Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1061/2005

15.12.2005

Virðisaukaskattur - ferðaskrifstofur - hvataferðir - hópefli

15. desember 2005
G-Ákv. 05-1061

Með bréfi dagsettu 27. janúar 2005, barst ríkisskattstjóra fyrirspurn yðar þar sem óskað var eftir svari ríkisskattstjóra við því hvaða þættir í starfsemi ferðaskrifstofu séu virðisaukaskattsskyldir. Nánar tiltekið segir svo í fyrirspurninni: "Til okkar leitaði framkvæmdarstjóri ferðaskrifstofu, sem er með A ferðaskrifstofuleyfi. Ferðaskrifstofa þessi selur aðallega hvataferðir innanlands, sem skipulagðar eru fyrir fyrirtæki og stofnanir, og taka þær frá 6 tímum uppí 1 og 1/2 sólarhring. Það sem boðið er uppá í þessum ferðum og selt í einum pakka er: akstur, veitingar, gisting, afþreying og fyrirlestrar. Aksturinn, gistingin og veitingarnar eru í öllum tilfellum keyptar af óskildum aðilum en afþreyingin og fyrirlestrarnir eru ýmist keyptir frá óskildum aðilum eða veitt af starfsmönnum ferðaskrifstofunnar. Afþreyingin getur verið af ýmsu tagi allt frá keilukeppni til fallhlífarstökks. Fyrirlestrarnir geta sömuleiðis verið af ýmsu tagi en aðallega er um að ræða hópefli." Jafnframt er óskað svars við því hvort máli skipti hvort hópeflið sé hluti af heildarpakka sem ferðaskrifstofan selur, eða það selt eitt og sér?

Til svars við fyrirspurn yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (VSK-laga). Nær skattskyldan til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra, og til allrar vinnu og þjónustu sem ekki er sérstaklega tilgreind undanþegin í 3. mgr. lagagreinarinnar. Þjónusta ferðaskrifstofa er undanþegin virðisaukaskatti skv. 13. tölul. 3. mgr. 2. gr. VSK-laga. Í lögum nr. 117/1994, um skipulag ferðamála, kemur fram að hver sem reka vill ferðaskrifstofu  skuli hafa til þess leyfi samgönguráðuneytisins og í  4. mgr. 10. gr. laganna er sérstaklega tiltekið að óheimilt sé að stunda þau störf sem í lögunum greinir án þessa leyfis.  Afmörkun hinnar undanþegnu þjónustu ræðst af sérlögum er um hana gilda og undanþágan takmarkast þannig við þá leyfisbundnu starfsemi sem mælt er fyrir um í lögunum.

Skal nú vikið nánar að ákvæði 13. tölul. 3. mgr. 2. gr. VSK-laga.  Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt kemur eftirfarandi fram: "Starfsemi ferðaskrifstofa er þjónusta sem veitt er bæði innanlands og erlendis og er þess vegna undanþegin af tæknilegum ástæðum aðallega. Hér er eingöngu verið að undanþiggja þá starfsemi ferðaskrifstofa sem felst í milligöngu um ferðaþjónustu en ekki aðra starfsemi sem ferðaskrifstofur kunna að hafa með höndum." Í skattframkvæmd hefur því, með hliðsjón af orðalagi greinargerðarinnar, verið litið svo á að undanþágan taki til þeirrar þóknunar sem ferðaskrifstofa krefur ferðaþjónustufyrirtæki um fyrir að bjóða þjónustu þess fram við væntanlegan viðskiptavin og til þeirrar þóknunar sem ferðaskrifstofa krefur ferðaþjónustufyrirtækið um fyrir milligöngu sína, þ.m.t. umboðs- eða umsýsluþóknun fyrir að selja þjónustu í umboðs- eða umsýslusölu. Undanþágan tekur einnig til þóknunar ferðaskrifstofu sem hún kann að krefja ferðamann um fyrir að útvega honum farmiða, gistingu, mat eða aðra ferðaþjónustu. Þá tekur undanþágan til þeirrar þóknunar sem ferðaskrifstofa kann að krefja ferðamann um fyrir að skipuleggja ferðalag hans. Undanþágan tekur hins vegar ekki til sölu ferðaskrifstofu á gistingu, veitingum og annarri virðisaukaskattsskyldri ferðaþjónustu, hvort sem ferðaskrifstofan selur fyrir eigin reikning, eða fyrir reikning ferðaþjónustuveitanda á hans áhættu. Þ.e.a.s. kaupi ferðaskrifstofa virðisaukaskattsskylda ferðaþjónustu og endurselji hana er endursalan virðisaukaskattsskyld. Á sama hátt er virðisaukaskattsskyld sú þjónusta sem seld er í umboðs- eða umsýslusölu.

Að mati ríkisskattstjóra getur sala ferðaskrifstofu á svokölluðum hvataferðum og hópefli falið hvort tveggja í sér virðisaukaskattsskylda þjónustu og undanþegna. Ræðst það af því hvað er innifalið í ferðunum. Þannig er þóknun fyrir að skipuleggja ferðirnar undanþegin virðisaukaskatti en hinir ýmsu þættir ferðarinnar gætu verið virðisaukaskattsskyldir. Sala á gistingu og veitingum er þannig virðisaukaskattsskyld skv. VSK-lögum en fólksflutningar eru undanþegnir skattskyldu skv. 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. VSK-laga. Við mat á því hvort afþreying eða fyrirlestrar beri virðisaukaskatt  verður að skoða hvert einstakt tilvik fyrir sig og með tilliti til þess hvort um virðisaukaskattsskylda eða undanþegna starfsemi er að ræða. Ber einkum að líta til ákvæða  5. tölul. 3. mgr. 2. gr. VSK-laga er undanþiggur íþróttastarfsemi og 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. VSK-laga er undanþiggur rekstur skóla og menntastofnana, svo og ökukennslu, flugkennslu og danskennslu. Ákvörðun um undanþágu vegna kennslustarfsemi einstakra aðila á samkvæmt greinargerð með lögunum að byggjast á mati á því hvort hún sé sambærileg námi í almenna skólakerfinu eða ekki. Jafnframt því hefur ríkisskattstjóri miðað við að nám sem felur í sér faglega menntun sé undanþegið. Með faglegri menntun er átt við kennslustarfsemi sem miðar að því að viðhalda eða auka þekkingu nemenda eingöngu vegna atvinnu þeirra. Á hinn bóginn er gengið út frá því að námskeið o.s.frv. séu skattskyld ef þjónustan virðist veitt vegna tómstunda manna.  Sum kennsla sem í eðli sínu felur í sér fræðslu vegna tómstunda manna, hefur verið talin undanþegin vegna þess að boðið er upp á sambærilegt nám innan almenna skólakerfisins og má hér í dæmaskyni nefna fyrirlestrar um íþróttir og heilbrigði og matreiðslunámskeið.

Með vísan til þess sem að ofan greinir má ljóst vera að starfsemi ferðaskrifstofu kann að vera blönduð í þeim skilningi að sumir þættir í starfseminni séu undanþegnir virðisaukaskatti, þ.e. milliganga um ferðaþjónustu og fólksflutningar, en aðrir þættir virðisaukaskattsskyldir, t.d. sala á gistingu og veitingum. Selji ferðaskrifstofa saman t.d. farmiða, gistingu og fæði ber henni að sundurliða viðskiptin á reikningi eftir skatthlutföllum og því hvort sala er virðisaukaskattsskyld eða ekki. Það hvort hópeflið er hluti af heildarpakka eða það selt eitt og sér skiptir ekki máli.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum