Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 015/2000

3.4.2000

Tryggingagjald. Starfsmenn fá afhent hlutabréf í móðurfélagi á undirverði

3. apríl 2000 T-Ákv. 00-015 is 2000-02-0518

Vísað er til bréfs yðar, dags. 17. febrúar sl., þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á tryggingagjaldsskyldu þegar starfsmenn fá hlutabréf í móðurfélagi á undirverði. Í bréfi yðar vísið þér til auglýsingar sem ríkisskattstjóri birti í júní 1999, þar sem fram kom að líta ber á mismun á því verði sem starfsmenn hlutafélaga greiða fyrir hlutabréf annars vegar og gangverð sömu hlutabréfa á þeim tíma sem skattskyldar tekjur. Í tilvitnaðri auglýsingu kemur og fram að líta skuli á afhendingu af þessu tagi sem launagreiðslu sem myndi stofn til tryggingagjalds samkvæmt lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald. Í bréfi yðar kemur og fram það álit yðar að nærtækt sé að telja að sömu sjónarmið eigi við þegar gerðir eru svonefndir valréttarsamningar.

Í bréfi yðar getið þér um það, að nokkuð algengt sé að íslensk hlutafélög séu dótturfélög erlendra hlutafélaga. Kemur fram að í einhverjum tilvikum séu uppi hugmyndir um að bjóða starfsmönnum dótturfélaganna upp á valréttarsamninga gagnvart erlenda móðurfélaginu. Síðan segir í bréfi yðar:

„Þegar að því kemur að starfsmenn muni notfæra sér rétt sinn þá vaknar væntanlega/hugsanlega skattskylda hjá starfsmanninum. Varðandi tryggingagjaldið kann hins vegar að leika vafi, hvort það er erlenda móðurfélagið sem telst tryggingagjaldsskylt, hvort það er innlenda dótturfélagið sem er tryggingagjaldsskylt eða hvort ekki sé um tryggingagjaldsskyldu að ræða hér á landi.“

Óskað er afstöðu ríkisskattstjóra til þessa álitaefnis.

Gjaldstofn tryggingagjalds telst samkvæmt 6. gr. laga nr. 113/1990, vera allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sem skattskyld eru skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981. Ekki skiptir máli í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum, vöruúttekt eða vinnuskiptum. Í fyrirspurn þessari virðist gengið út frá því að hluti af starfskjörum felist í því að starfsmaður hjá dótturfélagi fái valrétt í hlutabréfum móðurfélags. Að mati ríkisskattstjóra teldist slíkur valréttur ótvírætt til launa í skilningi laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, enda hluti af samningi starfsmanns við launagreiðanda sinn um kjör. Samkvæmt 4. gr. laga nr. nr. 113/1990, um tryggingagjald, telst sá sem innir af hendi eða reiknar greiðslur sem teljast til launa samkvæmt lögunum vera gjaldskyldur aðili tryggingagjalds. Ríkisskattstjóri lítur svo á miðað við þá málavaxtalýsingu sem hér liggur fyrir, að þar sem að hið vinnuréttarlega samband sem liggur til grundvallar launagreiðslnanna er á milli starfsmanns og dótturfélagsins, myndi dótturfélagið teljast vera launagreiðandi og þar með gjaldskyldur aðili samkvæmt 4. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald.

Þegar móðurfélag gerir valréttarsamning við starfsmann dótturfélags um sölu til hans á hlutabréfum í móðurfélaginu, öðrum hlutafélögum eða afhendingu á öðrum verðmætum og samningurinn felur í sér gagnkvæma skuldbindingu milli dótturfélagsins og starfsmannsins t.d. um vinnuframlag er litið svo á að sömu reglur gildi og þegar samningurinn er á milli dótturfélagsins og starfsmannsins. Viðskiptin ber að færa í gegnum reikninga dótturfélagsins, þ.e. kaup á hlutabréfum í móðurfélaginu og afhendingu til starfsmannsins hvort tveggja á gagnverði á innlausnardegi.

Tekið skal fram að þetta svar ríkisskattstjóra telst ekki vera bindandi álit samkvæmt lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, og hefur því ekki í för með sér þau réttaráhrif sem kveðið er á um í þeim lögum.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum