Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 014/1999

14.10.1999

Fyrirspurn varðandi rekstrarleigusamninga(eignarleigusamninga).

14. október 1999 T-Ákv. 99-014 is 1999-10-0128

Óskað er eftir áliti RSK á eftirfarandi:

a) Hver er skattalegur mismunur á kaupleigu- og fjármögnunarleigusamningum um fólksbifreiðar (aðrar en leigubifreiðar) og jeppa, hjá skattskyldum aðilum. Eru leigugreiðslur að fullu frádráttarbærar frá tekjum af atvinnurekstri.

b) Er einstaklingi, sem er með fólksbifreið á rekstrarleigusamningi eða fjármögnunarleigusamningi, heimilt að færa leigugreiðslur af slíkum samningum til frádráttar, sem rekstrarkostnaði ökutækis, á móti mótteknum ökutækjastyrk?

c) Ber launagreiðanda sem lætur starfsmanni í té ótakmörkuð,endurgjaldslaus afnot af bifreið á rekstrarleigusamningi, að reikna starfsmanninum skattskyld hlunnindi af þeim afnotum, samkvæmt almennum reglum um bifreiðahlunnindi?

Þessum álitaefnum er svarað þannig:

a) Skattaleg meðferð kaupleigusamninga hjá leigutaka er önnur en skattaleg meðferð fjármögnunarleigusamninga, þar sem litið er á kaupleigusamninga eins og kaup á varanlegum rekstrarfjármunum sem ber að eignfæra og afskrifa skv. almennum reglum jafnframt því sem skuldbindingin að baki kaupleigusamningi er talin til skuldar hjá leigutaka. Kaupleigugreiðslur skiptast því upp í afborgun af skuldbindingunni og vexti af henni. Kaupleigugreiðslur teljast því ekki rekstrarkostnaður í skilningi 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignaskatt, nema að því er varðar vaxtalið kaupleigugreiðslnanna, sbr. skilgreiningu þessara hugtaka í lögum nr. 19/1989, um eignarleigustarfsemi, sbr. nú lög nr. 123/1993. Þar af leiðandi er kaupleigugreiðsla ekki færð á eyðublaðið RSK 4.09.

Þegar um er að ræða fólksbifreiðar, þ.m.t. jeppa og skutbifreiðar,sem teknar eru á rekstrarleigur eða fjármögnunarleigu og notaðar eru af leigutaka bæði við atvinnurekstur hans og til einkanota leyfist til útreiknings frádráttar í stað rekstrarleigugjaldsins eða fjármögnunarleigugjaldsins föst fjárhæð afskriftar eins og hún er ákveðin fyrir hvert ár, þ.e. 154.916 kr. fyrir tekjuárið 1998 (framtal 1999), sbr. eyðublaðið RSK 4.03, Rekstraryfirlit fólksbifreiðar. Þessa fjárhæð skal hlutfalla á milli einkanotkunar og notkunar vegna atvinnurekstrar eins og annan rekstrarkostnað bifreiðarinnar. Um leigusamninga um fólksbifreiðar sem bæði eru notaðar við atvinnurekstur leigutaka og til einkanota hans fer því eftir reglum þeim sem greinir á eyðublaði RSK 4.03.

b) Nei, Þegar einstaklingur sem er launþegi og er með fólksbifreið á rekstrarleigusamningi eða fjármögnunarleigusamningi, og notar bifreiðina í þágu vinnuveitanda síns, er honum ekki heimilt að færa leigugreiðslur af slíkum samningum sem rekstrarkostnað ökutækis, til frádráttar á móti mótteknum ökutækjastyrk.

Samkvæmt þeim reglum sem fram koma í auglýsingu ríkisskattstjóra nr.3/1999 um skattmat tekjuárið 1998 (framtalsárið 1999), í kafla 3.1.1., Sönnun akstursþarfar, skal leggja fram á þar til gerðu eyðublaði, RSK 3.04 Ökutækjastyrkur, eða á annan fullnægjandi hátt, nákvæma sundurliðun á heildarrekstrarkostnaði ökutækis, þ.m.t. árlega afskrift bifreiðar sem reiknast kr. 154.916 (á árinu 1998 án tillits til verðmætis bifreiðarinnar). Ef viðkomandi launþegi tekur fólksbifreið á rekstrarleigu í þessum tilgangi og þar sem rekstrarleigugjaldið telst ekki rekstrarkostnaður bifreiðarinnar, má fallast á að færa sem hluta rekstrarkostnaðar bifreiðarinnar fasta fjárhæð afskriftar eins og hún er ákveðin fyrir hvert ár samkvæmt skattmati, þ.e. kr. 154.916 fyrir tekjuárið 1998 (framtal 1999). Þessa fjárhæð skal hlutfalla á milli einkanotkunar og notkunar í þágu vinnuveitanda eins og annan rekstrarkostnað bifreiðarinnar. Rekstrarleigan kemur ekki til frádráttar að öðru leyti.

Í þessu tilliti er rekstur fólksbifreiðar hjá einstaklingi sem hefur bifreiðina á rekstrarleigu sambærilegur rekstri fólksbifreiðar í eigu einstaklingsins sjálfs, þegar um er að ræða akstur í þágu vinnuveitanda.

c) Þegar fólksbifreiðar fyrir færri en níu menn aðrar en leigubifreiðar, eru teknar á fjármögnunarleigu eða rekstrarleigu og eingöngu notaðar í atvinnurekstrinum eða eru látnar starfsmönnum í té til einkanota ber að fara eftir reglum þeim sem greinir á eyðublaði RSK 4.09. Reikna ber starfsmanninum skattskyld hlunnindi af þeim afnotum, samkvæmt almennum reglum um bifreiðahlunnindi.

Þess er vænst að svör þau sem að framan greinir séu fullnægjandi

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum