Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1030/2003

14.3.2003

Virðisaukaskattur - rekstur frárennslishreinsistöðvar - endurgreiðslur virðisaukaskatts til opinberra aðila.

14. mars 2003
G-Ákv. 03-1030

Með bréfi dagsettu 14. febrúar 2003 var óskað eftir því að embætti ríkisskattstjóra veitti skriflegt svar við ákveðnu álitaefni. Málavöxtum er líst á þá leið að A hafi gengið til samninga við R um að reka frárennslishreinsistöð er tekur á móti seyru úr frárennsli bæjarbúa og skilur hana að og hreinsar og að því loknu dælir hreinsuðu vatni út í sjó. Þá segir að A hafi einnig gengið til samninga við S um þátttöku þess í fyrrnefndum frárennslisframkvæmdum. Loks segir að A muni endurkrefja S um þeirra hlutdeild í kostnaðinum.

Bornar eru upp tvær spurningar, annars vegar hvort aðkeypt þjónusta af því tagi sem lýst er sé endurgreiðsluhæf á grundvelli 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila. Hins vegar hvort A fengi einnig endurgreiddan þann virðisaukaskatt sem það yrði að taka á sig fyrir hönd S þar sem aðeins er gerður einn reikningur á hendur sveitarfélaginu.

Til svars við erindi yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Kveðið er á um endurgreiðslur virðisaukaskatts til sveitarfélaga og annarra opinberra aðila í 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (vsk-laga), og í III. kafla reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila. Í 1. tölul. 3. mgr. 42. gr. laganna er tiltekið að endurgreiða skuli ríki, sveitarfélögum og stofnunum þeirra virðisaukaskatt sem þau hafa greitt við kaup á sorphreinsun, þ.e. söfnun, flutningi, urðun og eyðingu sorps og annars úrgangs, þ.m.t. brotamálma.  Við skýringar á hugtökunum sorp og annar úrgangur hefur í skattframkvæmd verið horft til skilgreininga í lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og reglugerðum settra á grundvelli þeirra laga. Seyra fellur undir hugtakið úrgangur í þessu sambandi og telst meðhöndlun hennar í frárennslishreinsistöð, með þeim hætti sem líst er í fyrirspurnarbréfinu, vera slík að hún falli undir 1. tölul. 3. mgr. 42. gr. vsk-laga.

Af fyrirspurninni verður ekki annað ráðið en að A hafi einn gengið til samninga við R um rekstur frárennslishreinsistöðvarinnar og að ekkert samningssamband sé á milli S og R. Í því ljósi verður ekki litið svo á að um sameiginleg kaup A og S sé að ræða í þeim skilningi að R sé heimilt að falla frá innheimtu virðisaukaskatts að einhverju leyti, á grundvelli ákvæðis 48. gr. vsk-laga.

Af þeim takmörkuðu upplýsingum, sem í fyrirspurninni eru veittar má ætla að A hafi tekið að sér að inna af hendi þjónustu við S að því er frárennslishreinsun varðar og að sú þjónusta teljist ekki til skyldubundinna verkefna A sem sveitarfélags. Sé sú ætlan rétt kann þjónusta A að vera  virðisaukaskattsskyld á grundvelli annað hvort 1. mgr. eða 4. mgr. 3. gr. vsk-laga, og skráningarskyld skv. 5. gr. sömu laga. Á það verður ekki lagt mat hér enda er slíkt mat í 5. gr. vsk-laga falið skattstjóra, auk þess sem fullnægjandi forsendur fyrir mati liggja ekki fyrir.

Ef um er að ræða virðisaukaskattsskylda sölu A til S, telst sú sala til undanþeginnar veltu A, skv. 48. gr. vsk-laga. A nýtur þá innskattsréttar af keyptum aðföngum, eftir því sem reglur standa til skv. 16. gr. vsk-laga og reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt. Sérstaklega er í því sambandi vakin athygli á þeirri takmörkun á innskattsrétti sem fram kemur í 10. gr. reglugerðarinnar.

Ákvæði 3. mgr. 42. gr. vsk-laga miðar að því að virðisaukaskattur hafi ekki áhrif á val opinberra aðila um það hvort þeir kaupa að þjónustu eða inna hana sjálfir af hendi í eigin þágu. Í því ljósi verður ekki litið svo á að sveitarfélög eigi rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts af þjónustu sem það kaupir og endurselur.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum