Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 007/2011

12.4.2011

[Vaxtatekjur]* við uppgjör á slysabótum - fjármagnstekjuskattur

12. apríl 2011
T-Ákv. 11-007

Ríkisskattstjóri vísar til fyrirspurnar yðar, dags. 21. febrúar 2011 varðandi afdrátt fjármagnstekjuskatts vegna vaxtatekna við uppgjör slysabóta þegar vextir „[eru] frá fyrri tíma, jafnvel mörgum árum á undan.“ Fram kemur að þegar mál hafi verið keyrð í gegnum Innheimtukerfi lögmanna sé vandamálið við uppgjörið ekkert, en nýlega hafi uppgötvast mistök við uppgjör við innheimtu slysabóta sem ekki fór í gegnum innheimtukerfið og fjármagnstekjuskattur verið ofgreiddur, þar sem miðað hefði verið við það skatthlutfall sem var í gildi við uppgjör þótt vextir hafi verið frá fyrri tíma, jafnvel mörgum árum áður. Í þessu sambandi eru settar fram eftirfarandi spurningar:

  1. Hvernig á ég að leiðrétta gagnvart skattinum oftekinn fjármagnstekjuskatt hjá þessu fólki, þannig að það geti fengið ofgreiddan skatt endurgreiddan.
  2. Hvernig á ég að standa að skilagreinum til skattayfirvalda á fjármagnstekjuskatti svo tryggja megi við álagningu skatta hjá þeim sem innheimt er fyrir að ekki verði notuð röng prósentutala á eldri fjármagnstekjur, sem innheimtar eru mörgum árum eftir að þær falla til.

Þá er óskað eftir afstöðu embættisins á því hvort halda beri eftir fjármagnstekjuskatti af vöxtum sem lagðir séu á örorkubætur.

Í tilefni af fyrirspurn yðar tekur ríkisskattstjóri eftirfarandi fram:

Grundvöllur bóta vegna líkamstjóns í kjölfar slysa er ýmist almennar reglur skaðabótaréttar eða réttur til tryggingabóta. Tryggingabætur styðjast annað hvort við sett lög eða samning. Má þar helst nefna lög um almannatryggingar nr. 100/2007 og vátryggingarsamninga. Um ákvörðun bóta vegna líkamstjóns sem hvíla á reglum skaðabótaréttar gilda skaðabótalög nr. 50/1993. Eingöngu er vikið að ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 í eftirfarandi umfjöllun hvað varðar ákvörðun bóta vegna líkamstjóns eftir slys sem og ákvörðunar bóta vegna varanlegrar örorku.

Í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, kemur fram að til tekna teljist vextir af kröfum eða inneignum, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, sem greiddir eru eða eru greiðslukræfir og greiddar verðbætur á afborganir og vexti. Í sjö töluliðum er að finna nánari afmörkun á því hvenær telja beri vaxtatekjur til tekna og kemur þar fram í 2. tölul. að vextir af kröfu skuli teljast til tekna þegar þeir eru greiddir eða greiðslukræfir. Samkvæmt framansögðu er þannig ekki miðað við áfallna vexti við tekjufærslu heldur hvort þeir hafi verið greiddir eða greiðslukræfir.

Sérstök sjónarmið eiga þó við um vexti sem skattskyldir voru á árinu 2009, þ.e. greiddir eða greiðslukræfir á því ári, sem helgaðist af sérstakri viðbót á skattþrep fjármagnstekjuskatts frá 1. júlí, þ.e. 5% til viðbótar, en um ákvörðun skattþreps réði úrslitum á hvoru tímabili ársins vextirnir féllu til, sbr. ákvæði til bráðabirgða III laga nr. 70/2009, um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Um vexti af bótum vegna líkamstjóns er fjallað í 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í 1. mgr. þeirrar lagagreinar segir að bætur fyrir þjáningar, varanlegan miska, tímabundið atvinnutjón og missi framfæranda beri vexti frá því að tjón varð. Bætur fyrir varanlega örorku bera vexti frá upphafsdegi metinnar örorku skv. 5. gr. Þá segir að vextirnir skuli nema 4,5% á ári. Vaxtaútreikningur þessi er ákveðin aðferð sem fram fer við uppgjör bótanna sem oft er einhverjum tíma, jafnvel árum, eftir að bótaskylt atvik átti sér stað, þegar forsendur til útreiknings bótanna liggja fyrir. Fram til þessa uppgjörs þegar tekin er afstaða til þess hversu ríkan bótarétt kröfuhafi á, er um að ræða óvissar tekjur. Í þessu sambandi er rétt að vísa til þeirrar meginreglu sem er að finna í 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem kveður á um það hvenær telja beri tekjur til tekna. Í ákvæðinu segir að tekjur skuli að jafnaði telja til tekna á því ári sem þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur sé að ræða.

Þrátt fyrir að þáttur í uppgjöri bótanna sé ákveðinn vaxtaútreikningur þar sem vextir eru reiknaðir frá því að bótaskyldur atburður átti sér stað verður vart talið að þeir vextir hafi fallið til á umræddum árum, þegar alls var óvíst um höfuðstól kröfunnar, hvað þá að vextirnir hafi verið greiddir eða greiðslukræfir í skilningi 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003. Verður því ekki fallist á að við afdrátt og skil á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts skuli miða við það skatthlutfall sem var í gildi á hverjum tíma á því tímabili sem vaxtaútreikningur miðast við samkvæmt framansögðu. Verður þó helst ráðið af fyrirspurninni að út frá því sé gengið.

Ef sú staða kemur upp að afdregin staðgreiðsla hafi í raun verið röng er unnt að koma að leiðréttingu með því að skila inn leiðréttri skilagrein þar sem m.a. kemur fram hvaða tímabili staðgreiðslan tilheyrir.

Hvað síðari spurningu fyrirspyrjanda varðar er lýtur að staðgreiðslu skatts á vaxtatekjur skal tekið fram að líkt og fram hefur komið teljast vextir þessar til tekna þegar þeir eru greiddir eða greiðslukræfir og skal miða afdrátt skatta við það skatthlutfall sem í gildi er á þeim tíma.

Skal þá vikið að því álitaefni hvort vextir af varanlegri örorku séu undanþegnir skattskyldu. Til skattskyldra tekna samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, teljast m.a. tryggingabætur, meðlög og styrkir svo og skaðabætur og vátryggingafé vegna sjúkdóma, slysa, atvinnutaps eða launamissis og hvers konar aðrar skaðabætur og vátryggingabætur. Samkvæmt framansögðu teljast örorkubætur almennt til skattskyldra tekna. Undantekningar frá skattskyldu samkvæmt framansögðu er að finna í 2. tölul. 28. gr. sömu laga. Í fyrsta málslið þess ákvæðis segir að ekki teljist til tekna eignaauki sem verður vegna greiðslu líftryggingafjár, dánarbóta, miskabóta og bóta fyrir varanlega örorku, enda séu bætur þessar ákveðnar einu lagi til greiðslu. Eins og fyrirspurnin er sett fram verður ráðið að hún lúti að örorkubótum sem falla undir framangreint undanþáguákvæði 2. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003.

Um ákvörðun bóta fyrir líkamstjón samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993, er fjallað í I. kafla þeirra laga. Í 6. gr. laganna er fjallað um það hvernig meta skuli bætur fyrir varanlega örorku til fjárhæðar á grundvelli örorkustigs tjónþola. Er þar litið til örorkustigs, árslauna og stuðla sem breytilegir eru eftir aldri tjónþola á þeim tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Núgildandi ákvæði 6. gr. var tekið upp í lögin með 5. gr. laga nr. 37/1999. Í athugasemdum við ákvæði 5. gr. í frumvarpi því er varð að síðastgreindum lögum kemur fram að við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku sé miðað við að tjónþoli nái að ávaxta höfuðstólinn um 4,5% á ári (3% að 18 ára aldri) og vextirnir auk höfuðstólsins standi undir því að greiða bætur í samræmi við metið tjón. Þá er tekið fram að sá hluti bótanna sem er í formi vaxtatekna í framtíðinni sé ekki skattfrjáls eins og höfuðstóllinn.

Eðli málsins samkvæmt fer uppgjör bóta vegna varanlegrar örorku fram einhverjum tíma eftir upphafsdag metinnar örorku. Er bótaþega því ekki kleift að ávaxta höfuðstólinn frá framangreindum upphafsdegi metinnar örorku fram til þess dags er sjálft uppgjörið fer fram þótt gengið sé út frá slíkri ávöxtun við ákvörðun höfuðstóls. Í ljósi þessa verður að gera ráð fyrir að með ákvörðun vaxtagreiðslna sé verið að taka tillit til þess tímabils sem líður frá upphafsdegi metinnar örorku fram að uppgjörsdegi, sbr. 16. gr. laga nr. 50/1993. Að mati ríkisskattstjóra markar sá höfuðstóll, sem ber vexti samkvæmt framansögðu, þær bætur vegna varanlegrar örorku sem undanþegin er skattskyldu skv. 2. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003. Vextirnir teljast til skattskyldra tekna samkvæmt 3. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, og skattleggjast sem slíkir.

Ríkisskattstjóri.

* Leiðrétting vegna misritunar.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum