. Annar viðbætir við bókun 4 hefur að geyma aðvinnslureglurnar eða aðvinnsluskrána, en viðbætirinn er oft nefndur aðvinnsluskrá.

Aðrir fríverslunarsamningar

Samsvarandi ákvæði um nægilega aðvinnslu efnivöru, sem ekki er að öllu leyti fengin á yfirráðasvæði aðildarríkjanna samkvæmt ákvæðum samninganna, eru í fríverslunarsamningum EFTA-ríkjanna og EFTA-sáttmálanum. Framleiðsluvara, sem ekki er að öllu leyti fengin í EFTA-ríki, telst upprunnin í því ríki ef hún hlýtur nægilega aðvinnslu á yfirráðasvæði þess samkvæmt aðvinnsluskrá viðeigandi fríverslunarsamnings. Á sama hátt telst vara, sem ekki er að öllu leyti fengin í Búlgaríu, upprunnin í Búlgaríu ef hún fær nægileg aðvinnslu á yfirráðasvæði Búlgaríu samkvæmt aðvinnsluskránni.

Samkvæmt tvíhliða samningi Íslands og Færeyja telst vara, sem ekki er að öllu leyti fengin á Íslandi eða í Færeyjum, upprunnin þar ef hún hlýtur nægilega aðvinnslu þar samkvæmt ákvæðum samningsins.

4.3.2 Ófullnægjandi aðvinnsla

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. bókunar 4 við EES-samninginn telst vara EES-upprunavara hafi hún að öllu leyti verið fengin á EES-svæðinu eða fengið þar nægilega aðvinnslu, sbr. 4. og 5. gr. bókunarinnar. Vörur geta hins vegar fengið margs konar meðhöndlun á EES-svæðinu, sem telst ófullnægjandi aðvinnsla samkvæmt 6. gr. bókunarinnar og veitir ekki upprunaréttindi, óháð því hvort kröfum 5. gr. hafi verið fullnægt eða ekki. Ófullnægjandi telst t.d. aðvinnsla sem felst í einföldum aðgerðum eins og að flokka vörur, velja vörur í samstæður, þvo, mála, skipta um umbúðir, tappa á flöskur, setja í sekki og öskjur og festa á spjöld, merkja eða auðkenna eða einföld blöndun eða samsetning vöruhluta, sjá a.–f. lið 1. tl. 6. gr. Ekki skiptir máli í þessu sambandi hvort framkvæmdar séu tvær eða fleiri slíkar aðgerðir, sbr. g-lið 1. tl. 6. gr.

Dæmi:

Fyrirtæki flytur inn sterkjulím í 20 kg umbúðum (vöruliður nr. 3505) frá Bandaríkjunum á 100 kr/kg. Límið er sett í 1/2 kg umbúðir (vöruliður nr. 3506) og flutt út til Svíþjóðar. Verð á lími í 1/2 kg umbúðum er ákveðið kr. 200, þ.e. kr. 400 á kíló. Þegar eingöngu er horft til valkvæðu aðvinnuslureglunnar í 4. dálki aðvinnsluskrárinnar (sjá úr 35. kafla) er verðmæti þriðja lands efnivöru innan þeirra verðmætismarka sem þar gilda. Verðmæti þriðja lands efnivörunnar er innan við 40% af verksmiðjuverði "framleiðsluvörunnar". Það er hins vegar á það að líta að innflutta efnivaran hefur ekki fengið fullnægjandi aðvinnslu samkvæmt stafliði c (ii) 1. tl. 6. gr. og af því leiðir að varan getur ekki fengið fríðindameðferð við innflutning til annars EES-ríkis.

4.3.3 Aðvinnsluskrárnar

Þriðja lands efnivörur

Aðvinnsluskráin í II. viðbæti við bókun 4 kveður á um aðvinnslu efnivöru sem ekki er EES-upprunavara, þ.e. reglur aðvinnsluskrárinnar gilda einvörðungu um þriðja lands efnivörur sem notaðar eru til framleiðslu vara sem EES-samningurinn tekur til.

Samkvæmt EES-samningnum eru efnivörur, sem eru upprunnar í ríkjum utan EES-svæðisins, þriðja lands efnivörur þegar litið er til aðvinnsluskrárinnar. Reglurnar um marghliða uppsöfnun uppruna gera þó ráð fyrir að efnivörur frá fleiri ríkjum teljist upprunaefni þegar reglum aðvinnsluskrárinnar er beitt, sjá nánar lið 4.4.

Það er einnig mikilvægt að hafa í huga að hafi framleiðsluvara af EES-uppruna (EES-efnivara) verði notuð sem efnivara til framleiðslu annarrar framleiðsluvöru, á ekki að reikna með verðmæti þriðja lands efnivara sem kunna að hafa verið notaðar til framleiðslu hennar þegar reglum aðvinnsluskrárinnar fyrir hina fullgerðu framleiðsluvöru er beitt.

Dæmi:

Framleiðsla á plastflöskum, vöruliður nr. 3923, verksmiðjuverð kr. 100.

Efnivörur Upprunaland Vöruliður nr. Verðmæti (ISK)
Plasthráefni Bandaríkin 3903 50
Plasttappar EES-svæðið 3923 10

Sænsku tapparnir eru unnir úr bandarísku plasthráefni. Hráefnið hefur hins vegar fengið nægilega aðvinnslu á EES-svæðinu til að öðlast EES-uppruna. Hráefnið er að verðmæti 45% af verðmæti tappans, þ.e. kr. 4,50.

Samkvæmt reglu aðvinnslulistans um fullgerðu framleiðsluvöruna má ekki nota meira en 50% af þriðja lands efnivöru, þ.e. samtals kr. 50. Ef verðmæti þriðja lands efnivara í tappana hefði verið reiknað með hefði verðmæti þeirra orðið 54,50, þ.e. meira en 50%. Síðari málsgreinarhluti 1. mgr. 5. gr. hefur hins vegar í för með sér að þessi efnivara verður upprunavara. Þriðja lands efnivara sem notuð hefur verið í EES-framleiðsluvöru, sem síðan er notuð til framleiðslu annarrar framleiðsluvöru, er ekki talin með við útreikninginn.

Altæk uppsöfnun uppruna

Samkvæmt reglunni um altæka uppsöfnun uppruna er heimilt að líta til verðmætis þriðja lands efnivöru, sem hefur hlotið einhverja aðvinnslu á EES-svæðinu, við beitingu hundraðshlutareglna aðvinnsluskrárinnar, þ.e. heimilt er að taka tillit til verðmætis þeirra aðvinnslu sem þegar hefur farið fram á EES-svæðinu samkvæmt aðvinnslureglunum þrátt fyrir að aðvinnslan hafi ekki verið nægileg til þess að veita vörunni EES-uppruna.

Reglan er leidd af 2. gr. samningsins þar sem segir að yfirráðasvæði aðildarríkjanna þ.m.t. landhelgi þeirra skuli teljast eitt yfirráðasvæði m.t.t. reglnanna um vörur sem eru að öllu leyti fengnar á EES-svæðinu og nægilega aðvinnslu.

Reglan um altæka uppsöfnun verðmætis.

Verð fullgerðrar framleiðsluvöru frá verksmiðju er kr. 1000. Verðmæti efnivara sem ekki teljast upprunavörur er kr. 550. Samkvæmt reglu aðvinnslulistans má verðmæti allra þeirra efnivara sem notaðar hafa verið til framleiðslunnar ekki vera meira en 50% af verksmiðjuverði fullgerðu framleiðsluvörunnar. Ein efnivaran sem notuð var til framleiðslunnar hlaut aðvinnslu í öðru EES-ríki. Sú aðvinnsla var hins vegar ekki nægileg ein sér til þess veita efnivörunni EES-uppruna, en verðmæti aðvinnslunnar var kr. 50. Verðmæti þessarar aðvinnslu má íslenski framleiðandinn nota sér ef hann getur sannað að um EES-aðvinnslu sé að ræða. Geti framleiðandinn það er 50% reglunni fullnægt.

Uppbygging aðvinnsluskrárinnar

Aðvinnsluskrár fríverslunarsamninganna eru byggðar á samræmdu tollskránni. Upplýsingar um nauðsynlega aðvinnslu eru gefnar fyrir hvern vörulið. Þegar flett er upp í skránum er leitað eftir vörulið fullbúnu vörunnar, sbr. lið 4.1.4 um skilgreiningareiningar. Þess skal getið að í þessum bæklingi er notað orðið efnivara en í aðvinnsluskránni er notað orðið efni.

Í aðvinnslulistunum eru 4 dálkar.

 1. Í dálki 1 eru númer kafla og vöruliða úr samræmdu tollskránni. Ef flett er upp á 46. kafla og vörulið nr. 4602 í aðvinnsluskránni í II. viðbæti við bókun 4 má sjá að reglan sem þar er tilgreind gildir um allar vörur sem flokkast undir 46. kafla og þess vegna vörulið nr. 4602. Ef hins vegar er flett upp á 48. kafla og vörulið nr. 4811 má sjá að fyrir framan þessar tilvitnanir í fyrsta dálki stendur orðið “úr” en það gefur til kynna að reglan gildi aðeins um hluta þeirra vara sem flokkast í vörulið nr. 4811.
 2. Í dálki 2 er vörulýsing. Það er mikilvægt að skoða vel efni hennar þegar aðvinnsluregla gildir aðeins um hluta vara úr kafla eða vörulið, þ.e. þegar orðið úr stendur fyrir framan númer kafla eða vöruliðar.
 3. Í dálki 3 er aðvinnslureglan sem gildir um viðkomandi framleiðsluvöru.
 4. Í dálki 4 er valkvæð aðvinnsluregla fyrir suma kafla og vöruliði. Ef aðvinnsluregla er tilgreind bæði í 3. og 4. dálki getur útflytjandi valið þá reglu sem honum hentar betur við ákvörðun upprunaréttinda. Það er nóg að skilmálum annarrar reglunnar sé fullnægt.

Nokkrar algengar aðvinnslureglur

(1) "Verðmæti allra efnivara má ekki vera meira en 50% af verksmiðjuverði fullgerðrar framleiðsluvöru.”

Dæmi 1:
Verð fullgerðrar vöru frá verksmiðju er kr. 1000. Verðmæti efnivara, sem ekki eru EES- upprunavörur, er kr. 500. Þá er verðmæti EES-upprunavara kr. 200. Verðmæti aðvinnslunnar er kr. 300. Af 50% reglunni leiðir að framleiðsluvaran telst vera EES-upprunavara. Sjá einnig dæmi um altæka uppsöfnun uppruna í tengslum við 50% regluna hér að ofan.

(2) "Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran.”

Dæmi:
Framleiðsluvaran er rjómaís sem flokkast í vörulið 2105. Allt hráefnið sem ekki er upprunaefni verður því að flokkast í aðra vöruliði en 2105, t.d. smjör í vörulið 0405, sykur í vörulið 1701, plastbox í vörulið 3923 og plastskeið í vörulið 3924.

(3) "Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó má nota efni sem flokkast undir sama vörulið enda sé verðmæti þeirra ekki meira en 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar.”

Dæmi:
Framleiðsluvaran er 34% ammoníak í vatnslausn (salmíak) í vörulið 2814. Allt hráefnið sem ekki er upprunavara verður því að flokkast í aðra vöruliði en 2814, t.d. vetni og köfnunarefni í vörulið 2804. Þó má nota efni í sama vörulið, t.d. ammoníak gas, sem ekki er upprunaefni að því tilskyldu að tollverð þess sem notað er í framleiðsluna sé ekki hærra en 20% af verksmiðjuverði ammoníakslausnarinnar.

(4) "Framleiðsla:

 

 • úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran;
 • þar sem heildarverðmæti efnanna er ekki meira en 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar.”

 

Dæmi:
Framleiðsluvaran er færibandavog í vörulið 8423. Verksmiðjuverð hennar er 120.000 íslenskar krónur. Allt þriðja lands hráefnið til framleiðslu vogarinnar verður því að flokkast í aðra vöruliði en 8423, og að auki má heildartollverðmæti utansvæðishráefnis ekki fara fram úr 40% af verksmiðjuverði vogarinnar.

Hráefni Tollskrárnúmer Upprunaland Verðmæti
Prentplötur   EES  
Skjár   USA 10.000,-
Rafmagnshlutir   EES  
Hugbúnaður   USA 22.000,-
Skynjarar   EES  
Málmhlutir aðrir   Japan 15.000,-
    Samtals: 47.000,-

Verðmæti þriðja lands hráefnis er 39% af verksmiðjuverði. Skjár og hugbúnaður flokkast á aðra vöruliði. Ef málmhlutirnir frá Japan flokkast allir í aðra vöruliði en 8423 er færibandavogin upprunavara. Ef hins vegar einhver hluti þeirra flokkast í vörulið 8423, t.d. vogarlóð, er ekki um upprunavöru að ræða.

Aðrir fríverslunarsamningar

Þriðja lands efnivörur

Í fríverslunarsamningum EFTA-ríkjanna er meginreglan sú að efnivörur, sem upprunnar eru utan framleiðsluríkisins, teljast þriðja lands efnivörur, þ.e. efnivara frá Íslandi er þriðja lands efnivara þegar aðvinnslureglunum er beitt um vöru sem framleidd er í Búlgaríu. Reglurnar um marghliða uppsöfnun uppruna í EFTA-samningunum, ef frá eru taldir EFTA-samningarnir við Ísrael og Marokkó, fela þó í sér mikilvægar undantekningar frá meginreglunni þar sem efnivörur frá mun fleiri ríkjum teljast upprunaefni með tilliti til aðvinnsluskránna. Reglurnar um uppsöfnun uppruna í EFTA-samningunum við Ísrael og Marokkó ganga mun skemur, sjá nánar umfjöllun um marghliða uppsöfnun uppruna í lið 4.4.

Í fríverslunarsamningi Íslands við Færeyjar er gert ráð fyrir að efnivörur, sem ekki eru að öllu leyti fengnar á Íslandi eða í Færeyjum, teljist þriðja lands efnivörur við beitingu aðvinnsluskrárinnar í samningnum.

Altæk uppsöfnun uppruna

Reglan um altæka uppsöfnun uppruna gildir hvorki samkvæmt EFTA-samningunum, þ.m.t. EFTA-sáttmálanum né fríverslunarsamningnum á milli Íslands og Færeyja. Þessir samningar heimila einvörðungu uppsöfnun verðmætis upprunavara, þ.e. efnivara sem þegar hafa öðlast upprunaréttindi.

Uppbygging aðvinnsluskrárinnar

Uppbygging aðvinnsluskránna í EFTA-sáttmálanum og EFTA-samningunum er með sama hætti og uppbygging aðvinnsluskrárinnar í II. viðbæti við bókun 4.

4.3.4 Marghliða uppsöfnun uppruna

Reglur aðvinnsluskrárinnar í EES-samningnum gilda einvörðungu um þriðja lands efnivörur sem notaðar eru til framleiðslu vara sem samningurinn tekur til, sbr. lið 4.3.3 hér að framan. Reglurnar um marghliða uppsöfnun uppruna fela í sér mikilvægar undantekningar frá þessari reglu en samkvæmt þeim skulu efnivörur, sem eru upprunnar í Búlgaríu, Póllandi, Ungverjalandi, Tékklandi, Slóvakíu, Rúmeníu, Litháen, Lettlandi, Eistlandi, Slóveníu, Sviss, Liechtenstein eða Tyrklandi með vísan til upprunareglna í fríverslunarsamningum EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsríkjanna við þessi ríki, teljast upprunnar á EES-svæðinu ef þær verða hluti af framleiðsluvöru sem verður til á EES-svæðinu. Þegar svo háttar er ekki litið á efnivöru frá nefndum ríkjum sem þriðja lands efnivöru þegar reglum aðvinnsluskrárinnar er beitt.

Það er þó einvörðungu heimilt að líta á efnivöru frá þessum ríkjum sem upprunaefni ef aðvinnsla á EES-svæðinu er umfram það sem telst vera ófullnægjandi aðvinnsla samkvæmt 6. gr. bókunar 4 við EES-samninginn. Þegar aðvinnslan á EES-svæðinu er ekki nægileg með vísan til 6. gr. bókunar 4 getur framleiðsluvaran öðlast EES-uppruna ef virðisaukinn sem verður til við framleiðslu hennar á EES-svæðinu er meiri en verðmæti efnivöru frá einhverju nefndra ríkja.

Dæmi 1:

Ófullnægjandi aðvinnsla.

Flattur þorskur með uppruna í Lettlandi er fluttur til Íslands (EES), þar er hann snyrtur, pækilsaltaður, flokkaður, merktur og honum pakkað í kassa. Vinnslan á lettneska hráefninu hefur ekki verið umfram það sem telst ófullnægjandi aðvinnsla, sbr. 6.gr., og má því ekki líta á framleiðsluvöruna sem EES-upprunavöru.

Dæmi 2:

Virðisauki

Í dæminu að ofan er verksmiðjuverð fullbúnu framleiðsluvörunnar kr. 1000. Tollverð innflutta hráefnisins frá Lettlandi er kr. 450. Virðisaukinn á EES-svæðinu er meiri en í Lettlandi og því getur framleiðsluvaran öðlast EES-uppruna þrátt fyrir að vinnsla hráefnisins teljist ófullnægjandi.

Aðrir fríverslunarsamningar

Í EFTA-samningunum eru samsvarandi ákvæði um marghliða uppsöfnun uppruna, ef frá eru taldir samningarnir við Ísrael og Marokkó.

Samkvæmt ákvæðunum skulu efnivörur, sem er upprunnar í Búlgaríu, Íslandi, Noregi, Sviss, Liechtenstein, Ungverjalandi, Póllandi, Tékklandi, Slóvakíu, Rúmeníu, Slóveníu, Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Tyrklandi eða Evrópska efnahagssvæðinu með vísan til upprunareglna fríverslunarsamninga þessara ríkja við EFTA-ríkin eða Evrópusambandið, teljast upprunnar í EFTA-ríki eða viðeigandi samningsríki þegar þær verða hluti af framleiðsluvöru sem verður til þar.

Sömu skilyrði gilda um fullnægjandi aðvinnslu í EFTA-samningunum og í EES-samningnum, þ.e. einvörðungu er heimilt að líta á efnivöru frá þessum ríkjum sem upprunaefni ef aðvinnsla í samningsríki er umfram það sem telst vera ófullnægjandi aðvinnsla samkvæmt samningunum. Þegar aðvinnslan í samningsríki er ekki nægileg með vísan til ákvæðanna um ófullnægjandi aðvinnslu getur framleiðsluvaran orðið upprunavara ef virðisaukinn sem verður til við framleiðslu hennar í samningsríkinu er meiri en verðmæti efnivara frá ríkjum Evrópusambandsins eða einhverju þeirra ríkja sem talin voru hér að ofan.

Í EFTA-samningnum við Marokkó eru ákvæði um uppsöfnun uppruna sem ganga mun skemur en ofangreindar reglur í hinum EFTA-samningunum, sbr. 3. og 4. gr. viðauka B við EFTA-samninginn við Marokkó. Það eru engin ákvæði um uppsöfnun uppruna í EFTA-samningnum við Ísrael og samningi Íslands við Færeyjar.

4.3.5 Almenna fráviksreglan (10% reglan)

Í 2. tl. 5. gr. bókunar 4 við EES samninginn er getið um almennu fráviksregluna (general tolerance rule) eða 10% regluna en hún veitir heimild til þess að notuð séu efni sem ekki eru upprunaefni til framleiðslu vöru ef heildarverðmæti þeirra er ekki meira en 10% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar hvað sem líður reglum aðvinnsluskránna, þ.e. án þess að varan glati uppruna sínum.

Gildissvið greinarinnar er hins vegar bundið eftirtöldum takmörkunum:

 1. Hún rýmkar ekki hundraðshlutareglur aðvinnsluskrárinnar. Þegar aðvinnsluregla heimilar að verðmæti þriðja lands efnivara sé 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar, þá er það hámarkshlutfall þriðja lands efnivara, eigi framleiðsluvaran að öðlast upprunaréttindi samkvæmt samningnum.
 2. Ekki má beita 10% reglunni um framleiðsluvörur í 50. til 63. kafla tollskrárinnar (spunavörur).
 3. Reglan um ófullnægjandi aðvinnslu gengur ávallt framar aðvinnslureglunum og 10% reglunni, þ.e. aðvinnslan sem framkvæmd er til þess að framleiðsluvara teljist upprunavara þarf að vera meiri en ófullnægjandi aðvinnsla samkvæmt 6. gr. bókunar 4.

Dæmi:

 1. Ef regla aðvinnslulistans gerir kröfu um að allar þriðja lands efnivörur skipti um vörulið, sbr. regluna í 46. kafla. leiðir það af ákvæðum 2. mgr. 5. gr. bókunar 4 að engu að síður megi nota 10% af þriðja lands efnivörum sem ekki skipta um vörulið við aðvinnslu að því gefnu að vinnsla efnivaranna sé meiri en óveruleg aðvinnsla sbr. 6. gr. bókunarinnar
 2. Rækja – soðin, pilluð og fryst.
  Rækju af íslenskum uppruna og þriðja lands uppruna (innan 10 % marka) er blandað saman og hún er soðin, pilluð og fryst (suðan ein og sér telst vera nægileg aðvinnsla samkvæmt bókunar 4). Það er mat fjármála- og efnahagsráðuneytisins [4] að til þess að unnt sé að blanda rækju af íslenskum og þriðja lands uppruna sé nauðsynlegt að blandan fari í heild í vinnslurásina, þ.e. í suðupottinn o.s.frv., til þess að framleiðsluvaran “rækja til smásölu” geti talist íslensk upprunavara. Það er áskilið að blöndunin eigi sér stað við upphaf vinnslunnar. Af þessu leiðir að rækja í smásölueiningum verður ekki íslensk upprunavara, þrátt fyrir að í hverjum og einum poka séu 9/10 hlutar íslensk rækja og 1/10 þriðja lands rækja, ef blöndunum hefur ekki átt sér stað fyrr en eftir suðu.
 3. Grásleppuhrogn
 4. Útflutningsvaran er hnífur, vöruliður nr. 8211, verðmæti kr. 500
Efnivörur Upprunaland Vöruliður nr. Verðmæti
Hnífsblað EES-svæðið 8211 150
Slíður Kórea 8211 40
Tréskaft EES-svæðið 4417 120
    Samtals: 310


Aðvinnslan felst í skerpingu, lökkun og fleiru, þ. e. aðvinnslan sem er framkvæmd er umfram það sem kallast ófullnægjandi aðvinnsla.

Í þessu tilviki gildir aðvinnsluregla vöruliðar nr. 8211 sem tekur til framleiðslu “úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran. Þó er heimilt að nota hnífsblöð og -sköft úr ódýrum málmi.” Þessu skilyrði er ekki fullnægt varðandi efnivöruna frá Kóreu en hér kemur 10% reglan til skoðunar. Verðmæti slíðursins er minna en 10% af verðmæti fullgerðu framleiðsluvörunnar og telst hnífurinn því engu að síður upprunavara.

Aðrir fríverslunarsamningar

Almenna fráviksreglan er einnig í gildi samkvæmt EFTA-samningunum ef frá eru taldir samningarnir við Ísrael og Marokkó. Fríverslunarsamningurinn á milli Íslands og Færeyjar hefur ekki að geyma almenna fráviksreglu.

4.4 Endurgreiðsla aðflutningsgjalda eða undanþága frá greiðslu þeirra

Hafi tollur verið endurgreiddur eða felldur niður af þriðja lands efnivörum í innlendar framleiðsluvörur getur fullbúna varan ekki notið fríðindameðferðar samkvæmt EES-samningnum, sbr. 14. gr. bókunar 4. Ákvæði 14. gr. á ekki við um efnivörur sem ekki eiga undir vörusvið EES-samningsins, sbr. 3. kafla.

Það er kveðið á um rétt til undanþágu tolls af aðföngum til framleiðslu iðnaðarvara í II. kafla reglugerðar, nr. 719/200, um undanþágu aðflutningsgjalda af aðföngum til ýmissar atvinnustarfsemi, sbr. reglugerð nr. 791/2000 um breytingu á henni og í reglum nr. 172/1985, um endurgreiðslur tolla vegna skipasmíða og skipaviðgerða.

Aðrir fríverslunarsamningar

Samsvarandi regla er í EFTA-samningunum ef frá er talinn samningurinn við Marokkó og fríverslunarsamningnum á milli Íslands og Færeyjar. Reglan hefur ekki tekið gildi að fullu nema í samningunum við Tyrkland, Ísrael og Færeyjar. Það er gert ráð fyrir því að reglan taki gildi gagnvart hinum ríkjunum hinn 31. desember nk. ef aðlögunartíminn verður ekki framlengdur.

4.5 Samningur um viðskipti Íslands og Grænlands

Kemur síðar

- - - - - -

[1] Íslenska tollskráin er byggð á alþjóðasamningi um samræmdar vörulýsingar og vörunúmeraskrá. Samkvæmt tollskránni flokkast vörur í 97 kafla og 1300 vöruliði. Það eru fjórir stafir í hverjum vörulið.

[2] Við flokkun samkvæmt tollskránni skal fylgja ákveðnum túlkunarreglum. Um efni þeirra er vísað til tollskrárinnar.

[3] Fimmta almenna túlkunarregla tollskrár er svohljóðandi:

“Auk undanfarandi ákvæða skulu eftirfarandi reglur gildar um þær vörur sem hér greinir:

 1. Myndavélahylki, hljóðfæratöskur, byssuhulstur, pennastokkar, skartgripaskrín og áþekk ílát sem sérstaklega eru löguð eða smíðuð undir ákveðnar vörur eða vörusamstæður, eru ætluð til langvarandi nota og framvísað með þeim vörum sem þær eru ætlaðar undir skal flokka með þessum hlutum. Ákvæði þetta tekur þó ekki til íláta sem eru einkennandi fyrir vöruna í heild.
 2. Leiði ekki annað af reglu a-liðar 5. töluliðar skal umbúðaefni og ílát til pökkunar, sem framvísað er með vörunum í, flokkað með vörunum, enda sé það venjulega notað til pökkunar á slíkum vörum.”

[4] Sbr. bréf fjármálaráðuneytisins, dags. 26. október 1998.

 

5. kafli

Fríðindameðferð samkvæmt EES-samningnum gildir einungis um vörur sem fluttar eru milli EFTA-ríkjanna, ríkja Evrópusambandsins og annarra ríkja, sem eru aðilar að samkomulaginu um marghliða uppsöfnun uppruna, án þess að farið sé um yfirráðasvæði þriðja lands (svæðisreglan), sbr. 1. tl. 12. gr. bókunar 4 við EES-samninginn. 

Þó má flytja framleiðsluvörur, sem mynda eina óskipta vörusendingu, á yfirráðasvæði þriðja lands til umfermingar eða bráðabirgðabirgðageymslu ef þörf krefur, að því tilskildu að vörurnar verði undir eftirliti tollyfirvalda í landinu þar sem umflutningurinn eða geymslan á sér stað og hljóti ekki aðra meðferð en affermingu, endurfermingu eða meðferð sem miðar að því að forða þeim frá skemmdum, sbr. 1. tl. 12. gr. bókunar 4.

Eftirfarandi sannanir um að ofangreindum skilyrðum hafi verið fullnægt skal leggja fram hjá tollyfirvöldum í innflutningsríkinu:

 1. farmskírteini sem gefið er út í útflutningslandinu og gildir um ferðina um umflutnings­landið; eða
  • nákvæm lýsing á framleiðsluvörunni,
  • dagsetning affermingar og endurfermingar og heiti hlutað­eigandi skipa þegar við á, og
  • vottorð um við hvað aðstæður framleiðsluvaran var geymd í umflutnings­landinu; eða
 2. skírteini, sem tollyfirvöld umflutningslandsins gefa út, þar sem fram kemur:
 3. að öðrum kosti, önnur skjöl sem færa sönnur á þetta.

Ákvæði 13. gr. um upprunavörur sem sendar eru á sýningar í þriðja landi veitir undanþágu frá svæðisreglunni. Samkvæmt ákvæðinu skulu upprunavörur, sem sendar eru frá samningsríki til sýningar í þriðja landi, njóta upprunaréttinda við sölu þeirra og innflutning til annars samningsríkis að því tilskildu að sýnt sé fram á eftirtalið:

 1. að útflytjandi hafi sent framleiðsluvörurnar frá einu samningsríkjanna til landsins þar sem sýningin er haldin og sýnt þær þar;
 2. að sá útflytjandi hafi selt vörurnar eða ráðstafað þeim til viðtakanda í öðru samnings­ríki.
 3. að vörurnar hafi verið sendar á meðan á sýningunni stóð eða strax eftir hana til síðarnefnda samningsríkisins í því ástandi sem þær voru í þegar þær voru sendar til sýningar; og
 4. að vörurnar hafi ekki frá því að þær voru sendar til sýningarinnar verið notaðar í öðru skyni en til sýningar þar.

Sönnun á uppruna skal gefin út eða útbúin í samræmi við ákvæði 5. kafla í bókun 4 og lögð fram hjá tollyfirvöldum í innflutningslandinu með venjulegum hætti. Þar skal tilgreint heiti sýningar­innar og sýningarstaður. Ef nauðsyn ber til má krefjast skjal­festra viðbótar­sönnunar­gagna um eðli fram­leiðsluvaranna og aðstæður við sýningu þeirra.

Ákvæðið 13. gr. tekur til allra vöru-, iðn-, landbúnaðar- eða handverkssýninga, kaup­stefna eða áþekkra opinberra sýninga, sem eru ekki skipulagðar í eiginhagsmunaskyni í sölu­búðum eða verslunarhúsnæði með það fyrir augum að selja erlendar vörur, enda sé varan undir tolleftirliti meðan á sýningu stendur.

Aðrir fríverslunarsamningar

Samsvarandi regla um flutning vöru um þriðju lönd er í EFTA-samningunum ef frá eru taldir samningarnir við Marokkó og Ísrael. Þriðju lönd eru skilgreind með sama hætti og í EES-samn­ingnum við beitingu svæðisreglunnar samkvæmt þeim.

Sama regla gildir samkvæmt EFTA-samningnum við Marokkó með þeirri undantekningu að ríkin sem teljast þriðju lönd m.t.t. samningsins eru öll önnur ríki en EFTA-ríkin, Marokkó og Túnis þegar við á sbr. 4. gr. viðauka B við samninginn.

Samkvæmt EFTA-samningnum við Ísrael er heimilt flytja framleiðsluvörur, sem mynda eina óskipta vörusendingu, á yfirráðasvæði þriðja lands til umfermingar eða bráðabirgða­birgða­geymslu ef ástæður af landfræðilegum toga mæla með því, að því tilskildu að vörurnar hafi verið undir eftirliti tollyfirvalda í landinu þar sem umflutningurinn eða geymslan átti sér stað og ekki hlotið aðra meðferð en affermingu, endurfermingu eða meðferð sem miðar að því að forða þeim frá skemmdum. Þriðju lönd m.t.t. samningsins við Ísrael eru öll önnur ríki en EFTA-ríkin og Ísrael. Það er ekki kveðið á um hvernig sannanir um að skilyrðum til flutnings um þriðju lönd eigi að vera úr garði gerðar í samningnum.

Þriðju lönd við beitingu svæðisreglunnar í samningnum við Færeyjar eru öll ríki nema Ísland og Færeyjar. Að öðru leyti er reglan samhljóða reglunni í bókun 4 við EES-samn­inginn.

- - - - - -

[1] Ríkin eru eftirtalin:

Ísland, Noregur, Sviss, Liechtenstein, Ítalía, Grikkland, Holland, Þýskaland, Frakkland, Spánn, Bretland, Austurríki, Svíþjóð, Finnland, Danmörk, Belgía, Lúxemborg, Írland, Portúgal, Búlgaría, Rúmenía, Ungverjaland, Slóvenía, Tékkland, Slóvakía, Pólland, Eistland, Lettland, Litháen og Tyrkland.

6. kafli

 

6.1 Krafa um fríðindameðferð

Þegar réttur til fríðindameðferðar fyrir innfluttar vörur er fyrir hendi ber innflytjanda að setja fram kröfu um fríðindameðferð á grundvelli viðeigandi fríverslunarsamnings í reit 33 á aðflutningsskýrslu. [1] Með því að nota viðeigandi tollskrárlykil, þegar merkt er í reit 33 á aðflutningsskýrslunni, vísar innflytjandi til þess fríverslunarsamnings sem við á. Í reit 14 á aðflutningsskýrslu skal jafnframt vísað til tegundar upprunasönnunar, þ.e. meðfylgjandi upprunayfirlýsingar á vörureikningi (liður 6.2.2.) eða númers meðfylgjandi EUR.1-flutningsskírteinis (liður 6.2.1.).

Komi ekki fram beiðni um fríðindameðferð er almennur tollur (A-tollur) lagður á vöruna. Þá er A-tollur lagður á innflutta vöru ef fullnægjandi upprunavottorð liggja ekki fyrir við tollafgreiðslu hennar.

6.2 Upprunasannanir

Upprunasannanir til stuðnings kröfu um fríðindameðferð fyrir innfluttar vörur á grundvelli fríverslunarsamninga sem Ísland á aðild að eru tvenns konar. Annars vegar koma til hin svonefndu EUR.1.-flutningsskírteini (liður 6.2.1.) og hins vegar gera samningarnir ráð fyrir að útflytjandi geti áritað vörureikning um uppruna vöru (liður 6.2.2.).

Í þessum kafla er vísað til ákvæða bókunar 4 við EES-samninginn. Sambærilegar reglur gilda samkvæmt öðrum fríverslunarsamningum ef annað er ekki tekið fram líkt og áður sagði.

 

6.2.1 EUR.1-flutningsskírteini – reglur um útgáfu þess

Tollyfirvöld í útflutningslandi gefa út EUR.1-flutningsskírteini samkvæmt umsókn útflytjanda eða fulltrúa hans á hans ábyrgð, sbr. 1. tl. 16. gr. bókunar 4 við EES-samninginn. Allir útflytjendur geta notað EUR.1-flutningsskírteinið að uppfylltum skilyrðum upprunareglnanna.

EUR.1-flutningsskírteinið er þriggja arka sett. Fyrsta örkin er sjálft flutningsskírteinið, önnur örkin er samrit ætlað útflytjanda og sú þriðja er umsókn um flutningsskírteini. Eyðublaðið, þ.e. flutningsskírteinið, samritið og umsóknin um flutningsskírteini, skal fyllt út af útflytjanda eða fulltrúa hans og afhent tollyfirvaldi til staðfestingar. Kjósi útflytjandi að handskrifa viðeigandi upplýsingar á eyðublöðin ber honum að nota blek og prentstafi, sbr. 2. tl. 16. gr. bókunar 4. Þegar reitir flutningsskírteinisins er ekki fylltir út að öllu leyti skal lína dregin skáhalt yfir auða svæðið sem eftir stendur. Um form EUR.1-flutningsskírteinis að öðru leyti og leiðbeiningar við útfyllingu þess er vísað til Viðauka I.

Sá sem sækir um EUR.1-flutningsskíteini skuldbindur sig til þess að láta tollyfirvöldum í té, hvenær sem nauðsyn krefur, öll nauðsynleg gögn til sönnunar uppruna vöru, sbr. 3. tl. 16. gr. bókunar 4.

Staðfesting EUR.1-flutningsskírteinis fæst hjá tollyfirvaldi á öllum tollafgreiðslustöðum þar sem útflutningstollafgreiðsla fer fram. Tollyfirvaldi ber að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að sannreyna uppruna vöru og hefur í því augnamiði rétt til þess að kalla eftir öllum þeim gögnum og láta framkvæma þær rannsóknir á bókhaldi útflytjanda sem nauðsynlegar eru til þess að tryggja að skilyrðum upprunareglnanna sé fullnægt, sbr. 5. tl. 16. gr. bókunar 4. Tollyfirvald staðfestir flutningsskírteinið með áritun sinni í reit 11 á skírteininu, sbr. 6. tl. sömu greinar. Tollyfirvald heldur umsókninni eftir til varðveislu.

Útflytjandi sendir innflytjanda hið staðfesta flutningsskírteini og hann framvísar því við viðkomandi tollyfirvald við tollafgreiðslu vörunnar.

EUR.1-flutningsskírteini kemur ekki í stað annarra útflutningsskjala, t.d. útflutningsskýrslu vegna útflutnings vöru eða ýmissa leyfa, ef lög kveða á um að þau séu lögð fram.

Aðrir fríverslunarsamningar

Samsvarandi reglur um EUR.1-flutningsskírteini eru sett fram í EFTA-sáttmálanum og EFTA-samningunum. Ákvæði EFTA-samningsins við Ísrael eru þó sett fram með öðrum hætti en samsvarandi ákvæði í hinum samningunum. LT-skírteini.

 

6.2.2 Yfirlýsing útflytjanda á vörureikningi um uppruna vöru

Ákvæði fríverslunarsamninga gera einnig ráð fyrir að útflytjendur geti veitt sönnun um uppruna vöru með áritun upprunayfirlýsingar á vörureikning að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ákvæðin um áritun upprunayfirlýsingar á vörureikning veita útflytjanda færi á að gefa sjálfur út sönnun um uppruna framleiðsluvöru án atbeina og staðfestingar tollyfirvalds líkt og gildir um útgáfu EUR.1-flutningsskírteina.

Áritanir á vörureikning eru heimilar í tveimur tilvikum. Annars vegar mega allir gefa yfirlýsingu um uppruna vöru á vörureikningi ef verðmæti upprunavara í vörusendingu er ekki meira en sem nemur 6000 EUR (liður 6.2.2.1). Hins vegar geta útflytjendur sótt um viðurkenningu Skattsins til þess að veita yfirlýsingu um uppruna vara með áritun á vörureikning án tillits til verðmætis þeirra (liður 6.2.2.2.).

Sjá einnig verðmætamörk í fleiri gjaldmiðlum

 

6.2.2.1 Almenn heimild til áritunar vörureiknings um uppruna vöru

Allir útflytjendur geta gefið yfirlýsingu á vörureikningi um uppruna vöru þegar í vörusendingu eru upprunavörur að verðmæti 6.000 EUR eða minna, sbr. b-lið 1. tl. 20. gr. bókunar 4 við EES-samninginn.

Miða skal við FOB-verð upprunavara í vörusendingu. Aðrar vörur en upprunavörur mega jafnframt vera í vörusendingu og því kann verðmæti vörusendingarinnar að vera hærra en verðmætismörk reikningsyfirlýsingar. Í þeim tilvikum ber að auðkenna greinilega þær vörur í sendingunni sem ekki eru upprunavörur. Tilvísun í vörur sem ekki falla undir yfirlýsingu á vörureikningi á þó ekki að setja fram í yfirlýsingunni sjálfri, sjá dæmi um áritun vörureiknings í viðauka II.

Við umbreytingu 6.000 ECU yfir í aðra gjaldmiðla er miðað við gengið eins og það var á fyrsta vinnudegi októbermánaðar 1999, sbr. töflu í viðauka III.

Aðrir fríverslunarsamningar

Samkvæmt EFTA-samningnum við Ísrael mega allir gefa yfirlýsingu á vörureikningi um uppruna vöru þegar í vörusendingu eru upprunavörur að verðmæti 2820 reiknieiningar eða minna. Samkvæmt viðauka 6 við upprunareglurnar í bókun B við samninginn jafngilda 2820 reiknieiningar 510.000 íslenskum krónum, 50.000 norskum krónum, 10.300 svissneskum frönkum og 23.269 ísraelskum shekel.

Í samningi Íslands við Færeyjar er miðað við 5.110 ECU, sbr. 21. gr. 3. viðauka við samninginn.

 

6.2.2.2 Áritun viðurkennds útflytjanda um uppruna vöru á vörureikningi

Viðurkenndur útflytjandi má gefa út yfirlýsingu á vörureikningi vegna allra sendinga án tillits til verðmætis þeirra, sbr. 22. gr. og a-lið 1. tl. 21. gr. bókunar 4 við EES-samninginn og samsvarandi ákvæði annarra fríverslunarsamninga.

Útflytjendur geta sótt um viðurkenningu á þar til gerðu eyðublaði til Skattsins til þess að gefa út yfirlýsingu um uppruna vöru á vörureikningi, óháð verðmæti hennar. Eyðublaðið má nálgast hér. Umsóknin skal sendast á: Skatturinn, Lögfræðideild tollasviðs, Katrínartúni 6, 105 Reykjavík. Við útfyllingu umsóknareyðublaðs er nauðsynlegt að allir dálkar sem við eiga séu fylltir út og að nauðsynleg gögn fylgi umsókninni.

Skatturinn getur heimilað þeim, sem setja fullnægjandi tryggingar fyrir uppruna framleiðsluvöru og stunda tíðar sendingar á framleiðsluvörum til útflutnings, að árita vörureikning um uppruna vörunnar. Með tíðum sendingum er átt við að umsækjandi flytji út a.m.k. 24 sendingar á ári að meðaltali með upprunavörum. Það er jafnframt skilyrði að þeir þekki vel til upprunareglna fríverslunarsamninga og að þeir hafi lága villutíðni í tölvukerfi embættisins. Viðurkenndur útflytjandi tekst þá skyldu á herðar að viðhalda þekkingu sinni á ákvæðum fríverslunarsamninga og þá einkum upprunareglunum og fara eftir ákvæðum þeirra í hvívetna.

Heimild til áritunar er veitt til fimm ára í senn, að þeim tíma loknum ber aðila að sækja um heimild að nýju til Skattsins.

Í undantekningartilvikum er hægt að veita öðrum en þeim sem uppfylla skilyrði um fjölda sendinga heimild til áritunar vörureiknings um uppruna vöru uppfylli aðili önnur skilyrði um veitingu leyfis. Í slíkum tilvikum er heimild veitt til eins árs í senn og umsókn tekin til endurskoðunar að því tímabili loknu. Sé fengin reynsla af útflytjanda jákvæð að reynslutímabili loknu skal varanleg heimild gefin út.

Það er áskilið að viðurkenndur útflytjandi gegni upplýsingaskyldu í samræmi við fyrirmæli 24. gr., sbr. 149. gr., tollalaga nr. 55/1987 og leggi fram þau gögn og veiti þær upplýsingar, sem tollyfirvald telur nauðsynlegar til að staðreyna réttmæti upprunayfirlýsinga hvenær sem nauðsyn krefur, sbr. einnig 3. tl. 20. gr. bókunar 4 við EES-samninginn.

Við leyfisveitingu er útflytjanda úthlutað leyfisnúmeri sem honum ber að tilgreina í yfirlýsingu á vörureikningi, sbr. 3. tl. 21. gr. bókunarinnar.

Það kann að varða fyrirvaralausri afturköllun leyfisins, ef misfarið er með það eða ef framangreindum skilyrðum fyrir leyfisveitingunni er ekki lengur fullnægt, sbr. 5. tl. 21. gr. bókunarinnar. Jafnframt getur misnotkun leyfisins varðað refsiábyrgð, sbr. m.a. 4. mgr. 126. gr. tollalaga.

 

6.2.2.3 Form og efni upprunayfirlýsingar á vörureikningi

Form áritunar

Upprunayfirlýsing á vörureikningi er gefin út með því að vélrita, stimpla eða prenta yfirlýsinguna, sem fram í kemur í IV. viðbæti við bókun 4 við EES-samninginn, á einhverju þeirra tungumála sem þar eru tilgreind, á vörureikninginn, afhendingarseðilinn eða annað viðskiptaskjal, sjá viðauka II. Það má einnig rita yfirlýsingu eigin hendi, með bleki og prentstöfum, sbr. 4. tl. 20. gr. bókunar 4 við EES-samninginn. Yfirlýsing um uppruna má vera á bakhlið vörureiknings.

Um leiðréttingu á texta yfirlýsingarinnar gilda reglur um leiðréttingu á EUR.1-flutningsskírteinum. Allar leiðréttingarnar skulu staðfestar af útflytjanda.

Útflytjanda ber að staðfesta upprunayfirlýsingu á vörureikningi með eiginhandarundirskrift. Þess skal þó ekki krafist af viðurkenndum útflytjanda hafi hann veitt tollyfirvaldi skriflega skuldbindingu þess efnis að hann taki fulla ábyrgð á sérhverri yfirlýsingu á vörureikningi, sem auðkennd er með tilvísun í leyfisnúmer hans, á sama hátt og hefði hann undirritað hana eigin hendi, sbr. 5. tl. 20. gr. bókunar 4.

Texti upprunayfirlýsingar

Texti yfirlýsingar á vörureikningi við útflutning vöru, sem framleidd er hér á landi og uppfyllir skilyrði fríverslunarsamninga um íslenskan uppruna, er breytilegur annars vegar í viðauka IV við Bókun 3 við tvíhliða samning Íslands og Evrópubandalagsins frá 1972 og í viðaukum við EFTA-samninginn og fríverslunarsamninga EFTA ríkjanna við Búlgaríu, Eistland, Ísrael, Lettland, Litháen, Pólland, Rúmeníu, Slóvakíu, Slóveníu, Tékkland, Tyrkland og Ungverjaland og hins vegar í viðauka IV við bókun 4 við EES-samninginn. Í hinum fyrrnefndu tilvikum skal tekið fram að vara sé af íslenskum fríðindauppruna en í hinu síðarnefnda tilviki er vara sögð af EES-fríðindauppruna. Gæta skal þess að rita textann orðrétt á vörureikninginn.
Dæmi um áritun vörureiknings á ensku:

1. Þegar leitað er eftir fríðindameðferð á grundvelli samningsins á milli Íslands og Evrópubandalagsins frá 1972 er rétt áritun þessi: "The exporter of the products covered by this document (customs authorization No. ..........) declares that, except where otherwise clearly indicated, these products are of Icelandic preferential origin."

2. Þegar rétturinn til fríðindameðferðar er byggður á fríverslunarsamningum EFTA-ríkjanna við ríki Mið- og Austur Evrópu er áritunin sú sama og þegar byggt er á samningnum á milli Íslands og Evrópubandalagsins frá 1972, sjá lið 1, ef frá er talin yfirlýsing á vörureikningi sem fram kemur í fríverslunarsamningi EFTA ríkjanna við Ísrael en hún er svohljóðandi: "I the undersigned exporter of the goods covered by this document declare that except where otherwise clearly indicated the goods meet the conditions required to obtain originating status in preferential trade with Israel and that the country of origin of the goods is Iceland."

3. Þegar rétturinn til fríðindameðferðar er byggður á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er rétt áritun eftirfarandi: "The exporter of the products covered by this document (customs authorization No. .......) declares that, except where otherwise clearly indicated, these products are of EEA preferential origin."

Í viðauka II eru upplýsingar um orðalag áritunar á vörureikning á fleiri tungumálum.

 

6.2.3 Fríðindameðferð án upprunasönnunar

Samkvæmt 25. gr. bókunar 4 við EES-samninginn skulu eftirtaldar framleiðsluvörur taldar upprunavörur án þess að framvísa þurfi formlegri upprunasönnun, að því tilskildu að vörurnar hafi ekki verið fluttar inn á viðskiptagrundvelli og gefin hafi verið yfirlýsing um að vörurnar uppfylli kröfur bókunarinnar og enginn vafi leiki á um sannleiksgildi hennar:

1. Framleiðsluvörur, sem sendar eru í smábögglum frá einstaklingi til einstaklings, enda sé verðmæti þeirra ekki meira en 500 EUR.

2. Framleiðsluvörur, sem eru í einkafarangri ferðamanna, enda sé verðmæti þeirra ekki meira en 1.200 EUR.

Ef framleiðsluvörurnar eru sendar í pósti má gefa yfirlýsinguna á C2/CP3-tollseðli eða á blaði sem er fest við tollseðilinn.

Aðrir fríverslunarsamningar

Önnur verðmætismörk gilda samkvæmt EFTA-samningnum við Ísrael. Framleiðsluvörur, sem sendar eru í smábögglum frá einstaklingi til einstaklings, mega verða að verðmæti 200 reikningseiningar sem jafngilda 43.000 íslenskum krónum, 4.100 norskum krónum, 900 svissneskum frönkum eða 1.939 ísraelskum shekelum. Framleiðsluvörur í einkafarangri ferðamanna mega vera að verðmæti 565 reikningseiningar sem jafngilda 100.000 íslenskum krónum, 10.000 norskum krónum, 2.100 svissneskum frönkum og 4.654 ísraelskum shekelum.

Samkvæmt samningi Íslands við Færeyjar mega framleiðsluvörur, sem sendar eru í smábögglum frá einstaklingi til einstaklings, vera að verðmæti 365 ECU. Framleiðsluvörur í einkafarangri mega vera að verðmæti allt að 1.025 ECU.

 

6.2.4 Gildistími sönnunar á uppruna

Samkvæmt 1. tl. 22. gr. bókun 4 við EES-samninginn gildir sönnun á uppruna í 4 mánuði frá útgáfu hennar í útflutningslandinu og það er áskilið að hún sé lögð fram innan þess tíma hjá tollyfirvöldum í innflutningslandinu. EUR.1-flutningsskírteini gildir í 4 mánuði talið frá staðfestingardegi tollyfirvalds sem fram kemur í reit 11 á skírteininu. Sama gildir um flutningsskírteini sem er "ÚTGEFIÐ EFTIR Á", sjá lið 6.2.5. Flutningsskírteini sem gefið er út sem "EFTIRIT", sjá 6.2.6, gildir í 4 mánuði talið frá útgáfudagsetningu upphaflega skírteinisins.

Sama regla gildir um áritun á vörureikningi, þ.e. yfirlýsingin gildir í 4 mánuði frá dagsetningu áritunarinnar.

Þrátt fyrir ofangreinda meginreglu um að upprunasönnun skuli lögð fram innan 4 mánaða frestsins er heimilt að taka við EUR.1-flutningsskírteini eða upprunayfirlýsingu á vörureikningi, sem lögð er fram hjá tollyfirvaldi í innflutningslandinu, eftir að 4 mánaða fresturinn er útrunninn, hafi umrædd skjöl ekki verið lögð fram fyrir lok frestsins vegna óviðráðanlegra eða sérstakra aðstæðna, sbr. 2. tl. 22. gr. bókunar 4.

Í öðrum tilvikum, þegar skjöl eru lögð fram of seint, getur tollyfirvald í innflutningslandinu tekið við EUR.1-flutningsskírteini eða upprunayfirlýsingu á vörureikningi ef framleiðsluvörunum hefur verið framvísað við þau fyrir lok frestsins, sbr. 3. tl. 22. gr. bókunar 4.

 

6.2.5 EUR.1-flutningsskírteini “ÚTGEFIÐ EFTIR Á”

Í undantekningartilvikum er heimilt að gefa EUR.1.-flutningsskírteini út eftir að útflutningur upprunavöru hefur átt sér stað, að því tilskildu að:

1. flutningsskírteinið hafi ekki verið gefið út á tilskildum tíma vegna mistaka eða yfirsjóna eða sérstakra kringumstæðna; eða

2. sýnt sé fram á það með fullnægjandi hætti, að mati tollyfirvalda, að flutningsskírteinið hafi verið gefið út en skírteinið hafi ekki verið viðurkennt af tæknilegum ástæðum.

Upplýsingar um hvar og hvenær útflutningur upprunavöru átti sér stað og ástæður fyrir beiðninni skulu koma fram í umsókn um útgáfu flutningsskírteinis eftir á, sbr. 2. tl. 17. gr. bókunar 4 við EES-samninginn. Tollyfirvöldum er aðeins heimilt að gefa út EUR.1.-flutningsskírteini eftir á þegar gengið hefur verið úr skugga um að upplýsingarnar sem fram koma í umsókn útflytjanda séu samhljóða þeim sem viðkomandi gögn hafa að geyma, sbr. 3. tl. 17. gr. bókunarinnar. EUR.1.-flutningsskírteini, sem eru gefin út eftir á, skulu árituð í athugasemdarreit á skírteininu með setningunni “ÚTGEFIÐ EFTIR Á” á einu tungumálanna sem um getur í ákvæði 4. tl. 17. bókunarinnar, sbr. 5. tl. bókunarinnar.

 

6.2.6 EUR.1-flutningsskírteini, sem gefið er út sem “EFTIRRIT”

Hafi EUR.1-flutningsskírteini verið stolið, það glatast eða eyðilagst getur útflytjandinn sótt um það að fá eftirrit gert af því á grundvelli útflutningsgagna í vörslu tollyfirvalda, sbr. 1. tl. 18. gr. bókunar 4 við EES-samninginn. Umsókn um gerð eftirrits skal beint til tollyfirvalds sem gaf upphaflega flutningsskírteinið út. Endurrit af EUR.1-flutningsskírteinum skulu árituð, í athugasemdarreit, með orðinu “EFTIRRIT” á einu tungumálanna sem um getur í ákvæði 2. tl. 18. gr. bókunar 4. Eftirritið skal vera með sömu útgáfudagsetningu og upphaflega EUR.1.-flutningsskírteinið og gilda frá og með þeim degi, sbr. 4. tl. 18. gr. bókunarinnar.

 

6.2.7 Ábyrgð á útgáfu upprunasannana

Útflytjandi, sem sækir um EUR 1.-flutningsskírteini eða áritar vörureikning um uppruna vöru, ber ábyrgð á því að upplýsingar, sem veittar eru í skírteininu eða á vörureikningnum, séu réttar og hann lýsir því yfir að skilyrði upprunareglnanna, sem gilda um útflutningsvöruna, séu uppfyllt, sbr. 1. tl. 16. gr. bókunar 4 og orðalag upprunayfirlýsingarinnar í viðauka IV við bókun 4. Útflytjandi skuldbindur sig jafnframt til þess að varðveita sönnunargögn um upprunavöru, s.s. upprunasannanir vegna efnivöru og yfirlýsingar birgis vegna aðvinnslu sem þegar hefur farið fram á EES-svæðinu, og leggja þau fram ef þess verður krafist af tollyfirvöldum, sbr. 3. tl. 16. gr. og 3. tl. 20. gr. bókunar 4.

Staðfesting tollyfirvalds á EUR.1-flutningsskírteini er byggð á upplýsingunum sem koma fram í umsókninni um skírteinið og fylgigögnum. Hún hefur ekki áhrif á ábyrgð útflytjanda samkvæmt ofansögðu.

 

6.2.8 Staðfestingarskjöl með upprunasönnunum

Í 27. gr. bókunar 4 við EES-samninginn eru talin mikilvægustu staðfestingarskjölin. Talningin er ekki tæmandi.

1. Bókhaldsgögn sem veita réttar upplýsingar um framleiðsluferli, verð o.fl., sbr. a-lið 27. gr.

2. Yfirlýsing framleiðanda upprunavöru, sem notuð er sem efnivara til framleiðslu annarrar upprunavöru hjá sama samningsaðila, sbr. b-lið 27. gr.

3. Yfirlýsing birgis á EES-svæðinu til staðfestingar á þeirri aðvinnslu sem varan hlaut hjá honum. Það er heimilt að taka tillit til verðmætis aðvinnslu sem þegar hefur farið fram á EES-svæðinu samkvæmt aðvinnslureglunum þrátt fyrir að aðvinnslan hafi ekki verið nægileg til þess að veita vörunni EES-uppruna, sbr. umfjöllun um altæka uppsöfnun uppruna í lið 4.3.3. Þeir sem byggja á reglunni þurfa að gæta þess vel að afla nefndra yfirlýsinga birgja vegna efnivöru sem hefur hlotið einhverja aðvinnslu á EES-svæðinu, sbr. c- og e-lið 27. gr.

4. Upprunavottorð, EUR.1-flutningsskírteini eða yfirlýsing á vörureikningi vegna innfluttra upprunaefna. Almennt er fullnægjandi að útflytjandi vísi til afgreiðslunúmers aðflutningsskýrslu vegna efnivöru, sem fékk fríðindameðferð við innflutning til Íslands, sbr. d-lið 27. gr.

5. Viðeigandi sannanir um að skilyrðum 11. gr. bókunarinnar hafi verið fullnægt þegar unnið hefur verið að vörunni utan EES-svæðisins, sbr. f-lið 27. gr.

Ef ekki unnt að sanna uppruna efnivara með viðeigandi staðfestingarskjölum teljast þær þriðja lands efnivörur við beitingu uppruna- og aðvinnslureglnanna.

 

6.2.8 Varðveisla upprunasannana og staðfestingarskjala

Í 28. gr. bókunar 4 við EES-samninginn er mælt fyrir um að útflytjendur og birgjar skuli varðveita staðfestingarskjöl í a.m.k. þrjú ár. Staðfestingarskjöl sem eiga undir lög um bókhald skulu þó varðveitt í 7 ár frá lokum viðkomandi reikningsárs, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald.

 

6.2.9 Sannprófun – endurskoðun eftir á

Í 32. og 33. gr bókunar 4 við EES-samninginn er mælt fyrir um heimildir tollyfirvalda til þess að kanna eftir á, í þeim tilvikum þegar tollyfirvöld hafa réttmæta ástæðu til þess að draga framlagðar upplýsingar í efa eða með slembiathugun, sannleiksgildi EUR.1-flutningsskírteinis eða yfirlýsingar um uppruna á vörureikningi.

Sannprófun eftir á getur farið fram að beiðni tollyfirvalda hvort sem er í innflutningslandinu eða útflutningslandinu. Í bókuninni er gert ráð fyrir gagnkvæmri aðstoð samningsaðila við athugun á áreiðanleika upprunasannana og gagna sem þær eiga með réttu byggja á, sbr. 31. gr. bókunar 4.

Þeir sem gefa út upprunasannanir vegna framleiðsluvöru eða efnivöru, birgjar og aðrir sem gefa yfirlýsingar vegna uppruna vöru, skulu láta tollyfirvöldum í té allar upplýsingar sem þýðingu hafa fyrir endurskoðunina, sbr. 3. tl. 32. gr. og 3. tl 33. gr. bókunar 4. Skyldan til þess að láta tollyfirvöldum í té upplýsingar um atriði sem hafa þýðingu vegna endurskoðunar eftir á er einnig sett fram í 24. gr. og 6. mgr. 122. gr. tollalaga. Í 6. mgr. 122. gr. er jafnframt mælt fyrir um að tollyfirvald geti eftir atvikum látið rannsaka atvinnuhúsnæði, reikningshald og bréfaviðskipti nefndra aðila.

Komi í ljós við endurskoðun tollyfirvalda eftir á að upprunasannanir eða skjöl, sem liggja þeim til grundvallar, eru röng í einhverjum atriðum er tollyfirvöldum í innflutningsríkinu tilkynnt um niðurstöðu endurskoðunarinnar hvort sem endurskoðunin var gerð að frumkvæði tollyfirvalda í inn- eða útflutningsríkinu.

Skatturinn annast samskipti við erlend tollyfirvöld vegna sannprófunar á uppruna vöru.

 

 

6.2.10 Viðurlög

Það varðar sektum, svo og fangelsi í allt að tveimur árum ef miklar sakir eru, að láta í té eða valda því að látin eru í té skjöl eða vottorð sem eru röng í mikilvægum atriðum um uppruna íslenskrar útflutningsvöru í því augnamiði að varan njóti fríðindameðferðar við innflutning hennar til annars samningsríkis, sbr. 4. mgr. 126. gr. tollalaga.

Samkvæmt 35. gr. bókunar 4 skal hver sá sæta viðurlögum, sem gefur út eða veldur því að gefið er út skjal með röngum upplýsingum í því skyni að afla sér fríðindameðferðar fyrir framleiðsluvörur.

Þá getur varðað sömu viðurlögum samkvæmt 3. mgr.126 gr. laganna að gefa rangar eða villandi yfirlýsingar eða leggja fram röng eða villandi skjöl til þess að njóta fríðindameðferðar vegna innflutnings til Íslands.

6.3 Almenn upprunavottorð

Auk þeirra upprunareglna sem ríki og ríkjasambönd hafa samið um í fríverslunarviðskiptum sín á milli hafa einstök lönd sett þau skilyrði fyrir innflutningi á vörum frá öðrum löndum að lagt sé fram við tollafgreiðslu vottorð um uppruna þeirra (Certificate of Origin). Þessi upprunavottorð, sem ekki tengjast fríðindameðferð vöru, eru m.a. notuð til sönnunar vegna útgáfu á innflutningsleyfi eða innflutningskvóta samkvæmt sérstökum reglum sem kunna að gilda um vörurnar í innflutningslandinu.

Á Íslandi hafa ekki verið settar neinar almennar reglur um það hvenær vara telst upprunnin hér á landi og verða því ekki neinar skýrar leiðbeiningarreglur settar fram hér um það efni. Almennt má þó segja að íslenskar framleiðsluvörur teljist allar vörur, sem að öllu leyti er fengnar hér á landi eins og innlend jarðefni, innlendur sjávarafli og innlendar landbúnaðarafurðir svo og vörur unnar úr þeim ásamt iðnaðarvörum sem fengið hafa meiri aðvinnslu en pökkun eða meðferð til að forða þeim frá skemmdum.

Til þess að koma til móts við kröfur erlendra tollyfirvalda um almennt upprunavottorð vegna útflutnings á íslenskum vörum eða innfluttum vörum hefur embættið látið útbúa sérstakt eyðublað til staðfestingar á uppruna útflutningsvara. Um útfyllingu þess er vísað til þess sem segir hér að framan um útfyllingu EUR.1-flutningsskírteinisins.

- - - - - -

[1] Sjá nánar í bæklingi um tollskýrslugerð við innflutning, útgefinn af ríkistollstjóra í október 1998 .

[2] Leyfisnúmer viðurkenndra útflytjenda.

Viðauki I

Leiðbeiningar við útfyllingu EUR1.-flutningsskírteinis

Reitur Leiðbeiningartexti
Nr. 1 Nafn og heimilisfang útflytjanda
Nr. 2 Í þessum reit skal tilgreina það land eða lönd, s.s. Evrópubandalagið, sem eru aðilar að viðeigandi samningi sem krafa um fríðindameðferð er byggð á og vara er flutt til.
Nr. 3 Útfylling í reit 3 er valkvæð. Það ber þó að rita nafn og heimilisfang viðtakanda sendingarinnar í reitinn ef hann er kunnur þegar varan er flutt út.
Nr. 4 Í þessum reit skal tilgreina upprunaland vörunnar eða upprunalönd hennar samkvæmt ákvæðum viðeigandi fríverslunarsamnings. Þegar vara nýtur fríðindameðferðar með vísan til ákvæða EES-samningsins er varan sögð af EES-uppruna. Samkvæmt öðrum fríverslunarsamningum er upprunalandið tilgreint.
Nr. 5 Í þennan reit er sett ákvörðunarland vörunar, s.s. Pólland, Noregur eða Danmörk, eða ákvörðunarlönd eða yfirráðasvæði, s.s. Evrópubandalagið.
Nr. 6 Útfylling í reit 6 er valkvæð. Það má setja upplýsingar um flutningsfarið í reitinn, t.d. nafn þess og númer, o.fl.
Nr. 7 Þennan athugasemdarreit skal nota í eftirfarandi tilvikum:

Hafi EUR.1-flutningsskírteini verið stolið, það glatast eða eyðilagst, getur útflytjandinn sótt um nýtt skírteini til tollyfirvalds, sem er staðfest eftirrit af áður útgefnu skírteini. Útgáfudagur eftirritsins er hinn sami og upphaflega skírteinisins. Þegar svona háttar er orðið "EFTIRRIT" eða tilsvarandi orð á tungumálum annarra samningsaðila fært í reit 7.

Hafi EUR.1-flutningsskírteini ekki verið gefið út þegar vara var flutt út, vegna mistaka, yfirsjónar eða sérstakra kringumstæðna getur útflytjandi sótt um útgáfu flutningsskírteinis eftir á til tollyfirvalds. Sama gildir ef sýnt er fram á það með fullnægjandi hætti að EUR.2-skírteini hafi verið gefið út en ekki viðurkennt í innflutningslandinu af tæknilegum ástæðum. Í þessum tilvikum eru orðin "ÚTGEFIÐ EFTIRÁ" færð í reit 7.
Nr. 8 Vörunúmer (item number)
Upprunarvörurnar á skírteininu skulu taldar upp í réttri númeraröð, þ.e. 1, 2, 3 ...

Merki og númer vöru
Vísað er til sama auðkennisnúmers og -merkis og tilgreint er í farmbréfi vegna vörunnar. Þegar vara er aðeins auðkennd með nafni og heimilisfangi viðtakanda skal rita í þennan reit "adr" eða "ó/m".

Fjöldi og tegund umbúða
Tegund umbúðanna má tilgreina með t.d. "stk", "tunnur", "kassar" o.s.frv. Fjöldi umbúða svara til fjölda umbúða sem skilgreindar eru sem upprunavörur í vörureikningi.

Vörulýsing
Upplýsingar um vörutegund skulu vera með almennu viðskiptaheiti vörunnar. Í reitinn á ekki að setja safnheiti, s.s. föt, búnaður, metravara, vélar, farartæki o.s.frv.
Nr. 9 Í þennan reit er skráð heildarþyngd í kílógrömmum eða aðra mælieiningu, s.s. str, lítra, fermetra o.s.frv.
Nr. 10 Það er skylt að tilgreina númer vörureiknings þegar vísað er til hans í flutningsskírteininu.
Nr. 11 Þessi reitur er ætlaður tollyfirvöldum til staðfestingar á yfirlýsingu útflytjanda.
Nr. 12 Þessi reitur er fyrir undirritun útflytjanda eða þess sem kemur fram fyrir hans hönd til staðfestingar á yfirlýsingu um að vörurnar sem taldar eru í skírteininu fullnægi skilyrðum fyrir útgáfu þess. Yfirlýsingin skal undirrituð eigin hendi. Stimpluð eða prentuð yfirlýsing er ófullnægjandi.

Almennar leiðbeiningar um útfyllingu EUR..1-flutningsskírteinis (mynd af skírteininu birt síðar)

EUR.1-flutningsskíteinið skal fyllt út á einu þeirra tungumála sem eiga við samkvæmt viðeigandi fríverslunarsamningi, sjá viðauka II.

Ef útflytjandi fyllir eyðublaðið út eigin hendi ber honum að nota blek og prentstafi. Leið­réttingar skulu gerðar með því að strika yfir röngu atriðin og bæta hinum réttu við. Það má hvorki afmá né rita yfir það sem fyrir er. Útflytjanda ber að staðfesta allar breytingar á skírteininu með því að rita upphafsstafi sína við þær. Tollyfirvald í útflutningslandinu staðfestir jafnframt breytingar á skírteininu þegar við á.

Bakhlið umsóknar um flutningsskírteini

"Yfirlýsing útflytjanda" á bakhlið umsóknar um flutningsskírteini skal fyllt út af útflytjanda og undirrituð eigin hendi af sama aðila og undirritar yfirlýsingu útflytjanda í reit 12 á flutnings­skírteininu.

Á eftir orðinu: "tilgreini þau atvik sem ráða því að þessar vörur teljast fullnægja ofangreindum skilyrðum" getur útflytjandi lýst þeirri framleiðsluaðferð eða aðvinnslu sem varan hefur fengið á Íslandi. Sé lýsing útflytjanda á einstaka vöru ónákvæm getur það leitt til þess að staðfesting dragist þar sem tollyfirvald gæti áður þurft að meta hvort vörurnar uppfylli í raun skilyrði þau sem sett eru um upprunavörur. Útflytjandi kynni að þurfa að leggja fram frekari upplýsingar eða nánari skoðun vörunnar eða lagers reynst nauðsynleg.

Til þess að forðast slíkar tafir er útflytjanda heimilt að nota eftir því sem við á fjórar staðlaðar yfir­lýsingar. Séu þær notaðar tekur útflytjandinn fulla ábyrgð á því að vörurnar uppfylli þær kröfur sem gerðar eru um útgáfu flutningsskírteinis.

Eftirfarandi staðalyfirlýsingar má nota:

 1. "FRAMLEIÐSLUVARAN ER AÐ ÖLLU LEYTI FENGIN INNAN EES".
  Nota skal þessa yfirlýsingu vegna jarðefna eða afurða, sem hafa öðlast upprunaréttindi vegna þess að þær eru framleiddar úr framleiðsluvöru eða efni sem telst upprunnið innan EES samkvæmt 3. gr. bókunar 4.
 2. "FRAMLEIÐSLUVARAN HEFUR FENGIÐ NÆGILEGA AÐVINNSLU INNAN EES".
  Nota skal þessa yfirlýsingu vegna framleiðsluvara sem öðlast hafa EES-uppruna við nægilega aðvinnslu í samræmi við kröfur í aðvinnsluskrá, sbr. 5. gr. bókunar 4 við EES-samninginn og II. viðbæti við bókunina.
 3. "FRAMLEIÐSLUVARAN HEFUR FENGIÐ AÐVINNSLU INNAN EES MEÐ NOTKUN ............-UPPRUNAVARA".
  Nota skal þessa yfirlýsingu vegna framleiðsluvara sem hafa öðlast EES-uppruna að lokinni aðvinnslu og byggt hefur verið á reglunni um uppsöfnun uppruna.
 4. "FRAMLEIÐSLUVARAN ER ENDURÚTFLUTT FRÁ ÍSLANDI Í ÓBREYTTU ÁSTANDI EÐA EFTIR ÓFULLNÆGJANDI AÐVINNSLU. UPPRUNALAND:
  Nota skal þessa yfirlýsingu vegna EES-upprunavara sem endurútfluttar eru frá Íslandi í óbreyttu ástandi eða eftir ófullnægjandi aðvinnslu á Íslandi. Hvað telst ófullnægjandi aðvinnsla í þessu sambandi er nánar lýst í 6. gr. bókunar 4 við EES-samninginn.

Ekki þarf að skrá neitt undir liðnum: "legg fram eftirfarandi gögn þessu til stuðnings" ef einhver framangreindra yfirlýsinga er notuð.

Hafi yfirlýsing sem tilgreind er í 3. eða 4. lið verið notuð verður útflytjandi að geta sannað fyrir tollyfirvaldi að viðkomandi framleiðsluvara eða efni hafi áður verið flutt inn samkvæmt upprunasönnun (flutningsskírteini, yfirlýsingu á vörureikningi, yfirlýsingu undirbirgis eða birgis).

Yfirlýsing skal undirrituð af þeim sem umboð hefur til þess frá ábyrgðaraðila fyrirtækis. Það skal vera sá sami og undirritar yfirlýsingu í reit 12 á flutningsskírteininu. Með undirskrift þessari skuldbindur útflytjandi sig til þess að leggja fram, ef þess verður krafist af tollyfirvöldum, öll frekari sönnunargögn sem þau kunna að telja nauðsynleg til að flutningsskírteinið verði gefið út, svo og til að samþykkja að tollyfirvöld athugi bókhald sitt og aðstæður við framleiðslu þeirra vara sem flutningsskírteinið tekur til. Sannprófun flutningsskírteinis af hálfu tollyfirvalda getur farið fram með slembiathugun eða hvenær sem þau hafa rökstudda ástæðu til að draga í efa áreiðanleika slíkra skjala, upprunaréttindi viðkomandi framleiðsluvara eða að farið hafi verið að settum fyrirmælum samkvæmt bókun 4.

Viðauki II

Áritun upprunayfirlýsingar á vörureikningi

Íslensk útgáfa

Útflytjandi framleiðsluvara, sem skjal þetta tekur til (leyfi tollyfirvalda nr. ...), lýsir því yfir að vörurnar séu, ef annars er ekki greinilega getið, af ......  fríðindauppruna

Norsk útgáfa

Eksportøren av produktene omfattet av dette dokument (tollmyndighetenes autorisasjonsnr. .... ) erklærer at disse produktene, unntatt hvor annet er tydelig angitt, har ...... preferanse opprinnelse

Ensk útgáfa

The exporter of the products covered by this document (customs authorization No. ... ) declares that, except where otherwise clearly indicated, these products are of ......  preferential origin

Þýsk útgáfa

Der Ausführer (Ermächtigter Ausführer; Bewilligungs-Nr. .... ) der Waren, auf die sich dieses Handelspapier bezieht erklärt, daß diese Waren, soweit nicht anders angegeben, präferenzbegünstigte ...... Ursprungswaren sind

Frönsk útgáfa

L''exportateur des produits couverts par le présent document (autorisation douanière no. .... ) déclare que, sauf indication claire du contraire, ces produits ont l''origine préférentielle ...... 

Sænsk útgáfa

Exportören av de varor som omfattas av detta dokument (tullmyndighetens tillstånd nr. ... ) försäkrar att dessa varor, om inte annat tydligt markerats, har förmånsberättigande ...... ursprung

Dönsk útgáfa

Eksportøren af varer, der er omfattet av nærværende dokument, (toldmyndighedernes tilladelse nr. .... ), erklærer, at varerne, medmindre andet tydeligt er angivet, har præferanceoprindelse i ...... 

Spænsk útgáfa

El exportador de los productos incluidos en el presente documento (autorización aduanera no. ....) declara que, salvo indicación en sentido contrario, estos productos gozan de un origen preferencial ......

Ítölsk útgáfa

L'' esportatore delle merci contemplate nel presente documento (autorizzazione doganale n. ...) dichiara che, salvo indicazione contraria, le merci sono di origine preferenziale ...... 

Hollensk útgáfa

De exporteur van de goederen waarop dit document van toepassing is (douanevergunning nr. ...), verklaart dat, behoudens uitdrukkelijke andersluidende vermelding, deze goerderen van preferentiële ......  oorsprong zijn

Portúgölsk útgáfa

O abaixo assinado, exportador dos produtos cobertos pelo presente documento (autorização aduaneira n. ... ), declara que, salvo expressamente indicado em contrario, estes produtos sao de origem preferencial ...... 

Finnsk útgáfa

Tässä asiakirjassa mainittujen tuotteiden viejä (tullin lupanumero .... ) ilmoittaa, että nämä tuotteet ovat, ellei toisin ole selvästi merkitty, etuuskohteluun oikeuttuja ......  alkuperätuotteita

Tékknesk útgáfa

Vývozce výrobkü uvedených v tomto dokumentu (císlo povolení ..... ) prohlašuje, ze krome zretelne oznacených, mají tyto výrobky preferencní pùvod v ..... 

Slóvakísk útgáfa

Vývozca výrobkov uvedených v tomto dokumente (císlo povolenia ..... ) vyhlasuje, ze okrem zretel''ne oznacených, majú tieto výrobky preferencný pôvod v ..... 

Pólsk útgáfa

Eksporter produktów objetyck tym dokumentem (upowaznienie wladz celnyck nr ..... ) deklaruje, ze z wyjatkiem gdzie jest to wyraznie okreslone, produkty te maja ..... preferencyjne pochodzenie

Slóvensk útgáfa

Izvoznik blaga, zajetega s tem dokumentom (pooblastilo carinskih organov st. ..... ) izjavlja, da, razen ce ni drugace jasno navedeno, ima to blago preferencialno ..... poreklo

Rúmensk útgáfa

Exportatorul produselor ce fac objectul acestu, document (autorizatia vamalá nor. ..... ) declará cá, exceptând cazul~in care în mod expres este indicat altfel, aceste produs sunt de origine preferentialá .....

Eistnesk útgáfa

Käesoleva dokumendiga hõlmatud loodete eksportija (tolliameti kinmitas Nr. ... ) deklareelb, et need tooted on .....  soodus- päritoluga, välja arvatud juhul kui on selgelt näidatud teisiit

Lettnesk útgáfa

Eksportétäjs, produktiem, kuri ietverti šajä dokumentä (muitas pilnvara Nr. ... ) deklare, ka, iznemot tur, kur ir citadi skaidri noteikts, šien produktiem ir priekšrocìbu izcelsme no. .....

Litháísk útgáfa

Siame dokumente išvardintu prekiu eksportuotojas (muitines liudijimo Nr. ...) deklaruoja, kad, jeigu kitaip nenurodyta, tai yra ..... preferencines kilmés prekés

 

..............................................................

(Staður og dagsetning) 

 

..............................................................

(Undirskrift útflytjanda auk þess þarf nafn þess sem undirritað hefur yfirlýsinguna að koma fram með skýrum stöfum) 

- - - - - -

(1) Þegar viðurkenndur útflytjandi í skilningi bókunarinnar gefur yfirlýsingu á vörureikningi skal leyfisnúmer hans koma fram í þessari eyðu. Ef yfirlýsingin er ekki gefin út af viðurkenndum útflytjanda skal svigagreinin felld burtu eða eyðan skilin eftir óútfyllt.

(2) Þegar yfirlýsing á vörureikningi tekur að öllu leyti eða að hluta til framleiðsluvara sem eru upprunnar í Ceuta og Melilla í skilningi 38. gr. bókunarinnar, verður útflytjandi að gefa það skýrt til kynna með tákninu “CM” á skjalinu sem yfirlýsingin er gefin út á.

(3) Ekki er þörf á að taka þetta sérstaklega fram ef upplýsingarnar koma fram á skjalinu sjálfu.

(4) Sjá 5. tl. 20. gr. bókunar 4 við EES-samninginn. Ef þess er ekki krafist að útflytjandi skrifi undir eigin hendi felur það jafnframt í sér að ekki er þörf á að taka fram nafn þess sem yfirlýsingin stafar frá.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum