Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf 3/2020

Virðisaukaskattur – streymisþjónusta, aðgangur að tónleikum o.fl.

26.11.2020

Ríkisskattstjóra hafa að undanförnu borist fyrirspurnir um það hvort innheimta beri virðisaukaskatt við sölu aðgangs að t.d. tónleikum eða leiksýningum sem streymt er beint (e. „live streaming“; „online live performance“) í sjónvarp, tölvu, síma eða annað snjalltæki kaupanda. Af því tilefni skal eftirfarandi tekið fram:

Streymisþjónusta er almennt virðisaukaskattsskyld samkvæmt meginreglu 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Sala fyrirtækja á aðgangi að streymi (streymisveitur) á t.d. kvikmyndum eða upptökum af tónlist með mynd er því virðisaukaskattsskyld í almennu skatthlutfalli virðisaukaskatts, nú 24%,, en rafræn útgáfa tónlistar án myndar er þó skattskyld í lægra skatthlutfallinu, nú 11%, sbr. ákvæði 14. gr. laga nr. 50/1988. Streymisþjónusta er almennt virðisaukaskattsskyld erlendis þar sem virðisaukaskattur er lagður á en útfærsla á skattskyldu getur þó verið mismunandi eftir því hvaða ríki á í hlut. Þannig eru dæmi um að þjónustan sé að öllu leyti skattskyld, óháð tilefni, en einnig eru dæmi um að ef streymt er beint frá viðburðum eða starfsemi sem undanþegin er virðisaukaskatti geti aðgangur að streyminu verið undanþeginn með sama hætti. Þá eru einnig dæmi um erlendis að undanþága vegna aðgangseyris að tónleikum og ýmsum sviðslistum sé m.a. bundin því skilyrði að áheyrendur eða áhorfendur séu viðstaddir viðkomandi tónleika eða sýningu.

Hérlendis er aðgangseyrir að tónleikum, leiksýningum, listdanssýningum og leikhúsum undanþeginn virðisaukaskatti skv. 2. málsl. 4. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 að því tilskildu að þessar samkomur tengist ekki á neinn hátt öðru samkomuhaldi eða veitingastarfsemi. Í ákvæði þessu, sem staðið hefur nánast óbreytt frá því lögin komu til framkvæmda 1. janúar 1990, er ekki gerður sérstakur áskilnaður um að áheyrendur eða áhorfendur þurfi að vera viðstaddir tónleika eða sýningar svo undanþáguákvæðið eigi við. Þá má nefna að rekstur skóla og menntastofnana er einnig undanþeginn virðisaukaskatti skv. 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 og hefur ríkisskattstjóri þegar gefið út það álit sitt að fjarkennsla yfir internetið sem felst í viðvarandi samskiptum nemenda og kennara sé undanþegin virðisaukaskatti.

Með hliðsjón af framangreindu er það álit ríkisskattstjóra að þegar seldur er sérstaklega aðgangur að tónleikum, listdanssýningum og leiksýningum sem streymt er beint, þ.e. í rauntíma, geti slík sala fallið undir framangreint undanþáguákvæði 4. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Ef á hinn bóginn er seldur aðgangur að upptökum af þessum viðburðum er um virðisaukaskattsskylda sölu að ræða, sbr. framangreint. Sama gildir um sölu á vöru eða skattskyldri þjónustu sem kann að vera seld meðfram sölu á aðgangi að hinni undanþegnu þjónustu.

Tekið skal fram að þessi afstaða ríkisskattstjóra kann að breytast verði síðar gerðar breytingar á ákvæði 4. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 eða sett í reglugerð nánari skilgreining á þjónustu sem veitt er rafrænt, svo sem streymisþjónustu, sbr. ákvæði 2. mgr. 12. gr. og 7. mgr. 35. gr. sömu laga. Loks skal tekið fram að undanþágan hefur m.a. þá þýðingu að virðisaukaskattur af aðföngum til starfseminnar fæst ekki frádreginn eða endurgreiddur í formi innskatts. Á hinn bóginn er heimilt eftir almennum reglum að telja til innskatts virðisaukaskatt af kostnaði við aðföng vegna sölu á vörum eða skattskyldri þjónustu sem kann að verða seld samhliða sölu á aðgangi að hinni undanþegnu þjónustu.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum