Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1028/2003

11.3.2003

Virðisaukaskattur - þátttaka í söngvakeppni.

11. mars 2003
G-Ákv. 03-1028

Ríkisskattstjóri hefur móttekið fyrirspurn yðar, sem þér báruð upp í tölvuskeyti til embættisins 20. febrúar 2003, varðandi meðferð virðisaukaskatts í tengslum við þátttöku yðar í söngvakeppni. Í skeytinu kemur fram að þér eruð höfundur lags, sem verður framlag Íslands til slíkrar keppni. Fram kemur að þér takið að yður fyrir S alla framkvæmd varðandi þátttöku í keppninni. Fyrir verkið greiði S tiltekna fjárhæð, en framkvæmdin verði á fjárhagslega áhættu yðar. Fyrirsjáanlegur kostnaður verði vegna; gerðar myndbands og annars kynningarefnis, búningahönnunar, hönnunar sviðsframkomu, tónlistarflutnings, útsetningar, ferðalaga, gistingar, veitinga, ýmissar ráðgjafar og skrifstofuhalds. Jafnframt kemur fram að nokkur fyrirtæki muni leggja yður til fé vegna verkefnisins. Sum þeirra óski ákveðins endurgjalds, svo sem að fá að nota lagið í kynningarefni eða að lagið verið flutt á samkomum á þeirra vegum.  Önnur þiggi aðeins mynd og veggplatta sem þakklætisvott. Loks kemur fram að þér væntið tekna vegna útgáfu lagsins á hljómdiskum og stefgjalda vegna flutnings þess í útvarpi.

Til svars við fyrirspurn yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Upphafsákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (VSK-laga), kveður á um að greiða skuli í ríkissjóð virðisaukaskatt af viðskiptum innanlands á öllum stigum. Skyldan til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð hvílir á hverjum þeim sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selur eða afhendir vöru eða verðmæti ellegar innir af hendi skattskylda vöru eða þjónustu, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. VSK-laga. Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. laganna. Nær skattskyldan til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra, og til allrar vinnu og þjónustu sem ekki er sérstaklega lýst undanþegin í 3. mgr. lagagreinarinnar.

Af framkominni lýsingu á umræddu verkefni verður ekki annað ráðið en að þér í sjálfstæðri starfsemi yðar seljið S þjónustu sem fellur undir skattskyldusvið virðisaukaskatts. Líta verður á verkefnið sem eina heild, sem ekkert undanþáguákvæða 3. mgr. 2. gr. VSK-laga tekur til sem heildar. Samofin virðisaukaskattsskyldu er skráning á grunnskrá virðisaukaskatts. Hverjum þeim sem er virðisaukaskattsskyldur ber að tilkynna um starfsemi sína til skattstjóra, í því umdæmi sem hann er heimilisfastur, eigi síðar en átta dögum áður en starfsemin hefst. Skattstjóri skal eigi skrá aðila á grunnskrána ef samanlagðar tekur hans af sölu virðisaukaskattsskyldrar vöru og þjónustu eru að jafnaði lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar, sbr. 5. mgr. 5. gr. VSK-laganna. Hvorki verður af fyrirliggjandi upplýsingum ráðið hvort forsendur skráningar eru til staðar í yðar tilviki, né er það á valdsviði ríkisskattstjóra að taka afstöðu til skráningar einstakra gjaldenda.  Athygli yðar er hins vegar vakin á tilkynningarskyldu yðar.

Samkvæmt 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. VSK-laga er starfsemi rithöfunda og tónskálda við samningu hugverka og sambærileg liststarfsemi undanþegin virðisaukaskatti. Undanþáguákvæðið tekur til sölu tónskálda á útgáfurétti tónverka. Væntanlegar þóknanir yðar sem lagahöfundar vegna útgáfu lags og vegna flutnings þess í útvarpi (stefgjöld) skulu því ekki bera virðisaukaskatt. Ekki skiptir máli í því sambandi með hvaða hætti fjárhæð þóknunar er ákveðin, svo sem að hún taki mið af sölu hins útgefna efnis. Þá hefur í skattframkvæmd verið litið svo á að tónlistarmenn skuli á grundvelli ákvæðisins ekki innheimta virðisaukaskatt af þóknun sinni fyrir hljóðfæraleik og söng. Á sama hátt ber tónlistarmanni ekki að innheimta virðisaukaskatt af þóknun fyrir útsetningu tónverks. Má því ljóst vera að hluti þess kostnaðar sem á yður mun falla við verkefnið ber ekki virðisaukaskatt. Rétt er að taka það fram að undanþáguákvæði umrædds 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. VSK-laga tekur ekki í nokkru tilviki til vörusölu, svo sem sölu hljómdiska og myndbanda.

Viðtaka fjár felur sem slík ekki í sér virðisaukaskattsskyldu, heldur ræðst virðisaukaskattsskylda af því endurgjaldi sem innt er af hendi fyrir fjárframlagið. Sé ekkert látið af hendi, hvorki vara né þjónusta, er ekki um virðisaukaskattsskyld viðskipti að ræða. Þannig eru fjárstyrkir án endurgjalds ekki virðisaukaskattsskyldir í hendi viðtakanda.  Ef vara er afhent eða þjónusta látin í té ræðst skattverðið, þ.e. það verð sem reikna skal virðisaukaskatt af, af heildarendurgjaldinu sem fyrir vöruna eða þjónustuna kemur, sbr. 7. gr. VSK-laga. Af úrskurðum yfirskattanefndar er ljóst að þær aðstæður kunna að vera uppi, að líta megi á fjárframlag að hluta sem endurgjald fyrir afhenta vöru eða veitta þjónustu og að hluta sem beinan styrk, þ.e. fjárframlag án endurgjalds.  Að baki slíku fjárframlagi gæti t.d. legið sérstakur velvilji greiðandans í garð þess verkefnis, sem féð á að renna til, án þess greiðandinn hafi sérstakra hagsmuna að gæta við framkvæmd þess. Jafnframt yrði að vera alveg ljóst að fjárframlagið væri mun hærra en næmi verðgildi afhentrar vöru eða þjónustu, mældu bæði á almennan mælikvarða og sértækan mælikvarða að virtri gagnsemi vörunnar eða þjónustunnar fyrir þann er reiðir féð fram.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum