Fríverslunarsamningar

Almennt

Fríverslunarsamningar gilda aðeins á milli þeirra ríkja sem eru aðilar að þeim.  Þau ríki sem ekki eru aðilar að samningi eru nefnd þriðju ríki með tilliti til þess samnings.

Hægt er að skipta þeim fríverslunarsamningum sem Ísland er aðili að í tvo flokka, marghliða og tvíhliða samninga. Aðilar að marghliða samningum eru fleiri en tveir.  Nokkrir marghliða samningar hafa verið gerðir á milli EFTA-ríkjanna annars vegar og einstakra ríkja hins vegar.  Samningar EFTA-ríkjanna við Tyrkland, Lettland, Litháen, o.s.frv. eru dæmi um marghliða samninga.  Tvíhliða samningur er samningur á milli tveggja ríkja, samanber til dæmis fríverslunarsamning á milli Íslands og Grænlands frá 1985.

Bæði tvíhliða og marghliða fríverslunarsamningar eru byggðir á meginreglunni um gagnkvæmni.  Báðir eða allir samningsaðilar njóta góðs af ákvæðum um tollfríðindi við útflutning til annars samningsaðila.  Þetta þarf þó ekki að þýða að samningarnir geti ekki verið ósamhverfir, þ.e. einn samningsaðilinn veitir t.d. tiltekinni vöru tollfrelsi (0%) frá gildistöku samningsins en annar samningsaðili lækkar tolla af sömu vöru í áföngum.

Veljið einstaka samninga úr valmyndinni til að lesa umfjöllun um þá, þar er þó ekki fjallað um alla fríverslunarsamninga Íslands.

Nánari upplýsingar um fríverslunarsamninga (kafli 2)

Listi og umfjöllun á vef Utanríkisráðuneytisins um fríverslunarsamninga sem Ísland á aðild að.

Framkvæmd fríverslunarsamnings við Kína

Samninginn, viðauka hans og ítarlegar upplýsingar er að finna á vef utanríkisráðuneytisins.

Leiðbeiningar um útfyllingu aðflutnings- og útflutningsskýrslu og breytingar vegna nýrra lykla í skýrslum, vegna rafrænnar tollafgreiðslu og vegna hugbúnaðar til tollskýrslugerðar eru í liðum 2 og 3, neðst á þessari síðu.

Almennt

Fríverslunarsamningur Íslands og Alþýðulýðveldisins Kína öðlast gildi og kemur til framkvæmda 1. júlí 2014.

Vörur sem fluttar verða út frá Kína frá og með 1. júlí 2014 geta notið tollfríðinda samkvæmt nefndum samningum að því tilskildu að fullnægjandi sönnun liggi fyrir um að þær séu upprunnar í Alþýðulýðveldinu Kína eins og kveðið er á um í nefndum samningum.

Hér á eftir verður vikið að meginatriðum þeim sem samningurinn og viðaukar hans taka til og snerta tollframkvæmdina. Um frekari lesningu vísast m.a. til ályktunar Alþingis um fullgildingu fríverslunarsamnings milli Íslands og Alþýðulýðveldisins Kína auk ítarlegrar umfjöllunar sem er að finna á vef utanríkisráðuneytisins.

1 Fríverslunarsamningurinn

Helstu ákvæði fríverslunarsamningsins sem varða vöruviðskipti, upprunareglur og reglur um tollmeðferð og fyrirgreiðslu viðskipta er að finna í 2. til 4. kafla samningsins. Þar er m.a. afmarkað vörusvið samningsins og kveðið á um upprunareglur sem gilda skulu um tollframkvæmdina, tollalækkanir svo og samvinnu tollyfirvalda aðildarríkjanna varðandi tollframkvæmd.

Almennt er um gagnkvæma niðurfellingu tolla að ræða.

Hér á eftir er gerð grein fyrir tollalækkunum af hálfu Íslands en almennt gilda sömu reglur um tollalækkanir af hálfu Kína vegna útflutnings á íslenskum upprunavörum þangað. Upplýsingar um framkvæmd samninganna af hálfu Kína má nálgast á vefsíðu tollyfirvalda í Alþýðulýðveldinu Kína.

1.1 Vörusvið fríverslunarsamningsins

Við gildistöku samningsins falla tollar niður af innfluttum framleiðsluvörum sem upprunnar eru í Kína og

a) falla undir 25. til 98. kafla tollskrárinnar, þ.e. iðnaðarvara almennt, sbr. viðauka I við samninginn.
b) ýmsum landbúnaðarvörum (unnum og óunnum) og sjávarafurðum sem falla undir 1. til 24. kafla tollskrárinnar eins og nánar er kveðið á um í viðauka I við samninginn.

1.1.1 Viðaukar við fríverslunarsamninginn

Samningnum fylgja viðaukar sem eru óaðskiljanlegur hluti hans svo sem hér segir:

Viðauki I - (Annex I)

Forsíða og tolláætlanir Íslands og Kína. Þar má finna upplýsingar um alla vöruflokka sem tollar eru felldir niður af eða lækkaðir. Í einhverjum tilvikum er um að ræða lækkun tolla stig af stigi yfir ákveðinn tíma, hvað varðar innflutning á íslenskum upprunavörum til Kína.

Viðauki II - (Annex II)

Lögbær stjórnvöld og tengiliðir að því er varðar beitingu ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna. (SPS)

Viðauki III - (Annex III)

Lögbær stjórnvöld og tengiliðir að því er varðar tæknilegar viðskiptahindranir (TBT).

Viðauki IV - (Annex IV)

Upprunareglur um framleiðsluvörur

Viðauki V - (Annex V)

Upprunavottorð (gefið út af tollyfirvöldum)

Viðauki VI - (Annex VI)

Upprunayfirlýsing (gefin út af viðurkenndum útflytjanda)

Viðauki VII - (Annex VII)

Skrár um sérstakar skuldbindingar í þjónustu - Ísland og Kína

Viðauki VIII - (Annex VIII)

För einstaklinga sem veita þjónustu

Viðauki IX - (Annex IX)

Starfsreglur gerðardóms


1.2 Framkvæmd fríverslunarsamningsins

1.2.1 Upprunareglur

Fríðindameðferð samkvæmt fríverslunarsamningi Íslands við Kína er bundin því skilyrði að um sé að ræða upprunavörur í skilningi 3. kafla samningsins og viðauka IV við hann. Reglur þessar eru að hluta nokkuð frábrugðnar upprunareglum annarra fríverslunarsamninga sem Ísland er aðili að, hvort sem er í gegnum fríverslunarsamninga EFTA-ríkjanna eða tvíhliða samninga Íslands við önnur ríki. Það er þess vegna nauðsynlegt að inn- og útflytjendur kynni sér ákvæði samningsins um upprunareglur gaumgæfilega. Gæta þarf að aðvinnslulista þeim sem er að finna í viðauka IV við samninginn til þess að ganga úr skugga um að svokölluð þriðjalandsefnivara, þ.e.a.s. hráefni eða íhlutir sem eiga uppruna sinn utan samningssvæðisins, nánar tiltekið utan Íslands eða Kína, sem notuð hefur verið til viðkomandi framleiðslu útflutningsvöru, hafi hlotið nægilega aðvinnslu til þess að öðlast upprunaréttindi samkvæmt ákvæðum samningsins. Uppsöfnun uppruna er heimil innan samningssvæðisins, þ.e.a.s. að vara sem hefur öðlast uppruna annaðhvort á Íslandi eða í Kína og er flutt til hins landsins og unnið að henni þar heldur upprunaréttindum sínum í tengslum við þennan fríverslunarsamning. Hins vegar þarf að ákvarða sérstaklega hvort að vara uppfylli upprunaskilyrði annarra fríverslunarsamninga um uppruna og aðvinnslu, t.a.m. EES-samningsins eða annarra EFTA-samninga.

1.2.2 Upprunaskilyrði

Í 21. til 28. gr. samningsins viðauka IV er kveðið á um með hvaða hætti vörur geti öðlast upprunaréttindi. Meginreglan er sú að vara sem er að öllu leyti fengin á Íslandi eða í Kína telst upprunavara (framleidd úr efnivörum sem alfarið eru til orðnar í framleiðslulandinu), sbr. 23. gr. viðaukans.

Sama gildir um vörur sem fengið hafa nægilega aðvinnslu á Íslandi eða í Kína (framleiddar úr efnivörum sem ekki eru að öllu leyti til orðnar í framleiðslulandinu), sbr. 25. og 26. gr. samningsins. Mikilvægt er því vegna útflutnings að íslenskir framleiðendur kynni sér upprunareglurnar til þess að ekki þurfi að koma til greiðslu tolla síðar leiði skoðun á framleiðsluvöru þeirra í ljós að ekki hafi verið gætt þeirra skilyrða sem upprunareglurnar setja fríðindameðferðinni.

1.2.3 Uppsöfnunarreglur (cumulation)

Allar vörur sem taldar verða upprunnar á Íslandi eða í Kína má nota við framleiðslu án takmörkunar og flytja aftur út til hins aðildarríkisins. Efnivörur sem upprunnar eru utan aðildarríkjanna, t.d. í Evrópusambandinu eða öðrum löndum, verða hins vegar að fá nægjanlega aðvinnslu í samræmi við listareglur eða ákvæði kaflans og aðvinnsla þarf að vera fullnægjandi, þ.e.a.s. að vara sem aðeins fær aðvinnslu sem fellur undir lista í 27. gr. samningsins getur aldrei orðið upprunavara í skilningi samningsins.

1.2.4 Flutningsreglur

Viðskiptum með upprunavörur á samningssvæðinu eru ekki sett nein takmörk. Þannig getur t.d. vara upprunnin í Kína verið send aftur frá Íslandi til Kína, beinum flutningi, og notið upprunafríðinda við innflutning þangað að nýju. Vörur upprunnar í Kína, sem tollafgreiddar hafa verið t.d. í Evrópusambandsríki til frjálsra nota þar, geta hins vegar ekki notið fríðindameðferðar við innflutning til Íslands eða Kína.

Um flutning á upprunavörum gilda því ákvæði 33. gr. samningsins um beinan flutning. Upprunavörur, sem fluttar eru um landsvæði önnur en aðildarlandanna, glata þó ekki upprunaréttindum sínum við slíkan flutning hafi þær verið undir óbrotnu tolleftirliti og ekki hlotið neina aðvinnslu nema óverulega meðhöndlun til að forða þeim frá skemmdum eða uppskiptingu sendingar.

1.2.5 Upprunasönnun

Til að hægt sé að nýta sér ákvæði samningsins þegar hann hefur tekið gildi og fara fram á fríðindameðferð við tollafgreiðslu hvort sem er til Íslands eða Kína þarf að liggja fyrir gild upprunasönnun við innflutning, annaðhvort vottorð um uppruna (útgefið af tollyfirvöldum) í samræmi við viðauka V við samninginn eða yfirlýsing um uppruna (útgefin af viðurkenndum útflytjanda sem fengið hefur heimild til þess) í samræmi við viðauka VI.

A. Upprunavottorð, útgefið af Tollstjóra

Ákvæði samningsins um upprunasannanir eru nokkuð frábrugðin ákvæðum annarra fríverslunarsamninga sem Ísland er aðili að. Þannig er ekki hægt að gefa út EUR.1 skírteini vegna vörusendinga, heldur verður um sérstakt skírteini (FKI), upprunavottorð, að ræða í samræmi við ákvæði samningsins. Embætti Tollstjóra hefur látið gefa þetta skírteini út og hægt er að nálgast þau hjá embættinu. Til að upprunavottorð hafi gildi sem upprunasönnun, þarf að fylla það út með öllum nauðsynlegum upplýsingum og leggja það fyrir hjá Tollstjóra til útgáfu ásamt fylgigögnum. Við útgáfu stimplar starfsmaður Tollstjóra skírteinið með þar til gerðum stimpli og undirritar.

Form upprunaskírteinisins/vottorðsins má kynna sér hér: Viðauki V (upprunavottorð)

B. Yfirlýsing um uppruna, útgefin af viðurkenndum útflytjanda

Einungis viðurkenndum útflytjendum, sem sótt hafa um og fengið sérstakt leyfisnúmer hjá tollyfirvöldum, er heimilt að gefa út yfirlýsingu um uppruna, sbr. 37. og 38. gr. samningsins. Ekki skal notast við yfirlýsingu sem rituð er á vörureikninga eða önnur viðskiptaskjöl í samræmi við ákvæði bókunar 4 við EES-samninginn og aðra fríverslunarsamninga, heldur er um að ræða yfirlýsingu sem fylgja skal vörureikningi á sérstöku eyðublaði, þar sem fram koma aðrar og ítarlegri upplýsingar en útflytjendur eiga annars að venjast.

Form fyrir upprunayfirlýsinguna er að finna á vef utanríkisráðuneytisins í viðauka VI.

Rétt er að benda á að undanþága viðurkenndra útflytjenda frá undirritun yfirlýsinga gildir ekki fyrir yfirlýsingar um uppruna til Kína.

Tollyfirvöldum er skylt að halda sérstakan lista yfir þá útflytjendur sem ætla sér að nýta heimild sína sem viðurkenndir útflytjendur til að gera yfirlýsingar um uppruna vöru sem seld er til Kína. Það er þess vegna nauðsynlegt að fyrirtæki tilkynni það sérstaklega til embættis Tollstjóra. Þar fyrir utan skal tilkynningunni fylgja dæmi um stimpil fyrirtækisins, en hann þarf að vera á hverri yfirlýsingu sem gefin er út. Stimplinum skal skilað á A4 blaði til Tollstjóra. Viðurkenndir útflytjendur geta því verið með tvær ólíkar heimildir til að gefa út upprunasannanir, þ.e. gagnvart EES-svæðinu og/eða gagnvart Kína.

Yfirlýsingar um uppruna skulu bera raðnúmer. Það er á ábyrgð hvers útflytjanda fyrir sig að halda lista yfir raðnúmer upprunayfirlýsinga og upplýsingar um vörusendingar sem þeir senda til Kína. Ekki er sérstaklega kveðið á um form raðnúmera, en þau skulu vera í hlaupandi númeraröð, ekki endurtekin milli ára, rekjanleg til tiltekinnar vörusendingar og ekki lengri en 14 stafir.

Útflytjanda ber svo að senda lista af raðnúmerum ársins á undan til Tollstjóra fyrir lok janúar á hverju ári, en Tollstjóri skal skila yfirlitslistum til Kína fyrir 31. mars á hverju ári. Rétt er að benda á að til endurákvarðana og höfnunar upprunasannana getur komið, sé raðnúmeralistum ekki skilað tímanlega, sbr. 4. tölul. 38. gr. samningsins.

1.2.6 Upprunameðferð smásendinga, verðmæti = eða < 600 USD

Samningsaðili getur fallið frá kröfum um að sýna upprunavottorð eða upprunayfirlýsingu og veitt fríðindameðferð fyrir vörusendingu upprunavara sem ekki fer yfir 600 bandaríkjadali að verðgildi eða samsvarandi fjárhæð í gjaldmiðli samningsaðila eða annarra upprunavara eins og kveðið er á um í landslögum ef undanþága er til staðar, sbr. 39. gr. samningsins. Skilyrði er að upprunaland vöru komi fram á vörureikningi og ennfremur gilda ákvæði um beinan flutning, sbr. liður 1.2.4 hér framar.

Undanþágunni skal þó ekki beitt ef leitt hefur verið í ljós að um sé að ræða raðtengdan innflutning sem með rökum má telja að sé framkvæmdur eða skipulagður til þess eins að komast hjá því að leggja fram upprunavottorð eða upprunayfirlýsingu.


2 Útfylling aðflutningsskýrslu og útflutningsskýrslu

2.1 Aðflutningsskýrsla, ebl. E1

Þegar óskað er eftir fríðindameðferð, lækkuðum tollum, við innflutning samkvæmt fríverslunarsamningi milli Kína og Íslands, skal aðflutningsskýrsla, ebl. E1, og sbr. einnig EDI/SMT- og VEF-aðflutningsskýrsla, fyllt út þannig:

a) Skrá lykilinn YL, tegund tolls, fremst í reit 33, tegund gjalda, í vörulínu í skýrslu; lína viðkomandi tollskrárnúmers.
b) Í reit 34, upprunaland, skal tilgreina landalykil Kína, CN.
c) Í reit 14, leyfi/vottorð, skal gefið til kynna að réttmæt upprunasönnun sé til staðar vegna vörusendingar með því að skrá lykilinn FKI, sem stendur fyrir upprunavottorð eða e.a. upprunayfirlýsingu vegna Kína-Íslands samningsins, og í tilvísunarsvæðið með FKI lyklinum skal skrá 7 öftustu stafi númers upprunavottorðsins eða upprunayfirlýsingarinnar (Ekki má skrá YFIRLÝS í stað númers eins og gildir þegar um EUR upprunayfirlýsingu er að ræða).
d) Ef um er að ræða smásendingu, sbr. lið 1.2.6 hér framar, að verðmæti 600 USD eða minna og upprunavottorð eða upprunayfirlýsing fylgir ekki vörusendingu má óska eftir fríðindameðferð með því að skrá FKI lykilinn í reit 14 og í tilvísunarsvæðið með lyklinum skal þá skrá V600USD. Með þessari skráningu í reit 14 í aðflutningsskýrslu er innflytjandi eða e.a. tollmiðlari að lýsa því yfir að varan sé upprunnin í Kína og sé flutt þaðan beinum flutningi til Íslands, sbr. m.a. lið 1.2.4 hér framar. Ennfremur að lýsa því yfir að vörusendingin sé 600 USD að verðmæti eða minna.

2.2 Útflutningsskýrsla, ebl. E2

Þegar óskað er eftir fríðindameðferð vegna útflutnings upprunavara til Kína, samkvæmt fríverslunarsamningi milli Kína og Íslands, skal útflutningsskýrsla, ebl. E2, og sbr. einnig EDI/SMT- og VEF-útflutningsskýrsla, fyllt út þannig:

a) Í reit 1, markaðssvæði, skal skrá lykilinn EX
b) Í reit 17, ákvörðunarland, skal skrá CN, landalykil Kína. Ákvörðunarland er endastöð vöruflutninganna.
c) Í reit 34a, upprunaland, skal skrá IS, ef íslensk upprunavara, en CN ef kínversk upprunavara, áður flutt beinum flutningi frá Kína til Íslands, er að fara aftur til Kína.
d) Reit 44, leyfi/vottorð o.fl., skal fylla út á ólíkan hátt eftir því hvort um er að ræða að upprunayfirlýsing, sem viðurkenndur útflytjandi gefur út, fylgi vörusendingu eða hvort upprunavottorð, gefið út af Tollstjóra, fylgi vörusendingu eða hvort um smásendingu er að ræða:

a. Ef upprunayfirlýsing (sérstakt eyðublað) viðurkennds útflytjanda fylgir vörusendingu skal í reit 44 skrá lykilinn FKI, upprunasönnun vegna Kína-Ísland samningsins, og raðnúmer upprunayfirlýsingarinnar í tilvísunarsvæðið með lyklinum, sbr. lið 1.2.5, B. undirliður, hér framar. Ennfremur skal viðurkenndur útflytjandi skrá leyfisnúmer sitt, sem skráð var í bréfi frá Tollstjóra þegar Tollstjóri veitti útflytjanda leyfi sem viðurkenndur útflytjandi. Útflytjandi hafi þá einnig heimild til að gefa út upprunayfirlýsingu vegna útflutnings á upprunavörum til Kína. Skrá skal lykilinn VUT, viðurkenndur útflytjandi, og í tilvísunarsvæðið með lyklinum skal skrá leyfisnúmerið. Dæmi um leyfisnúmer og form þess: 9999-IS13; 9999 er einkvæmt númer viðkomandi viðurkennds útflytjanda og síðan kemur - (bandstrik) og IS og síðan tveir öftustu stafir í ártali, 2013, það ár þegar Tollstjóri gaf út leyfið. Leyfisnúmerið skal skrá nákvæmlega á framangreindu formi.

b. Ef upprunavottorð, gefið út af Tollstjóra, fylgir vörusendingu skal í reit 44 skrá lykilinn FKI, upprunasönnun vegna Kína-Ísland samningsins, og í tilvísunarsvæðið með lyklinum skal skrá númer upprunavottorðsins, sem staðsett er efst í hægra horni skjalsins. Þegar vísað er í upprunavottorð útgefið af Tollstjóra skal ekki skrá VUT lykilinn, sbr. a. lið hér á undan.

c. Ef um er að ræða smásendingu, sbr. lið 1.2.6 hér framar, að verðmæti 600 USD eða minna og upprunavottorð eða upprunayfirlýsing fylgir ekki vörusendingu má óska eftir fríðindameðferð með því að skrá FKI lykilinn í reit 44 og í tilvísunarsvæðið með lyklinum skal þá skrá V600USD. Með þessari skráningu í reit 44 í útflutningsskýrslu er útflytjandi eða e.a. tollmiðlari að lýsa því yfir að varan sé íslensk að upprunna, eða Kínversk að uppruna skv. nánari skilyrðum, og sé flutt beinum flutningi til Kína, sbr. m.a. lið 1.2.4 hér framar. Ennfremur að lýsa því yfir að vörusendingin sé 600 USD að verðmæti eða minna.

2.3 Almennar leiðbeiningar um tollskýrslugerð

Að öðru leyti vísast til leiðbeininga um tollskýrslugerð vegna innflutnings og útflutnings.

3 Tollskrárlyklar til nota í hugbúnaði til tollskýrslugerðar, nauðsynlegar breytingar á hugbúnaðinum og uppfærsla á lyklum vegna tollskýrslugerðar og EDI/SMT-tollafgreiðslu

3.1 Tollskrárlyklar til nota í tollskýrslugerðarhugbúnaði

Tollskrárlyklar vegna innflutnings fyrir tollskýrslugerðarhugbúnað. Ný útgáfa, sem tekur gildi 1. júlí 2014 og þar sem YL tegund tolls hefur verið skráð á öll viðkomandi tollskrárnúmer vegna innflutnings, verður aðgengileg á vefsíðu tollskrárlykla á vef Tollstjóra frá og með 19. júní 2014.

3.2 Tollskýrslugerðarhugbúnaður

Tollskýrslugerðarhugbúnaður þarf að geta unnið og virkað skv. þeim leiðbeiningum um útfyllingu aðflutnings- og útflutningsskýrslu, sem er einkum að finna í liðum 2.1 og 2.2 hér framar. Eftirfarandi villuprófanir, a.m.k. þessar villuprófanir, og nýir lyklar þurfa að vera til staðar í tollskýrslugerðarhugbúnaði:

a) Tollskýrslugerð vegna innflutnings. Stofna þarf FKI lykilinn (vegna leyfi/vottorð, reitur 14) í viðkomandi skrá í hugbúnaðinum. Ennfremur getur FKI lykillinn komið í CUSDOR skeyti, beiðni um skjöl, sem Tollstjóri getur sent innflytjendum og tollmiðlurum er stunda EDI/SMT tollafgreiðslu við tollmeðferð EDI/SMT/VEF-aðflutningsskýrslna. Stofna þarf FKI lykilinn í viðkomandi skrá vegna móttöku og úrvinnslu CUSDOR skeyta.

a. Texti (heiti) með FKI lyklinum skal vera þannig: FKI Upprunasönnun skv. Kína Ísland fríverslunarsamningi.

b. Einnig þarf að stofna YL lykilinn, tegund tolls fyrir upprunavörur frá Kína, í viðkomandi skrá í hugbúnaðinum. Texti (heiti) með YL lyklinum skal vera þannig: YL Fríverslunarsamningur milli Kína (CN) og Íslands.

Villuprófun skal vera til staðar þannig að ef tegund tolls YL er valin og skráð í einhverri vörulínu (línu tollskrárnúmers) í aðflutningsskýrslu þá verði YL tegund tolls að vera til á tollskrárnúmeri, sbr. tollskrárlyklar frá Tollstjóra, og lykill upprunalands á vörulínu að vera CN, Kína. Ef svo er þá verði einnig FKI lykillinn að vera skráður í reit 14, leyfi/vottorð, ásamt tilvísun með lykli útfyllt (sé ekki auð), sbr. þá FKI upprunasönnun, sem fylgja verður viðkomandi vörusendingu. FKI lykill upprunasönnunar og EUR lykill upprunasönnunar getur ekki komið til í sömu vörusendingu, sömu aðflutningsskýrslu, við innflutning. Villuprófun skal vera til staðar þannig að ekki sé unnt að fylla út bæði FKI og EUR lykil í reit 14 í sömu aðflutningsskýrslunni. Ennfremur er mikilvægt að ef um smásendingu er að ræða, sbr. lið 2.1, d) hér framar að skráð sé nákvæmlega V600USD í tilvísunarsvæðið með FKI lyklinum. Aldrei má skrá orðið YFIRLÝS í tilvísunarsvæðið með FKI lykli (aðeins með EUR lyklinum þegar við á).

b) Tollskýrslugerð vegna útflutnings. Stofna þarf FKI lykilinn (vegna leyfi/vottorð, reitur 44) í viðkomandi skrá í hugbúnaðinum. Ennfremur getur FKI lykillinn komið í CUSDOR skeyti, beiðni um skjöl, sem Tollstjóri getur sent útflytjendum og tollmiðlurum er stunda EDI/SMT tollafgreiðslu við tollmeðferð EDI/SMT/VEF-útflutningsskýrslna. Stofna þarf FKI lykilinn í viðkomandi skrá vegna móttöku og úrvinnslu CUSDOR skeyta.

a. Texti (heiti) með FKI lyklinum skal vera þannig: FKI Upprunasönnun skv. Kína Ísland fríverslunarsamningi.

b. Einnig þarf að stofna lykilinn VUT, lykill vegna tilvísunar í einkvæmt leyfisnúmer sem Tollstjóri úthlutar viðurkenndum útflytjanda. VUT lykilinn skal stofna í sömu skrá og FKI lykillinn er í. Texti (heiti) með VUT lyklinum skal vera þannig: VUT Leyfisnúmer viðurkennds útflytjanda.

Með vísan til útflutningsskýrslu, ebl. E2. Villuprófun skal vera til staðar þannig að ef í reit 17, ákvörðunarland, er skráður CN lykill, landalykill Kína, og í reit 34a, upprunaland, skráður IS lykill, landalykill Íslands eða CN, landalykill Kína, þá sé minnt á það við tollskýrslugerðina hvort FKI upprunasönnun fylgi vörusendingunni og vísað sé þá til hennar og hún skráð í reit 44, leyfi/vottorð, í viðkomandi vörulínu í skýrslunni ásamt viðeigandi tilvísun með FKI lykli (tilvísun sé ekki auð), sbr. nánar um þá skráningu í lið 2.2, d), hér framar. Til að tryggja að þegar um viðurkenndan útflytjanda er að ræða, að þá sé rétt leyfisnúmer viðurkennds útflytjanda skráð með VUT lyklinum, að þá sé leyfisnúmerið forskráð með VUT lyklinum í hugbúnaði þannig að þegar viðurkenndur útflytjandi skráir VUT lykilinn í reit 44 þá fylgi með leyfisnúmer hans sem sjálfgildi í tilvísunarsvæðið með VUT lyklinum. Önnur villuprófun: Þegar ákvörðunarland í reit 17 er CN, Kína, þá sé EX lykillinn skráður í reit 1 í skýrslunni. FKI lykill upprunasönnunar og EUR lykill upprunasönnunar getur ekki komið til í sömu vörusendingu, sömu útflutningsskýrslu, við útflutning. Villuprófun skal vera til staðar þannig að ekki sé unnt að fylla út bæði FKI og EUR lykil í reit 44 í sömu útflutningsskýrslunni. Ennfremur er mikilvægt að ef um smásendingu er að ræða, sbr. lið 2.2, d), c., hér framar að skráð sé nákvæmlega V600USD í tilvísunarsvæðið með FKI lyklinum. Aldrei má skrá orðið YFIRLÝSING í tilvísunarsvæðið með FKI lykli (aðeins með EUR lyklinum þegar við á).

Ítarefni

Nánari upplýsingar

Í VEF-tollskránni á vef Tollstjóra er unnt frá og með 1. júlí 2014 að sjá hvort YL tegund tolls, tollfríðindameðferð skv. Kína-Ísland fríverslunarsamningnum, er valkostur á tollskrárnúmeri.

Tilkynning um fríverslunarsamning við Kína (pdf skjal)

Listi yfir viðurkennda útflytjendur til Kína, pdf skjal - (84 kb.)

Eyðublöð

E-25 - Umsókn um leyfi sem viðurkenndur útflytjandi, pdf skjal - (1376 kb.)


Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum