Launatekjur og hlunnindi

Allar launagreiðslur teljast til skattskyldra tekna, þ.m.t. reiknuð laun vegna vinnu við eigin rekstur. Auk beinna launagreiðslna á það við um hvers konar starfstengdar greiðslur, hlunnindi og fríðindi og skiptir ekki máli hvernig greiðsla fer fram. Á þessar tekjur er lagður tekjuskattur og útsvar eftir almennum reglum.

Hvenær telja á til tekna

Vinnulaun

Til vinnulauna teljast allar tegundir launa eða þóknana, greidd eða ógreidd, sem launþegi fær fyrir starf sem hann innir af hendi á ábyrgð launagreiðanda. Til vinnulauna teljast t.d. ákvæðislaun, biðlaun, nefndarlaun, stjórnarlaun, launabætur, staðaruppbót, fæðispeningar, fæðingarorlof, orlofsfé og greiðslur fyrir ótekið orlof. Enn fremur verkfæragjald eða verkfærapeningar, fatapeningar, flutningspeningar eða greiðsla fargjalda milli heimilis og vinnustaðar, hvort sem framangreindar greiðslur eru reiknaðar sem hundraðshluti launa eða á annan hátt. Eftirlaun sem greidd eru frá vinnuveitanda teljast til vinnulauna.

Ógreidd laun

Launatekjur erlendis

Laun frá alþjóðastofnunum

Staðaruppbót

Laun í námsleyfi

Hlunnindi

Telja ber til skattskyldra tekna hvers konar gæði sem mönnum hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir þá ekki máli hvaðan þau stafa eða í hvaða formi þau eru. Á það t.d. við um fatnað, fæði, húsnæði, hvers konar fríðindi, greiðslur í vörum eða afurðum, svo og framlög og gjafir sé verðmætið hærra en almennt gerist um tækifærisgjafir.

Öll hlunnindi og fríðindi sem launagreiðandi lætur starfsmanni í té til einkaþarfa eru lögð að jöfnu við laun til viðkomandi og ber að telja til tekna miðað við markaðsverð eða gangverð, nema um þau gildi sérstakt matsverð samkvæmt árlegu skattmati ríkisskattstjóra.  

Ef hlunnindi, eða annað sem telja ber til tekna, er látið af hendi gegn greiðslu sem er lægri en skattmatið eða gangverðið skal telja mismuninn til tekna.

Bifreiðahlunnindi

Önnur vélknúin ökutæki - flugvélar

Fatahlunnindi

Fæðishlunnindi

Húsnæðishlunnindi

Kaupréttur á hlutabréfum

Sérstakar reglur gilda um skattalega meðferð tekna vegna kaupa á hlutabréfum samkvæmt kauprétti sem maður hefur öðlast vegna starfa fyrir annan aðila. Meginreglan er sú að líta skal á mismun gangverðs og söluverðs sem starfstengda launagreiðslu sem sætir sömu skattalegu meðferð og aðrar launagreiðslur.

Þegar kaupréttur hlutabréfa er nýttur ber launagreiðanda að greiða tryggingagjald af mismun á gangverði og söluverði bréfanna, en ekki er dregin staðgreiðsla opinberra gjalda af launafjárhæðinni. Launagreiðanda ber einnig að gera grein fyrir þessum viðskiptum, dagsetningu, nafnverði og kaupverði bréfanna ásamt fjárhæð tekna kaupréttarhafa, í gagnaskilum sínum árið eftir að kauprétturinn var nýttur.

Einstaklingur sem nýtt hefur sér kauprétt á hlutabréfum, án þess að selja þau aftur á sama ári, færir bréfin til eignar í skattframtali sínu. Þær tekjur sem reiknast af þessum viðskiptum, þ.e. mismunurinn á gangverði og því verði sem kaupréttarhafinn greiddi fyrir bréfin, eru ekki skattlagðar strax heldur þegar eigendaskipti verða á bréfunum. Samkvæmt því er við þessar aðstæður áhvílandi skattkvöð á hlutabréfunum sem færist milli ára þar til eigendaskipti verða á bréfunum.

Ef hlutabréf eru ekki skráð í kauphöll og engin viðskipti hafa verið með bréf er myndað hefur gangverð í viðskiptum, skal miða við bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi eða árshlutareikningi viðkomandi félags.

Kaupréttaráætlun

Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum skulu tekjur af hlutabréfum sem keypt eru samkvæmt kauprétti teljast til fjármagnstekna á því tímamarki sem bréfin eru seld. Þessi undantekning á einungis við kaup að tiltekinni fjárhæð sem ákvörðuð er í lögum (við álagningu 2021 er þessi fjárhæð 1.500.000 kr. en var áður 600.000 kr.).

Félag sem hefur í hyggju að veita starfsmönnum kauprétt þarf að senda ríkisskattstjóra fyrirfram kaupréttaráætlun til staðfestingar. Ríkisskattstjóri hefur sett reglur í þessum efnum þar sem fram kemur m.a. að sérhverju félagi beri að setja um kaupréttinn reglur sem nái til allra starfsmanna þeirra og eftir atvikum allra starfsmanna félaga í sömu félagasamstæðu. Fram þarf að koma hvernig félagið hyggst kynna starfsmönnum sínum rétt þann er þeir eiga samkvæmt áætluninni og þau skilyrði sem sett eru, ef einhver eru.

Þessi sérregla um skattlagningu á kauprétti gildir einungis um starfsmenn sem verið hafa í föstu starfi hjá félaginu eða öðru félagi í sömu félagasamstæðu. Verktakar hjá félaginu eða stjórnarmenn þess teljast ekki starfsmenn félagsins í þessu sambandi. Að lágmarki 12 mánuðir þurfi að líða frá gerð samnings um kauprétt þar til hann er nýttur. Kaupréttarsamningur telst kominn á þegar fyrir liggja bæði skuldbinding félagsins um kauprétt starfsmanna og staðfesting viðkomandi starfsmanns á samningnum. Kaupverð má ekki vera lægra en vegið meðalverð í viðskiptum með hluti/hlutabréf í félagi tíu heila viðskiptadaga fyrir samningsdag ef slík viðskipti hafa verið skráð í kauphöll. Ef slík skráning hefur ekki átt sér stað skal miða við gangverð í viðskiptum annars bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi eða árshlutareikningi.

Starfsmaður þarf að eiga hlutabréfin eða hlutina í tvö ár eftir að kaupréttur er nýttur. Ef misbrestur verður á þessu ber að skattleggja tekjurnar samkvæmt meginreglunni um að telja tekjurnar til launatekna.

Samningur um kauprétt er ekki framseljanlegur og tilgreina þarf í honum að ekki sé heimilt að veðsetja hann eða framselja með öðrum hætti.

Tekjur samkvæmt kaupréttaráætlun sem uppfyllir ofangreind skilyrði koma til skattlagningar þegar starfsmaður selur hlutabréfin.

Ítarefni

Hvar eru reglurnar?

Annað