Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1059/2005

27.7.2005

Sæðingarstarfsemi - innskattsfrádráttur

27. júlí 2005
G-Ákv. 05-1059

Ríkisskattstjóri móttók 6. júní sl. bréf samtakanna sem dagsett er 3. júní 2005. Í bréfinu kemur fram að búnaðarsamböndin í landinu annist rekstur sæðingarstöðva sem ýmist eru sjálfstæðar rekstrareiningar eða hluti af starfsemi viðkomandi búnaðarsambands. Um fjármögnun starfseminnar segir eftirfarandi í bréfinu:

"Fjármögnun sæðingarstarfseminnar hefur verið með tvennum hætti. Annarsvegar hafa bændur greitt fyrir þjónustuna með ákveðnu gjaldi á hvern sæddan grip og hinsvegar hefur verið innheimt auragjald af hverjum innlögðum mjólkurlítra sem runnið hefur til viðkomandi sæðingarstöðvar. Mjólkurbúin hafa annast innheimtu á auragjaldinu. Báðir þessir tekjustofnar hafa verið með virðisauka. Flestar sæðingarstöðvarnar eru með starfsfólk sem annast sæðingar eða verktaka sem annast þær og að auki kaupa þær inn sæði og fleiri rekstrarvörur. Þessir gjaldaliðir eru yfirleitt með virðisauka. Allur innskattur hefur þar af leiðandi verið færður til frádráttar útskatti af seldri þjónustu".

Fram kemur að við síðustu gerð búvörusamnings hafi verið ákveðið að fella niður auragjald af innlögðum mjólkurlítra og í stað þess komi til framlag frá ríkinu sem tekið sé af beingreiðslum. Er í þessu sambandi vísað til samnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu, einkum 6. gr. samningsins.

Spurt er hvort þessi breyting muni hafa í för með sér breytingu á innskattsfrádrætti sæðingarstöðvanna, þar sem nú verði hluti af tekjustofnum sæðingarstöðvanna án virðisauka.

Til svars við fyrirspurn yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Í samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu, dagsettum 10. maí 2004, milli Bændasamtaka Íslands og ríkisstjórnar Íslands, er í 6. gr. kveðið á um framlög ríkisins og skiptingu þeirra. Er þar m.a. kveðið á um framlag ríkisins til kynbóta- og þróunarverkefna í nautgriparækt. Skulu framlögin greidd Bændasamtökum Íslands, sem ráðstafar þeim í samráði við framkvæmdanefnd búvörusamninga. Í samningsákvæðinu eru umrædd fjárframlög skilgreind sem framleiðslutengdur stuðningur. Af framangreindu verður ráðið að hluti samningsbundinna greiðslna úr ríkissjóði vegna mjólkurframleiðslu renni þannig til greiðslu á þjónustu sæðingarstöðva.

Samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, gildir sú meginregla að sérhver afhending vöru eða skattskyldrar þjónustu gegn greiðslu telst til skattskyldrar veltu  nema undanþága verði byggð á einhverju ákvæði 12. gr. laganna.  Ákvæði 12. gr. laganna felur í sér að ef skráður aðili afhendir vöru eða þjónustu við þær aðstæður sem raktar eru í ákvæðinu er honum ekki skylt að reikna eða innheimta útskatt. Engu að síður hefur hann rétt til endurgreiðslu innskatts vegna þeirra aðfanga sem varða afhendinguna. Ákvæði 8. tölul. 12. gr. laganna kveður á um að samningsbundnar greiðslur úr ríkissjóði vegna mjólkurframleiðslu og sauðfjárframleiðslu séu undanþegnar skattskyldri veltu. Ákvæðið var lögfest með 18. gr. laga nr. 122/1993, um breytingar í skattamálum. Í athugasemdum við frumvarp til þeirra laga kemur fram að með ákvæðinu sé lögfest að beinar greiðslur til bænda samkvæmt búvörusamningi, séu undanþegnar skattskyldri veltu. Þrátt fyrir að umrædd framlög renni ekki beint til einstakra bænda þykir ríkisskattstjóra ekki óvarlegt að telja að greiðslurnar falli undir ákvæði 8. tölul. 12. gr. laga nr. 50/1988 að virtu orðalagi ákvæðisins og í ljósi þess að greiðslunum er ráðstafað í þágu einstakra bænda auk þess sem þær eru í samningnum flokkaðar með framleiðslutengdum greiðslum.

Að teknu tilliti til þessa er það álit ríkisskattstjóra að breyting sú er fyrirhuguð er á greiðslum vegna sæðingarþjónustu hafi ekki áhrif á innskattsfrádrátt sæðingarstöðva. Rétt er að benda á að greiðslur þessar ber að tilgreina sem undanþegna veltu í reit C á virðisaukaskattsskýrslu.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum