Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1039/2003

28.7.2003

Virðisaukaskattur af póstþjónustu

28. júlí 2003
G-Ákv. 03-1039

Í bréfi, dagsettu 22. maí sl., beinir félagið þeirri fyrirspurn til ríkisskattstjóra hvort virðisaukaskattsskyld sé tiltekin þjónusta, sem félagið hefur tekið að sér að veita samkvæmt samningi við Íslandspóst hf. Í framhaldi af fyrirspurninni lagði félagið fram ljósrit af samningnum. Samkvæmt honum hefur félagið tekið að sér gegn gjaldi póstþjónustu á tilteknu landsvæði í umboði og á ábyrgð Íslandspósts hf., aðra tengda þjónustu og vörusölu. Starfsemin felst í rekstri póstafgreiðslu, þ.e. móttöku, flokkun, dreifingu og afhendingu sendinga af tilteknum toga, annarri þjónustu sem veitt er á pósthúsum, svo sem almennri afgreiðslu fyrirspurna og umsókna vegna Landsíma Íslands, póstfaxþjónustu, ljósritun, móttöku tilkynninga til Skráningarstofu um eigendaskipti o.fl. og móttöku tilkynninga til Vinnuvélaeftirlits um eigendaskipti vinnuvéla og sölu póstvara. Í samningnum er tiltekið að hann sé háður samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar.

Til svars fyrirspurninni skal eftirfarandi tekið fram:

Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (vsk-laga). Nær skattskyldan til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra, og til allrar vinnu og þjónustu sem ekki er sérstaklega lýst undanþegin í 3. mgr. lagagreinarinnar. Í 7. tölul. 3. mgr. er að finna undanþágu varðandi póstþjónustu. Hinni undanþegnu þjónustu er svo lýst í ákvæðinu: "Póstþjónusta sem opinber aðili hefur einkaleyfi á, samkvæmt póstlögum, nr. 33/1986. Undanþágan nær einnig til viðtöku og dreifingar á öðrum árituðum bréfapóstsendingum, þar með talin póstkort, blöð og tímarit, og til almennra dreifisendinga og opinna bréfa."

Í ákvæðinu er þjónustan sem um ræðir lýst undanþegin virðisaukaskatti. Þrátt fyrir að undanþágan takmarkist að hluta til við leyfisbundna þjónustu er hún ekki bundin því skilyrði að opinber einkaleyfishafi veiti þjónustuna sjálfur. Slík þjónustan er jafnt undanþegin þótt veitt sé af einhverjum þeim sem leyfishafinn hefur falið að annast hana, hvort heldur er að öllu eða takmörkuðu leyti. Ákvæðið var fært í núverandi búning með lögum nr. 46/1995. Í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga segir m.a.: "Með þessari breytingu á núgildandi ákvæði er lagt til að undanþegin verði frá skattskyldu viss póstþjónusta sem að mestu er sinnt af Póst- og símamálastofnun en ekki fellur undir einkaleyfi stofnunarinnar samkvæmt póstlögum. Af því leiðir að sams konar þjónusta í höndum annarra aðila verður einnig undanþegin skattskyldu."

Í ákvæðinu er varðandi póstþjónustu sem bundin er einkaleyfi (einkarétti) hins opinbera vísað til póstlaga nr. 33/1986. Þau lög eru nú úr gildi fallin. Afmörkun einkaréttarþjónustunnar ræðst af gildandi rétti hverju sinni, nú ákvæðum póstlaga nr. 19/2002 með síðari breytingum. Einkaréttarþjónusta er í 7. mgr. 4. gr. núgildandi póstlaga skilgreind sem: "Póstþjónusta sem enginn má veita nema ríkið eða póstrekandi í umboði þess". Samkvæmt 7. gr. sömu laga hefur íslenska ríkið nú einkarétt á póstþjónustu vegna póstsendinga bréfa allt að 100 g að þyngd, svo framarlega sem burðargjaldið fyrir bréfið er minna en þrisvar sinnum lægsta burðargjald sem gildir fyrir venjuleg bréf innan lands, og á dreifingu innan lands á bréfum frá útlöndum innan sömu takmarkana. Í 6. mgr. 4. gr. núgildandi póstlaga er bréf skilgreint svo: "Skrifleg boðskipti rituð á hvers konar miðil sem senda á og afhenda á heimilisfang sem sendandi hefur gefið til kynna á bréfinu eða umbúðum þess. Ekki er litið á bækur, verðlista, dagblöð og tímarit sem bréfasendingu."

Undanþágan tekur ekki aðeins til póstþjónustu sem ríkið hefur einkarétt á, sbr. framangreinda afmörkun, heldur einnig til viðtöku og dreifingar annarra póstsendinga, sbr. skilgreiningu á póstsendingu í 17. mgr. 4. gr. núgildandi póstlaga. Undanþágan tekur þó ekki til böggla eins og skýrt má ráða af áðurnefndri greinargerð með frumvarpi til laga nr. 46/1995, en þar segir m.a.: "Einnig er dreifing á bögglapósti og forgangssendingum skattskyld eins og verið hefur þar sem slík dreifing fellur ekki undir einkaleyfi Póst- og símamálastofnunar." Undanþágan tekur hins vegar til viðtöku og dreifingar markpósts, sbr. skilgreiningu á markpósti í 13. mgr. 4. gr. núgildandi póstlaga.

Skilgreiningin á póstsendingu er: "Sending með eða án áritunar á umbúðir sem póstrekandi flytur hana í. Auk bréfa teljast til póstsendinga bækur, verðskrár, dagblöð, tímarit og bögglar sem innihalda varning hvort sem hann er einhvers virði eða ekki."

Skilgreining á markpósti er: "Fjöldasending sem samanstendur einungis af auglýsingum, markaðskynningu eða almennu kynningarefni, hver sending eins að undanteknu nafni, heimilisfangi og kennitölu móttakanda sem og öðrum breytilegum upplýsingum sem ekki breyta innhaldi skilaboðanna sem send eru umtalsverðum fjölda móttakenda á þeim stað sem sendandi hefur áritað á póstsendinguna eða umbúðir hennar. Reikningar og reikningsyfirlit og aðrar sendingar sem hver fyrir sig er mismunandi skulu ekki teljast vera markpóstur."

Póstþjónusta sem fyrirspyrjandi veitir er undanþegin virðisaukaskatti að því leyti sem hún fellur undir undanþáguákvæði 7. tölul. 3. mgr. 2. gr. vsk-laga, sbr. það sem að framan er rakið. Þjónusta fyrirspyrjanda sem ekki verður felld undir póstþjónustu svo sem almenn afgreiðsla fyrirspurna vegna Landsíma Íslands, póstfaxþjónusta og ljósritun er virðisaukaskattskyld. Póstþjónusta er í 18. mgr. 4. gr. núgildandi póstlaga skilgreind: "Þjónusta sem nær til móttöku og söfnunar, flokkunar, flutnings og skila á póstsendingum gegn greiðslu." Jafnframt er öll vörusala virðisaukaskattsskyld. Í því sambandi skal bent á að frímerki teljast ekki vara í skilningi vsk-laga, nema þegar þau eru seld sem safngripir, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna.

Í fyrirspurnarbréfi kemur fram að fyrirspyrjandi hafi innheimt virðisaukaskatt af allri þjónustu sinni samkvæmt umræddum samningi við Íslandspóst. Eins og fram kemur hér að framan er hluti þjónustunnar undanþeginn virðisaukaskatti. Verður því ekki annað ráðið en að félagið hafi að nokkru leyti ranglega innheimt virðisaukaskatt. Samkvæmt 3. mgr. 22. gr. vsk-laga ber þeim, sem tilgreinir á reikningum sínum virðisaukaskatt af viðskiptum sem ekki eru skattskyld, að skila þeim skatti í ríkissjóð. Skilaskyldan fellur þó niður ef leiðréttingu verður komið við gagnvart kaupanda. Í leiðréttingu felst útgáfa kreditreikninga (innleggsreikninga) til leiðréttingar áður útgefnum reikningum, útgáfa nýrra reikninga og skil ranglega innheimts virðisaukaskatts til kaupanda.

Vegna hugsanlegrar umleitunar fyrirspyrjanda um endurákvörðun virðisaukaskatts liðinna ára, í kjölfar leiðréttingar gagnvart Íslandspósti, vekur ríkisskattstjóri athygli á heimild sinni skv. 2. mgr. 39. gr. vsk-laga til endurákvörðunar skattsins. Fyrirspyrjanda er bent á að beina umleitan sinni til ríkisskattstjóra, enda kærufrestir til skattstjóra liðnir vegna þeirra uppgjörstímabila sem um ræðir. Jafnframt er athygli vakin á ákvæðum II. kafla reglugerðar nr. 192/1993 um innskatt, varðandi heimildir til færslu innskatts í blandaðri starfsemi, þ.m.t. vegna reksturs húsnæðis undir slíka starfsemi.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum