Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1057/2005

14.4.2005

Virðisaukaskattur - matsgerðir að beiðni dómstóla - örorkumat

14. apríl 2005
G-Ákv. 05-1057

Ríkisskattstjóri hefur móttekið bréf yðar sem dagsett er 12. ágúst 2004. Í bréfinu kemur fram að fyrirspyrjandi er lögfræðingur að mennt og stundum tilnefndur af héraðsdómi til að framkvæma svonefnd örorkumöt ásamt einum eða tveimur læknum. Gerðarbeiðendur geti þá ýmist verið tjónþoli sjálfur eða það vátryggingarfélag (eða annar) sem ábyrgð ber á tjóni því sem til mats er. Fram kemur að í öllum tilvikum sé skipunin samkvæmt lögum um meðferð einkamála sem þýði í stuttu máli að matsgerðin er framkvæmd samkvæmt fyrirmælum viðkomandi dómstóls og þá að hans beiðni. Ekkert samningssamband sé milli skipaðra matsmanna og gerðarbeiðanda (eða gerðarþola) en þó beri gerðarbeiðanda að greiða kostnað af matinu lögum samkvæmt. Fram kemur einnig að fyrirspyrjandi hafi undir höndum álit ríkisskattstjóri frá 17. janúar 1990 (tilvísun 5/90) og frá 18. júlí 1997 (tilvísun 812/1997) og úrskurð yfirskattanefndar nr. 188/2004 frá 26. maí 2004 sem varði starfsemi vátryggingarfélaga. Loks er óskað eftir því að ríkisskattstjóri svari því hvort matsmanni sé skylt sé að innheimta virðisaukaskatt af þóknun sem hann tekur þegar vátryggingarfélag óskar eftir örorkumati hjá viðkomandi héraðsdómstóli vegna slyss sem það telur sig bera ábyrgð á.

Til svars við erindi yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (vsk-laga). Sviðið er markað mjög rúmt. Tekur það til allra vara og verðmæta og til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega tiltekin undanþegin í 3. mgr. greinarinnar. Sú málsgrein hefur að geyma tæmandi talningu þeirrar vinnu og þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti, eins og skýrt kemur fram í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 50/1988. Undanþágurnar fela í sér undantekningar frá meginreglu um skattskyldu og ber sem slíkar að skýra þröngt og aldrei rýmri skýringu en orðalag ákvæðanna beinlínis gefa tilefni til.

Samkvæmt 9. tölul. 3. mgr. 2. gr. vsk-laga er vátryggingarstarfsemi undanþegin. Um ástæðu undanþágunnar segir svo í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 50/1988:

"Aðalástæðan fyrir því að undanþiggja vátryggingarstarfsemi er að hún er í eðli sínu alþjóðleg og er undanþegin víðast hvar erlendis. Undanþágan er því nauðsynleg af samkeppnisástæðum, enda er óframkvæmanlegt að skattleggja einstakar tryggingar sem innlendir aðilar kunna að kaupa af erlendum vátryggingarfélögum. Enn fremur eru oft vissir tæknilegir örðugleikar á því að reikna virðisaukaskatt í þessari grein. Þá styðja félagsleg sjónarmið þessa niðurstöðu þar sem ekki þykir eðlilegt að heimta virðisaukaskatt af ýmsum tryggingum, svo sem líftryggingum og slysatryggingum, sem atvinnurekendum er skylt að kaupa fyrir starfsmenn sína samkvæmt kjarasamningum."

Undanþáguákvæði 9. tölul. 3. mgr. 2. gr. hefur í skattframkvæmd verið skýrt þannig að það taki til mats og virðingar á tjóni til ákvörðunar bótafjárhæðar, óháð því hvort matið er unnið innan vátryggingarfélags eða utan þess, þ.e. óháð því hvort að vátryggingarfélag felur starfsmönnum sínum að annast matið eða ef félagið kaupir matið af sjálfstætt starfandi manni. Helgast sú framkvæmd annars vegar af því að mats- og virðingarstörfin eru talin eðlilegur og nauðsynlegur þáttur í vátryggingarstarfsemi og hluti af því starfi sem almennt er innt af hendi til eigin nota innan vátryggingarfélaganna sjálfra og hins vegar af samkeppnissjónarmiðum. Á þessum grundvelli hefur ríkisskattstjóri talið að mats- og virðingarstörf sem lögmenn, verkfræðingar og aðrir sérfræðingar vinna fyrir vátryggingarfélög séu undanþegin virðisaukaskatti þegar um er að ræða mat á tjóni vegna ákvörðunar bótafjárhæðar eða ákvörðunar tryggingarfjárhæðar. Hefur það verið mat ríkisskattstjóra að skilyrði fyrir undanþágu þessara matsgerða sé að þær séu unnar fyrir vátryggingarfélög sem liður í leyfisbundinni vátryggingarstarfsemi þeirra. Undanþáguákvæðið hefur hins vegar ekki verið skýrt svo rúmt í skattframkvæmd að það taki til annarra mats- og virðingarstarfa en þeirra sem unnin eru fyrir vátryggingarfélög sem liður í vátryggingarstarfsemi þeirra

Með vísan til þess sem að ofan greinir er það álit ríkisskattstjóra að matsgerð framkvæmd samkvæmt beiðni dómstóls verði ekki talinn slíkur liður í starfsemi vátryggingarfélags að hún verði felld undir 9. töluliðs 3. mgr. 2. gr. vsk-laga. Lögmanni sem vinnur slíka matsgerð ber því að innheimta virðisaukaskatt af sinni þóknun.

Rétt þykir að taka fram með vísan til orðalags í fyrirspurn yðar að framgreint álit setur ríkisskattstjóri fram á grundvelli þess leiðbeiningarhlutverks sem honum er falið í 1. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt en það felur ekki í sér úrskurð í þeim skilningi að um skattákvörðun sé að ræða eða bindandi álit skv. lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Beðist er velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum