Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1015/2002

2.7.2002

Námsgreining fyrir grunnskólabörn - mat á þörf á sérkennslu eða öðrum sérúrræðum - virðisaukaskattur.

2. júlí 2002
G-Ákv. 02-1015

Ríkisskattstjóri hefur þann 15. febrúar 2001 móttekið bréf yðar, þar sem þér farið fram á að ríkisskattstjóri veiti svar við því hvort sú þjónusta sem þér bjóðið upp á sé virðisaukaskattskyld.

Í bréfi yðar kemur fram að um sé að ræða þá þjónustu sem fram kemur í stofnsamþykktum A ehf., sem fylgdu bréfi yðar. Þar segir í 3. gr. að tilgangur félagsins sé mat og skipulagning á sérkennslu eða öðrum sérúrræðum í skólastarfi, greining á námserfiðleikum einstaklinga og hópa ásamt viðeigandi ráðgjöf, ráðgjöf um nám og námsleiðir, námskeiðahald og fræðslustarfsemi, rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Í bréfi yðar kemur fram nánari útlistun á starfsemi yðar. Þar segir að um sé að ræða námsgreiningu, þ.e. greiningu á námsgetu/erfiðleikum barna. Þér greinið og gerið tillögur (álitsgerðir) til úrbóta á kennsluaðferðum kennara. Þér metið hvort barn þurfi á sérkennslu að halda. Þér tiltakið að námskeiðahald sé lítill hluti af starfseminni, en nefnið sem dæmi um námskeið á yðar vegum, námskeið fyrir skólastjórnendur þar sem farið er yfir námskrá grunnskóla.

Til svars við erindi yðar vill ríkisskattstjóri taka fram:

Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Nær skattskyldan til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra, og til allrar vinnu og þjónustu sem ekki er sérstaklega undanþegin í 3. mgr. lagagreinarinnar. Skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð hvílir á hverjum þeim sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selur eða afhendir vöru eða verðmæti ellegar innir af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988.

2. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 kveður á um að félagsleg þjónusta, s.s. rekstur leikskóla, barnaheimila, skóladagheimila og upptökuheimila og önnur hliðstæð þjónusta sé undanþegin virðisaukaskatti. Við mat á því hvenær starfsemi telst til félagslegrar þjónustu er það álit ríkisskattstjóra að rétt sé að líta til þess hvort þjónusta er veitt í sambandi við fjárhagslega aðstoð eða aðra aðstoð er stuðlar að velferð einstaklinga á grundvelli samhjálpar sem fram fer á vegum opinberrar stofnana eða viðurkenndra samtaka sem veita framangreinda aðstoð.

Með heimild í 42. gr. laga nr. 66/1995, um grunnskóla, var sett reglugerð nr. 386/1996, um sérfræðiþjónustu skóla. Í I. kafla hennar, sem fjallar um skyldur sveitarfélaga og skilgreining sérfræðiþjónustu, segir í 1. gr. að öllum sveitarfélögum, sem standa að rekstri grunnskóla, sé skylt að sjá þeim fyrir sérfræðiþjónustu, bæði almennri og greinabundinni kennsluráðgjöf, er taki til þeirra námsgreina sem tilgreindar eru í 30. gr. grunnskólalaga og sálfræðiþjónustu. Í 3. gr. sömu reglugerðar segir að sérfræðiþjónustu skóla sé ætlað að stuðla að því að kennslufræðileg og sálfræðileg þekking nýtist sem best í skólastarfi. Störf sérfræðiþjónustu skóla skuli því fyrst og fremst beinast að því að efla grunnskólana sem faglegar stofnanir sem geti leyst flest þau viðfangsefni sem upp koma í skólastarfi og veita starfsmönnum skóla leiðbeiningar og aðstoð við störf sín eftir því sem við á. Kennurum og skólastjórnendum skuli standa til boða ráðgjöf og stuðningur sérfræðiþjónustu vegna skólastarfs. Þjónustan felist m.a. í faglegri ráðgjöf vegna almennrar kennslu einstakra námsgreina og aðstoð og leiðbeiningum við kennara vegna sérkennslu. Einnig skal sérfræðiþjónusta skóla veita grunnskólum aðstoð og leiðbeiningar vegna nýbreytni- og þróunarstarfa. Þá skal sérfræðiþjónusta skóla gefa forráðamönnum kost á leiðbeiningum um uppeldi nemenda eftir því sem aðstæður leyfa. Í II. kafla reglugerðarinnar, sem fjallar um starfshætti sérfræðiþjónustu skóla, segir í 4. gr. að starfsmenn sérfræðiþjónustu skóla skuli vinna störf sín samkvæmt því skipulagi sem sveitarstjórn ákveður í samræmi við 42. og 43. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla. Starfsmenn sérfræðiþjónustu skuli vinna að forvarnarstarfi í samvinnu við starfsmenn skóla m.a. með kennslufræðilegum og sálfræðilegum athugunum og greiningu á nemendum sem eiga í erfiðleikum sem hafa áhrif á nám þeirra. Að athugun lokinni eiga starfsmenn sérfræðiþjónustu að gera tillögur um viðeigandi meðferð og úrbætur. Í IV. kafla reglugerðarinnar, sem fjallar um sérfræðingana, segir í 8. gr. að hinir sérmenntuðu starfsmenn sérfræðiþjónustu skóla skuli vera kennarar með framhaldsmenntun, sálfræðingar og aðrir sérfræðingar á sviði kennslu-, uppeldis- eða félagsmála. Eins og fram kemur í bréfi yðar eruð þér með meistarapróf í sérkennslufræðum.

Það er álit ríkisskattstjóra að í þeim tilfellum þegar þér vinnið að greiningu á námsgetu og/eða erfiðleikum barna eða greinið og gerið tillögur til úrbóta á kennsluaðferðum kennara og metið hvort barn þurfi á sérkennslu að halda, sé um félagslega þjónustu að ræða í skilningi 2. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, og starfsemin því undanþegin virðisaukaskatti.

Hvað námskeiðahald varðar skal tekið fram að samkvæmt 3. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 er rekstur skóla og menntastofnana, svo og öku-, flug- og danskennsla, undanþegin virðisaukaskatti. Í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur eftirfarandi m.a. fram um þetta:

"Til reksturs skóla og menntastofnana ... telst öll venjuleg skóla- og háskólakennsla, fagleg menntun, endurmenntun og önnur kennslu- og menntastarfsemi. ... Við mat á því hvort nám telst skattfrjálst er eðlilegt að höfð sé hliðsjón af því hvort boðið er upp á það í hinu almenna skólakerfi eða ekki. Hafi námsgreinin t.d. unnið sér fastan sess í hinu almenna skólakerfi ber samkvæmt framansögðu að líta svo á að skóla- eða námskeiðsgjöld séu skattfrjáls. Ekki nægir þó í þessu sambandi að boðið sé upp á námsgreinina eða námsbrautina í einstökum skólum heldur verður námið að hafa unnið sér fastan og almennan sess í skólakerfinu."

Með hliðsjón af tilvitnuðum orðum í greinargerð er við túlkun á því hvað teljist til undanþeginnar kennslu- og menntastarfsemi, í skilningi ákvæðis 3. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, fyrst og fremst litið til þess hvort námsgrein hafi unnið sér fastan og almennan sess í skólakerfinu. Við túlkun ákvæðisins hefur ríkisskattstjóri einnig miðað við að nám sem felur í sér faglega menntun eða endurmenntun sé undanþegið virðisaukaskatti, en með faglegri menntun eða endurmenntun er átt við kennslustarfsemi sem miðar að því að afla, viðhalda eða auka þekkingu nemenda eingöngu vegna atvinnu þeirra, jafnvel þótt námsgreinin hafi ekki unnið sér fastan og almennan sess í skólakerfinu. Í öðrum tilvikum er starfsemi sem ekki hefur unnið sér fastan og almennan sess í skólakerfinu skattskyld, s.s. námskeið sem í eðli sínu eru tómstundafræðsla. Öku-, flug- og danskennsla er þó sérstaklega undanþegin, eins og fyrr segir.

Það er mat ríkisskattstjóra að námskeið fyrir skólastjórnendur, þar sem farið er yfir námsskrá grunnskóla, sé undanþegið virðisaukaskatti sem fagleg menntun eða endurmenntun sbr. ofangreinda umfjöllun um 3. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988.

Beðist er velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum