Skattfrádráttur vegna hlutabréfakaupa

Heimilt er við tilteknar aðstæður og að uppfylltum ýmsum skilyrðum að draga frá tekjuskatts- og/eða fjármagnstekjuskattsstofni einstaklinga hluta af fjárhæð sem varið er til kaupa á hlutabréfum (í hlutafjáraukningu) í hlutafélögum sem fengið hafa staðfestingu ríkisskattstjóra þar um. Þau skilyrði sem um ræðir snúa bæði að viðkomandi félagi sem fjárfest er í og þeim einstaklingi sem óskar eftir hlutabréfafrádrætti.

Skilyrði sem hlutafélag þarf að uppfylla

Til þess að hlutabréfafrádráttur komi til álita hjá einstaklingi þarf að vera um að ræða fjárfestingu í hlutafjáraukningu í félagi sem uppfyllir tiltekin skilyrði. Viðkomandi félag þarf að sækja um staðfestingu á því til ríkisskattstjóra að öll skilyrði séu uppfyllt áður en farið er í tiltekna hlutafjáraukningu. Þetta er gert á eyðublaðinu RSK 2.30 (fyrst um sinn er eyðublaðið eingöngu til á pappír en verið er að vinna í því að gera það rafrænt). Senda þarf inn umsókn fyrir hverja hlutafjáraukningu sem félag hyggst fara í. Heimild einstaklinga til að nýta skattfrádrátt er bundin við þá hlutafjáraukningu sem hefur verið samþykkt.

Sé hlutafjáraukning sem farið er í ekki í samræmi við fjárhæð hlutafjáraukningar í umsókn, þarf að sækja um að nýju vegna frekari hlutafjáraukningar.

Skilyrðin eru:

 • Félagið sé stofnsett á Íslandi eða innan annars EES-ríkis, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, eða í Færeyjum, og með fasta starfsstöð á Íslandi.
 • Ekki fleiri en 25 starfsmenn starfi hjá félaginu og árleg velta þess sé undir 650 milljónum kr. og/eða efnahagsreikningur sé undir 650 milljónum kr. Ef félag er hluti af félagasamstæðu skal miða við samstæðuna í heild á grundvelli samstæðureiknings.
 • Greiðslu alls hlutafjár vegna stofnunar viðkomandi félags þarf að vera lokið.
 • Félagið hafi ekki verið skráð á skipulegan markað.
 • Félagið hafi ekki, þegar hlutafjáraukning á sér stað, verið starfandi á markaði lengur en sjö ár frá fyrstu sölu þess í viðskiptalegum tilgangi.
 • Félagið sé rekið í hagnaðarskyni.
 • Félagið eigi ekki í fjárhagsvanda. Félag telst eiga í fjárhagsvanda ef a.m.k. eitt af skilyrðum sem fram koma í reglugerð nr. 785/2016, um skattafslátt manna vegna hlutabréfakaupa, er uppfyllt.
 • Íslenska ríkið eigi ekki útistandandi endurgreiðslukröfu á félagið vegna ólögmætrar ríkisaðstoðar.
 • Félagið hafi sent ríkisskattstjóra ársreikning sinn, sem gerður hefur verið í samræmi við lög um ársreikninga, fyrir næstliðið reikningsár.
 • Félagið sýni fram á að andvirði hlutafjáraukningar sem um ræðir verði ráðstafað í þágu viðskiptastarfsemi þess. Ef félagið hefur ekki hafið viðskiptastarfsemi ber að nota að lágmarki 30% af andvirðinu til rannsókna eða þróunar á viðskiptastarfsemi sem hefjast skal innan tveggja ára frá skráningardegi hlutafjáraukningarinnar.
 • Hlutafjáraukning í félagi getur að hámarki numið 2.000 milljónum kr. Ef félag er hluti af félagasamstæðu nær hámarkið til samstæðunnar.
 • Áður en hlutafjáraukning fer fram og árlega eftir það (skilyrðið um "árlega eftir það" féll niður frá og með 1. janúar 2019) skal félag fá staðfestingu ríkisskattstjóra á því að öll skilyrði séu uppfyllt. Sækja skal um staðfestinguna á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður (RSK 2.30) og getur hann krafið félagið um öll nauðsynleg gögn vegna hennar. Óska þarf staðfestingar fyrir hverja hlutafjáraukningu. Ríkisskattstjóri skal halda sérstaka skrá yfir þau félög sem hljóta staðfestingu samkvæmt ákvæði þessu og birta á vefsvæði sínu. Synjun á staðfestingu til félags má skjóta til yfirskattanefndar.
 • Félagið skal skila lista til ríkisskattstjóra yfir þátttakendur í hlutafjáraukningunni og sjá til þess að aukningin sé skráð í hlutafélagaskrá. Listanum skal skila samhliða öðrum gagnaskilum í janúar.

Starfsemi félags sem fellur ekki undir hlutabréfafrádrátt

 • starfsemi sem felst í viðskiptum með fasteignir,
 • starfsemi sem felst í útleigu fasteigna eða lausafjár,
 • starfsemi eignarhaldsfélaga,
 • starfsemi fjárfestingarfélaga,
 • starfsemi eftirlitsskyldra aðila skv. 5. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999,
 • starfsemi sem felst í útseldri þjónustu og ráðgjöf sérfræðinga,
 • starfsemi sem felst í kvikmyndaframleiðslu,
 • starfsemi sem felst í mannvirkjagerð og hvers kyns viðhaldi og endurbótum á mannvirkjum,
 • starfsemi tengd fjárfestingu og/eða rekstri hótela, gistiheimila og veitingastaða,
 • starfsemi sem felst í útflutningi og innflutningi vara sem framleiddar eru og þróaðar af öðrum,
 • starfsemi sem felst í hvers kyns námuvinnslu.

Einstaklingur sem óskar eftir hlutabréfafrádrætti

Einstaklingur sem óskar eftir hlutabréfafrádrætti þarf að uppfylla ákveðin skilyrði og reglur:

 • Kaup á hlutabréfum þurfa að vera í hlutafjáraukningu í félagi sem fengið hefur staðfestingu ríkisskattstjóra á að öll skilyrði sem snúa að félaginu séu uppfyllt. Síðari kaup þ.e. endurkaup á hlutabréfum úr hlutafjáraukningu skapa ekki rétt til hlutabréfafrádráttar.
 • Frádráttarheimildin gildir um fjárfestingu á þremur almanaksárum, þ.e. 2016, 2017 og 2018. Frádráttur er ákvarðaður í skattframtölum 2017, 2018 og 2019. (Frádráttarheimildin hefur síðan verið framlengd og gildir vegna fjárfestingar til og með ársins 2024, þ.e. við álagningu 2025).
 • Frádráttur getur numið allt að 50% af fjárfestingu í hlutafjáraukningu í félögum sem hafa verið staðfest. Þó getur frádrátturinn numið allt að 75% af fjárfestingu í hlutafjáraukningu á almanaksárunum 2020 til og með 2024.
 • Frádráttur reiknast frá tekjuskattsstofni og/eða fjármagnstekjuskattsstofni.
 • Fjárfesting einstaklings í hverju félagi verður að nema að lágmarki 300.000 kr.
 • Hámarksfrádráttarheimild vegna fjárfestingar er 10.000.000 kr. hjá einstaklingi. Hámarksfrádráttur er 5.000.000 kr. hjá einstaklingi (tvöfalt hjá hjónum). Á almanaksárunum 2020 til og með 2024 (álagningarárunum 2021 til 2025) er frádráttarheimildin þó að hámarki 15.000.000 kr. hjá einstaklingi og hámarksfrádráttur 11.250.000 kr. (tvöfalt hjá hjónum).
 • Sýna þarf fram á að fjárfestingin sé að fullu greidd.
 • Einstaklingur sem óskar eftir frádrætti þarf að vera á lista sem viðkomandi félagi ber að skila til ríkisskattstjóra yfir þá sem keypt hafa í hlutafjáraukningu í félaginu. Hlutafjáraukningin þarf að vera skráð í hlutafélagaskrá.
 • Í tvö ár fyrir og þrjú ár eftir (skilyrðið um þrjú ár á eftir féll niður frá og með 1. janúar 2019) skráða hlutafjáraukningu má einstaklingur (framteljandi) ekki vera tengdur viðkomandi félagi né félagasamstæðum þess á eftirfarandi hátt:
 1. Á grundvelli fjárhagslegra hagsmuna tengdum félaginu eða ef einstaklingur á eða mun eiga rétt á, með beinum eða óbeinum hætti, meira en 30% eignarhlutdeild í félaginu eða atkvæðarétti þess.
 2. Einstaklingur telst jafnframt vera tengdur félaginu ef viðskipti hans við félagið vegna hlutafjáraukningarinnar eru ekki sambærileg því sem almennt gerist í viðskiptum milli ótengdra aðila.
 3. Einstaklingur telst vera tengdur aðili ef hann er beint eða óbeint stjórnarmeðlimur eða starfsmaður félagsins, eða annars félags sem á beint eða óbeint eignarhlutdeild í félaginu, eða er tengdur slíkum aðila sifjaréttarlegum tengslum eða viðskiptalegum tengslum. (Þetta skilyrði féll niður frá og með 1. janúar 2019).
 • Einstaklingur þarf að eiga þau hlutabréf sem voru grundvöllur frádráttar í þrjú ár. Ef bréfin eru seld innan þriggja ára frá því fjárfestingin átti sér stað, verður upphaflegi frádrátturinn bakfærður með 15% álagi á söluári bréfanna.
 • Taki einstaklingur upp tengsl við viðkomandi félag innan þriggja ára frá skráðri hlutafjáraukningu, eða félagið sjálft eða starfsemi þess uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir frádrætti verður fenginn frádráttur bakfærður með 15% álagi. (Þetta skilyrði var hefur verið fellt brott frá og með 1. janúar 2019).

Félög sem hlotið hafa staðfestingu

Ríkisskattstjóri hefur veitt eftirfarandi félögum staðfestingu á því að kaup á hlutabréfum í hlutafjáraukningu þeirra geti veitt einstaklingum rétt á skattfrádrætti.

Skattfrádráttur heimilast einungis vegna þeirrar hlutafjáraukningar sem fer fram í kjölfar staðfestingar ríkisskattstjóra en ekki frekari hlutafjáraukningar.


 FélagKennitala Samþykkt Athugasemdir 
KoPrA ehf.591216-1200 27.12.2016
25.04.2017
 
Solid Clouds ehf. 600913-2550 20.12.2016
16.3.2017
18.3.2019
26.8.2020
31.5.2021
 
1939 Games ehf. 710815-2830 30.12.2016 
Spectaflow ehf. 650615-0260 12.6.2017
11.8.2018
22.9.2020
Hét áður Inspirally ehf. og þar áður Vizido ehf. 
Media ehf. 580913-1130 20.12.2017 
minester ehf.611217-0990 1.6.2018 
Klappir Grænar lausnir ehf.630914-1080 18.3.2019 
EpiEndo Pharmaceuticals ehf. 640114-0100 12.4.2019
23.8.2022
 
Gefn ehf.
540610-1770
19.8.2019
0101 ehf.
540918-0660
17.9.2019
30.11.2020
 
Myrkur Games ehf.
550916-0450
29.10.2019
22.3.2021

KOT hugbúnaður ehf.
440220-1340
16.4.2020
Laki Power ehf.
440914-0630
26.6.2020 
Expluria ehf.
600519-1070
19.8.2020 
Lumina Medical Solutions ehf.521016-2130 16.10.2020
Yay ehf.
671218-0940
16.12.2020 
Snjallgögn ehf.650518-160020.4.2021 
Mussila ehf.600215-167021.4.2021 
Evolytes ehf.600617-1250 16.6.2021 
Dropp ehf.
580619-1260
9.9.2021 
Neckcare Holding ehf.551117-15402.11.2021 
Smart Software ehf.560620-0200 12.4.2022  
Ecosophy ehf. 580821-1700 12.4.2022 
Miðgarðar flatey ehf.700522-1130 21.6.2022 
Galdur Brugghús ehf. 680421-0210 12.9.2022  
Pikkoló ehf. 441220-0810 18.10.2022  


Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar

Hlutabréfafrádráttur - lög nr. 79/2016

Reglugerð um skattafslátt manna vegna hlutabréfakaupa - reglugerð nr. 785/2016

Hlutabréfafrádráttur, bráðabirgðaákvæði - lög nr. 37/2020


Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum