Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1079/2009

7.7.2009

Endurgreiðsla virðisaukaskatts - frístundabyggð.

7. júlí 2009 G-ákv 1079/09

Vísað er til fyrirspurnar yðar er barst ríkisskattstjóra þann 11. maí 2009 þar sem þess er farið á leit að ríkisskattstjóri veiti álit sitt á því hvort endurgreiða beri virðisaukaskatt af vinnu við endurbætur á ristarhliði sem er á girðingu umhverfis frístundabyggð. Fram kemur að á fyrrihluta árs 2004 hafi nokkrir einstaklingar stofnað með sér félag er nefnist A sem sé samtök eigenda frístundahúsa og lóðarréttarhafa á skipulögðu svæði við ..... í landi X. Umhverfis frístundahúsabyggðina eins og henni sé lýst í aðal- og deiliskipulagi sé gripaheld girðing. Á girðingunni nærri þjóðvegi, ....., sé ristahlið til varnar ágangi búfjár og einstaklinga sem þangað eigi ekki löglegt erindi. Lengi hafi verið áhugi á að bæta hliðið og því leiti nú stjórn félagsins upplýsinga um hliðgerðir og kostnað allan í því sambandi.

Fyrirspyrjandi vitnar til laga nr. 10/2009, um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt og ákvæði reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði. Er sérstaklega vísað til 5. gr. reglugerðarinnar varðandi þá sem rétt eiga til endurgreiðslu og tekið fram að þar segi að húsfélög sem fengið hafi kennitölu séu meðal þeirra sem hafa þann rétt. Mun fyrirspyrjandi þar eiga við 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar. Þá segir í bréfi yðar: Augljóst er af aðdraganda og greinargerðum laga nr. 75/2008 sá vilji löggjafans að jafnsetja frístundahúsafélög og fjölbýlishúsafélög og vart er munur á málefnum er varða sameiginlega lóðahagsmuni frístundahúsanna og þeirra er í þéttbýli standa.

Í tilefni af fyrirspurninni tekur ríkisskattstjóri eftirfarandi fram:

Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 75/2008, kemur fram að eitt helsta markmið frumvarpsins sé að taka á innbyrðis samskiptum eigenda húsa á frístundasvæðum. Þar hafi komið upp hliðstæð álitamál og meðal íbúa í fjöleignarhúsum, þ.e. ágreiningur um þátttöku í og skiptingu kostnaðar vegna viðhalds og framkvæmda við sameign. Einnig kemur fram að fulltrúar frístundahúsaeigenda hafi farið þess á leit að lögfestar yrðu svipaðar reglur til lausnar ágreiningi og eru í lögum um fjöleignahús. Með frumvarpinu væri því ætlunin að koma til móts við þær óskir og setja almennar reglur um félög í frístundabyggð og skyldu þeirra sem eiga eða leigja lóðir undir frístundahús til að eiga aðild að slíku félagi.

Ekki er óeðlilegt að ágreiningur sem upp kann að rísa m.a. vegna þátttöku í og skiptingu kostnaðar vegna viðhalds og framkvæmda við sameign sé af sama toga óháð því hvort ágreiningur snýr að sameign í fjölbýli eða sameiginlegum svæðum í frístundabyggð. Því eru væntanlega sambærileg sjónarmið lögð til grundvallar við úrlausn þeirra ágreiningsmála.

Þrátt fyrir framangreint verður ekki lagður að jöfnu réttur húsfélaga til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna framkvæmda við húseign félagsaðila og réttur félaga í frístundabyggð til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna framkvæmda á sameiginlegum svæðum í frístundabyggðum.

Í fyrrnefndum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 75/2008, er vísað til þess að í dómi Hæstaréttar frá 14. apríl 2005 í máli nr. 474/2004 var talið að eigandi og íbúi frístundahúss hefði heimild til að skrá lögheimili sitt þar. Er þá tekið fram að afleiðing dómsins hefði orðið sú að þjónustuhlutverk sveitarfélaga gagnvart eigendum frístundahúsa hefði tekið miklum breytingum að óbreyttum lögum. Félagsmálaráðherra hafi því skipað starfshóp sem var falið að fara yfir tengsl lögheimilislaga við ákvæði annarra laga og reglugerða sem höfðu að geyma fyrirmæli um skyldur sveitarfélaga gagnvart íbúum sínum, kröfur til mannvirkja og skipulag búsetu. Í kjölfarið var lögfest að einstaklingar og fjölskyldur hefðu ekki heimild til að skrá lögheimili sitt í frístundahúsi.

Sveitarfélög annast ýmsa grunnþjónustu samkvæmt lögum auk þess sem þau sinna ýmsum öðrum ólögbundnum verkefnum. Meðal málaflokka eru skipulags- og byggingarmál og uppbygging og rekstur fráveitna. Sveitarfélög hafa m.a. þau verkefni undir höndum að skipuleggja og annast sameiginlegar framkvæmdir á svæðum innan sveitarfélaga sem samkvæmt skipulagi eru ætluð til almennra þarfa, s.s. götur, leikvellir og opin svæði. Um slíkar sameiginlegar framkvæmdir á opnum svæðum innan frístundabyggða er fjallað í lögum nr. 75/2008, um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laganna er umráðamönnum lóða undir frístundahús almennt skylt að hafa með sér félagsskap um sameiginlega hagsmuni. Í 19. gr. sömu laga er hlutverk slíks félags afmarkað. Þar kemur m.a. fram að sé ekki á annan veg samið sé hlutverk slíks félags að taka ákvarðanir um lagningu og viðhald akvega og göngustíga að og innan svæðis, gerð og rekstur á sameiginlegum svæðum í frístundabyggðinni, svo sem leiksvæðum og bílastæðum og gerð og rekstur á sameiginlegum aðveitum og fráveitum. Er því ljóst að samkvæmt lögunum sjá slík félög í frístundabyggð um þær sameiginlegu framkvæmdir sem almennt heyra undir verksvið sveitarfélaga og fer um skiptingu kostnaðar samkvæmt framangreindum lögum.

Um endurgreiðslu virðisaukaskatts fer eftir ákvæðum XIII. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laganna skal endurgreiða byggjendum íbúðarhúsnæðis 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað, auk þess sem endurgreiða skal eigendum íbúðarhúsnæðis 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur og viðhald þess. Nánari ákvæði um framkvæmd endurgreiðslu er að finna í reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar tekur endurgreiðslan til virðisaukaskatts vegna allrar vinnu manna sem unnin er á byggingarstað íbúðarhúsnæðis við nýbyggingu þess, þ.m.t. vinnu við framkvæmdir við lóð hússins, jarðvegslagnir umhverfis hús, girðingar, bílskúra og garðhýsa á íbúðarhúsalóð. Ennfremur nær hún til virðisaukaskatts vegna allrar vinnu manna við endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis. Veigamiklar takmarkanir koma þó fram í 4. gr. reglugerðarinnar. Til að mynda fæst ekki endurgreiddur virðisaukaskattur af vinnu veitufyrirtækja við lagnir að og frá húsi og vinnu stjórnenda vinnuvéla, jafnt þungavinnuvéla sem véla iðnaðarmanna o.fl. á byggingarstað. Sömu takmarkanir gilda varðandi vinnu sem unnin er á verkstæði.

Með lögum nr. 10/2009 var nýju ákvæði til bráðabirgða bætt við lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Í athugasemdum við frumvarpið er varð að lögum nr. 10/2009, kemur m.a. fram að vegna aðstæðna í efnahagslífi þjóðarinnar sé lagt til að hlutfall endurgreiðslna sem kveðið er á um í 1. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 verði tímabundið hækkað úr 60% í 100%. Er tekið fram að markmiðið sé að koma til móts við húsbyggjendur sem eiga í erfiðleikum vegna yfirstandandi efnahagsþrenginga, sporna við svartri atvinnustarfsemi og hvetja til aukinnar starfsemi á byggingarmarkaði. Í meðförum Alþingis var sú breyting gerð á ákvæði frumvarpsins að endurgreiðslan samkvæmt frumvarpinu var ekki einskorðuð við byggingu íbúðarhúsnæðis og endurbætur og viðhald á þess háttar húsnæði heldur var hún jafnframt látin taka til frístundahúsnæðis. Hins vegar er ljóst að með lögunum var byggjendum og eigendum frístundahúsnæðis tímabundið veittur sami réttur og byggjendum og eigendum íbúðarhúsnæðis til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna framkvæmda sem hér um ræðir. Ekkert í lögunum eða lögskýringargögnum, til að mynda nefndarálitum eða umræðum, gefur til kynna að veita eigi byggjendum eða eigendum frístundahúsnæðis ríkari heimildir til endurgreiðslu virðisaukaskatts en byggjendum eða eigendum íbúðarhúsnæði almennt. Það sama er að segja um ákvæði reglugerðar nr. 440/2009, um tímabundna aukna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæði auk annars húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga, sem sett er á grundvelli framangreinds ákvæðis til bráðabirgða með lögum nr. 50/1988. Að mati ríkisskattstjóra er rétturinn því bundinn við þær framkvæmdir innan einstakra lóða í frístundabyggð sem felldar verða undir 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 449/1990, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988. Ekki skal endurgreiða virðisaukaskatt vegna annarra framkvæmda innan frístundabyggða, s.s. framkvæmda á sameiginlegum svæðum.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum