Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 004/2005

20.9.2005

Ákvörðun bifreiðahlunninda þegar bifreið er sameign launþega og

20. september 2005
T-Ákv. 05-004

Ríkisskattstjóri móttók þann 21. febrúar 2005 fyrirspurn yðar um ákvörðun bifreiðahlunninda. Í bréfi yðar er rakið að á yðar vegum starfi hlutafélag sem annist rekstur, útleigu og viðhald nokkurra fasteigna. Starfsmaður félagsins hafi um árabil nýtt eigin bifreið við daglega umsjón með fasteignunum og hafi hann fengið greiddan bifreiðastyrk. Í ljósi þess að umsvif fyrirtækisins hafi aukist kemur fram að þér hafið í hyggju að breyta umræddu fyrirkomulagi. Spyrjið þér hvernig háttað yrði ákvörðun bifreiðahlunninda ef vinnuveitandinn og starfsmaðurinn keyptu saman bifreið sem starfsmaðurinn myndi nýta bæði til einkanota og í störfum fyrir vinnuveitandann. Er í fyrirspurninni miðað við að starfsmaðurinn greiði helming innkaupsverðs á móti vinnuveitandanum og að rekstrarkostnaði bifreiðarinnar sé skipt í sömu hlutföllum.

Í 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, er mælt fyrir um skattskyldu endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Eru í ákvæðinu nefnd í dæmaskyni ýmis konar laun svo og

fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki.

Tekið er fram að hvorki skipti máli

hver tekur við greiðslu né í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum.

Samkvæmt þessu teljast ekki einungis beinar fjárgreiðslur til skattskyldra tekna sem laun fyrir vinnu, heldur einnig hvers konar fríðindi og hlunnindi sem launamenn njóta í starfi. Undir skattskyld hlunnindi launamanna samkvæmt ákvæði þessu falla endurgjaldslaus afnot launamanns af bifreið í eigu atvinnurekanda, svonefnd bifreiðahlunnindi. Af eðli hlunninda leiðir að meta verður þau til verðs. Samkvæmt 118. gr. laga nr. 90/2003, skal fjármálaráðherra að fengnum tillögum ríkisskattstjóra gefa út reglur í upphafi árs um mat á hlunnindum, sbr. 7. gr. og öðrum tekjum og frádrætti sem meta þarf til verðs samkvæmt lögum þessum. Fjármálaráðherra gaf út reglur um skattmat vegna tekna manna tekjuárið 2005 þann 6. janúar 2005 og voru þær birtar í B-deild Stjórnartíðinda sem auglýsing nr. 32/2005.

Í framangreindum reglum um skattmat segir í 1. kafla að þau gæði og hlunnindi, sem ekki hafi verið í krónum talin, skuli meta til peningaverðs og telja þau til tekna á því verði. Skuli þau metin til tekna á gangverði eða markaðsverði á hverjum tíma nema við þau eigi sérstakt tekjumat, sbr. kafla 2. Í kafla 2 í reglum um skattmat er fjallað um ýmis starfstengd hlunnindi og kemur fram að allur viðurgjörningur launagreiðanda við starfsmenn í öðru en reiðufé sé lagður að jöfnu við laun til þeirra og beri að telja til tekna. Með viðurgjörningi við starfsmenn sé átt við fríðindi tengd starfinu, sem þeir njóti án þess að greiða fyrir það fullt verð, hvort sem um sé að ræða að launþeginn fái eitthvað til eignar, afnota, láns eða neyslu. Viðurgjörningur við starfsmenn teljist til tekna miðað við markaðsverð eða gangverð, þ.e. það verð sem það hefði kostað launþegann að kaupa, leigja eða greiða fyrir afnot af því sem féll til hans.

Fjallað er sérstaklega um mat á bifreiðahlunnindum í kafla 2.3. Kemur þar fram að láti launagreiðandi starfsmanni sínum í té fólksbifreið, þ.m.t. skutbifreið (station) og jeppabifreið, eða aðra bifreið sem hægt sé að hafa sambærileg not af, til fullra umráða skuli meta umráðin starfsmanni til tekna án tillits til notkunar hans á bifreiðinni. Ársumráð bifreiðar sem tekin var í notkun á árunum 2003, 2004 eða 2005, skuli metin til tekna sem 20% af verði bifreiðarinnar. Umráð eldri bifreiðar skulu metin til tekna sem 15% af verði hennar. Eins og segir í reglunum eru verð bifreiða í þessu sambandi skilgreind í bæklingnum Bifreiðaskrá RSK 6.03, sem gefinn er út árlega og fæst hjá skattstjórum og ríkisskattstjóra www.rsk.is. Sé verð bifreiðar ekki að finna þar skal það vera jafnt staðgreiðsluverði samkvæmt verðlista á nýrri samskonar bifreið frá bifreiðaumboði. Greiði launagreiðandi rekstrarkostnað bifreiðar sem starfsmaður hans hefur umráð yfir skulu þau hlunnindi metin til verðs sem 6% af verði bifreiðarinnar. Greiði launamaður launagreiðanda sínum fyrir afnot og/eða rekstur bifreiðarinnar koma slíkar greiðslur til frádráttar tekjumatinu. Hafi starfsmaður haft afnot af bifreið launagreiðanda síns og honum er einungis heimilt að nota hana utan vinnutíma til aksturs milli heimils og vinnustaðar og til einstakra tilfallandi afnota telst hann hafa takmörkuð afnot af bifreiðinni, enda sé hún að öðru leyti notuð í daglegum rekstri launagreiðanda. Sé um frekari afnot að ræða telst starfsmaður hafa full umráð bifreiðar.

Eins og sjá má af framangreindu fellur það tilvik sem borið er undir ríkisskattstjóra ekki að reglum um skattmat bifreiðahlunninda eins og þær eru settar fram í reglum fjármálaráðherra. Hins vegar liggur fyrir að um hlunnindi væri að ræða sem meta yrði til verðs. Ef starfsmaður er eigandi að helmingshlut í bifreið á móti launagreiðanda verður að ganga út frá því að hann hafi full og ótakmörkuð umráð af bifreiðinni. Eins og rakið hefur verið er ákveðið í reglum um skattmat hvernig meta á bifreiðahlunnindi þegar launagreiðandi lætur starfsmanni í té bifreið til fullra og ótakmarkaðra umráða og skulu þau hlunnindi metin sem 20% af verði bifreiðarinnar, sé um bifreið að ræða sem tekin var í notkun á árunum 2003, 2004 og 2005. Jafnframt kemur fram að greiði launagreiðandi rekstrarkostnað bifreiðar sem starfsmaður hans hefur umráð yfir skulu þau hlunnindi metin til verðs sem 6% af verði bifreiðarinnar skv. Bifreiðaskrá RSK. Líta verður svo á að í því tilviki sem spurt er um hefði starfsmaðurinn full og ótakmörkuð umráð yfir eignarhluta launagreiðandans í bifreiðinni og að launagreiðandi greiddi rekstrarkostnað þess hluta bifreiðarinnar. Litið yrði svo á að starfsmaðurinn bæri kostnað af sínum eignarhluta í bifreiðinni. Er það álit ríkisskattstjóra að rétt væri að meta bifreiðahlunnindi starfsmanns sem fengi til umráða eignarhlut launagreiðanda í bifreið í réttu hlutfalli við eignarhlutann eða í umræddu tilviki sem 26% af verði hálfrar bifreiðar.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum