Ákvarðandi bréf nr. 2/2021
Virðisaukaskattur - Framlög til aðgerða sem stuðla eiga að kolefnisjöfnun
Með fyrirspurn, sem barst með tölvupósti hinn 28. desember 2020, er óskað eftir afstöðu ríkisskattstjóra til þess hvort starfsemi aðila sem stuðla að bindingu kolefnis úr andrúmsloftinu, s.s. með trjárækt, endurheimt votlendis eða t.d. með niðurdælingu í borholur, falli undir virðisaukaskattsskylda þjónustu. Í fyrirspurninni kemur fram að tekjur viðkomandi aðila væru annars vegar í formi greiðslna frá öðrum aðilum sem féllu væntanlega undir styrki, án virðisaukaskatts, þar sem styrkveitandinn fengi í raun ekkert andlag til baka annað en hugsanlega bætt orðspor, þ.e. með svokallaðri kolefnisjöfnun. Hins vegar væri um að ræða greiðslur frá fyrirtækjum, sem fengið hafa ákveðinn mengunarkvóta fyrir ákveðið magn kolefnisbindingar, sem ella þyrftu að greiða ákveðið gjald fyrir umframlosun sína á gróðurhúsalofttegundum (mengunarskatt).
Til svars fyrirspurninni skal eftirfarandi tekið fram:
Móttaka fjár sem slík hefur ekki virðisaukaskattsskyldu í för með sér heldur ræðst hún af því endurgjaldi sem innt er af hendi gegn greiðslu fjárins, hvort heldur það er í formi vöru eða þjónustu. Komi ekkert endurgjald fyrir móttekið fé eru viðskiptin ekki virðisaukaskattsskyld en sé um endurgjald að ræða fyrir veittan styrk ber ávallt að innheimta virðisaukaskatt af styrkfjárhæðinni nema endurgjaldið falli undir eitthvert undanþáguákvæða 1. eða 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
Með kolefnisjöfnun er alla jafna vísað til þess þegar aðili bætir fyrir losun gróðurhúsalofttegunda án lagaskyldu, þ.e. í öðrum tilgangi en að uppfylla kröfur um skil á losunarheimildum samkvæmt lögum nr. 70/2012, um loftlagsmál. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun falla þær aðferðir við bindingu gróðurhúsalofttegunda, sem nefndar eru í fyrirspurninni, ekki undir viðskipti með losunarheimildir. Þetta á almennt við um þá kolefnisjöfnun sem á sér stað á Íslandi um þessar mundir, þ.e. að hún fellur utan viðskiptakerfis Evrópusambandsins með losunarheimildir (ETS). Á því kann þó að verða breyting ef lögfest verður frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um mat á umhverfisáhrifum og lögum um loftlagsmál (niðurdæling koldíoxíðs). Í frumvarpinu, þskj. 391 í 335. máli á 151. löggjafarþingi 2020-2021, er m.a. gert ráð fyrir að rekstraraðilar með losunarheimildir, sem standa innan viðskiptakerfis Evrópusambandsins, öðlist heimild til þess að fá niðurdælingu á koldíoxíði með svo nefndri Carbfix aðferð dregna frá í losunarbókhaldi sínu samkvæmt lögum um loftslagsmál.
Að því marki sem framlög til kolefnisjöfnunar veita greiðanda ekki frekari losunarheimildir þannig að aðgerðirnar falli t.a.m. utan viðskiptakerfis ETS, er ekki heimilt að draga þau frá tekjum skv. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Hins vegar skal bent á að samkvæmt 2. tölul. sömu greinar er heimilt að draga frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, eða eru tengdar slíkum rekstri, framlög til aðgerða sem stuðla eiga að kolefnisjöfnun. Frádráttarheimildin takmarkast við 0,75% af tekjum skv. B-lið 7. gr. laganna á því ári þegar gjöf er afhent eða framlag innt af hendi. Í þessum tilvikum er ekki litið svo á að um kaup á aðföngum sé að ræða, heldur frjáls fjárframlög sem bæta eiga fyrir losun gróðurhúsalofttegunda.
Samkvæmt framansögðu er það álit ríkisskattstjóra að í þeim tilvikum sem lýst er í fyrirspurninni sé um óskilyrta styrki að ræða sem falla utan skattskyldusviðs virðisaukaskatts enda er í slíkum tilvikum litið svo á að styrkveitandi hljóti ekkert endurgjald í té.
Ríkisskattstjóri