Ákvarðandi bréf nr. 026/2000
Álagning tryggingagjalds og staðgreiðsluálag á
21. nóvember 2000 T-Ákv. 00-026 is 2000-11-0580
Tilefni þessa bréfs er nýlegur dómur Hæstaréttar Íslands frá 28.september 2000 í málinu; nr. 124/2000: Kristján Ólafsson gegn íslenska ríkinu og SÍF hf. til vara.
Í ofangreindu máli urðu lyktir máls í Hæstarétti þessar:
„Skattyfirvöld hafa viðurkennt að hann hafi auk þessa haft nokkurn frádráttarbæran kostnað af upphaldi sínu á meðan á Kamchatkaverkefninu stóð og hafa heimilað honum að draga 15% frá heildarfjárhæð greiddra dagpeninga. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að rétt hafi verið staðið að þeirri ákvörðun og hún verið málefnaleg í alla staði og í fullu samræmi við 1. tl. 1. mgr. A-liðs 30. gr. laganna um tekjuskatt og eignarskatt. Niðurstaða héraðsdóms um kröfur áfrýjanda gagnvart aðalstefnda er því staðfest.“
Tilvitnuð niðurstaða héraðsdóms var m.a. þessi:
„Enda þótt aðilar ráðningarsamnings nefni hluta greiðslna þeirra sem stefnandi skyldi fá frá viðsemjanda sínum dagpeninga og augljóslega sé miðað við að reglur ríkisskattstjóra um greiðslu dagpeninga kunni að taka til launþega samkvæmt samningi þessum bindur það skattyfirvöld á engan hátt við það að hér sé um greiðslur að ræða sem draga beri frá tekjum samkvæmt 31.(sic) gr. A laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Fram kemur í ákvæði 7. gr. ráðningarsamningsins, að Íslenskar sjávarafurðir hf. greiði útlagðan ferðakostnað utan Petropavlovsk, í 1. gr. að starfsvettvangur stefnanda skuli á Kamtschatka og í 6. gr. hans, að stefnanda hafi verið ætlað að þiggja meira en helming launa sinna sem tekjur sem undanþegnar væru skatti skv. 30. gr. 1. tl. A liðar laga nr. 75/1981. Engan veginn verður fallist á það með stefnanda að dagpeningar þeir sem hann skyldi fá greidda skv. 6. gr. ráðningarsamnings falli undir nefnda lagagrein en fallist er á það með aðalstefnda að í nefndu ákvæði sé átt við greiðslur fyrir tilfallandi ferðir til og frá vinnustað.“
Af ofangreindu má ljóst vera að það er ekki form hins einkaréttarlega gernings, sem ræður réttaráhrifum hans heldur raunverulegt innihald hans. Í umræddu tilviki var talið fullsannað að sá kostnaður, sem dagpeningagreiðslum er almennt ætlað að mæta, væri að mestu eða öllu leyti borinn uppi af vinnuveitanda stefnanda. Ljóst er því að, þegar dulinn kaupauki kemur fram, þá ber að færa þá fjárhæð til skattlagningar hjá launþeganum sem og vinnuveitanda hans eftir því sem lög standa til. Þykir rétt í þessu sambandi að minna á dóm Hæstaréttar frá 30. janúar 1997 í málinu nr. 3/1997: Vífilfell ehf. gegn Gjaldheimtunni í Reykjavík, en með dómi þessum var staðfestur úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur frá 9. desember 1996. Í úrskurði þessum reyndi m.a. á gjaldstofn launagreiðanda til tryggingagjalds vegna launauppbótar til starfsmanna, sem rekja mátti til viðskipta á bifreiðum undir markaðsverði.
Samkvæmt framansögðu þykir ljóst að kaupauki sá er starfsmenn Íslenskra sjávarafurða nutu í formi “dagpeninga” telst til skattskyldra tekna samkvæmt meginreglu upphafsmálsgreinar 7. gr., sbr. nánar 1. mgr. 1. tl. A-liðs tilvitnaðs lagaákvæðis og er því í samræmi við greinda niðurstöðu gjaldstofn til tryggingagjalds samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 113/1990 , en þar segir:
„Stofn til tryggingagjalds eru allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sem gjaldskyld eru skv. 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981. Ekki skiptir máli í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum, vöruúttekt eða vinnuskiptum.
Með vísan til framanritaðs er þeim tilmælum beint til skattstjóra að hlutast til með að færa þann mismun, sem verða kann á framtöldum launum og greiðslum umfram útlagðan kostnað svo sem háttar til í máli þessu (15%) eða hliðstæðum málum til hækkunar á tryggingagjaldi viðkomandi launagreiðanda.
Jafnframt er bent á að þau sjónarmið, er búa að baki skyldu skattstjóra til beitingar álags samkvæmt 28.gr. laga nr. 45/1987 með áorðnum breytingum, eiga auk þess við þegar svo háttar til að mismunur kemur fram á afdreginni staðgreiðslu og greiddum launum svo sem lýst er í tilvitnuðum dómum Hæstaréttar Íslands.
Ríkisskattstjóri.