Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1080/2009

14.7.2009

Endurgreiðsla vegna verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa eða húseininga - reglugerð nr. 439/2009 um breytingu á reglugerð nr. 449/1990.

14. júlí 2009 G-ákv 1080/09

Ríkisskattstjóri hefur þann 25. júní 2009 móttekið fyrirspurn yðar þar sem óskað er eftir skýringum á þeim breytingum sem gerðar voru á reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, með reglugerð nr. 439/2009.

Í fyrirspurninni kemur fram að félagið framleiði, flytji inn og selji ýmsa hluti til húsbygginga, þar á meðal forsteyptar einingar eins og veggi, stiga, svalir, loftaplötur, súlur, sökkla, límtré, stálgrindur, yleiningar, hurðir, glugga og klæðningar. Óskað er svara við eftirtöldum spurningum:

  1. Fáum við endurgreiðslu (5,45%) þegar við erum að selja verksmiðjuframleidda staka íhluti í byggingar sem við komum ekki nálægt að öðru leyti?
  2. Þegar talað er um söluverð húss/einingar, er það þá söluverðið að meðtaldri hönnun og flutningi?
  3. Við afhendum hús sem eru rúmlega fokheld en teljast ekki tilbúin undir innréttingu og málningu, við hvora prósentuna skulum við miða, 8,75% eða 6,25%?
  4. Við seljum mikið af lausnum þar sem verki er skilað áður en fokheldi er náð, megum við ekki miða við 5,45% endurgreiðslu af seldri vöru og viðskiptavinurinn fái svo sjálfur endurgreiddan virðisaukaskatt af vinnu á byggingarstað?
  5. Falla sumarhús undir skilgreininguna íbúðarhús í þessu samhengi?

I

Kveðið er á um virðisaukaskattsskyldu manna og lögpersóna í 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Í 1. tölul. 1. mgr. nefndrar lagagreinar er sett fram sú meginregla að skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð hvíli á þeim sem í atvinnuskyni selja vörur eða inna af hendi þjónustu. Í 4. gr. sömu laga eru þeir tilgreindir sem undanþegnir eru skattskyldu samkvæmt nefndri 3. gr. laganna. Í lögunum eru hvorki einstakir menn, starfsstéttir, né lögpersónur undanþegnar virðisaukaskatti, heldur ræðst virðisaukaskattsskylda annars vegar af eðli starfsemi og hins vegar af því hvort seldur varningur eða veitt þjónusta er innan skattskyldusviðs virðisaukaskatts.

Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Tekur skattskyldan til allra vara og verðmæta, vinnu og þjónustu hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega tilgreind undanþegin í 3. mgr. 2. gr. laganna. Fasteignir teljast ekki til vara samkvæmt lögunum og sala þeirra fellur því ekki undir skattskyldusvið laganna. Verksmiðjuframleidd íbúðarhús teljast hins vegar lausafé og fer um virðisaukaskattsskyldu vegna sölu þeirra því eftir almennum ákvæðum laganna. Fasteign hefur verið skilgreind sem afmarkað land ásamt eðlilegum hlutum landsins, lífrænum og ólífrænum, og þeim mannvirkjum sem varanlega eru við landið skeytt.

Þeir sem framleiða hér á landi eða flytja inn verksmiðjuframleidd íbúðarhús eiga rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts, sbr. III. kafla reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988. Eftir þá breytingu sem gerð var á reglugerðinni með reglugerð nr. 439/2009 tekur heimildin einnig til framleiðenda eða innflytjenda húseininga. Um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu manna við grunn o.fl. fer hins vegar eftir ákvæðum II. kafla, sbr. 9. gr. reglugerðarinnar.

II

Eftirfarandi eru svör við einstökum spurningum í fyrirspurn yðar og eru þær svaraðar í sömu röð og þær voru settar fram:

Svar við spurningu 1.

Í 3. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 449/1990, segir að sé verksmiðjuframleitt hús eða húseining afhent óuppsett skal endurgreiðsla nema 5,45% af söluverði að meðtöldum virðisaukaskatti. Heimild til endurgreiðslu samkvæmt ákvæðinu kom fyrst inn í reglugerðina með reglugerð nr. 439/2009, en engin heimild til endurgreiðslu í slíkum tilvikum var fyrir hendi áður. Með húseiningu í þessu sambandi er átt við byggingareiningu húss, svo sem útveggi, innveggi og þakeininga. Ákvæðinu er ekki ætlað að ná til íhluta, eða stakra eininga eins og hurða, glugga, pallaefnis, stiga o.þ.h.

Svar við spurningu 2.

Endurgreiðsla virðisaukaskatts samkvæmt 10. gr. reglugerðar nr. 449/1990, skal nema ákveðnu hlutfalli af heildarsöluverði verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa og húseininga að meðtöldum virðisaukaskatti. Með heildarsöluverði er átt við söluverð verksmiðjuframleidds íbúðarhúsnæðis eða einstakra húseininga, þ.e. eininganna sjálfra, en ekki annars kostnaðar.

Svar við spurningu 3.

Sé verksmiðjuframleitt íbúðarhús afhent fokhelt, en ekki tilbúið undir málningu og innréttingu skal endurgreiðsla virðisaukaskatts miðast við 6,25% af söluverði íbúðarhúsnæðisins að meðtöldum virðisaukaskatti, sbr. c-lið 1. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 449/1990. Ákvæði b-liðar 1. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar á eingöngu við sé verksmiðjuframleitt hús afhent að fullu tilbúið undir málningu og innréttingu.

Svar við spurningu 4.

Hlutföll endurgreiðslu virðisaukaskatts, samkvæmt 1. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar, af verksmiðjuframleiddum íbúðarhúsum miðast við að hús sé afhent uppsett til kaupanda á grunni sem hann leggur til. Sé verksmiðjuframleitt hús eða húseining afhent óuppsett skal endurgreiðsla nema 5,45% af söluverði, sbr. 3. mgr. sama ákvæðis. Er það mat ríkisskattstjóra að síðastnefnt ákvæði taki einnig til annarra verksmiðjuframleiddra húsa sem eru að hluta uppsett, enda séu þau ekki afhent fokheld, sbr. c-lið 1. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar.

Svar við spurningu 5.

Með lögum nr. 10/2009 var nýju ákvæði til bráðabirgða bætt við lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem hlutfall þeirrar endurgreiðslu sem kveðið er á um í 1. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, er tímabundið hækkað úr 60% í 100%. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 10/2009 er tekið fram að markmiðið sé að koma til móts við húsbyggjendur sem eiga í erfiðleikum vegna yfirstandandi efnahagsþrenginga, sporna við svartri atvinnustarfsemi og hvetja til aukinnar starfsemi á byggingarmarkaði. Í meðförum Alþingis var sú breyting gerð á ákvæði frumvarpsins að endurgreiðslan var ekki einskorðuð við byggingu íbúðarhúsnæðis og endurbætur og viðhald á þess háttar húsnæði heldur var hún jafnframt látin taka til frístundahúsnæðis. Nánari ákvæði voru sett í reglugerð nr. 440/2009, um tímabundna aukna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæði auk annars húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga. Með þeirri reglugerð var engin breyting gerð á reglugerð nr. 449/1990, sem fyrirliggjandi fyrirspurn snýr að.

Helstu breytingar sem gerðar voru á reglugerð 449/1990, með reglugerð 439/2009, lúta að reglum III. kafla reglugerðarinnar. Með henni var hins vegar engin breyting gerð á 2. gr. reglugerðar nr. 449/1990, en samkvæmt því ákvæði tekur endurgreiðsla samkvæmt reglugerðinni ekki til orlofshúsa, sumarbústaða eða bygginga fyrir starfsemi sem fellur undir ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Auk þess sem endurgreiðsla tekur ekki til virðisaukaskatts sem færa má til innskatts, sbr. VII. kafla laga nr. 50/1988. Er því að mati ríkisskattstjóra ljóst að sem fyrr taki ákvæði reglugerðarinnar ekki til sumarhúsa.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum